Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 800, 150. löggjafarþing 318. mál: breyting á ýmsum lögum um matvæli (einföldun regluverks, Matvælasjóður og EES-reglur).
Lög nr. 144 22. desember 2019.

Lög um breytingu á ýmsum lögum um matvæli (einföldun regluverks og EES-reglur).


I. KAFLI
Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

1. gr.

 1. Í stað orðanna „efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: matvælasnertiefna.
 2. Í stað orðanna „efna og hluta sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli“ í j-lið 6. gr. og í 1. mgr., 1. og 2. málsl. 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 14. gr. laganna kemur: matvælasnertiefna.
 3. Í stað orðanna „efni og hluti sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli“ í 2. mgr. og 3. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur: matvælasnertiefni.
 4. Í stað orðanna „efnum og hlutum sem ætlað er að vera í snertingu við matvæli“ í 1. málsl. 3. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. 14. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: matvælasnertiefnum.

2. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og hugtaka sem hér segir:
 1. Aðskotaefni eru efni sem sett eru í matvæli, berast í þau eða myndast í þeim og breyta eiginleikum, samsetningu, gæðum eða hollustu þeirra. Hér er m.a. átt við vaxtaraukandi efni og lyfjaleifar.
 2. Aukefni eru efni sem notuð eru við tilbúning matvæla til að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika þeirra.
 3. Áhættuflokkun er greining opinbers eftirlits í matvælafyrirtækjum á völdum þáttum sem hafa áhrif á áhættu fyrir neytendur en áhættuflokkur segir til um grunneftirlitsþörf matvælafyrirtækis.
 4. Áhættugreining er ferli sem er samsett af þremur innbyrðis tengdum þáttum, þ.e. áhættumati, áhættustjórnun og áhættukynningu.
 5. Bragðefni eru efni sem notuð eru til að hafa áhrif á bragðeiginleika matvæla og teljast ekki til aukefna.
 6. Bætiefni eru vítamín, steinefni, þ.m.t. snefilefni, og lífsnauðsynlegar fitu- og amínósýrur.
 7. Dreifing er hvers konar flutningur, framboð og afhending, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu, sbr. ákvæði IV. kafla.
 8. Faggilding er formleg staðfesting á því að starfsemi rannsóknastofa (prófunarstofa), vottunarstofa og eftirlitsaðila fari fram samkvæmt settum reglum. Markmiðið er að sannreyna hæfni, kunnáttu og áreiðanleika viðkomandi.
 9. Framleiðsla er meðferð hráefnis, vinnsla, pökkun og matreiðsla. Hér er einnig átt við húsnæði, störf, hreinlæti og heilbrigði starfsfólks og annað sem tengist framleiðslu, svo og matvælasnertiefni, sbr. ákvæði IV. kafla.
 10. Frumframleiðsla er framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltum og eldi dýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra og fiskveiða og nýtingar villigróðurs.
 11. Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif.
 12. Hráefni eru öll efni, önnur en bætiefni, aukefni, bragðefni og varnarefni, sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
 13. Innra eftirlit er eftirlit á vegum framleiðanda eða dreifanda í þeim tilgangi að tryggja gæði, öryggi og hollustu vörunnar.
 14. Kjötmatsmaður er hver sá sem hefur fengið viðurkenningu ráðuneytisins.
 15. Markaðssetning er að hafa umráð yfir matvælum með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða þau til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.
 16. Matvælafyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei, og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.
 17. Matvælasnertiefni eru allar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni sem slíkir hlutir eru samsettir úr og geta komist í snertingu við matvæli.
 18. Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
 19. Neysluvatn er vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum, og er ætlað til neyslu eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
 20. Neytandi er sá sem notar matvæli ekki sem lið í rekstri eða starfsemi matvælafyrirtækis.
 21. Opinber dýralæknir er héraðsdýralæknir eða annar dýralæknir samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar sem annast opinbert eftirlit.
 22. Opinberir eftirlitsaðilar eru Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaga í samræmi við 6. og 22. gr.
 23. Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um matvæli og stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun.
 24. Rekjanleiki er sá möguleiki að rekja uppruna og feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og matvælasnertiefna sem nota á eða vænst er að notuð verði í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.
 25. Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um matvæli í matvælafyrirtækjum undir hans stjórn. Stjórnandi matvælafyrirtækis telst rekstraraðili þess.
 26. Smásala er meðhöndlun og/eða vinnsla matvæla og geymsla þeirra á staðnum þar sem þau eru seld eða afhent neytanda, þ.m.t. dreifingarstöðvar, matsölufyrirtæki, mötuneyti starfsfólks, veitingahús og önnur samsvarandi matarþjónusta ásamt verslunum og dreifingarstöðvum stórmarkaða og heildsölumarkaðir.
 27. Stjórnandi matvælafyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um matvæli í matvælafyrirtækjum undir hans stjórn.
 28. Umbúðir eru allar umbúðir sem umlykja eða hafa að geyma matvæli eða efni sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
 29. Varnarefni eru efni sem notuð eru m.a. gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu og við geymslu matvæla.
 30. Önnur opinber starfsemi er starfsemi önnur en opinbert eftirlit sem opinberir eftirlitsaðilar, einstaklingar eða aðilar, sem hefur verið úthlutað tilteknum öðrum opinberum verkefnum, inna af hendi, svo sem veiting leyfa eða samþykkis og útgáfa opinberra vottorða eða opinberra staðfestinga.
 31. Örverur eru lífverur sem geta valdið skemmdum í matvælum eða verið heilsuspillandi vegna neyslu þeirra, en einnig eru tilteknar örverur notaðar við framleiðslu matvæla.


3. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Orðskýringar.

4. gr.

     Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælafyrirtæki sem stunda fiskveiðar sem eingöngu falla undir frumframleiðslu og eru með gilt veiðileyfi samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða þurfa hvorki starfsleyfi né þurfa að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst.

5. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli A, Slátrun og sláturafurðir, með fimm nýjum greinum, 13. gr. b – 13. gr. f, svohljóðandi:
     
     a. (13. gr. b.)
     Sláturdýrum sem slátra á í því skyni að dreifa afurðum á markaði skal slátra í sláturhúsum með starfsleyfi. Í starfsleyfi skal tilgreind hámarksdagslátrun.
     Eigendum búfjár er heimilt að slátra búfé sínu til eigin neyslu. Ráðherra er heimilt að setja reglur um töku og sendingu sýna til rannsókna úr þessum dýrum og afurðum samkvæmt tillögum Matvælastofnunar.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að kveða nánar á um dreifingu sláturafurða á markað í reglugerð.
     
     b. (13. gr. c.)
     Heilbrigðisskoðun skal fara fram á öllum sláturdýrum áður en slátrað er í sláturhúsum.
     
     c. (13. gr. d.)
     Sláturdýr mega ekki vera haldin sjúkdómi né bera leifar lyfja eða annarra aðskotaefna sem geta verið hættuleg heilsu neytenda.
     Ráðherra er heimilt að setja reglur um í hvaða tilvikum og hvernig skuli staðið að slátrun á slösuðum dýrum utan sláturhúsa að fengnum tillögum frá Matvælastofnun. Óheimilt er að koma með sýnilega sjúk dýr í sláturhús til förgunar. Auk þess er óheimilt að flytja sjálfdauðar skepnur og afurðir af þeim í sláturhús, kjötgeymslur og kjötvinnslustöðvar.
     Sláturdýr sem komin eru í sláturhúsrétt má ekki flytja þaðan til lífs heldur skal þeim slátrað, nema til komi leyfi Matvælastofnunar.
     Í reglugerð skal nánar kveðið á um:
 1. rannsóknir og eftirlit með sláturdýrum til að tryggja heilnæmi og heilbrigði afurðanna,
 2. söfnun gagna og nauðsynlega sýnatöku úr sláturdýrum á lögbýlum til að kanna útbreiðslu sjúkdóma, smitefna og aðskotaefna, þ.m.t. vaxtaraukandi efna,
 3. hvernig hátta skal sýnatöku úr sláturafurðum varðandi örverumengun, lyfjaleifar, vaxtaraukandi efni og önnur aðskotaefni,
 4. geymslu, meðferð og ráðstöfun á sýktum sláturafurðum og sláturúrgangi.

     
     d. (13. gr. e.)
     Opinber dýralæknir annast heilbrigðisskoðun og sér um að fram fari merking á sláturafurðum. Heimilt er að fela öðrum heilbrigðisskoðun sem hafa til þess næga þekkingu og þjálfun enda starfi þeir undir eftirliti og á ábyrgð opinbers dýralæknis.
     
     e. (13. gr. f.)
     Kjötmatsmenn skulu meta allar sláturafurðir sem dreift er á markað. Þær skulu flokkaðar og merktar eftir tegundum og gæðum samkvæmt reglugerð. Kjötmatsmenn gæta þess, í samvinnu við opinbera dýralækna, að reglum um slátrun og sláturhús sé fylgt, einkum að því er varðar hreinlega og góða meðferð sláturafurða. Sláturleyfishafar greiða allan kostnað af starfi kjötmatsmanna.
     Heimilt er að óska eftir yfirmati á sláturafurðum og skal rökstudd beiðni þar um send Matvælastofnun.
     Um störf og skyldur kjötmatsmanna skal kveðið á með reglugerð sem ráðherra setur að höfðu samráði við hagsmunaaðila.
     Matvælastofnun samræmir mat og flokkun á sláturafurðum. Matvælastofnun getur einnig, eftir því sem þörf er á, gert athugun á sláturafurðum sem ætlaðar eru til dreifingar innan lands eða á erlendan markað.
     Til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum þessum skal innheimta sérstakt gjald. Gjald þetta, sem sláturleyfishafar greiða, skal vera 0,55 kr. á hvert kíló kjöts sem innvegið er í sláturhúsi. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.
     Ráðherra setur reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu á sláturafurðum að fengnum tillögum Matvælastofnunar.

6. gr.

     Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í matvæli til dreifingar hér á landi og í öðrum EES-ríkjum má einungis nota þau aukefni sem lög og stjórnvaldsreglur leyfa og í því magni sem þar er heimilað. Í matvæli sem ætluð eru til útflutnings til ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins má einungis nota þau aukefni og í því magni sem leyft er í viðkomandi ríki.

7. gr.

 1. Í stað orðsins „matvælaeftirlit“ í 2. málsl. 18. gr., 1. málsl. 6. mgr., 2. málsl. 9. mgr. og 10. mgr. 22. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. a laganna kemur: opinbert eftirlit.
 2. Í stað orðsins „matvælaeftirliti“ í 1. málsl. 8. mgr. 22. gr. laganna kemur: opinberu eftirliti.
 3. Í stað orðsins „matvælaeftirlits“ í 4. málsl. 1. mgr. 2. gr., 4. málsl. 2. mgr. 9. gr., 3. málsl. 1. mgr., 2. málsl. 8. mgr. og 4. málsl. 9. mgr. 22. gr. og 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: opinbers eftirlits.
 4. Í stað orðanna „opinberu matvælaeftirliti“ í 5. mgr. 23. gr. laganna kemur: opinberu eftirliti.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „hvor aðilinn skuli fara með opinbert eftirlit og veita leyfi skv. 20. gr.“ í 2. mgr. kemur: um verkaskiptingu framangreindra stjórnvalda um opinbert eftirlit og leyfisveitingar skv. 20. gr.
 2. 3.–4. málsl. 6. mgr. falla brott.
 3. 7. mgr. orðast svo:
 4.      Tíðni opinbers eftirlits skal vera regluleg og í réttu hlutfalli við áhættu, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlunum. Eftirlitsaðilar skulu áhættuflokka matvælafyrirtæki og flokka þau eftir frammistöðu samkvæmt niðurstöðum úr eftirliti. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slíka flokkun. Heimilt er að draga úr tíðni eftirlits hjá matvælafyrirtæki sem hefur vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna.


9. gr.

     1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
     Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu og einstaklingum að annast tiltekin verkefni við framkvæmd opinbers eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Auk þess er opinberum eftirlitsaðilum heimilt að tilnefna rannsóknastofur með faggildingu til að framkvæma greiningar og prófanir. Aðilar sem falin hafa verið slík verkefni skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Ráðherra setur reglugerð sem kveður á um úthlutun aðila og tilnefningu rannsóknastofa.

10. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, svohljóðandi:
     Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að úthluta tilteknum opinberum verkefnum til einstaklinga eða til lögaðila þegar um er að ræða verkefni sem tengjast annarri opinberri starfsemi. Ráðherra skal kveða nánar á um skilyrði samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

11. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Opinbert eftirlit skal fara fram án þess að tilkynnt sé um það fyrir fram nema rök séu fyrir hendi um mikilvægi slíkrar tilkynningar áður en eftirlitið er framkvæmt. Fari eftirlitið fram að beiðni matvælafyrirtækis hefur opinber eftirlitsaðili heimild til þess að taka ákvörðun um hvort eftirlitið verði framkvæmt að undangenginni tilkynningu eða ekki.
     Matvælafyrirtækjum er skylt að láta opinberum eftirlitsaðilum og þeim sem sinna annarri opinberri starfsemi endurgjaldslaust í té nauðsynleg sýni til rannsókna og veita þeim allar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast við framkvæmd eftirlitsins. Jafnframt er skylt að veita óhindraðan aðgang til opinbers eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi að þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað að því marki sem nauðsynlegt er vegna framkvæmdar opinbers eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi. Að því marki sem nauðsynlegt er vegna framkvæmdar opinbers eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi skal stjórnandi matvælafyrirtækis veita opinberum eftirlitsaðila eða aðila sem sinnir annarri opinberri starfsemi aðgang að:
 1. búnaði, tækjum sem nýtt eru til flutninga, athafnasvæðum sem og öðrum stöðum undir stjórn matvælafyrirtækis og umhverfi þeirra,
 2. tölvuvæddum upplýsingastjórnunarkerfum matvælafyrirtækis,
 3. dýrum og vörum undir stjórn matvælafyrirtækis,
 4. skjölum og öðrum upplýsingum sem máli skipta,
 5. upplýsingum um heiti matvælafyrirtækis og félagsform og
 6. upplýsingum um starfsemi matvælafyrirtækis, þ.m.t. starfsemi sem fer fram með fjarsamskiptamiðlum, og staði sem eru undir stjórn matvælafyrirtækis.

     Eftirlitsaðilar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd sem þeir kunna að komast að við leyfisveitingar, sbr. VIII. kafla, og framkvæmd eftirlits.
     Heilbrigðisnefnd, aðilar sem hafa faggildingu og fara með tiltekin eftirlitsverkefni og matvælafyrirtæki skulu tilkynna Matvælastofnun ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu ef þeir greina í sýnum úr matvælum eða umhverfi matvælafyrirtækja örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

12. gr.

     Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Opinbert eftirlit.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
 1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu matvælafyrirtæki eða þeir sem framleiða, flytja inn eða dreifa matvælasnertiefnum greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en nemur raunkostnaði við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við það:
  1. launum starfsfólks og launatengdum kostnaði, þ.m.t. aðstoðar- og skrifstofufólks sem tekur þátt í framkvæmd opinbers eftirlits,
  2. kostnaði við aðstöðu og búnað, þ.m.t. viðhalds- og tryggingakostnaði og öðrum tengdum kostnaði,
  3. kostnaði við rekstrarvörur og áhöld,
  4. kostnaði við þjónustu sem aðilar, sem hafa fengið úthlutað tilteknum opinberum eftirlitsverkefnum, gjaldfæra á opinbera eftirlitsaðila vegna opinbers eftirlits,
  5. kostnaði við þjálfun starfsfólks, sem um getur í a-lið, að undanskilinni þjálfun sem er nauðsynleg til að hljóta réttindi og hæfni sem þarf til að vera ráðinn til starfa hjá opinberum eftirlitsaðilum,
  6. kostnaði við ferðalög starfsfólks, sem um getur í a-lið, sem og tengdum framfærslukostnaði,
  7. kostnaði vegna sýnatöku opinberra eftirlitsaðila og kostnaði sem opinberar rannsóknastofur innheimta vegna sýnatöku, greiningar, prófunar og sjúkdómsgreininga sem framkvæmdar eru á opinberum rannsóknastofum.

       Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um kostnað og útreikning raunkostnaðar vegna opinbers eftirlits.
 3. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Miða skal við að gjaldskrá fyrir heilbrigðisskoðun í sláturhúsi verði gefin út einu sinni á ári og taki mið af rekstraruppgjöri eftirlits fyrir heilt rekstrarár.


14. gr.

     2. mgr. 27. gr. b laganna orðast svo:
     Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning með þeim hætti sem áskilið er í reglugerðum sem settar eru með stoð í lögum þessum.

15. gr.

     Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, X. kafli A, Önnur ákvæði, með tveimur nýjum greinum, 27. gr. e og 27. gr. f, svohljóðandi:
     
     a. (27. gr. e.)
     Til að tryggja að opinberir eftirlitsaðilar fari að tilskildum ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim skulu þeir framkvæma innri úttektir eða láta framkvæma úttektir á sjálfum sér og skulu gera viðeigandi ráðstafanir í ljósi niðurstaðna úr úttektunum.
     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að gera úttektir á opinberu eftirliti og annarri opinberri starfsemi á Íslandi.
     
     b. (27. gr. f.)
     Matvælastofnun er heimilt að skila niðurstöðum opinbers eftirlits og ársskýrslum inn í upplýsingakerfi Evrópusambandsins.

16. gr.

     Í stað orðanna „almenns matvælaeftirlits“ í 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. a laganna kemur: opinbers eftirlits.

17. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Leiki grunur á að ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim séu brotin er unnt að tilkynna um brot eða miðla gögnum um brot til opinbers eftirlitsaðila. Opinber eftirlitsaðili skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli laganna ef þörf er talin á.
     Matvælafyrirtæki er óheimilt að láta aðila sem hefur tilkynnt um brot eða miðlað gögnum skv. 1. mgr. sæta óréttlátri meðferð.
     Opinber eftirlitsaðili skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem berast um þann sem tilkynnir um brot eða miðlar gögnum skv. 1. mgr. nema viðkomandi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.

18. gr.

     Á eftir 1. mgr. 30. gr. b laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að taka sýni úr vöru sem boðin er til sölu á fjarsamskiptamiðlum án þess að tilkynnt sé um sýnatökuna fyrr en opinber eftirlitsaðili er kominn með sýnin í sína vörslu.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
 1. 3. mgr. orðast svo:
 2.      Við ákvörðun refsinga við brotum gegn lögum þessum sem framin eru með sviksamlegum eða villandi viðskiptaháttum er heimilt að ákvarða sekt:
  1. út frá efnahagslegum ávinningi matvælafyrirtækis eða
  2. sem hlutfall af veltu matvælafyrirtækis.

 3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Mál út af brotum samkvæmt þessari grein skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.


20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. a laganna:
 1. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 852/2004 frá 29. apríl 2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 frá 29. apríl 2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 frá 15. mars 2017 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt, sbr. ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2007 frá 26. október 2007 og nr. 210/2019 frá 27. september 2019.
 2. Í stað orðanna „tilskipunum ráðsins 89/662/EBE og“ í 4. mgr. kemur: tilskipun ráðsins.


21. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. a laganna:
 1. 10. tölul. orðast svo: Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um fóður, áburð eða sáðvöru í fyrirtækjum undir hans stjórn. Stjórnandi fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækis telst rekstraraðili þess.
 2. Eftirfarandi hugtök bætast við greinina í viðeigandi stafrófsröð:
  1. Opinber eftirlitsaðili er Matvælastofnun.
  2. Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja að ákvæðum laga og reglna um fóður, áburð og sáðvöru sé framfylgt og stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun.
  3. Önnur opinber starfsemi er starfsemi önnur en opinbert eftirlit sem opinberir eftirlitsaðilar, einstaklingar eða aðilar, sem hefur verið úthlutað tilteknum öðrum opinberum verkefnum, inna af hendi, svo sem veiting leyfa eða samþykkis og útgáfa opinberra vottorða eða opinberra staðfestinga.


23. gr.

     Í stað orðanna „eftirlitið“ í 3. mgr. 3. gr. laganna og „eftirliti“ í 4. mgr. sömu greinar kemur: opinbert eftirlit; og: opinberu eftirliti.

24. gr.

     Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Tilgangur, gildissvið, yfirstjórn o.fl.

25. gr.

     Í stað orðsins „fóðureftirlits“ í lokamálslið 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: opinbers eftirlits með fóðri.

26. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
 1. Á undan orðinu „eftirlits“ í 2. mgr. og lokamálslið 3. mgr. kemur: opinbers.
 2. Í stað orðanna „almenns eftirlits með fóðri, áburði eða sáðvöru“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: opinbers eftirlits.


27. gr.

     Á eftir 6. gr. a laganna koma tvær nýjar greinar, 6. gr. b og 6. gr. c, svohljóðandi:
     
     a. (6. gr. b.)
     Leiki grunur á að ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim séu brotin er unnt að tilkynna um brot eða miðla gögnum um brot til Matvælastofnunar. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli laganna ef stofnunin telur þörf á.
     Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki er óheimilt að láta aðila sem hefur tilkynnt um brot eða miðlað gögnum skv. 1. mgr. sæta óréttlátri meðferð.
     Matvælastofnun skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem berast um þann sem tilkynnir um brot eða miðlar gögnum skv. 1. mgr. nema viðkomandi veiti afdráttarlaust samþykki sitt.
     
     b. (6. gr. c.)
     Opinbert eftirlit skal fara fram án þess að tilkynnt sé um það fyrir fram nema rök séu fyrir hendi um mikilvægi slíkrar tilkynningar áður en eftirlitið er framkvæmt. Fari opinbert eftirlit fram að beiðni fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækis hefur opinber eftirlitsaðili heimild til þess að taka ákvörðun um hvort eftirlitið verði framkvæmt að undangenginni tilkynningu eða ekki.
     Til að tryggja að opinberir eftirlitsaðilar fari að ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim skulu þeir framkvæma innri úttektir eða láta framkvæma úttektir á sjálfum sér og skulu gera viðeigandi ráðstafanir í ljósi niðurstaðna úr úttektunum.
     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að gera úttektir á opinberu eftirliti og annarri opinberri starfsemi á Íslandi.
     Matvælastofnun er heimilt að skila niðurstöðum opinbers eftirlits og ársskýrslum inn í upplýsingakerfi Evrópusambandsins.

28. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „eftirlit Matvælastofnunar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: opinbert eftirlit.
 2. 5. mgr. orðast svo:
 3.      Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 frá 15. mars 2017 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2019 frá 27. september 2019.


29. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Skráningarskylda og starfsleyfi, opinbert eftirlit, reglugerðarheimild o.fl.

30. gr.

     Í stað orðsins „Fóðureftirlit“ í 1. málsl. 7. gr. c laganna kemur: Opinbert eftirlit með fóðri.

31. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. j laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að úthluta aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu og einstaklingum að annast tiltekin verkefni við framkvæmd opinbers eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Auk þess er opinberum eftirlitsaðilum heimilt að tilnefna rannsóknastofur með faggildingu til að framkvæma greiningar og prófanir. Á þeim hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Ráðherra setur reglugerð sem kveður á um úthlutun aðila og tilnefningu rannsóknastofa.
 3. Í stað orðanna „opinberu fóðureftirliti“ í 5. mgr. kemur: opinberu eftirliti með fóðri.


32. gr.

     Á eftir 7. gr. j laganna kemur ný grein, 7. gr. k, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að úthluta tilteknum opinberum verkefnum til einstaklinga eða til lögaðila þegar um er að ræða verkefni sem tengjast annarri opinberri starfsemi. Ráðherra skal kveða nánar á um skilyrði samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

33. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. o laganna:
 1. Í stað orðsins „Áburðareftirlit“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Opinbert eftirlit með áburði.
 2. Í stað orðsins „eftirlits“ í 2. mgr. kemur: opinbers eftirlits með áburði.


34. gr.

     Í stað 1. mgr. 8. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en nemur raunkostnaði við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við það:
 1. launum starfsfólks og launatengdum kostnaði, þ.m.t. aðstoðar- og skrifstofufólks sem tekur þátt í framkvæmd opinbers eftirlits,
 2. kostnaði við aðstöðu og búnað, þ.m.t. viðhalds- og tryggingakostnaði og öðrum tengdum kostnaði,
 3. kostnaði við rekstrarvörur og áhöld,
 4. kostnaði við þjónustu sem aðilar sem hafa fengið úthlutað tilteknum opinberum eftirlitsverkefnum gjaldfæra á opinbera eftirlitsaðila vegna opinbers eftirlits,
 5. kostnaði við þjálfun starfsfólks, sem um getur í a-lið, að undanskilinni þjálfun sem er nauðsynleg til að hljóta réttindi og hæfni sem þarf til að vera ráðinn til starfa hjá opinberum eftirlitsaðilum,
 6. kostnaði við ferðalög starfsfólks, sem um getur í a-lið, sem og tengdum framfærslukostnaði,
 7. kostnaði sem opinberar rannsóknastofur innheimta vegna sýnatöku, greininga, prófunar og sjúkdómsgreininga sem framkvæmdar eru á opinberum rannsóknastofum.

     Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um kostnað og útreikning raunkostnaðar vegna opinbers eftirlits.
     Heilbrigðisnefnd, aðilar sem hafa faggildingu og fara með tiltekin eftirlitsverkefni og matvælafyrirtæki skulu tilkynna Matvælastofnun ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu ef þeir greina í sýnum úr fóðri eða umhverfissýnum sem tekin eru í eða við fóður- eða matvælafyrirtæki örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

35. gr.

     Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Gjaldtaka.

36. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. b laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Opinberum eftirlitsaðila skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglugerðir og samþykktir ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Skylt er að veita óhindraðan aðgang til eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi að þeim stöðum þar sem framleiðsla, dreifing, geymsla og sala á fóðri sem ætlað er búfé sem haldið er til matvælaframleiðslu og sölufóðri annarra dýra, svo og framleiðsla eða dreifing á allri sáðvöru, tilbúnum áburði og öðrum jarðvegsbætandi efnum, á sér stað, að því marki sem nauðsynlegt er vegna framkvæmdar opinbers eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi. Að því marki sem nauðsynlegt er vegna framkvæmdar opinbers eftirlits eða annarrar opinberrar starfsemi skal stjórnandi fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis veita opinberum eftirlitsaðila eða aðila sem sinnir annarri opinberri starfsemi aðgang að:
  1. búnaði, tækjum sem nýtt eru til flutninga, athafnasvæðum sem og öðrum stöðum undir stjórn fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis og umhverfi þeirra,
  2. tölvuvæddum upplýsingastjórnunarkerfum fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis,
  3. vörum undir stjórn fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis,
  4. skjölum og öðrum upplýsingum sem máli skipta,
  5. upplýsingum um heiti fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis og félagsform og
  6. upplýsingum um starfsemi fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis, þ.m.t. starfsemi sem fer fram með fjarsamskiptamiðlum, og staði sem eru undir stjórn fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtækis.

 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir ná til. Opinberum eftirlitsaðila er einnig heimilt að taka sýni úr vöru sem boðin er til sölu á fjarsamskiptamiðlum án þess að tilkynnt sé um sýnatökuna fyrr en opinber eftirlitsaðili er kominn með sýnin í sína vörslu.
 5. Í stað orðsins „Matvælastofnun“ í 3. mgr. kemur: opinber eftirlitsaðili.


37. gr.

     Í stað orðanna „7. gr. m“ í e- og f-lið 1. mgr. 9. gr. e laganna kemur: 7. gr. n.

38. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. g laganna:
 1. Í stað orðanna „7. gr. m“ í c-, f- og k-lið, „7. gr. k“ í j-lið og „7. gr. n“ í l-lið 1. mgr. kemur: 7. gr. n; 7. gr. l; og: 7. gr. o.
 2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Við ákvörðun refsinga við brotum matvælafyrirtækis gegn lögum þessum sem framin eru með sviksamlegum eða villandi viðskiptaháttum er heimilt að ákvarða sekt:
  1. út frá efnahagslegum ávinningi matvælafyrirtækis eða
  2. sem hlutfall af veltu matvælafyrirtækis.

       Mál vegna brota samkvæmt þessari grein skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.


III. KAFLI
Breyting á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, með síðari breytingum.

39. gr.

     Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heilbrigðisnefnd fer með opinbert eftirlit á markaði undir yfirumsjón Matvælastofnunar.

IV. KAFLI
Brottfall og gildistaka.

40. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 21. desember 2019. Frá sama tíma falla úr gildi lög um sjávarafurðir, nr. 55/1998, og lög um slátrun og sláturafurðir, nr. 96/1997.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2019.