Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 881  —  531. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2019.

1. Inngangur.
    Stærsta mál Evrópuráðsþingsins á árinu 2019 voru samskipti þingsins og Evrópuráðsins við Rússa. Árið 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum í Úkraínu og innlimunar Krímskaga. Hið sama gerðist þegar Rússar sendu landsdeild sína á Evrópuráðsþingið árið 2015 og höfðu Rússar ekki sent landsdeild síðan. Rússar höfðu því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins í fjögur ár og þar með ekki átt þátt í kjöri dómara við Mannréttindadómstól Evrópu eða framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Sumarið 2017 tilkynntu Rússar enn fremur að þeir hygðust halda eftir aðildargreiðslum sínum til stofnana Evrópuráðsins þar til þeim yrðu tryggð full þátttökuréttindi í öllum stofnunum ráðsins, þar á meðal Evrópuráðsþinginu. Í upphafi árs 2019 tilkynnti framkvæmdastjóri Evrópuráðsins um samdrátt í starfi Evrópuráðsins til að bregðast við breyttum fjárráðum.
    Á fundi sínum í apríl samþykkti þingið ályktun þar sem ákveðið var að setja á fót sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Málið var ekki óumdeilt en sérstaklega var tekið fram í ályktuninni að þessi sameiginlegi vettvangur kæmi ekki í stað heimilda Evrópuráðsþingsins til að svipta landsdeildir ýmsum réttindum. Utanríkisráðherrar Evrópuráðsins lýstu yfir stuðningi sínum við stofnun slíks sameiginlegs vettvangs á fundi sínum í maí. Undirbúningur er hafinn og hafa drög að reglum um þennan vettvang verið rædd á fundum formanna landsdeilda.
    Á júnífundi Evrópuráðsþingsins voru samþykktar breytingar á þingsköpum sem kveða á um að ekki sé hægt að svipta landsdeildir atkvæðisrétti, kosningarrétti, málfrelsi eða þátttökuréttindum í kjölfar athugasemda við kjörbréf. Vísað var til þess að þátttökuréttur aðildarríkja Evrópuráðsins á þinginu væri tryggður í stofnskrá ráðsins. Í kjölfarið kynntu Rússar nýja landsdeild og þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við kjörbréfin voru þau samþykkt án skilyrða eða sviptingar réttinda. Við samþykktina kallaði þingið eftir því að Rússar framfylgdu fyrri ályktunum þingsins um afnám innlimunar Krímskaga og störfuðu með eftirlitsaðilum Evrópuráðsins.
    Líkt og fyrri ár voru málefni flóttamanna ofarlega á baugi í starfi Evrópuráðsþingsins. Meðal ályktana sem samþykktar voru á árinu voru ályktun um hlutverk þróunarsamvinnu við að koma í veg fyrir fólksflutninga, ályktun um stöðu flóttafólks á grísku eyjunum, ályktun um að koma í veg fyrir ofbeldi gegn farandbörnum og misnotkun þeirra og ályktun um lagalega stöðu fólks á flótta undan afleiðingum loftslagsbreytinga. Á haustfundi Evrópuráðsþingsins var haldin sérstök umræða um björgun mannslífa á Miðjarðarhafi. Í ályktun þingsins var starfsemi frjálsra félagasamtaka fagnað en ítrekað að það væri á ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins að koma í veg fyrir drukknanir á Miðjarðarhafi.
    Liliane Maury Pasquier, forseti Evrópuráðsþingsins, beitti sér fyrir jafnréttismálum á árinu. Á stjórnarnefndarfundi í mars var sérstök umræða um Istanbúlsamninginn, sem kveður á um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, en innleiðing samningsins hefur mætt andstöðu í nokkrum Evrópulöndum. Í apríl samþykkti þingið ályktun um afnám kynjamismununar og kynferðislegrar áreitni í þingum. Ályktunin átti rætur sínar að rekja til rannsóknar á kynferðislegri áreitni meðal þingkvenna á Evrópuráðsþinginu og í Alþjóðaþingmannasambandinu á árinu 2018. Maury Pasquier hélt á lofti vitundarvakningu sem hún kynnti fyrst í kjölfar rannsóknarinnar en hún ber yfirskriftina „Ekki í mínu þingi“ (#NotInMyParliament). Meðal annars var Evrópuhöllin lýst upp í appelsínugulum litum á fundi stjórnarnefndar í nóvember til að vekja athygli á málefninu.
    Árið 2019 fjallaði Evrópuráðsþingið í fyrsta skipti um framfylgd Íslands á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu. Niðurstaða úttektarinnar var að Ísland framfylgdi skuldbindingum sínum að mestu leyti en þó voru gerðar athugasemdir við skort á aðhaldi gagnvart stofnunum lýðræðisins. Kallað var eftir umbótum og að brugðist yrði við tilmælum frá ríkjahópi gegn spillingu, GRECO, þ.m.t. með því að vinna gegn hagsmunatengslum ráðamanna og tryggja sjálfstæði löggæslustofnana.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Aðildarríkin eru nú 47 talsins með samtals um 800 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Með það að markmiði beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Mannréttindasáttmálinn er þeirra þekktastur og á honum grundvallast Mannréttindadómstóll Evrópu. Dómstóllinn tekur til meðferðar kærur frá aðildarríkjum, einstaklingum og hópum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmálans og eru dómar hans bindandi að þjóðarétti fyrir viðkomandi ríki.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007.
    Framkvæmdavald Evrópuráðsins er í höndum ráðherranefndarinnar, en í henni sitja utanríkisráðherrar aðildarríkjanna eða fastafulltrúar þeirra í Strassborg. Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga aðildarríkjanna en einnig hafa sveitar- og héraðsstjórnir aðildarríkjanna samráð á Ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Á Evrópuráðsþinginu eiga 324 fulltrúar sæti og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Hlutverk þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
          vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Sáttmáli Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn, er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins. Istanbúlsamningurinn tók gildi árið 2014 og Ísland fullgilti hann í apríl 2018.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi og Kósóvó undanskildum, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins árið 2019 voru Rósa Björk Brynjólfsdóttir formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður, þingflokki Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Miðflokksins. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
          Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Stjórnarnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
          Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Bergþór Ólason.
          Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
          Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Bergþór Ólason.
          Jafnréttisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    Flokkahópar Evrópuráðsþingsins skipuðu Íslandsdeildarmeðlimi í eftirfarandi nefndir:
          Þingskapanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
          Eftirlitsnefnd: Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
          Nefnd um val á dómurum við Mannréttindadómstól Evrópu: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varamaður.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var endurkjörin einn af 20 varaforsetum Evrópuráðsþingsins á janúarfundi þingsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sinnti embætti formanns laga- og mannréttindanefndar á árinu en hún var kjörin í embætti á árinu 2018. Í krafti embætta sinna sóttu Rósa Björk og Þórhildur Sunna fundi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins auk þess sem Þórhildur Sunna sótti einnig fundi stjórnarnefndar og sameiginlegrar nefndar Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var jafnframt tengiliður Alþingis við herferð Evrópuráðsþingsins um afnám ofbeldis gegn konum. Íslandsdeild var gestgjafi árlegs kvöldverðar landsdeilda Norðurlandanna á Evrópuráðsþinginu í júní 2019.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var á árinu skipuð framsögumaður skýrslu Evrópuráðsþingsins um að koma í veg fyrir ofbeldi gegn farandbörnum og misnotkun þeirra. Í tengslum við þá vinnu fór hún í vettvangsferð til Madrídar og Melilla auk þess sem hún stóð fyrir málstofu um aldursgreiningar flóttabarna sem haldin var í sal Þjóðminjasafnsins í mars í samvinnu við átaksverkefni Evrópuráðsþingsins um að binda enda á nauðungarvistun barna á flótta. Rósa Björk tók einnig þátt í pallborði á lokaráðstefnu átaksverkefnisins á júnífundi þingsins. Auk þess tók hún þátt í fundi formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslandanna í Ósló í maí í tilefni af 70 ára afmæli Evrópuráðsins.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um afnám kynjamismununar og kynferðislegrar áreitni í þingum og skýrslu um pólitíska fanga í Aserbaísjan. Hún fór í vettvangsferð til Aserbaísjan í september í tengslum við vinnu sína að ályktun um pólitíska fanga þar í landi. Í júlí ávarpaði hún hliðarviðburð um kynferðislega áreitni í þjóðþingum í tengslum við fund mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Hún hélt einnig erindi um sama efni á Ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna Evrópuráðsins í Münster í júní og tók þátt í fundi um viðbrögð við kynferðislegri áreitni í þjóðþingum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á vegum kvennahreyfingar demókrata og Alþjóðaþingmannasambandsins. Í október sótti Þórhildur Sunna fund Feneyjanefndarinnar fyrir hönd forseta Evrópuráðsþingsins. Þórhildur Sunna stóð einnig fyrir tveimur hliðarviðburðum á þingfundavikum í Strassborg, annar fjallaði um leit að réttlæti í kjölfar morðsins á maltnesku fjölmiðlakonunni Daphne Caruana Galizia og hinn um rannsókn á tildrögum þess að flugi Malaysian Airlines var grandað yfir Úkraínu árið 2014.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum Evrópuráðsþingsins.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2019.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 21.–25. janúar 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Birgir Þórarinsson, varamaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins að þessu sinni var m.a. úttekt á framfylgd skuldbindinga Íslands, vaxandi átök milli Úkraínumanna og Rússa á Asovshafi, deilur Rússa og Evrópuráðsins og fjármál ráðsins í kjölfarið og frjáls fjölmiðlun.
    Við opnun þingfundar var mínútu þögn til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar í Strassborg í desember 2018 og Pawels Adamowicz, borgarstjóra Gdansk, sem myrtur var í janúar 2019. Liliane Maury Pasquier var endurkjörin forseti Evrópuráðsþingsins og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hlaut einnig endurkjör sem einn 20 varaforseta þingsins. Í opnunarávarpi sínu sagði Maury Pasquier að á 70. afmælisári Evrópuráðsins og þingsins væri mikilvægt að minnast þess í hvaða tilgangi samtökin hefðu verið stofnuð. Evrópuráðið hefði verið vettvangur sátta og friðar í kjölfar seinni heimsstyrjaldar og væri núna sá samevrópski samstarfsvettvangur þar sem flest Evrópulönd kæmu saman. Lýðræði og öryggi í Evrópu væri ávinningur þessa samstarfs en aldrei mætti ganga að friði sem vísum.
    Á þinginu var til umræðu skýrsla eftirlitsnefndar þingsins og þar á meðal sérstök úttekt á framfylgd skuldbindinga Íslands gagnvart Evrópuráðinu. Þetta var í fyrsta skipti sem eftirlitsnefnd gerði slíka úttekt á Íslandi, en árið 2014 var reglum breytt á þann veg að öll aðildarríki Evrópuráðsins sæta nú eftirliti með framfylgd skuldbindinga sinna, með mislöngu millibili þó. Í skýrslunni um Ísland kom fram að Ísland framfylgdi skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu að mestu leyti. Í ályktun sinni benti þingið á að vegna smæðar landsins hefðu Íslendingar í mörgum tilvikum valið að láta óformlegar reglur nægja, frekar en að setja lög. Afleiðingarnar væru að lýðræðislegar stofnanir landsins væru veikar og lytu ekki nægilegu aðhaldi. Evrópuráðsþingið kallaði eftir umbótum til að ráða bug á þessu. Einnig var kallað eftir því að farið yrði eftir tilmælum úr fjórðu og fimmtu úttektum ríkjahóps gegn spillingu, GRECO, m.a. með því að vinna gegn hagsmunatengslum ráðamanna, endurskoða reglur um atvinnu eftir brotthvarf úr ábyrgðarstöðum og að tryggja sjálfstæði löggæslustofnana gagnvart stjórnvöldum. Einnig var mælst til þess að sett yrði á fót mannréttindastofnun og að sett yrðu heildstæð lög um bann við hvers konar mismunun.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna, sagðist taka tillögum eftirlitsnefndar hvað varðar Ísland fagnandi. Hún lýsti vonbrigðum sínum með það að Alþingi hefði ekki lokið lögfestingu nýrrar stjórnarskrár og benti á að vilji þjóðarinnar hefði verið skýr í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2011. Hún sagði rétt að stjórnvöld þyrftu að þróa heildstæða stefnu til að takast á við spillingu og hagsmunatengsl í stjórnsýslunni. Þrátt fyrir að Ísland væri oft álitið fyrirmynd annarra ríkja í jafnréttismálum væri enn á brattann að sækja í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og þar væri þörf á umbótum í löggjöf sem hefði þarfir fórnarlamba að leiðarljósi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði skýrslu eftirlitsnefndar um Ísland vera heldur of jákvæða. Hún benti á að frá því að skýrslan var gerð hefðu komið fram fleiri vísbendingar um spillingu á Íslandi. Hún sagði frá upptökum af samtölum þingmanna á Klaustri þar sem rætt hefði verið um samkomulag um skipan sendiherra árið 2014. Þórhildur Sunna benti á að þrátt fyrir að í skýrslunni væri lýst áhyggjum af því að réttað hefði verið yfir Geir H. Haarde fyrir Landsdómi hefði Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að réttarhöldin hefðu ekki brotið gegn mannréttindasáttmálanum.
    Í umræðum um skýrslu framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir ánægjulegt að sjá að hlutfall kvenna í trúnaðarstöðum fyrir Evrópuráðsþingið hefði hækkað frá fyrra ári. Hún benti á að enn ætti þingið langt í land með að ná kynjajafnrétti meðal þingmanna en að hlutfall kvenna í landsdeildum Evrópuráðsþingsins væri þó hærra en á þjóðþingum aðildarríkjanna. Það væri að þakka reglum þingsins um skipan landsdeilda sem kveða á um að hlutfall þess kyns sem hallar á í þjóðþinginu verði ávallt að vera jafnhátt eða hærra innan landsdeildar viðkomandi lands. Í umræðum um skýrslur kosningaeftirlitsnefnda sagði Birgir Þórarinsson frá ferð sinni til að sinna eftirliti með forsetakosningum í Georgíu í október 2018. Hann gagnrýndi tilraunir stjórnarflokksins Georgia Dream til að kaupa sínum frambjóðanda atkvæði með því að lofa víðtækum skuldaniðurfellingum skömmu fyrir forsetakosningarnar. Auk þess hefðu verið gerðar athugasemdir við fjármögnun kosningabaráttunnar, umfjöllun fjölmiðla og talningu atkvæða.
    Í frjálsum umræðum vakti Rósa Björk Brynjólfsdóttir máls á málefnum flóttamanna á Miðjarðarhafi. Hún gagnrýndi að Evrópusambandslönd sendu flóttafólk sem bjargað væri á Miðjarðarhafi til Líbíu. Benti hún á að fólkið sætti illri meðferð í flóttamannabúðum í Líbíu og lenti jafnvel í höndum smyglara og þrælasala. Evrópulönd þyrftu að bjóða flóttafólki upp á örugga leið til að sækja um dvalarleyfi og hæli.
    Þingið samþykkti að halda sérstaka umræðu um siglingar á Asovshafi, en í nóvember 2018 stöðvuðu Rússar úkraínsk herskip þar og fangelsuðu 24 úkraínska hermenn. Í ályktun sinni kallaði þingið eftir því að úkraínsk og rússnesk stjórnvöld virtu sáttmála um Asovshaf og Kertssund frá 2003 þar sem kveðið er á um frjálsa för skipa beggja landa um hafsvæðið. Kallað var eftir því að Rússar létu hermennina lausa tafarlaust. Í ræðu sinni fagnaði Birgir Þórarinsson stofnun úkraínskrar rétttrúnaðarkirkju sem mun taka við af rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni í landinu. Birgir benti á að rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefði þjónað hagsmunum Rússa með því að aðstoða rússneska vígamenn og breiða út hatur og tortryggni. Mikilvægt væri að Evrópulönd fylgdust náið með þróun úkraínsku kirkjunnar og gripu í taumana ef þessar víðtæku samfélagslegu breytingar leiddu til stigmögnunar ofbeldis á svæðinu eða meðal tengdra trúfélaga á Balkanskaga.
    Í ályktun um netið og mannréttindi kallaði þingið eftir því að aðildarríki fjárfestu í almennum aðgangi að netinu og beittu sér á alþjóðavettvangi fyrir því að netþjónustuaðilar meðhöndli alla viðskiptavini og allar upplýsingar eins. Einnig voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að berjast gegn tölvuglæpum og hindrunum gegn tjáningarfrelsi á netinu. Í ræðu fyrir hönd síns flokkahóps benti Rósa Björk Brynjólfsdóttir á að netið hefði tekið svo hröðum breytingum á síðustu árum að ekki hefði tekist að þróa lagaumgjörðina að sama skapi. Mikilvægt væri að standa vörð um mannréttindi á borð við réttinn til einkalífs og vinna gegn kynferðislegri áreitni á netinu.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um leiðbeiningar varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur, viðbrögð við máli Sergeis Magnitskys, hvernig sharía-lög samræmdust mannréttindasáttmála Evrópu, um hlutverk ríkisfjölmiðla á tímum falsfrétta, um fjölmiðlafrelsi og kosningar og um bætta framfylgd tilmæla Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum.
    Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, ávarpaði einnig þingið. Erik Wennerström var kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Svíþjóð og Raffaele Sabato fyrir Ítalíu. Á fundi þingskapanefndar kynnti Thorbjörn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, áætlanir um niðurskurð í fjármálum Evrópuráðsins til að bregðast við því að Rússar hefðu ekki greitt aðildargjöld sín frá árinu 2017.
    Samhliða þingfundi fundaði Íslandsdeild með landsdeildum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Á fundinn mætti Andrius Kubilius, fyrrverandi forsætisráðherra Litháens og einn frambjóðenda til embættis framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Íslandsdeild lagði fram tillögu um sérstaka umræðu um baráttu gegn kynferðislegri áreitni í þjóðþingum en tillagan hlaut ekki brautargengi á fundi framkvæmdastjórnar þingsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði fram tillögu að ályktun um sama efni sem vísað var áfram til jafnréttisnefndar til skýrslugerðar.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 1. mars 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá var umræða um framfylgd Istanbúlsamningsins, áhrif markaðsuppbyggingar á þróun lýðræðis og þáttur þróunarsamvinnu í að koma í veg fyrir fólksflutninga.
    Stjórnarnefnd hélt umræðu um sáttmála Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem einnig er nefndur Istanbúlsamningurinn. Við það tækifæri minnti Liliane Maury Pasquier, forseti Evrópuráðsþingsins, á átak þingsins til að vekja athygli á umfangi ofbeldis gegn konum í stjórnmálum. Hún ítrekaði að eingöngu samfélag byggt á jafnrétti, þar sem karlar og konur nytu virðingar, gæti þróast á jákvæðan hátt. Á fund stjórnarnefndar komu Feride Acar, formaður sérfræðingahóps um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi (GREVIO), og Dubravka Simonovic, sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um kynbundið ofbeldi (e. UN Special Rapporteur on violence against women). Acar sagði frá starfi sérfræðingahópsins við að fylgjast með fullgildingu og innleiðingu Istanbúlsamningsins. Hún sagði helstu áskorunina við að innleiða samninginn felast í vaxandi andstöðu og fordómum gagnvart samningnum. Hún sagði hugmyndafræðilega andstöðu við samninginn vera í mörgum tilvikum byggða á þeim misskilningi að með innleiðingu samningsins yrði brautin rudd fyrir hjónabönd samkynhneigðra og grafið undan hefðbundnu fjölskyldumynstri. Ekkert væri í samningnum um hjónabönd samkynhneigðra en hins vegar væri sett fram sú staðhæfing að ofbeldi gegn konum ætti uppruna sinn í kynjamisrétti. Simonovic sagði mikilvægt að hraða jafnréttisbaráttunni. Konur væru enn í minni hluta í valdastöðum samfélagsins og mikilvægt væri að berjast gegn ofbeldi gegn konum í stjórnmálum og í kringum kosningar. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti á að hlutfall kvenna á Alþingi hefði lækkað í síðustu kosningum og að kynbundin hatursorðræða í stjórnmálum væri vandamál. Hún spurði hvernig best væri að vinna gegn bakslagi í jafnréttismálum, sérstaklega innan þjóðþinga. Acar sagði bakslag í jafnréttisumræðu hafa þau áhrif að stjórnmálamenn væru hikandi við að innleiða Istanbúlsamninginn. Í samfélaginu þyrfti að verða hugarfarsbreyting þannig að tengslin milli kynbundins ofbeldis og kynjamisréttis væru viðurkennd. Rósa Björk Brynjólfsdóttir spurði um næstu skref varðandi fullgildingu Istanbúlsamningsins í Búlgaríu þar sem stjórnlagadómstóll landsins komst að þeirri niðurstöðu að Istanbúlsamningurinn væri í andstöðu við stjórnarskrána. Simonovic ítrekaði að öll aðildarríki Evrópuráðsins hefðu fullgilt forvera Istanbúlsamningsins, samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), sem fæli í sér mörg ákvæða Istanbúlsamningsins. Í væntanlegri skýrslu sinni um stöðu jafnréttismála í Búlgaríu mundi Simonovic meta árangur stjórnvalda við að efna skuldbindingar landsins með tilliti til samningsins.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun um fjárfestingar Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD). Samkvæmt samstarfssamningi bankans og Evrópuráðsins frá árinu 1992 hefur Evrópuráðsþingið þinglegt eftirlit með starfsemi bankans. Í skýrslu ályktunarinnar var þeirri spurningu velt upp hvort bankinn stuðlaði í raun að lýðræðisþróun með fjárfestingum sínum. Bent var á að Endurreisnar- og þróunarbankinn hefði verið stofnaður á grundvelli kenninga um að uppbygging markaðshagkerfis leiddi til þróunar lýðræðis. Fræðimenn hefðu hins vegar ekki fundið óyggjandi sannanir fyrir þessu orsakasambandi. Úkraína var nefnd sem dæmi um land þar sem markaðshagkerfi hefði þróast á sama tíma og lýðræði hefði hrakað. Nauðsynlegt væri að auka eftirlit Evrópuráðsþingsins með starfsemi bankans, sérstaklega eftirlit með því að fjárfestingar leiddu í raun af sér jákvæða þróun lýðræðisstofnana. Í máli framsögumanns kom fram að bankinn gerði enga tilraun til að meta áhrif fjárfestinga sinna á lýðræðisþróun. Hann sagði mikilvægt að gera upp við sig hvort bankinn ætti að sinna þessu yfirlýsta markmiði sínu. Ef tilgangur bankans væri að stuðla að uppbyggingu lýðræðis, líkt og fram kæmi í fyrstu grein stofnskrár hans, þyrfti bankinn að setja sér skýrar verklagsreglur um það hvaða skilyrði samstarfslöndin þyrftu að uppfylla til þess að tryggja sér fjárfestingu frá Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. Í ályktun þingsins er bankinn hvattur til að rannsaka tengsl milli fjárfestinga sinna og lýðræðisþróunar í samstarfslöndunum. Þingið einsetur sér að halda áfram eftirlitshlutverki sínu með bankanum, sérstaklega varðandi stjórnmálaleg áhrif fjárfestinga hans.
    Á fundi stjórnarnefndar var samþykkt einróma ályktun um hlutverk þróunarsamvinnu sem tæki til þess að koma í veg fyrir stórtæka fólksflutninga. Í ályktuninni voru aðildarríki hvött til þess að fjárfesta meira í Afríku. Bent var á að aðgerðir til að stemma stigu við straumi flóttamanna frá Afríku til Evrópu hefðu takmörkuð áhrif. Aukin uppbygging í Afríku stuðlaði frekar að friði og öryggi í Evrópu til framtíðar. Mikilvægt væri að ráðast að rótum vandans og takast á við ástæður þess að fólk flýr heimili sín. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á að líklegt væri að milljónir íbúa Afríku mundu yfirgefa heimili sín á næstu árum vegna áhrifa loftslagsbreytinga og sagði mikilvægt að íhuga hvort ganga þyrfti lengra í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en Parísarsamkomulagið gerði ráð fyrir.
    Á fundi stjórnarnefndar samþykkti þingið einnig ályktanir og tilmæli um verndun mannréttinda við flutning fanga, streitu á vinnumarkaði, verndun menningararfs í Evrópu og gildi menningararfs í lýðræðislegu samfélagi.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 8.–12. apríl 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bergþór Ólason, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins að þessu sinni var m.a. uppræting kynferðislegrar áreitni í þjóðþingum, deilur Rússa og Evrópuráðsins og barátta gegn hatursorðræðu.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var framsögumaður skýrslu um afnám kynjamismununar og kynferðislegrar áreitni í þingum. Hún benti á að hversdagsleg kynjamismunun litaði samfélagið og hefði hamlandi áhrif á líf kvenna og stuðlaði að ofbeldi gegn konum. Jafnvel á Íslandi, sem álitið væri eitt af þeim löndum sem lengst væri á veg komið í átt að jafnrétti kynjanna, hefði náðst upptaka af hópi þingmanna sem viðhöfðu gróft orðfæri um stjórnmálakonur. Engin viðurlög væru fyrir hendi við slíkri hegðun. Stjórnmálamenn bæru sérlega mikla ábyrgð á að forðast hatursorðræðu og kynjamismunun vegna þess að ef ákveðin hegðun væri samþykkt inni á þingi væri sú hegðun einnig samþykkt í samfélaginu í heild. Í ræðu sinni benti Bergþór Ólason á þá efnisgrein skýrslunnar sem Þórhildur Sunna vísaði í og sagði frásögnina af hinu íslenska máli vekja efasemdir um heilindi skýrslunnar í heild. Augljóst væri af efnisgreininni að stjórnmálamenn hikuðu ekki við að koma höggi hver á annan í pólitískum tilgangi áður en allar staðreyndir mála lægju fyrir. Hann sjálfur væri einn af þingmönnunum sex sem setið hefðu á umræddum bar og á síðustu fjórum mánuðum hefðu komið í ljós sannanir fyrir því að ummæli hefðu verið tekin úr samhengi og að ólögleg upptaka hefði átt sér stað undir öðrum kringumstæðum en sá sem hana tók hefði upphaflega haldið fram. Hann ítrekaði að þingmenn yrðu að eiga rétt á einkalífi og sömuleiðis á réttlátri málsmeðferð ef þeir gerðust uppvísir að óviðurkvæmilegri hegðun. Hann varaði við því að styðja tillögur ályktunarinnar um viðurlög við kynferðislegri áreitni og ummælum og sagðist efast um að pólitískir andstæðingar gætu fjallað á hlutlausan hátt um meint brot. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði þingmenn verða að líta kynjamismunun alvarlegum augum. Hún benti á að þingkonur hefðu einstaka möguleika á að vekja athygli á málefninu og sagði þing verða að setja sér siðareglur sem tækju á kynferðislegri áreitni af alvöru. Hún studdi tillögur í ályktuninni um að setja á fót einhvers konar viðurlög við brotum á siðareglum. Þórhildur Sunna lokaði umræðum og beindi orðum sínum til Bergþórs þegar hún sagði skýrsluna hafa pólitískan tilgang í þeim skilningi að hún réðist að því umhverfi stjórnmálanna þar sem gert væri lítið úr konum vegna kynferðis þeirra.
    Í ályktun þingsins voru þjóðþing aðildarríkja Evrópuráðsins hvött til þess að endurskoða siðareglur sínar í því augnamiði að banna hatursorðræðu sem litast af kynjamismunun auk þess að banna kynferðislega áreitni og að setja viðeigandi viðurlög við slíku hátterni. Einnig voru þingin hvött til að auka fræðslu og rannsóknir og að kynna þingmönnum og starfsfólki niðurstöður rannsóknar á kynferðislegri áreitni og ofbeldi í þjóðþingum Evrópu frá haustinu 2018 sem unnin var í samstarfi Evrópuráðsþingsins og Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Þingið samþykkti að halda sérstaka umræðu um hlutverk og verkefni Evrópuráðsþingsins. Um var að ræða skýrslu og ályktun sem hefði átt að taka á dagskrá þingsins á júnífundi en ákveðið var að flýta umræðunni til þess að unnt yrði að ræða tillögur þingsins á fundi utanríkisráðherra Evrópuráðsins í maí. Umdeildasta grein ályktunarinnar kvað á um að stofna ætti sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Í kjölfar heitra umræðna í stjórnmálanefnd þingsins og í þingsal var ályktunin samþykkt með breytingu á orðalagi sem gerir ljóst að slíkur sameiginlegur vettvangur kemur ekki í stað þeirra valdheimilda sem Evrópuráðsþingið hefur, m.a. til þess að svipta landsdeildir ýmsum réttindum. Í ræðu sinni sagðist Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fagna tillögum skýrslunnar um aukna samvinnu Evrópuráðsþingsins við ráðherranefnd Evrópuráðsins. Mikilvægt væri að brúa það bil sem hefði skapast milli þessara tveggja stoða Evrópuráðsins, til hagsbóta fyrir stofnunina og baráttuna fyrir mannréttindum í Evrópu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir hvatti meðlimi þingsins til að vinna að lausn deilunnar milli Evrópuráðsins og Rússa og berjast fyrir framtíð Evrópuráðsins. Tillögur ályktunarinnar væru til þess fallnar að bæta samstarf þingsins og ráðherranefndarinnar og stuðla að því að halda Rússum innan Evrópuráðsins.
    Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og lagði sérstaka áherslu á tilraunir sínar til að stuðla að lausn deilunnar milli Rússa og Evrópuráðsins. Hann ítrekaði að Evrópuráðið fordæmdi ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga og að Rússum bæri skylda til að greiða aðildargjöld sín að Evrópuráðinu. Hann lýsti ánægju sinni með tillögur um stofnun sameiginlegs vettvangs Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar. Sameiginleg viðbrögð mundu styrkja Evrópuráðið í heild og auka lögmæti ákvarðana um refsingar gagnvart aðildarríkjum. Rósa Björk Brynjólfsdóttir vakti máls á neikvæðri þróun á viðhorfum almennings á Norðurlöndunum til innflytjenda og flóttamanna. Hún benti á að meðlimir nokkurra stjórnmálaflokka á Norðurlöndum væru mjög andvígir innflytjendum og að fylgi þeirra færi vaxandi í mörgum landanna. Soini sagði að Norðurlöndin og flest Evrópulönd ættu það sameiginlegt að þau skorti samstöðu um hvers konar stefnu þau vildu fylgja í innflytjendamálum. Nauðsynlegt væri að koma á skýrari leiðum fyrir innflytjendur til að sækja um dvalarleyfi á Norðurlöndum til að koma í veg fyrir að smyglarar notfærðu sér neyð fólks með fölskum loforðum. Evrópulönd þyrftu auk þess að standa við skuldbindingar sínar um dreifingu flóttamanna sem sæktust eftir alþjóðlegri vernd í Evrópu.
    Í umræðum um breytingar á þingsköpum talaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir hönd flokkahóps sósíalista, demókrata og græningja. Hún lýsti ánægju sinni með breytingu á reglum um myndun nýrra flokkahópa. Með breytingunni var hnykkt á því skilyrði að flokkahópar skuldbyndu sig til að verja gildi Evrópuráðsins. Hún lýsti einnig vilja sínum til þess að starfandi flokkahópum væri gert að mæta þessu skilyrði, ellegar verða leystir upp.
    Í umræðum um hlutverk stjórnmálaleiðtoga í baráttu gegn hatursorðræðu sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem talaði fyrir hönd flokkahóps vinstri manna, stjórnmálamenn bera fulla ábyrgð á því hvernig þeir sjálfir töluðu og hvernig þeir brygðust við hatursorðræðu frá öðrum. Þrátt fyrir að línan á milli tjáningarfrelsis og hatursorðræðu gæti stundum verið óljós þá ætti öllum að vera ljóst að tjáningarfrelsi næði ekki yfir orðræðu kynþáttafordóma og hvatningu til mismununar eða ofbeldis.
    Í frjálsum umræðum vakti Rósa Björk máls á málefni Katalóníu. Hún sagði óásættanlegt að stjórnmálamenn og fulltrúar frjálsra félagasamtaka, sem barist hefðu fyrir málstað sínum á friðsamlegan hátt, sætu í fangelsi í ár án þess að dómur hefði fallið. Réttarhöldin yfir 12 kjörnum fulltrúum Katalóníu í Madríd væru að hennar mati pólitísk réttarhöld.
    Í umræðum um alþjóðlega baráttu gegn peningaþvætti, spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi sagði Rósa Björk peningaþvætti skýra ógn við lýðræðið. Nýleg dæmi um stórtækt og þaulskipulagt peningaþvætti, m.a. með aðstoð útibús Danske Bank, sýndu fram á að vandamálið væri alþjóðlegt. Aðeins með samvinnu milli ríkja væri hægt að berjast gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um framfylgd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, boðaða eftirlitsstofnun Evrópusambandsins um lýðræði, réttarríkið og mannréttindi, hatursorðræðu í íþróttum, stöðu flóttafólks og innflytjenda á grísku eyjunum, réttindi barna og foreldra í tengslum við gjafasæði og gjafaegg og samspil samfélagsmiðla og mannréttinda.
    Mamuka Bakhtadze, forsætisráðherra Georgíu, og Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, ávörpuðu þingið, auk þess sem Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sat fyrir svörum. Dunja Mijatovic, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, flutti einnig árlega skýrslu sína til þingsins. Saadet Yüksel var kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Tyrkland og Lorraine Schembri Orland fyrir Möltu. Samhliða þingfundi fundaði Íslandsdeild með landsdeildum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París 24. maí 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundurinn var haldinn í París, en Frakkland fór með formennsku í Evrópuráðinu frá maí og fram í nóvember 2019. Á dagskrá voru ályktanir og skýrslur um loftgæði í Evrópu, sjálfbæra byggðaþróun, heilsu unglinga og samstarf þingsins við Marokkó.
    Carole Bureau-Bonnard, varaforseti franska þingsins, setti fundinn. Hún sagði þingmennina leika lykilhlutverk í starfi Evrópuráðsins. Með kosningu nýs framkvæmdastjóra ráðsins gætu þingmennirnir markað ráðinu stefnu til framtíðar. Amélie de Montchalin, undirráðherra Evrópumála í utanríkisráðuneyti Frakklands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur franskra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði. Hún sagði Frakka álíta það mikinn heiður að fá að stýra Evrópuráðinu á 24 ára fresti. Á þeim tímapunkti væri mikilvægt að auka samheldnina milli ráðherranefndar Evrópuráðsins og þingsins. Ákvörðun ráðherranefndarinnar á fundi sínum í Helsinki í maí hefði verið samhljóða ályktun Evrópuráðsþingsins frá aprílfundi sínum. Í ákvörðuninni væri kveðið á um að setja á fót sameiginlegan vettvang Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylli ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Hún hvatti þingmennina til að láta þetta tækifæri ekki renna sér úr greipum. Enginn gæti sigrað í deilunni á kostnað annars. Sigur fælist í því að Evrópuráðið gæti aftur nýtt krafta sína í þau málefni sem skiptu mestu máli fyrir borgara landanna, þau málefni sem ráðið hefði verið stofnað til að takast á við. De Montchalin ítrekaði að framferði Rússa í Úkraínu væri óásættanlegt og brot á alþjóðalögum. Hins vegar hefði Evrópuráðinu ekki tekist að leysa deiluna með því að svipta rússnesku landsdeildina atkvæðisrétti. Evrópuráðinu bæri skylda til að veita öllum 800 milljónum íbúa Evrópu vernd með starfsemi Mannréttindadómstólsins og annarra stofnana Evrópuráðsins, burtséð frá ákvörðunum þeirra eigin stjórnmálamanna. Undanfarin fimm ár hefði Evrópuráðið hins vegar verið undirlagt af þessari einu deilu og þannig hefði einum aðila tekist að lama starfsemi ráðsins. Á næstunni tæki við vinna innan Evrópuráðsins við að móta þennan nýja vettvang til úrlausnar ágreiningsmála. Tryggja þyrfti að viðbrögð við því þegar ríki framfylgdi ekki skuldbindingum sínum yrðu hröð því að þekkt væri að tíminn gerði alþjóðleg átök erfiðari úrlausnar.
    Í forgrunni formennskutíðar Frakka var að standa vörð um sameiginleg gildi og stuðla að félagslegum og efnahagslegum framförum. Amélie de Montchalin sagði Mannréttindadómstólinn vera dæmi um það hversu miklum árangri alþjóðlegt samstarf gæti náð. Í formennskutíð sinni lögðu Frakkar áherslu á að standa vörð um afrek Evrópuráðsins á vettvangi mannréttinda og undirbúa ráðið undir áskoranir framtíðar. Lögð væri áhersla á að hvetja sem flest aðildarríki til að skrifa undir og fullgilda samning um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi sem oftast er nefndur Istanbúlsamningurinn.
    Á fundi stjórnarnefndar ræddu þingmenn skýrslu um samstarf Evrópuráðsþingsins við þjóðþing Marokkó (e. partnership for democracy). Í skýrslunni kom fram að marokkósk stjórnvöld hefðu náð áþreifanlegum árangri á vettvangi réttarríkisins, sérstaklega með auknu sjálfstæði dómstóla. Enn væri þó mikið verk óunnið þegar kæmi að verndun mannréttinda. Í ályktun sinni hvatti þingið marokkósk stjórnvöld til að afnema dauðarefsingu, koma í veg fyrir brot á réttindum fjölmiðlafólks og á félagafrelsi og að tryggja konum og körlum jöfn tækifæri. Þingið ákvað að halda áfram að meta innleiðingu umbóta í Marokkó og endurmeta samstarfið með reglulegu millibili. Þingið samþykkti breytingartillögu við ályktunina sem lögð var fram af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur með stuðningi Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og fleiri þingmanna. Með breytingunni voru marokkósk stjórnvöld hvött til að hætta tafarlaust að framfylgja ákvæðum í hegningarlögum landsins sem lytu að banni við kynlífi einstaklinga af sama kyni og kynlífi utan hjónabands.
    Í ályktun þingsins um loftgæði í Evrópu kom fram að fleiri létust af völdum loftmengunar á ári hverju en af völdum reykinga. Ályktunin skilgreindi loftgæði sem mannréttindi og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að gangast undir áhrifaríkara opinbert regluverk til að draga úr loftmengun. Einnig voru aðildarríki hvött til þess að auka samstarf sitt við Umhverfisstofnun Evrópu varðandi gagnaöflun um loftgæði og til að bæta upplýsingagjöf til almennings um loftgæði í rauntíma. Aðildarríki voru hvött til að grípa til aðgerða á borð við að draga úr eða banna umferð, fjölga göngugötum og skipuleggja samgöngur í tengslum við byggðaþróun. Einnig voru þau hvött til að koma á „hreinum loftsvæðum“ í kringum skóla og leikskóla og draga úr notkun dísilknúinna bíla.
    Þingið samþykkti ályktun um sjálfbæra þróun byggðar sem styddi við félagslega aðlögun. Í skýrslu ályktunarinnar var bent á að þrír fjórðu hlutar Evrópubúa byggju í þéttbýli. Það hefði áhrif á nýtingu rýmis og aðgengi að störfum og húsnæði, svo og umhverfisáhrif. Þéttbýlisþróun skapaði þó einnig tækifæri til að bregðast við loftslagsáhrifum með skilvirkum og hagkvæmum hætti með markvissri stefnumótun. Í ályktun sinni hvatti þingið aðildarríki til þess að efla stefnumótun hvað varðar sjálfbæra þéttbýlisþróun og tryggja aðkomu hins opinbera að byggðaþróun. Einnig voru sveitarfélög hvött til að setja samheldni samfélaga og mannréttindi í forgang þegar kæmi að stefnumótun í málaflokknum og horfa sérstaklega til þarfa barna, eldri borgara, kvenna, innflytjenda og flóttafólks, fátækra og fatlaðra. Aðildarríki voru hvött til að blanda saman íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og afþreyingu til að minnka þörf fyrir samgöngur og auka lífsgæði íbúanna. Einnig voru þau hvött til að nýta tækniþróun til að auka gagnsæi ákvarðana og auka þátttöku almennings í málefnum sveitarstjórna.
    Á fundi stjórnarnefndar var einnig samþykkt einróma ályktun um þarfir unglinga í heilbrigðismálum. Skýrsluhöfundur beindi sjónum sérstaklega að áskorunum á borð við kvíða og þunglyndi, átraskanir, kynheilbrigði og fíknisjúkdóma. Í ályktuninni hvatti Evrópuráðsþingið aðildarríki til að auka áherslu á heilsu ungmenna og tryggja að þjónusta við ungt fólk væri bæði aðgengileg og ókeypis. Einnig voru aðildarríkin hvött til að stuðla að auknum rannsóknum á þörfum unglinga og styðja við aðkomu þeirra að ákvörðunum um heilbrigðisþjónustu. Að lokum voru aðildarríki beðin um að tryggja að á námskrá skóla væri fræðsla um félagsleg og sálræn mál, þar á meðal kynfræðsla. Á fundi stjórnarnefndar samþykkti þingið einnig ályktun um ræktun persónulegs þroska og hæfni á sviði lista og menningar fyrir tilstilli menntunar auk þess sem fjallað var um framkvæmd kosningaeftirlits Evrópuráðsþingsins í Norður-Makedóníu og Úkraínu í mars, apríl og maí.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. júní 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins bar hæst breytingar á þingsköpum og endurkomu Rússa á þingið eftir fjögurra ára fjarveru.
    Á fyrsta þingfundardegi voru teknar fyrir tillögur þingskapanefndar Evrópuráðsþingsins um breytingar á þingsköpum hvað varðar heimildir þingsins til að svipta landsdeildir atkvæðisrétti. Eftir langa fundi og afgreiðslu rúmlega 200 breytingartillagna samþykkti þingið að bæta við þingsköp efnisgrein sem kveður á um að ekki sé hægt að svipta landsdeildir atkvæðisrétti, kosningarrétti, málfrelsi eða þátttökuréttindum í kjölfar athugasemda við kjörbréf. Vísað var til þess að þátttökuréttur aðildarríkja Evrópuráðsins á þinginu væri tryggður í stofnskrá ráðsins. Einnig samþykkti þingið að víkja frá ákvæði þingskapa sem kveður á um að kjörbréf landsdeilda verði að hafa borist fyrir fyrsta þingfund ársins. Þessi undanþága var gerð til þess að gera Rússum kleift að kynna landsdeild sína á júnífundinum og taka þátt í kosningu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Í ræðu sinni ítrekaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að hún teldi það mikilvægt fyrir framtíð Evrópuráðsins að samþykkja ályktunina. Evrópuráðsþingið væri ekki að gefast upp heldur bregðast við þeirri stöðu sem upp væri komin þegar ráðherranefndin væri ekki tilbúin til þess að taka þátt í þeim þvingunaraðgerðum sem þingið hefði samþykkt. Þingið gæti þá tekið til við að kalla Rússa til ábyrgðar inni á þinginu. Hún kallaði einnig eftir því að þingmenn virtu lýðræðislega umræðu og forðuðust að saka hver annan um svik við gildi ráðsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði Evrópuráðsþingið standa frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Hægt væri að færa rök fyrir því að þingið væri að veikja stöðu sína með því að breyta reglum um möguleika á sviptingu atkvæðisréttar landsdeilda. Nauðsynlegt væri að vega og meta kosti og galla við þessa aðgerð. Í hennar huga væri markmiðið að standa vörð um mannréttindi milljóna Rússa, sem væru áfram undir vernd Evrópuráðsins. Innlimun Krímskaga hefði verið gegn alþjóðalögum og ætti að draga til baka. Hins vegar ættu þvingunaraðgerðir að vera í höndum ríkisstjórna en ekki þinga.
    Á öðrum degi þingfunda lagði rússneska sendinefndin fram kjörbréf sín og voru gerðar athugasemdir við kjörbréfin bæði á efnislegum grundvelli og formlegum grundvelli (e. procedural grounds). Niðurstaða þingfundar var að samþykkja kjörbréf Rússa án skilyrða eða sviptingar réttinda landsdeildarinnar. Í ályktuninni var vísað til þess að utanríkisráðherrar aðildarríkjanna, á fundi sínum í Helsinki í maí, hefðu sérstaklega farið þess á leit við Evrópuráðsþingið að allar landsdeildir tækju þátt í kjöri framkvæmdastjóra ráðsins á júnífundi þingsins. Engu að síður kallaði þingið eftir því að Rússar framfylgdu fyrri ályktunum þingsins um afnám innlimunar Krímskaga og yrðu samstarfsfúsir við eftirlitsaðila ráðsins og annarra stofnana. Einnig var kallað eftir því að Rússar létu tafarlaust lausa 24 Úkraínumenn sem teknir voru höndum á Asovshafi í nóvember 2018, greiddu aðildargjöld sín til Evrópuráðsins, ynnu með hollenskum og alþjóðlegum aðilum vegna rannsókna á flugi MH17 sem grandað var og stæðu vörð um mannréttindi hinsegin fólks. Eftirlitsnefnd þingsins var beðin um að hefja tafarlaust eftirlit með framfylgd Rússa á skuldbindingum sínum gagnvart Evrópuráðinu og skila skýrslu sinni í apríl á næsta ári.
    Úkraínumenn lýstu vonbrigðum sínum með ákvörðun þingsins varðandi breytingar á þingsköpum og sögðu hana hafa grafið undan trúverðugleika þingsins og alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússum. Úkraínumenn, Bretar og þingmenn Eystrasaltsríkja voru meðal þeirra sem hvöttu þingmenn til að styðja breytingartillögur við ályktunina um kjörbréf Rússa. Sumar tillögurnar gerðu ráð fyrir skilyrðum við samþykkt kjörbréfa Rússa og aðrar sviptu rússnesku landsdeildina ýmsum réttindum, t.d. til þátttöku í kosningaeftirliti á vegum þingsins. Formaður rússnesku landsdeildarinnar sagði Rússa líða fyrir rangfærslur Úkraínumanna og dreifingu falsfrétta. Hann sagði vernd mannréttinda vera grundvallarstoð í rússnesku samfélagi og mikilvægt væri að Rússar gætu átt í samræðum við Evrópulönd á jafningjagrundvelli. Engin breytingartillaga var samþykkt og ályktunin var samþykkt með 116 atkvæðum gegn 62. Hópur þingmanna frá Úkraínu, Georgíu, Bretlandi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum viðhöfðu þögul mótmæli í þingsal í kjölfarið.
    Samkvæmt þingsköpum eiga Rússar tilkall til embættis varaforseta og því kynntu Rússar varaforsetaefni sitt um leið og kjörbréf voru lögð fram. Kjöri varaforsetans var mótmælt og voru því haldnar leynilegar kosningar til embættisins. Í ljós kom að varaforsetaefni Rússa, Leonid Slutsky, og þrír aðrir meðlimir landsdeildarinnar voru á lista Evrópusambandsins yfir einstaklinga sem eru beittir þvingunaraðgerðum. Slutsky hlaut ekki meiri hluta atkvæða eftir tvær umferðir kosninga og var varaforsetasæti Rússa autt út árið 2019.
    Á þinginu fór fram kjör nýs framkvæmdastjóra Evrópuráðsins en í framboði voru Marija Pejcinovic Buric, utanríkisráðherra Króatíu, og Didier Reynders, utanríkisráðherra Belgíu. Pejcinovic Buric var kjörin framkvæmdastjóri ráðsins með 159 atkvæðum gegn 105 atkvæðum Reynders. Kjörtímabil hennar hófst í september árið 2019 og stendur í fimm ár. Anja Seibert-Fohr var kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Þýskaland og Peeter Roosma fyrir Eistland.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var framsögumaður ályktunar um að koma í veg fyrir ofbeldi gegn farandbörnum og misnotkun þeirra. Rósa Björk lýsti áhyggjum af þeim ógnum sem fylgdarlaus börn stæðu frammi fyrir á leið sinni til Evrópu. Ýmsir gallar væru á stefnumótun í málaflokknum sem takmörkuðu þær leiðir sem börn gætu nýtt sér lagalega til að komast til Evrópu og þannig yrðu þau fórnarlömb smyglara. Í ályktuninni, sem var samþykkt samhljóða, fordæmdi þingið ofbeldi á borð við fangelsun farandbarna og inngrip við aldursgreiningar þeirra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tók til máls í umræðu um þvinganir í geðheilbrigðisþjónustu. Hún fagnaði ályktuninni og sagði mannréttindi fólks með geðsjúkdóma allt of oft fótum troðin. Fólk með geðsjúkdóma væri svipt sjálfsákvörðunarrétti og rétti til heilsu og til að taka ákvarðanir um eigin meðferð og nyti ekki verndar gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð. Þvinganir í geðheilbrigðisþjónustu gætu talist pyntingar, til að mynda það að þvinga fólk með geðsjúkdóma í fóstureyðingar eða ófrjósemisaðgerðir. Þórhildur Sunna beindi einnig spurningu til Amélie de Montchalin, formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins, og Rósa Björk tók til máls í umræðum um Istanbúlsamninginn um afnám ofbeldis gegn konum og í umræðum um morðið á maltnesku fjölmiðlakonunni Daphne Caruana Galizia.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með landsdeildum Norðurlanda og Eystrasaltslanda og með Mariju Pejcinovic Buric, frambjóðanda til embættis framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, auk þess sem Íslandsdeild var gestgjafi árlegs kvöldverðar landsdeilda Norðurlandanna á Evrópuráðsþinginu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók einnig þátt í pallborði á lokaráðstefnu átaksverkefnis Evrópuráðsins um að koma í veg fyrir fangelsun flóttabarna auk þess sem hún var framsögumaður skýrslu um stöðu átakanna í Sýrlandi, í fjarveru skýrsluhöfundar.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 30. september – 4. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður, og Bergþór Ólason, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Á dagskrá þingsins voru m.a. málefni flóttamanna, verndun uppljóstrara, loftslagsmál og sameiginlegir staðlar fyrir embætti umboðsmanna.
    Emmanuel Macron, forseti Frakklands, ávarpaði þingið og sagði Evrópuráðið vera vettvang sátta í heimsálfunni. Í þau 70 ár sem liðin væru frá stofnun ráðsins hefðu orðið stórkostlegar framfarir í mannréttindamálum. Mannréttindasáttmálinn hefði leitt af sér dómstól þar sem borgarar Evrópu gætu leitað réttar síns gagnvart eigin stjórnvöldum. Evrópuráðið stæði frammi fyrir alvarlegum áskorunum sem stöfuðu fyrst og fremst af minnkandi samstarfi ríkja. Réttindum borgaranna væri ógnað af hryðjuverkastarfsemi, auknum straumi flóttamanna og tækniþróun á borð við samfélagsmiðla. Hann ítrekaði þó að barátta gegn hryðjuverkum þyrfti ekki að ógna mannréttindum borgaranna.
    Macron vék að deilu Rússa við Evrópuráðið og sagði ákvarðanir ráðherranefndarinnar og Evrópuráðsþingsins vorið 2019 hafa leitt af sér að stofnunin væri að fullu starfhæf á ný. Hann sagðist skilja reiðina sem hefði vaknað þegar eitt aðildarríki Evrópuráðsins réðst inn í annað. Mikilvægt væri hins vegar að hafa í huga markmið þeirrar ákvörðunar Evrópuráðsþingsins að svipta rússnesku landsdeildina þátttökuréttindum sínum árið 2014. Sú ákvörðun hefði verið byggð á lagalega veikum grunni og árangur hennar hefði verið takmarkaður. Ekki hefði verið útlit fyrir að Rússar mundu hlíta ályktunum Evrópuráðsþingsins um afnám innlimunar Krímskaga heldur einfaldlega yfirgefa Evrópuráðið. Ef sú hefði orðið raunin hefðu rússneskir ríkisborgarar glatað möguleikanum á að leita til Mannréttindadómstólsins til að verja sig gegn eigin stjórnvöldum. Macron sagðist álíta að best væri að styðjast áfram við Minsk-samkomulagið og beita sameiginlegum þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins í þeim tilgangi að snúa innlimun Krímskaga við.
    Björgun mannslífa á Miðjarðarhafi var tekin til sérstakrar umfjöllunar á þingfundinum. Í ályktun þingsins var starfsemi frjálsra félagasamtaka fagnað en ítrekað að það væri á ábyrgð aðildarríkja Evrópuráðsins að koma í veg fyrir drukknanir á Miðjarðarhafi. Í umræðum talaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir hönd flokkahóps sósíalista, demókrata og græningja. Hún fordæmdi stefnu Evrópulanda í flóttamannamálum sem hefði leitt af sér að þúsundir manna hefðu drukknað við strendur Evrópu. Evrópulönd hefðu stuðlað að vandamálinu með afskiptum sínum af málefnum Afríkulanda og með því að varpa ábyrgðinni á flóttamannavandanum yfir á lönd á borð við Líbíu. Það sýndi mannfyrirlitningu að neita björgunarskipum að koma til hafnar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók til máls fyrir hönd flokkahóps sameinaðra vinstri manna og sagði aðildarríki Evrópuráðsins verða að taka höndum saman til að leysa vandann. Ekki væri hægt að velta vandamálinu yfir á stjórnvöld í móttökulöndunum eða í löndum Norður-Afríku. Fleiri ríki yrðu að taka við flóttafólki og dreifa þannig álaginu um álfuna. Um leið og barist væri gegn smygli þyrfti að tryggja að hægt væri að koma flóttafólki sem bjargað væri á Miðjarðarhafinu í öruggt skjól í nálægri höfn.
    Í ályktun um lagalega stöðu fólks á flótta undan afleiðingum loftslagsbreytinga hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að styrkja varnir sínar og viðbragðsáætlanir vegna náttúruhamfara. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði fyrir hönd flokkahóps síns og sagði Evrópu standa frammi fyrir umhverfisvá sem virti engin manngerð landamæri. Heimsálfan í heild bæri mikla ábyrgð á loftslagsbreytingum en kysi samt að loka augunum fyrir vandanum. Ljóst væri af skýrslunni að upp væri komin pattstaða. Evrópskir leiðtogar væru ekki tilbúnir til að leita alþjóðlegra lausna. Nauðsynlegt væri að komast að samkomulagi um alþjóðlegan sáttmála um viðbrögð við loftslagsbreytingum og víðtækum afleiðingum þeirra. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á að um 40% borgarastríða síðustu áratuga hefðu átt rætur að rekja til umhverfisins. Langtímaspár Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að allt að 250 milljónir manna mundu flýja heimili sín af völdum áhrifa loftslagsbreytinga fyrir árið 2050. Þrátt fyrir að erfitt væri að skilgreina hverjir væru á flótta vegna áhrifa loftslagsbreytinga mætti það ekki hindra ríki heims í að koma fólki til aðstoðar. Áhersla ályktunarinnar á að bæta þol og viðbrögð samfélaga væri góð en þó mætti ekki gleyma að stríðshrjáð samfélög hefðu ekki bolmagn til þess að bregðast við náttúruhamförum. Nauðsynlegt væri að berjast gegn loftslagsbreytingum til að koma í veg fyrir að fólk þyrfti að flýja heimili sín.
    Í ályktun um sameiginlega staðla fyrir embætti umboðsmanna í Evrópu lýsti þingið áhyggjum af afskiptum aðildarríkja af embættum umboðsmanna. Þingið lýsti yfir stuðningi sínum við staðla Feneyjanefndarinnar um vernd embætta umboðsmanna. Um væri að ræða fyrstu alþjóðlegu staðlana um hæfniskröfur og val umboðsmanna, stjórnarskrárvernd þeirra, sjálfstæði og friðhelgi. Í umræðum um ályktunina sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir umboðsmann Alþingis vera einn helsta baráttumann fyrir mannréttindum á Íslandi. Umbætur sem vörðuðu málsmeðferð einstaklinga í íslensku stjórnkerfi hefðu flestar komið til í kjölfar ákvarðana eða tilmæla umboðsmanns. Embættið væri leiðarljós þegar kæmi að réttindum einstaklinga.
    Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að viðurkenna ofbeldi í tengslum við fæðingar og kvensjúkdómalækningar og herða lög um réttindi sjúklinga. Rósa Björk Brynjólfsdóttir fagnaði því að þingið fjallaði um kynjasjónarmið í heilbrigðisþjónustu. Hún sagði nauðsynlegt að tryggja að öll inngrip byggðust á gagnreyndum aðferðum og nýjustu rannsóknum. Þau dæmi sem nefnd væru í skýrslunni um aðgerðir framkvæmdar til þægindaauka fyrir starfsfólk eða vegna úreltra viðhorfa sýndu fram á mikilvægi þess að efla mannréttindagæslu í heilbrigðisþjónustu. Niðurlægjandi athugasemdir eða karlremba ætti ekki heima í heilbrigðisþjónustu frekar en annars staðar í samfélaginu. Baráttuna gegn gildum feðraveldisins, sem sæju konur sem lægra settar körlum, þyrfti að heyja á öllum vígstöðvum.
    Í ályktun um vernd uppljóstrara lýsti þingið yfir stuðningi við áætlaða löggjöf Evrópusambandsins þar sem skyldur atvinnurekenda væru tilteknar og lagt bann við refsingum við uppljóstrunum. Þingið ítrekaði að uppljóstrarar væru nauðsynlegir lýðræðinu og benti á að barátta gegn spillingu og peningaþvætti væri ómöguleg án aðkomu uppljóstrara. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagðist snortin yfir því skrefi sem Evrópuráðsþingið væri að stíga. Hún sagði móður sína hafa ljóstrað uppi um brotalamir í umhverfisvernd á Íslandi þegar hún vann fyrir Umhverfisstofnun og verið hrakin úr starfi í kjölfarið. Hún sagðist óska þess að þær lagabreytingar sem ályktunin hvetti til hefðu verið til staðar á þeim tíma.
    Þingið samþykkti einnig ályktanir og tilmæli um stuðning við fórnarlömb hryðjuverka, verndun menningarverðmæta gyðinga, stöðu lýðræðismála í Norður-Makedóníu og í Moldóvu og áhrif aukins brottflutnings farandverkamanna á upprunalönd þeirra í Austur-Evrópu. Þá hélt þingið sérstaka umræðu um viðbrögð rússneskra stjórnvalda við friðsamlegum mótmælum í kjölfar nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga í Moskvu. Marija Pejcinovic Buric, nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, ávarpaði þingið og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hvatti hana til þess að nýta stöðu sína til að vinna að jafnrétti kynjanna, réttindum samkynhneigðra og málefnum flóttamanna. Amélie de Montchalin, undirráðherra Evrópumála í utanríkisráðuneyti Frakklands, flutti skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins og Ana Maria Guerra Martins var kjörin dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir Portúgal.
    Samhliða þingfundum fundaði Íslandsdeild með landsdeildum Norðurlanda og Eystrasaltslanda. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir stýrði starfi laga- og mannréttindanefndar í þingfundavikunni auk þess sem hún stóð fyrir hliðarviðburðum um mál fjölmiðlakonunnar Daphne Caruana Galizia sem var myrt og um flugvél Malaysian Airlines sem var skotin niður yfir Úkraínu árið 2014. Rósa Björk Brynjólfsdóttir hitti einnig nemendur í evrópskum stjórnmálum frá Centre College í Kentucky í Bandaríkjunum.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Strassborg 28.–29. nóvember 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir, formaður, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á dagskrá voru m.a. umbætur á fyrirkomulagi alþjóðlegra framsalsbeiðna, tengsl mannréttinda og viðskipta og hlutverk skólakerfisins í stafrænum heimi.
    David Zalkaliani, utanríkisráðherra Georgíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, kynnti áherslur georgískra stjórnvalda meðan á formennsku landsins í Evrópuráðinu stæði, frá nóvember 2019 til maí 2020. Hann sagði formennskuna vera tækifæri fyrir georgísk stjórnvöld til að sýna fram á hversu mikla áherslu þau legðu á söguleg og menningarleg tengsl landsins við Evrópu. Stjórnvöld hefðu í þeim tilgangi lagt fram 500 þúsund evrur í viðbótarframlag til ýmissa verkefna Evrópuráðsins á árinu 2019. Í forgrunni formennskutíðar Georgíumanna væri að styrkja og verja gildi Evrópuráðsins um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið, að vekja athygli á tengslum mannréttinda og umhverfisverndar, að styrkja lýðræðið gegnum skólakerfið og menninguna og að hvetja til umbóta í dómskerfum aðildarlandanna í þágu barnaverndar og mannréttinda. Zalkaliani benti á að Georgía hefði reynslu af innleiðingu barnvænna dómstóla þar sem hagsmunir barnsins og mannréttindi væru í forgrunni. Með þessum umbótum hefði í auknum mæli tekist að gera afbrotaunglingum kleift að endurhæfa sig og aðlagast samfélaginu á ný. Rósa Björk Brynjólfsdóttir fagnaði áherslu georgískra stjórnvalda á tengsl umhverfisógna við mannréttindi. Hún sagði tímabært að beina sjónum að því hvernig umhverfisvá hefði áhrif á stöðu mannréttindamála og öfugt. Hún spurði hvort sérstaklega yrði hugað að stöðu og réttindum barna á faraldsfæti og lýðræðisþátttöku barna. Í svari Zalkalianis kom fram að ungmenni á faraldsfæti væru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og mansali á leið sinni til Evrópu en einnig þegar á áfangastað væri komið. Hann benti á að á dagskrá ráðherranefndarinnar væru tilmæli til aðildarríkja um umsjónarmenn fylgdarlausra barna. Aðspurður um viðhorf sitt til landa sem brytu gegn gildum og viðhorfum Evrópuráðsins sagðist Zalkaliani standa vörð um gildi ráðsins. Hann sagðist ánægður með ákvarðanir þingsins og ráðherranefndarinnar á árinu 2019 sem hefðu bundið enda á pattstöðu í deilu Evrópuráðsins og Rússa. Afstaða Georgíumanna til átakanna í Úkraínu væri óbreytt og átökin yrði að leysa á grundvelli Minsk-samningsins.
    Stjórnarnefnd samþykkti ályktun um umbætur í tengslum við framsalsbeiðnir Alþjóðalögreglunnar. Í ályktuninni var ítrekað mikilvægi alþjóðlegs samstarfs um löggæslu og að koma yrði í veg fyrir að glæpamenn gætu nýtt sér minna landamæraeftirlit milli Evrópulanda til að komast undan réttvísinni í heimalandi sínu eða flytja illa fengnar eignir milli landa. Nauðsynlegt væri hins vegar að standa vörð um réttindi þeirra einstaklinga sem lýst væri eftir og óskað eftir að yrðu framseldir. Til þess að finna þetta jafnvægi þyrfti að ríkja traust milli löggæslustofnana. Þessu trausti hefði verið stofnað í hættu með kröfum um framsal einstaklinga af pólitískum ástæðum. Þingið fagnaði því að margar af þeim umbótum sem Evrópuráðsþingið lagði til í ályktun sinni árið 2017 hefðu verið innleiddar. Til að mynda þyrfti starfshópur á vegum Alþjóðalögreglunnar að votta allar tilkynningar um eftirlýsta einstaklinga áður en þær væru sendar til löggæslustofnana aðildarríkjanna. Einnig hefði verið komið í veg fyrir að lýst væri eftir einstaklingum sem nytu alþjóðlegrar verndar sem flóttamenn. Þingið kallaði hins vegar eftir því að Alþjóðalögreglan yki gagnsæi við umfjöllun um framsalsbeiðnir.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kynnti ályktun um mannréttindi og viðskipti fyrir hönd framsögumanns. Í ályktuninni var ítrekað að alþjóðleg fyrirtæki gætu í auknum mæli starfað í þágu mannréttinda, til að mynda með því að skapa störf og borga skatta. Hins vegar gætu þau einnig stuðlað að mannréttindabrotum, t.d. með því að skapa hættulegar vinnuaðstæður og með barnaþrælkun, mengun, mismunun á vinnumarkaði og eftirliti með starfsmönnum. Þórhildur Sunna benti á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu árið 2011 samþykkt leiðbeiningar fyrir viðskiptalífið um mannréttindavernd. Aðildarríki þyrftu að endurskoða löggjöf sína og starfsferla til þess að innleiða þessar leiðbeiningar.
    Í ályktun um hlutverk skólakerfisins í stafrænum heimi hvatti þingið aðildarríki Evrópuráðsins til að jafna aðstöðu borgaranna hvað varðar þekkingu á hinum stafræna heimi. Tryggja þyrfti endurmenntun kennara og bæta aðstöðu og tæknibúnað. Ör stafræn þróun krefðist þess að menntakerfið yrði endurskoðað til að gera börnum kleift að takast á við stafrænt umhverfi og tryggja öryggi sitt á netinu. Þannig yrðu þau ábyrgir stafrænir borgarar og stuðluðu að samkeppnishæfni Evrópu. Rósa Björk Brynjólfsdóttir fagnaði ályktuninni en sagðist sakna áherslu á mannréttindi borgaranna. Í ályktuninni væri mikið fjallað um þarfir vinnumarkaðarins og samkeppnishæfni samfélaga en einnig væri mikilvægt að gera ungt fólk læst á stafræna veröld. Í kjölfarið ræddi stjórnarnefnd og samþykkti einróma ályktun um fjölmiðlalæsi í nýjum veruleika fjölmiðla. Í ályktuninni kom fram að auka þyrfti hæfni ungmenna til að greina á milli skoðana og staðreynda og á milli áróðurs og upplýsinga. Þingið hvatti aðildarríkin til að auka menntun í fjölmiðlalæsi til að minnka líkurnar á að ungmenni yrðu fyrir áhrifum róttækni, hatursorðræðu og innrætingar á netinu. Að lokum samþykkti þingið ályktun um áhrif nethagkerfisins á samfélagið. Bent var á öran vöxt viðskipta með vörur, þjónustu og upplýsingar á netinu. Þróunin hefði náð út fyrir núverandi regluverk hagkerfisins, sérstaklega hvað varðaði neytendavernd, réttindi launþega og skattlagningu. Áhrif þessa á samfélagið gætu orðið veruleg. Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að leitast við að tryggja almannahagsmuni umfram viðskiptahagsmuni án þess þó að kæfa nýsköpun og atvinnustarfsemi eða hindra áframhaldandi þróun neysluhátta og vinnufyrirkomulags. Sérstaklega þyrfti að tryggja atvinnuöryggi og vinnuvernd þeirra sem störfuðu í stafræna hagkerfinu.
    Samhliða stjórnarnefndarfundi var einnig haldinn fundur formanna landsdeilda um stofnun sameiginlegs vettvangs Evrópuráðsþingsins og ráðherranefndarinnar til að takast á við tilvik þar sem aðildarríki uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu. Í umræðum á fundinum var áréttað að kveðið hefði verið á um stofnun slíks vettvangs í ályktun þingsins frá því í apríl 2019. Þessi nýi vettvangur kæmi ekki í stað þeirra valdheimilda sem þingið réði yfir heldur ætti að leita nýrra lausna til að hvetja aðildarlönd til umbóta þegar þess væri þörf. Fundarmenn ítrekuðu að mikilvægustu úrlausnaratriðin sneru að því hvernig ferlið yrði sett af stað og hvaða stofnanir hefðu vald til að binda enda á það. Taka þyrfti ákvörðun um hvers konar meiri hluta yrði krafist í atkvæðagreiðslu um málið í þinginu og hvort gerð yrði krafa um viðveru ákveðins lágmarksfjölda þingmanna til að fundur teldist ályktunarbær. Nauðsynlegt væri að ferlið hefði pólitíska vigt og yrði ekki virkjað af léttvægum orsökum en á hinn bóginn mættu kröfur um viðveru ekki vera svo strangar að stór aðildarríki gætu auðveldlega komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu. Velt var upp ýmsum tillögum að reglum um meiri hluta og viðveru og sagðist framsögumaður skýrslunnar ætla að leggja sig fram um að finna málamiðlun milli helstu sjónarmiða og kynna hana í ályktunardrögum sínum á janúarfundi þingsins.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sótti fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í mars, maí, nóvember og desember. Hún sótti auk þess fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar í mars og í nóvember og fundi nefndar um fólksflutninga og málefni flóttamanna í maí og í desember. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sótti fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í mars, maí, september, nóvember og desember sem formaður laga- og mannréttindanefndar. Hún stýrði fundum laga- og mannréttindanefndar í mars, maí, nóvember og desember auk þess sem hún sótti fundi eftirlitsnefndar og jafnréttisnefndar í mars og fund þingskapanefndar í desember. Bergþór Ólason sótti fundi félagsmálanefndar í mars, september og desember og fund menningarmálanefndar í desember.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
varaform.
Bergþór Ólason.



Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2019.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsagnir eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2019:

Fyrsti hluti þingfundar 21.–25. janúar:
          Ályktun 2251 um uppfærslu leiðbeininga varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur í aðildarlöndum Evrópuráðsins.
          Ályktun 2252 um viðbrögð við máli Sergei Magnitskys og baráttu við refsileysi með beinskeyttum viðskiptaþvingunum.
          Ályktun 2253 um Sharía-lög, Kaíró-yfirlýsinguna og mannréttindasáttmála Evrópu.
          Ályktun 2254 um fjölmiðlafrelsi sem forsendu lýðræðislegra kosninga.
          Ályktun 2255 um hlutverk ríkisfjölmiðla á tímum falsfrétta.
          Ályktun 2256 um netstjórnun og mannréttindi.
          Tilmæli 2144 um sama efni.
          Ályktun 2257 um mismunun í aðgengi að atvinnu.
          Ályktun 2258 um aðgengi fatlaðra að vinnumarkaði.
          Ályktun 2259 um átök á Asovshafi og ógn við öryggi Evrópu.
          Ályktun 2260 um versnandi stöðu stjórnarandstöðu í Tyrklandi.
          Ályktun 2261 um eftirlitsstarf þingsins árið 2018 og úttekt á framfylgd skuldbindinga Íslands og Ítalíu.
          Ályktun 2262 um verndun réttinda einstaklinga í þjóðernisminnihluta.
          Ályktun 2263 um sviptingu ríkisborgararéttar í baráttu gegn hryðjuverkum: Samræmist aðgerðin mannréttindasáttmálanum?
          Tilmæli 2145 um sama efni.
          Ályktun 2264 um bætta framfylgd tilmæla Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum: Aukið hlutverk Evrópuráðsþingsins og þjóðþinga.
          Tilmæli 2146 um sama efni.

Stjórnarnefndarfundur 1. mars:
          Ályktun 2265 um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu: Stuðlar uppbygging markaðshagkerfis að lýðræðisþróun?
          Ályktun 2266 um verndun mannréttinda við flutning fanga.
          Tilmæli 2147 um sama efni.
          Ályktun 2267 um streitu á vinnumarkaði.
          Ályktun 2268 um hlutverk þróunarsamvinnu sem tæki til þess að koma í veg fyrir stórtæka fólksflutninga.
          Ályktun 2269 um verndun menningararfs í Evrópu.
          Tilmæli 2148 um sama efni.
          Ályktun 2270 um gildi menningararfs í lýðræðislegu samfélagi.
          Tilmæli 2149 um sama efni.

Annar hluti þingfundar 8.–12. apríl:
          Ályktun 2271 um styrkingu samstarfs við Sameinuðu þjóðirnar við framfylgd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
          Tilmæli 2150 um sama efni.
          Ályktun 2272 um framfylgd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna: Samvinna haghafa, frá þjóðþingum til sveitarstjórna.
          Ályktun 2273 um stofnun eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins um lýðræði, réttarríkið og mannréttindi.
          Tilmæli 2151 um sama efni.
          Ályktun 2274 um afnám kynjamismununar og kynferðislegrar áreitni í þingum.
          Tilmæli 2152 um sama efni.
          Ályktun 2275 um hlutverk stjórnmálaleiðtoga í baráttu gegn hatursorðræðu.
          Ályktun 2276 um hatursorðræðu í íþróttum.
          Ályktun 2277 um hlutverk og verkefni Evrópuráðsþingsins: Helstu áskoranir framtíðar.
          Tilmæli 2153 um sama efni.
          Ályktun 2278 um breytingar á þingsköpum.
          Ályktun 2279 um alþjóðlega baráttu gegn peningaþvætti, spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
          Tilmæli 2154 um sama efni.
          Ályktun 2280 um stöðu flóttafólks og innflytjenda á grísku eyjunum.
          Tilmæli 2155 um sama efni.
          Tilmæli 2156 um réttindi barna og foreldra í tengslum við gjafasæði og gjafaegg.
          Ályktun 2281 um samspil samfélagsmiðla og mannréttinda.

Stjórnarnefndarfundur 24. maí:
          Ályktun 2282 um mat á samstarfi Evrópuráðsþingsins við þjóðþing Marokkó.
          Ályktun 2283 um ræktun hæfni á sviði lista og menningar fyrir tilstilli menntunar.
          Ályktun 2284 um þarfir unglinga í heilbrigðismálum.
          Ályktun 2285 um sjálfbæra þróun byggðar sem styðji við félagslega aðlögun.
          Ályktun 2286 um loftgæði og lýðheilsu í Evrópu.

Þriðji hluti þingfundar 24.–28. júní:
          Álit 297 um fjárhagsáætlun og forgangsröðun Evrópuráðsins árin 2020–021.
          Ályktun 2287 um styrkingu ákvarðanatöku Evrópuráðsþingsins varðandi kjörbréf og atkvæðagreiðslur.
          Ályktun 2288 um fjármál Evrópuráðsþingsins árin 2020–2021.
          Ályktun 2289 um Istanbúlsamninginn um afnám ofbeldis gegn konum: Árangur og áskoranir.
          Ályktun 2290 um metnaðarfulla stefnu Evrópuráðsins í jafnréttismálum.
          Tilmæli 2157 um sama efni.
          Ályktun 2291 um að binda enda á þvinganir í geðheilbrigðisþjónustu: Þörf fyrir aðferðir grundvallaðar á virðingu fyrir mannréttindum.
          Tilmæli 2158 um sama efni.
          Ályktun 2292 um athugasemdir, á efnislegum grundvelli, við kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar.
          Ályktun 2293 um morðið á Daphne Caruana Galizia og réttarríkið í Möltu og víðar.
          Ályktun 2294 um að binda enda á ofbeldi gegn börnum: Framlag Evrópuráðsins til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
          Tilmæli 2159 um sama efni.
          Ályktun 2295 um að koma í veg fyrir ofbeldi gegn farandbörnum og misnotkun þeirra.
          Tilmæli 2160 um sama efni.
          Ályktun 2296 um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga Búlgaríu.
          Ályktun 2297 um rannsókn á morðinu á Boris Nemtsov.
          Ályktun 2298 um ástandið í Sýrlandi og líkurnar á pólitískri lausn.
          Ályktun 2299 um stefnu aðildarlanda Evrópuráðsins varðandi endursendingu flóttamanna.
          Tilmæli 2161 um sama efni.

Fjórði hluti þingfundar 30. september – 4. október:
          Ályktun 2300 um bætta vernd uppljóstrara í Evrópu.
          Tilmæli 2162 um sama efni.
          Ályktun 2301 um sameiginlega staðla fyrir umboðsmenn í Evrópu.
          Tilmæli 2163 um sama efni.
          Ályktun 2302 um þróunarbanka Evrópuráðsins.
          Ályktun 2303 um stuðning við fórnarlömb hryðjuverka.
          Tilmæli 2164 um sama efni.
          Ályktun 2304 um eftirlit þingsins með framfylgd skuldbindinga Norður-Makedóníu.
          Ályktun 2305 um björgun mannslífa á Miðjarðarhafi.
          Ályktun 2306 um ofbeldi í tengslum við fæðingar og kvensjúkdómalækningar.
          Ályktun 2307 um lagalega stöðu „loftslagsflóttamanna“.
          Ályktun 2308 um virkni lýðræðisstofnana í Moldóvu.
          Ályktun 2309 um verndun menningarverðmæta gyðinga.
          Tilmæli 2165 um sama efni.
          Ályktun 2310 um áhrif aukins brottflutnings farandverkamanna á upprunalönd þeirra í Austur-Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur 28.–29. nóvember:
          Ályktun 2311 um tengsl mannréttinda og viðskipta – eftirfylgni með tilmælum ráðherranefndarinnar nr. 3/2016.
          Tilmæli 2166 um sama efni.
          Ályktun 2312 um áhrif nethagkerfisins á samfélagið.
          Ályktun 2313 um hlutverk skólakerfisins í stafrænum heimi.
          Tilmæli 2167 um sama efni.
          Ályktun 2314 um fjölmiðlalæsi í nýjum veruleika fjölmiðla.
          Ályktun 2315 um umbætur í tengslum við framsalsbeiðnir Alþjóðalögreglunnar: Uppbygging trausts og barátta gegn misnotkun.