Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 785  —  296. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um forgangsvegi, endurbyggingu stofnleiða og lagningu bundins slitlags á tengivegi.


     1.      Telur ráðherra æskilegt að malarvegir sem skólaakstur barna fer um verði skilgreindir sem forgangsvegir?
    Við forgangsröðun framkvæmda við þjóðvegi hefur fyrst og fremst verið tekið tillit til umferðarþunga og ástands veganna. Hlutverk vega innan vinnusóknarsvæðis, skólasvæðis og fyrir ferðaþjónustu hefur einnig áhrif á forgangsröðun. Sátt hefur verið um viðmið fyrir forgangsröðun hér á landi. Viðhald malarvega er stórt og vaxandi verkefni og hefur fé til viðhalds verið stóraukið og eykst um 2 milljarða kr. á milli ára og verður 10,5 milljarðar kr. árið 2019. Árið 2016 var viðhaldsfé um 5,5 milljarðar kr. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu á fé til viðhalds vega, sem er forgangsraðað eftir umferðarþunga, tekur nokkurn tíma að vinna niður uppsafnaðan viðhaldshalla, sérstaklega þar sem endurbóta á veglínu er þörf. Vegagerðin hefur metið það sem svo að auka þurfi viðhaldsfé til malarvega um 30–50% svo að hægt verði að halda þeim við samkvæmt þörf. Í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er gert ráð fyrir að auka framlög til viðhalds vega til að sinna og viðhalda verðmæti vegakerfisins eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar.

     2.      Hvenær telur ráðherra að lokið verði endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þeim framkvæmdum verði hraðað enn frekar og til þess veittir meiri fjármunir?
    Í samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2020– 2034 er áætlað að ljúka lagningu bundins slitlags á stofnveginn um sunnanverða Vestfirði á árunum 2022–2023. Þar með verða öll þéttbýli með meira en eitt hundrað íbúa tengd við stofnvegakerfið með bundnu slitlagi. Borgarfjörður eystri, sem telur tæplega 100 íbúa, verður tengdur með bundnu slitlagi á árunum 2024–2025 samkvæmt sömu áætlunum.

     3.      Hver er reynslan af átaks- og tilraunaverkefni sem Vegagerðin hóf fyrir nokkrum árum um lagningu bundins slitlags á vegi sem hafa viðunandi burðarþol þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að meiri fjármunum verði varið í slíkar vegabætur? Ef svo er, er óskað eftir sundurliðaðri áætlun þar um.
    Reynslan af þessu átaksverkefni, sem einnig var kallað „tengivegir, bundið slitlag“, hefur verið mjög góð. Undanfarið hefur bundið slitlag verið lagt á þá vegarkafla sem tiltölulega lítið þurfti að endurbæta hvað varðar legu og burðarþol. Hver kílómetri af nýju slitlagi kostaði um 25–30 millj. kr. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þessa. Þó má búast við að hver kílómetri verði dýrari, þar sem endurbætur verða meiri vegna meiri þörf á styrkingu og ekki síður vegna frekari lagfæringa til að bæta umferðaröryggi. Vegagerðin hefur skipt fjárveitingunni milli landshluta hlutfallslega eftir lengd tengivega með malarslitlagi.
    Lengd tengivega á landinu er um 3.400 km, þar af eru um 2.300 km með malarslitlagi. Áætlaðar fjárveitingar til þessa liðar næstu fimm ár eru um 1.000 millj. kr. á ári. Miðað við að kostnaður við að koma bundnu slitlagi á tengivegi sé að meðaltali 30 millj. kr. á km má reikna með að lagt verði bundið slitlag á um 30–35 km á ári.