Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 761  —  276. mál.




Frumvarp til laga


um sviðslistir.

(Eftir 2. umræðu, 16. desember.)


I. KAFLI

Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla sviðslistir á landinu öllu, marka heildarramma fyrir málefni sviðslista og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, danslist, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi.
    Ráðherra fer með yfirstjórn sviðslistamála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI

Þjóðleikhús.

2. gr.

Hlutverk.

    Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Í því skal iðka leiklist og aðrar sviðslistir. Þjóðleikhúsið skal stuðla að þróun sviðslista og nýsköpunar, efla íslenska leikritun, leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku.

3. gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra leikverka, jafnt eldri verka sem nýrra, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á hverju leikári séu frumflutt íslensk leikverk og sett upp verk ætluð börnum og ungu fólki. Leikhúsið annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að leikferðum innan lands og til annarra landa og því að fengnir séu til Íslands erlendir listamenn, eftir því sem aðstæður leyfa.

4. gr.

Þjóðleikhússtjóri.

    Ráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Þjóðleikhússtjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða reynslu og þekkingu á sviðslistum og starfssviði leikhúss. Skipa má þjóðleikhússtjóra að nýju til fimm ára en eigi oftar.
    Þjóðleikhússtjóri stýrir starfsemi og rekstri Þjóðleikhússins og markar listræna stefnu þess. Hann ræður aðra starfsmenn leikhússins og er í fyrirsvari fyrir það. Þjóðleikhússtjóri situr að jafnaði fundi þjóðleikhúsráðs.

5. gr.

Þjóðleikhúsráð.

    Ráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð til fimm ára í senn. Fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna þrjá fulltrúa en ráðherra skipar tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann í þjóðleikhúsráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn kynntar fyrir ráðinu. Ráðið setur sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa þess. Þjóðleikhúsráð vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemi Þjóðleikhússins. Stefna Þjóðleikhússins til þriggja ára og ársáætlun skulu lagðar fyrir þjóðleikhúsráð og ber ráðið ábyrgð á eftirliti með framkvæmd þeirra gagnvart ráðherra.

6. gr.

Samstarf.

    Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna sviðslistum með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði. Leikhúsið auglýsir eftir samstarfsaðilum ár hvert og gerir formlega samstarfssamninga berist umsókn um samstarf sem er til þess fallið að ná markmiðum ákvæðisins.
    Leikhúsið skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera sviðslistanemendum kleift að fylgjast með leikhússtarfinu. Leikhúsið stuðlar einnig að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gerir nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið.

7. gr.

Nýting húsnæðis Þjóðleikhússins.

    Húsnæði Þjóðleikhússins má nota til hvers konar menningarstarfsemi þegar það er ekki notað til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka.

    Kostnaður af þjóðleikhúsráði og rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði. Þjóðleikhúsinu er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

III. KAFLI

Íslenski dansflokkurinn.

9. gr.

Hlutverk.

    Hlutverk Íslenska dansflokksins er að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist.

10. gr.

Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að sýningarferðum.

11. gr.

Listdansstjóri.

    Ráðherra skipar listdansstjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn listdansráðs. Listdansstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða reynslu og þekkingu á danslist og starfssviði dansflokks. Skipa má listdansstjóra að nýju til fimm ára en eigi oftar.
    Listdansstjóri stýrir starfsemi og rekstri Íslenska dansflokksins og markar listræna stefnu hans. Hann ræður aðra starfsmenn flokksins og er í fyrirsvari fyrir hann.

12. gr.

Listdansráð.

    Ráðherra skipar þriggja manna listdansráð Íslenska dansflokksins til fimm ára í senn. Fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna tvo fulltrúa en ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann í ráðið lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Listdansráð hefur eftirlit með starfsemi Íslenska dansflokksins og veitir ráðherra reglulega umsögn um stefnu og áætlun hans. Ráðið setur sér starfsreglur.

13. gr.

Samstarf.

    Íslenski dansflokkurinn skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði. Dansflokkurinn auglýsir eftir samstarfsaðilum ár hvert og gerir formlega samstarfssamninga berist umsókn um samstarf sem er til þess fallið að ná markmiðum ákvæðisins. Dansflokkurinn stuðlar að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gerir nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins eftir því sem við verður komið.

14. gr.

Fjárhagur og gjaldtaka.

    Kostnaður af listdansráði og rekstri Íslenska dansflokksins greiðist úr ríkissjóði. Íslenska dansflokknum er heimilt að hafa tekjur af eigin starfsemi og taka aðgangseyri.

IV. KAFLI

Önnur sviðslistastarfsemi.

15. gr.

Sviðslistaráð.

    Ráðherra skipar þriggja manna sviðslistaráð til þriggja ára í senn. Fagfélög innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna tvo fulltrúa í ráðið en ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Óheimilt er að skipa sama aðalmann í sviðslistaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.

16. gr.

Hlutverk.

    Hlutverk sitt rækir sviðslistaráð m.a. með því að:
     a.      veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,
     b.      gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn,
     c.      gera tillögu til ráðherra um úthlutunarreglur sviðslistasjóðs, og
     d.      úthluta árlega styrkjum úr sviðslistasjóði.

17. gr.

Sviðslistasjóður.

    Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa. Sviðslistaráð gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára.
    Ráðherra setur sviðslistasjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Við mat á umsóknum úr sviðslistasjóði er sviðslistaráði heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Þóknun fulltrúa í sviðslistaráði og annar kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði. Ákvarðanir sviðslistaráðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

18. gr.

Kynningarmiðstöð sviðslista.

    Ráðherra skal setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista til að kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana.

19. gr.

Óperustarfsemi.

    Ráðherra skal skapa grundvöll fyrir óperuflutningi og stuðla þannig að því að glæða áhuga landsmanna á óperum. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila um fjárstuðning.

20. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í heild eða einstakra kafla þeirra, m.a. um starfsemi Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og kynningarmiðstöðvar sviðslista.

21. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2020. Samtímis falla brott leiklistarlög, nr. 138/1998, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara fyrir 1. júlí 2020, m.a. með því að óska eftir tilnefningum og skipa þjóðleikhúsráð, sbr. 5. gr., listdansráð, sbr. 12. gr., og sviðslistaráð, sbr. 15. gr.

II.

    Ákvæði 5. gr. reglna um starfsemi Íslenska dansflokksins, nr. 14/2002, um starfslok listdansara skulu tímabundið halda gildi sínu þrátt fyrir gildistöku laga þessara uns kveðið hefur verið á um starfslok listdansara í kjarasamningi stéttarfélags þeirra og ríkisins.

III.

    Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. skal ráðherra fyrir 1. júlí 2020 skipa nefnd sem falið verður að gera tillögur um stofnun þjóðaróperu. Nefndin skal skila ráðherra tillögum sínum eigi síðar en í árslok 2020.