Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 850  —  513. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.


Flm.: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að framkvæma óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Ráðherra leiti ráðgjafar hjá erlendum aðilum sem og innlendum fagaðilum sem verði falið að gera úttekt á mögulegri staðsetningu, m.a. með tilliti til fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála.
    Samhliða þeirri athugun verði kannaður fýsileiki þess að nýta byggingar Landspítala við Hringbraut undir aðra heilbrigðisþjónustu en er þar nú.
Niðurstöður greiningarinnar verði birtar með aðgengilegum hætti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar eigi síðar en í mars 2021.

Greinargerð.

    Tillaga þessa var áður flutt á 148. löggjafarþingi (88. mál) og 149. löggjafarþingi (14. mál) og er nú endurflutt með þeirri breytingu að samhliða staðarvalsgreiningu verði kannaður fýsileiki annarrar nýtingar byggingar Landspítalans við Hringbraut. Á árunum 2001-2008 skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Sérfræðingarnir sem sömdu álitin töldu hins vegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi eða gamla Landspítalann við Hringbraut. Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins eru brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar er reiknað með er í gildi núna. Núverandi staðarval virðist því byggjast á úreltu skipulagi.
    Í skýrslu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknarstofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015, kom m.a. fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning þjóðarsjúkrahússins og að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður.
    Í úttekt samtakanna um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og rekstur nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði. Í fyrsta lagi viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti útreikningana miðað við gefnar forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.

    Meginmarkmið þessarar tillögu er að gerð verði óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja þjóðarsjúkrahúsið. Er jafnframt lagt til að kannaður verði fýsileiki uppbyggingar annarrar heilbrigðisþjónustu í húsnæði Landspítalans við Hringbraut. Í því sambandi verði horft til þess hvort að hægt sé að aðskilja hlutverk spítalans sem þjóðarsjúkrahús og sem umdæmissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins. Þá yrði einnig kannaður fýsileiki þess að byggja þar upp starfsemi dvalar- og hjúkrunarheimilis.
    Gera þarf faglega staðarvalsgreiningu til að sjá hvar hagkvæmast og best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Til þess þarf óháða fagmenn svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Fagfólki yrði falið að gera úttekt á mögulegum staðsetningum út frá fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismálum. Niðurstöðurnar þyrfti að birta með aðgengilegum hætti fyrir allan almenning og stjórnmálamenn þannig að glögglega megi átta sig á hvernig hver staður kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.