Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 877  —  495. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um varaafl heilbrigðisstofnana.


     1.      Hvaða heilbrigðisstofnanir skorti rafmagn vegna áhrifa óveðursins sem gekk yfir landið 10. og 11. desember sl. og hversu lengi? Hverjar þeirra höfðu ekki tryggt varaafl?
    Ein afleiðinga ofsaveðurs sem gekk yfir landið 10. og 11. desember voru víðtækar rafmagnstruflanir á stórum svæðum. Nokkrar heilbrigðisstofnanir sem eru með starfsemi á þeim svæðum fóru ekki varhluta af því og hér má finna svör þeirra til ráðuneytisins um áhrif rafmagnsleysis á störf þeirra.
    Á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru miklar rafmagnstruflanir sem höfðu þau áhrif að rafmagn sló út og önnur af tveimur varaaflsvélum sjúkrahússins tók við. Endurnýjun á kerfinu hefur verið í gangi frá því um mitt ár 2019 og áætlað er að henni ljúki í byrjun árs 2020. Þegar þeirri endurnýjun lýkur verður sjúkrahúsið betur í stakk búið til að þola rafmagnstruflanir af þessu tagi. Sjúkrahúsið var keyrt á varaafli í 10 daga á meðan unnið var að viðgerð á rofabúnaði. Á þeim tíma reyndi á viðbragðsáætlun vegna rafmagnsleysis auk þess sem keyrð var viðbragðsvakt allan sólarhringinn.
    Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) varð röskun mest á starfsemi þeirra eininga sem misstu rafmagn, en með því féll niður möguleiki á að komast í sjúkraskrárkerfi og nota síma. Ekki var tiltækt ljós til notkunar í aðgerðum og í sumum tilvikum var eina leiðin til að hlaða farsíma að hlaða þá í bifreiðum HSN. Alvarlegustu tilvikin vegna áhrifa rafmagnsleysis urðu á Dalvík þar sem starfsstöð stofnunarinnar var óstarfhæf að mestu og í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem rafmagn var skammtað. Þá brann símakerfi HSN í Þingeyjarsýslum yfir í heild sinni og olli verulegri röskun. Á Blönduósi, í Skagafirði, á Húsavík og í Fjallabyggð eru varaaflsstöðvar sem tóku við þegar rafmagn fór af. Á Akureyri hélst rafmagn einnig á en ef rafmagn hefði farið af á Akureyri hefði verið hægt að leita til Sjúkrahússins (SAk) þar sem öruggt varaafl er til staðar.
    Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) voru áhrif óveðursins mest á Hvammstanga, en þar var rafmagnslaust í 40 klukkustundir. Fjarskipta- og símasamband gekk erfiðlega og mikil ófærð var á svæðinu. Engin vararafstöð er á starfsstöð heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga sem skapar mikið óöryggi varðandi alla þjónustu þegar slík veður ganga yfir. Á öðrum starfsstöðvum stofnunarinnar urðu truflanir á rafmagni. Að loknu óveðri sendi RARIK færanlega rafstöð til Hvammstanga sem nú er staðsett við stofnunina og ráðgert er að tengja við hana komi til þess að rafmagnið fari af um lengri tíma. Þetta er tímabundið úrræði en gefur þó ákveðið svigrúm og öryggi á meðan leitað er lausna varðandi búnað. Í Borgarnesi, Búðardal og á Grundarfirði eru ekki heldur varaaflsstöðvar til staðar. Þar er neyðarlýsing (ratljós) sem endist í um það bil klukkustund eftir að rafmagn fer af, en rafmagnstruflanir höfðu ekki mikil áhrif á þeim starfsstöðum. Á Stykkishólmi, Ólafsvík og Hólmavík eru varaaflstöðvar. Á Hólmavík getur rafmagn þó dottið út öðru hvoru, líkt og gerðist í óveðrinu í desember, allt frá þremur mínútum og lengst í um hálftíma. Á Akranesi var gömul rafstöð fjarlægð árið 2002. Akranes hefur flokkast sem staður með örugga raforkutengingu og HVE á Akranesi hefur því eingöngu haft skammvinna varaaflsgjafa frá því að rafstöðin var fjarlægð. Um er að ræða svokallaða UPS-rafgeyma (e. uninterruptible power supply) sem er ætlað að sjá fyrir raforku á skurðstofu, fæðingardeild og rannsóknarstofu í stutta stund þegar rafmagnslaust verður, en til þess kom ekki í óveðrinu. Á árinu 2019 hófst vinna við að tryggja varaaflstöð á Akranesi.

     2.      Hvaða starfsstöðvar heilbrigðisstofnana aðrar en spurt er um í 1. lið eru ekki með tryggt varaafl?
    Í svörum Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) til ráðuneytisins kemur fram að unnið sé að því að koma hjúkrunarheimilinu Dyngju á varaafl en aðrar starfsstöðvar HSA séu með varaafl. Í svörum HSA kom jafnframt fram að umhugsunarvert sé að ekki hafi verið gert ráð fyrir varaafli á nýja heilsugæslustöð á Reyðarfirði en það sé hins vegar í skoðun.
    Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) var tekin í notkun vararafstöð fyrir starfstöðina í Reykjanesbæ árið 2019 sem á að tryggja rafmagn ef það slær út. Framkvæmdastjórn HSS telur ekki brýna þörf á vararafstöð á starfsstöðvum HSS í Grindavík.

     3.      Hver ber ábyrgð á því að heilbrigðisstofnunum sé tryggt varaafl?
    Í svörum heilbrigðisstofnana til ráðuneytisins kemur fram að þær tengi sig í mörgum tilfellum við varaaflsstöðvar hjá sveitarfélögum sem búi yfir slíkum stöðvum. Í ljós kom þegar óveðrið gekk yfir að á þeim stöðum þar sem veðrið var sem allra verst og slíkar varaaflstöðvar voru ekki til staðar urðu víðtækar rafmagnstruflanir á starfsstöðvum heilbrigðisstofnana. Hér má helst nefna starfsstöð HVE á Hvammstanga og starfsstöð HSN á Dalvík þar sem rafmagnsleysið varð langvinnt. Nokkrar starfsstöðvar HVEST og HVE tengja sig vararafstöðum Orkubús Vestfjarða sem sér þeim fyrir rafmagni í rafmagnsleysi. RARIK hefur yfirumsjón með rekstri raforkuflutnings á landinu og hefur séð HVE á Hvammstanga fyrir færanlegri rafstöð á meðan fundin er varanleg lausn.

     4.      Hvað stendur til að gera til að koma í veg fyrir að heilbrigðisstofnun skorti rafmagn þótt rafmagnslaust verði á svæðinu þar sem hún er?
    12. desember 2019 óskaði ráðherra eftir upplýsingum frá HVE, HSN og SAk um áhrif óveðursins á starfsemi þeirra og lagði þær upplýsingar sem frá forstjórum stofnananna komu fyrir ríkisstjórn í formi minnisblaðs. 19. desember ákvað ráðherra að senda öllum forstjórum heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa á landinu spurningar um viðbrögð þeirra við náttúruvá líkri þeirri sem gekk yfir landið í desember 2019, ósk um svör voru ítrekuð 10. janúar 2020. Þar var óskað eftir 1) svörum um getu heilbrigðisstofnana til að mæta atburðum eins og þeim sem urðu í desember, 2) hvort stofnanirnar hefðu sérstakar viðbragðsáætlanir vegna þess og 3) hvort það væri mat viðkomandi stofnunar að hún væri vanbúin til að takast á við framangreindar náttúruvár og ef svo væri, hvað þyrfti að gera til að tryggja örugga þjónustu við slíkar aðstæður, auk kostnaðarmats. Svör frá öllum heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins hafa nýlega borist ráðuneytinu sem vinnur nú úr þeim.