Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 797  —  351. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um vegaframkvæmdir í Finnafirði.


     1.      Hver er staðan varðandi aðkomu ríkisins að vegauppbyggingu í Finnafirði, sbr. samstarfssamning sem var undirritaður í apríl sl. um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði og svar við fyrirspurn á þskj. 1815 á 145. löggjafarþingi um aðkomu ríkisins að því að styrkja vegakerfið á svæðinu? Er undirbúningur hafinn og hafa framkvæmdir verið tímasettar?
    Eins og fram kom í viðkomandi þingskjali undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hinn 10. maí 2016, viljayfirlýsingu um samstarf við forvinnu sem nauðsynlegt er að sinna áður en ákvörðun verður tekin um uppbyggingu í Finnafirði. Miðað var við að þeirri forvinnu yrði lokið fyrir árslok 2018 en tafir hafa orðið á.
    Hvað samgöngumál á svæðinu varðar þá eru, í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, fyrirhugaðar framkvæmdir á veginum yfir Brekknaheiði og Norðausturvegi á láglendi í Finnafirði. Áformin eru í samræmi við áherslur byggðaáætlunar til að styrkja byggð og búsetu á svæðinu almennt, stuðla að greiðum og öruggum samgöngum og bæta samgönguinnviði og efla byggðir á þessum slóðum.

     2.      Er tekið tillit til þessara framkvæmda í nýrri samgönguáætlun sem ætlunin er að leggja fyrir þingið undir lok þessa árs? Hvernig er ætlunin að fjármagna þessar framkvæmdir?
    Í nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 er gert ráð fyrir fjárveitingu til að byggja upp nýjan veg yfir Brekknaheiði á árunum 2023 og 2024. Um er að ræða hefðbundna fjárveitingu í samgönguáætlun. Í kjölfarið er gert ráð fyrir fjárveitingu á fjárlögum til þessara framkvæmda. Framkvæmdin yrði því greidd af ríkissjóði eins og venja er.

     3.      Munu þessar framkvæmdir hafa áhrif á forgangsröðun vegaframkvæmda næstu árin, eins og sú forgangsröðum hefur birst í þeim samgönguáætlunum sem ráðherra hefur kynnt?
    Framangreindar framkvæmdir eru í samræmi við þær samgönguáætlanir sem gerðar hafa verið og taka ekki mið af fyrrnefndum samstarfssamningi. Þær eru því í samræmi við þá forgangsröðun sem gerð var.