Ferill 353. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 827  —  353. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um raforkuflutning í Finnafirði.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bæta raforkuflutning í Finnafirði til að tryggja framkvæmdir og framtíðarstarfsemi á svæðinu, sbr. samstarfssamning sem var undirritaður í apríl sl. um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði og svar við fyrirspurn á þskj. 1815 frá 145. löggjafarþingi um aðkomu ríkisins að því að bæta raforkuflutning á svæðinu?
    Hinn 10. maí 2016 undirritaði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra viljayfirlýsingu um samstarf við Bremenports, sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjörð og verkfræðistofuna Eflu. Viljayfirlýsingin fjallar um forvinnu sem nauðsynlegt er að sinna áður en ákvörðun verður tekin um uppbyggingu í Finnafirði. Kemur þar m.a. fram að ráðuneyti munu á tímabilinu fela stofnunum sínum að forkanna vegtengingu svæðisins, flutningskerfi raforku, ýmis lagaleg málefni og undirbúa samfélagslega greiningu.
    Samstarfssamningurinn sem undirritaður var í apríl sl. er samstarfssamningurinn á milli sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps, Bremenports og verkfræðistofunnar Eflu. Íslenska ríkið hefur ekki aðkomu að þeim samningi.
    Í samræmi við viljayfirlýsinguna frá 2016 er áætlað að ráðuneytin skili sínum hluta forvinnunnar í janúar 2020 í formi skýrslu til ríkisstjórnar. Í þeirri skýrslu verður meðal annars fjallað um innviði raforkukerfisins á svæðinu af hálfu Orkustofnunar.
    Ljóst er að uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði mun kalla á fjárfestingu í flutnings- og dreifikerfi raforku og á eftir að greina það nánar í framangreindri skýrslu. Hið svæðisbundna flutningskerfi Landsnets á Norðausturlandi nær að Kópaskeri og svæðisbundna flutningskerfið á Austurlandi nær norður til Vopnafjarðar. Á milli þessa staða rekur Rarik dreifikerfi sem þjónar Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði ásamt dreifbýli. Á árinu 2021 áformar Rarik að endurnýja þá 10 km sem eftir er að endurnýja af 33 kV línunni frá Kópaskeri að Raufarhöfn með lagningu 33 kV raflínu. Unnið er að eflingu á flutningskerfi Norðausturlands með lagningu Kröflulínu 3 en það er 220 kV háspennulína, mun liggja milli Kröflu og tengivirkis í Fljótsdal. Henni er ætlað að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.

     2.      Hver er tímarammi þessa verkefnis?
    Áætlað er að framangreindri samantekt ráðuneytanna um verkefnið verði skilað til ríkisstjórnar í byrjun næsta árs og munu þá liggja fyrir nánari upplýsingar um tímaramma. Fyrirhugað er að ákvarðanir hvað varðar aðkomu íslenska ríkisins verði teknar í framhaldi af því.

     3.      Hvert er kostnaðarmatið og hefur verið gert ráð fyrir kostnaði í fjárlögum fyrir næsta ár?
    Ekki liggur fyrir ákvörðun um hver aðkoma íslenskra stjórnvalda verður að verkefninu, sbr. framangreint. Ekki liggur fyrir kostnaðarmat, né er gert ráð fyrir kostnaði í fjárlögum 2020 vegna verkefnisins.

     4.      Liggur fyrir kostnaðar- og ábatagreining fyrir Ísland vegna þessa verkefnis, m.a. með tilliti til atvinnuuppbyggingar? Ef svo er, hver er niðurstaða þeirrar greiningar? Ef ekki, hvenær má vænta þess að sú vinna fari fram?
    Í tilefni af framangreindri samantekt sem skilað verður til ríkisstjórnar í janúar 2020 hefur að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis verið unnið að samfélagslýsingu á verkefninu. Munu hún liggja fyrir í byrjun árs og verður hún lögð fyrir ríkisstjórn.