Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 882  —  532. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um minningardag um fórnarlömb helfararinnar.


Flm.: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Smári McCarthy, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Birgir Þórarinsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að tileinka 27. janúar ár hvert minningu fórnarlamba helfararinnar.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að 27. janúar ár hvert verði tileinkaður minningu fórnarlamba helfararinnar en þann dag árið 1945 frelsaði sovéski herinn fanga úr fangabúðum nasista í Auschwitz í Póllandi.
    Öll aðildarlönd ÖSE að Íslandi undanskildu minnast helfararinnar á einhvern hátt. Í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er helfararinnar minnst 27. janúar ár hvert.
    Helfararinnar er minnst með ýmsum hætti víða um heim, svo sem með minningarathöfnum, sýningum um sögu helfararinnar eða með sérstakri fræðslu í skólum. Í Svíþjóð er á hverju ári sérstakt þema sem lögð er áhersla á. Þannig var Raouls Wallenbergs, sænsks embættismanns sem bjargaði fjölda gyðinga í Ungverjalandi, minnst sérstaklega árið 2012. Árið 2014 var lögð áhersla á minningu rómafólks sem var myrt í helförinni og árið 2015 var frelsunar fanga úr Auschwitz sérstaklega minnst þegar 70 ár voru liðin frá þeim atburði.
    Með því að tileinka þennan dag minningu fórnarlamba helfararinnar mætti fræða komandi kynslóðir hér á landi um afleiðingar hatursglæpa. Þannig yrði unnt að koma í veg fyrir fordóma og aukna tíðni slíkra glæpa milli ólíkra trúar- og þjóðfélagshópa svo að viðlíka hörmungar endurtaki sig ekki. Slíkur dagur fæli í sér tækifæri til að minnast fórnarlamba helfararinnar og vinna gegn kynþáttafordómum og mismunun til að skapa friðsamara og umburðarlyndara samfélag.