Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 819  —  508. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um framkvæmd laga um fasteignalán til neytenda.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því sem kemur fram í A-lið skýrslu dómsmálaráðherra um framkvæmd embætta sýslumanna á lögum um aðför og lögum um nauðungarsölu, sbr. þskj. 2076, 995. mál 149. löggjafarþings, að ekki sé gætt sérstaklega að því hvort lánveitandi hafi fullnægt ákvæðum 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016?
     2.      Telur ráðherra það samræmast skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum skv. 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði að ekki er gætt sérstaklega að því að ákvæðum 38. gr. laga nr. 118/2016 sé fullnægt við framkvæmd nauðungarsölu, með hliðsjón af áliti Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar nr. 2015/12 frá 1. júní 2015 um vanskil og nauðungarsölur?
     3.      Telur ráðherra þörf á einhverjum öðrum aðgerðum til að tryggja að 38. gr. laga um fasteignalán til neytenda komi réttilega til framkvæmda í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum?
     4.      Telur ráðherra það samræmast áliti Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar nr. 2015/11 frá 19. ágúst 2015, sbr. einkum 18. mgr. álitsins, að gera ekki ráð fyrir hækkunaráhrifum verðtryggingar á skuldastöðu og greiðslubyrði á lánstíma í greiðslumati vegna verðtryggðra fasteignalána til neytenda, eins og kemur fram á þingskjali 1485 í 853. máli 149. löggjafarþings?
     5.      Telur ráðherra koma til greina að setja skýrari reglur um hvernig skuli gera ráð fyrir hækkunaráhrifum verðtryggingar á greiðslubyrði og skuldastöðu síðar á lánstímanum í greiðslumati vegna verðtryggðra fasteignalána til neytenda, svo sem með endurskoðun á IV. kafla reglugerðar nr. 270/2017 um fasteignalán til neytenda?
     6.      Telur ráðherra vera tilefni til þess að bregðast við framangreindum álitum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar á einhvern annan hátt, með hliðsjón af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum?
     7.      Telur ráðherra tilefni til að bregðast við aðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) frá 27. júní 2019 um veikleika á íslenskum íbúðalánamarkaði sem taldir eru geta ógnað fjármálastöðugleika, þar sem m.a. er varað við hárri skuldsetningu íslenskra heimila í hlutfalli við tekjur vegna mikillar útbreiðslu verðtryggðra jafngreiðslulána til langs tíma, svo sem með breytingum á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, eða öðrum lögum og reglum?


Skriflegt svar óskast.