Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 807, 150. löggjafarþing 202. mál: þingsköp Alþingis (aðgangur að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis).
Lög nr. 162 23. desember 2019.

Lög um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (aðgangur að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis).


1. gr.

     Í stað orðanna „95. gr.“ í 1. mgr. 23. gr., 2. mgr. 41. gr., 1. mgr. 56. gr., tvívegis í 2. mgr. 60. gr. og 1., 3. og 4. mgr. 67. gr. laganna kemur: 96. gr.

2. gr.

     Á eftir 90. gr. laganna kemur ný grein, 91. gr., svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því:
     Um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis fer samkvæmt upplýsingalögum. Með stjórnsýslu er átt við þá starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis og forseti hefur æðsta vald í, sbr. 9. gr., eða sem forsætisnefnd er ætlað að fjalla um samkvæmt lögum þessum. Til stjórnsýslu Alþingis telst enn fremur starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd er falin samkvæmt fyrirmælum í öðrum lögum eða samkvæmt ályktun Alþingis.
     Í reglum sem forsætisnefnd setur og birta skal í B-deild Stjórnartíðinda skal kveðið nánar á um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis og um afmörkun hennar gagnvart þeirri starfsemi sem annars fer fram af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa. Í reglum forsætisnefndar skal jafnframt kveðið á um móttöku og meðferð beiðna um upplýsingar.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2019.