Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 866  —  524. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks.


Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp til laga um launasjóð fyrir afreksíþróttafólk. Tilgangur sjóðins verði að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og auka möguleika þess á að helga sig íþróttaiðkun sinni. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á 151. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks.
    Tilgangur launasjóðsins yrði að skapa afreksíþróttafólki í landinu fjárhagslegan grundvöll til iðkunar á íþrótt sinni. Horfa mætti til launasjóðs stórmeistara í skák og launasjóða listamanna, þar sem starfslaun eru greidd umsækjendum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með því að greiða afreksíþróttafólki starfslaun aukast réttindi og öryggi þess. Mikilvægt er að við undirbúning og við útfærslu starfslaunasjóðs afreksíþróttafólks verði unnið náið með Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sveitarfélögunum.
    Árangur íþróttafólks okkar hefur vakið athygli um heim allan. Við eigum afreksfólk í fjölmörgum íþróttagreinum sem hefur aukið hróður Íslands á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum. Flutningsmenn tillögunnar telja að tímabært sé að stjórnvöld styðji betur við íslenskt íþróttafólk, fyrirmyndir æsku landsins.
    Afreksíþróttafólk á Íslandi gaf frá sér yfirlýsingu varðandi kjör sín í desember 2019. Þar segir: „Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi, stéttarfélagsaðild, atvinnuleysisbætur, aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttindi til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt.“ Í skýrslu vinnuhóps frá 2017 um endurskoðun á reglum afrekssjóðs ÍSÍ er t.d. fjallað um mikilvægi þess að afreksíþróttafólk geti einbeitt sér að æfingum og keppni samhliða því að njóta lágmarkstekna vegna framfærslu og nauðsynlegra útgjalda: „Bjóða þarf upp á beina styrki til íþróttamanna í formi mánaðarlegra „framfærslustyrkja“ þar sem íþróttamaðurinn hefur fullan ráðstöfunarrétt á tekjunum.“ Af þessum orðum má glöggt sjá að þeir styrkir sem afreksíþróttafólki hefur staðið til boða hafa iðulega verið notaðir í beinan kostnað íþróttafólksins vegna þátttöku á alþjóðlegum mótum erlendis en ekki framfærslu á æfingatíma.
    Afreksíþróttafólk á þess kost að sækja um styrki frá afrekssjóði ÍSÍ en meginhlutverk afrekssjóðsins við uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi er að styðja sérsambönd fjárhagslega og með því íslenskt afreksíþróttafólk við að ná árangri í alþjóðlegri keppni. Þessir styrkir til afreksíþróttafólks eru eini opinberi stuðningurinn sem það hefur kost á að nýta sér til þess að fjármagna keppnis- og æfingaferðir en fjárhæðir eru af þeim toga að lítið stendur eftir þegar beinn kostnaður hefur verið greiddur. Slíkir styrkir eru ekki skilgreindir sem laun og því setur formið, sem og fjárhæðir styrkja, afreksíþróttafólk í erfiða stöðu og leiðir oftar en ekki til þess að það þarf að sinna launuðum störfum meðfram æfingum til að fjármagna sig á meðan keppinautar þeirra erlendis geta helgað sig íþrótt sinni. Þar með stendur íslenskt afreksíþróttafólk ekki jafnfætis þeim sem eru helstu keppinautar þeirra á heimsvísu. Afreksíþróttafólk hefur margoft bent á að það sé erfitt að keppa á heimsmælikvarða án launa og réttinda. Með tillögunni er ætlunin að bregðast við þessari stöðu.