Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 775  —  493. mál.
Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um aðdraganda og afleiðingar óveðurs dagana 9.–11. desember 2019, viðbúnað og úrbætur.

Frá Gunnari Braga Sveinssyni, Bergþóri Ólasyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Sigurði Páli Jónssyni, Þorgrími Sigmundssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Birgi Þórarinssyni, Ólafi Ísleifssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðdraganda og afleiðingar óveðurs er gekk yfir landið dagana 9.–11. desember 2019, þ.m.t. hver viðbúnaður var áður en óveðrið skall á og viðbrögð við því sem og hvaða úrbætur stjórnvöld hyggjast gera eftir atburðina. Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirtalin atriði:
     1.      Ástæður þess að undirbúningur og ráðstafanir raforkuflytjenda og -seljenda, einna helst RARIK og Landsnets, var ekki með fullnægjandi hætti.
     2.      Hvort vitneskja var um veikleika í raforkukerfinu á þeim svæðum sem verst urðu úti.
     3.      Ástæður þess að ekki var tiltækt varaafl til dæmis á Sauðárkróki, Hvammstanga, Dalvík, Ólafsfirði og víðar.
     4.      Staðsetningu varahluta, svo sem lína, staura og varaaflsstöðva, á vegum RARIK og Landsnets.
     5.      Þann tíma sem tók að koma aftur á rafmagni á þeim stöðum þar sem varð rafmagnslaust.
     6.      Fjölda landsmanna án rafmagns.
     7.      Nauðsynlegar ráðstafanir og úrbætur til að koma í veg fyrir að svo langvinnt rafmagnsleysi endurtaki sig.
     8.      Ástæður hverrar bilunar fyrir sig og nauðsynlegar úrbætur til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
     9.      Ástæður þess að fjarskipti lágu niðri og nauðsynlegar úrbætur til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
     10.      Ástæður þess að Tetra-kerfið lá niðri og nauðsynlegar úrbætur.
     11.      Hvort eldri fjarskiptakerfi (fastlínukerfi) eru enn til staðar og möguleiki á að nýta slík kerfi í neyðartilvikum.
     12.      Hvort og með hvaða hætti Ríkisútvarpið, í samvinnu við til þess bær stjórnvöld, tryggði með fullnægjandi hætti nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum í samræmi við 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.
     13.      Hvaða leiðir eru færar til upplýsingamiðlunar, bæði til landsmanna og annarra sem eru á svæðinu, í slíkum aðstæðum.
     14.      Nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja að upplýsingar berist íbúum svæða og öðrum sem þar eru staddir í óveðri sem þessu.
     15.      Hvert var aðgengi að varaafli, svo sem hvar var það aðgengilegt og hvar var skortur á því og ástæður þess.
     16.      Áhrif á aðra innviði, svo sem vatns- og hitaveitur og samgöngur.
     17.      Á hvaða svæðum hefur tafist að afla tilskilinna leyfa fyrir framkvæmdum Landsnets er varðar flutningskerfi eða byggðalínu og ástæður tafanna.
     18.      Hvaða leiðir eru færar til að gera leyfisveitingar vegna framkvæmda á flutningskerfi eða byggðalínu einfaldari og skilvirkari.
     19.      Viðbúnað og viðbrögð þeirra sem bera ábyrgð á að samgöngur haldist greiðar.
     20.      Hvernig tryggja má að viðbrögð opinberra aðila verði markvissari.
     21.      Umfang samfélagslegs tjóns af völdum óveðursins.

Greinargerð.

    Dagana 9.–11. desember 2019 gekk yfir landið vonskuveður sem setti samgöngur og annað daglegt líf úr skorðum á stórum hlutum landsins. Óveðrinu fylgdi rafmagns- og vatnsleysi víða um vestan-, norðan- og austanvert landið. Fjarskiptasamband var ekkert eða nánast ekkert á stórum svæðum. Þá virðist fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af óveðrinu ekki hafa verið með fullnægjandi hætti, en þeir íbúar sem voru einangraðir, án samgangna, rafmagns, síma- og netsambands, fengu ónógar fréttir af ástandinu í gegnum þau fáu útvarpstæki sem unnt var að notast við. Mat fréttastofu Ríkisútvarpsins á þessari alvarlegu stöðu endurspeglaðist í því að fólki á svæðum án net- og símasambands var ráðlagt að fara á netið til að leita sér upplýsinga.
    Spáð hafði verið miklum vindi, allt að fárviðri, með ofankomu og ísingu. Landsmenn voru hvattir til að halda sig heima og huga að eignum sínum. Fullyrða má að landsmenn hafi almennt hlýtt þeirri ráðgjöf. Landsbjörg sýndi mikið hyggjuvit og flutti tæki og mannskap norður í land til að geta brugðist við ef aðstæður kölluðu á, sem reyndist rétt mat. Þá var Rauði krossinn reiðubúinn að opna fjöldahjálparstöðvar og bregðast við ef á þyrfti að halda. Virðist sem opinberir aðilar hafi ekki verið nógu undirbúnir eða haft fullnægjandi viðbúnað.
    Áður hafa gengið vonskuveður yfir landið með miklum vindi, ofankomu og ísingu með þeim afleiðingum að staurar hafa brotnað, línur slitnað og óyfirbyggð spennuvirki dottið út og því átti sú hætta ekki að koma á óvart. Hið versta gerðist, línur slitnuðu, staurar brotnuðu, óyfirbyggð spennuvirki lágu niðri með afleiðingum sem flestir þekkja.
    Heimili og fyrirtæki voru rafmagnslaus klukkutímum saman og í sumum tilfellum sólarhringum saman með tilheyrandi tjóni og óþægindum. Þeir sem eingöngu höfðu heimasíma gátu ekki hringt eftir upplýsingum eða athugað með ættingja og vini. Þá urðu farsímar gagnslausir þegar rafhlöðurnar tæmdust. Ríkisútvarpið flutti takmarkaðar fréttir af ástandinu en vísaði að öðru leyti á vef sinn sem fáir gátu séð vegna rafmagnsleysis. Mörg fyrirtæki gátu ekki haldið starfsemi gangandi með tilheyrandi fjárhagslegu tapi og víða gátu bændur ekki mjólkað kýr né gefið búpeningi vatn og sjá nú fram á umtalsvert tjón. Þótt tjón á búrekstri bænda sé alvarlegt er það þó ekki jafn alvarlegt og sú staðreynd að heilsu og jafnvel lífi fólks var ógnað. Fólk hafði hvorki ljós né hita, gat ekki nýtt fjarskipti og fékk litlar eða engar upplýsingar í gegnum eina tækið sem náði sambandi við umheiminn, gamaldags rafhlöðuútvarp.
    Ekki þarf að fjölyrða um áhrif á hjúkrunar- og heilbrigðisstofnanir sem og lögreglu sem dæmi eru um að höfðu takmarkað fjarskiptasamband. Þá má nefna áhrif á samgöngur o.s.frv. Í því samhengi er mikilvægt að kanna hvort tilefni er með öllu að útrýma tækjum er nota jarðefnaeldsneyti, einna helst ef þau geta komið að gagni í neyðartilvikum sem þessum.
    Illskiljanlegt er að á meðan björgunarmenn undirbjuggu sig fyrir óveðrið hafi opinberir aðilar ekki gert hið sama en svo virðist sem RARIK, Landsnet og ef til vill fleiri hafi ekki gert sambærilegar ráðstafanir. Í það minnsta virðist sem ekki hafi verið fluttur búnaður sem grípa mætti til, svo sem varaaflsstöðvar og rafmagnsstaurar, sem verður að teljast sérstakt í ljósi þess sem áður hefur gerst og hve ítarlega hafði verið varað við veðrinu.
    Starfsmenn RARIK og Landsnets, ásamt lögreglu og björgunarmönnum, hafa unnið sólarhringum saman að því að tryggja öryggi og koma rafmagni á að nýju og segja má að þar hafi þrekvirki verið unnið en enn, 15. desember, þegar þetta er ritað, voru ekki allir komnir með rafmagn og víða áframhaldandi truflanir. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að gerð verði skýrsla sem varpi m.a. ljósi á aðdraganda og aðgerðir stjórnvalda, þ.m.t. hvernig viðbúnaði var háttað og hvernig stjórnvöld hyggjast bregðast við, sem og að tilgreindum atriðum verði svarað í þessum efnum. Flutningsmenn leggja áherslu á að upptalning þeirra atriða sem óskað er að fram komi í skýrslunni er ekki tæmandi. Mikilvægt er að við skýrslugerðina verði m.a. leitað til þeirra sem verst urðu úti í óveðrinu um atriði sem mikilvægt er að leita skýringa á og læra af.
    Um er að ræða veigamikið öryggismál og ljóst er að margir aðilar bera ábyrgð á og koma að því að tryggja öryggi landsmanna sem og að tryggja grunnviði samfélagsins. Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, er það m.a. verkefni ráðsins að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi. Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðsins. Þá liggur fyrir að forsætisráðherra boðaði ráðið sérstaklega til fundar vegna þeirra aðstæðna sem komu upp í samfélaginu í kjölfar óveðursins. Með hliðsjón af framangreindu er skýrslubeiðni þessari því beint til forsætisráðherra.
    Þá vísa flutningsmenn í eftirfarandi ályktanir tveggja sveitarstjórna til nánari upplýsinga um stöðu mála í þessum efnum:

Ályktun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 12.12.2019.
    „Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp hefur komið í Skagafirði og víðar á landinu í kjölfar óveðurslægðar sem gekk yfir landið fyrr í vikunni. Það er óviðunandi á árinu 2019 að í kjölfar óveðurs skuli tugþúsundir manna verða innlyksa án rafmagns og hita sólarhringum saman, auk þess að njóta bágborinna fjarskipta og upplýsinga um hvaða endurbótum og lagfæringum liði. Ekki er boðlegt að stefna hundruðum manna út í mannskaðaveður, með tilheyrandi hættu, til að ráðast í lagfæringar á innviðum sem hefði þegar átt að vera búið að byggja upp með því öryggi sem tilheyrir 21. öldinni.
     Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að fara rækilega ofan í atburði liðinna daga og byggja upp nauðsynlegar áætlanir við hamförum sem þessum. Jafnframt er mikilvægt að ráðast þurfi í við- og endurbætur á Sauðárkrókshöfn svo höfnin geti staðið áhlaup sem þessi. Þá er nauðsynlegt að ráðast án tafar í stórfellt átak uppbyggingar raforku- og fjarskiptainnviða á Norðurlandi og í fleiri landshlutum sem nái til allra sveita og bæja landsins. Það ástand sem enn varir í mörgum byggðarlögum landsins er óboðlegt með öllu.“

Ályktun sveitarstjórnar Húnaþings vestra 12.12.2019.
    „Sveitarstjórn Húnaþings vestra lítur atburði síðustu sólarhringa grafalvarlegum augum. Ljóst er að allir helstu opinberu innviðir samfélagsins brugðust í því veðuráhlaupi sem nú gengur yfir.
    Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem staðið hafa vaktina hafa unnið þrekvirki síðustu daga við að koma á rafmagni, fjarskiptum og greiða fyrir samgöngum eins og kostur er. Fórnfýsi þessa fólks er okkur sem hér búum algerlega ómetanleg.
    Húnaþing vestra hefur verið rafmagnslaust í rúmlega 40 klukkustundir, hluti sveitarfélagsins er ekki enn kominn með rafmagn og ekki vitað hversu lengi það ástand varir. Ljóst er að nú þegar hefur orðið talsvert tjón hjá íbúum og eykst það eftir því sem tíminn líður.
    Það er algerlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin, hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á.
    Óásættanlegt er að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað þrátt fyrir yfirlýsingar Landsnets um annað. Sveitarstjórn Húnaþings vestra gerir þá grundvallarkröfu að á svæðinu sé mannafli sem getur brugðist við með skömmum fyrirvara. Starfsstöð RARIK á Hvammstanga er einmenningsstarfsstöð og hefur því ekki burði til að takast á við aðstæður sem þessar. Nú stendur fyrir dyrum að RARIK leggi niður starfsstöðina á Hvammstanga sem sveitarstjórn telur með öllu óviðunandi. Aðstæður síðustu daga sýna fram á mikilvægi þess að á Hvammstanga sé starfandi vinnuflokkur með a.m.k. tveimur til fjórum stöðugildum. Engin varaaflsstöð er í Húnaþingi vestra og hefði verið hægt að lágmarka vandann ef slík stöð væri staðsett á Hvammstanga.
    Í kjölfar víðtæks rafmagnsleysis duttu öll samskipti út, farsímasamband og Tetra-kerfi lögreglu. Lífsspursmál er að íbúar sveitarfélagsins geti náð í viðbragðsaðila ef alvarleg slys eða veikindi ber að höndum.
    Hlutverk fjölmiðla er mjög mikilvægt í aðstæðum líkt og sköpuðust síðustu daga og þá sérstaklega er litið til öryggishlutverks Ríkisútvarpsins sem brást algerlega. Dreifikerfi RÚV lá niðri víða í sveitarfélaginu og náðust sendingar illa eða alls ekki. Almennri upplýsingagjöf til íbúa um stöðu og horfur var ekki sinnt. Litlar sem engar fréttir bárust frá Húnaþingi vestra þrátt fyrir að veðuraðstæður væru hvað verstar á þessu svæði og útvarpið nær eina leið íbúa til að fá upplýsingar. Ótækt er að vísað sé til vefsíðna til frekari upplýsinga um stöðu mála þegar hvorki er rafmagn né fjarskiptasamband.
    Grafalvarlegt er að ekki sé starfsstöð lögreglu á svæðinu, sérstaklega við aðstæður sem þessar. Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur ítrekað vakið máls á þessu án nokkurra undirtekta.
    Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir áhyggjum sínum af því að ekki er varaaflsstöð við Heilbrigðisstofnun Vesturlands Hvammstanga. Sveitarstjórn hvetur til að úr því verði bætt hið snarasta.
    Sveitarstjórn Húnaþings vestra mun á næstu dögum óska eftir fundum með RARIK, Landsneti, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, lögreglu og stjórnvöldum.“