Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 887  —  536. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2019.


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2019 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykja standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins um að vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að horfast í augu við að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru einn stærsti vandi heimsbyggðarinnar og nauðsynlegt að alþjóðasamfélagið standi við skuldbindingar Parísarsáttmálans og grípi til öflugri aðgerða eigi viðunandi árangur að nást. Þá var samþykkt neyðarályktun um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings Mósambík, Malaví og Simbabve í kjölfar fellibyljarins Idai.
    Á árinu var enn fremur í brennidepli hlutverk þjóðþinga við að efla menntun til þess að stuðla að friði, öryggi og bættri löggjöf. Fulltrúar Alþingis lögðu þar m.a. áherslu á að jafnrétti til menntunar væri lykilatriði, óháð kyni, fjárhagsstöðu, trú eða menningarlegum bakgrunn. Þá var rætt um rangar upplýsingar og falsfréttir sem hnattrænt fyrirbæri sem geti haft þýðingarmikil áhrif á stjórnmál ríkja.
    Jafnframt var rætt um stöðu kvenna í þjóðþingum heims og hvernig auka mætti þátttöku þeirra í stjórnmálum, en nú eru 24,5% þingmanna konur. Einnig var rætt um atvinnuþátttöku kvenna og þróun lagasetningar í átt að auknu jafnrétti kynjanna. Enn fremur voru þjóðþing hvött til þess að leggja aukna áherslu á jafnréttismál.
    Í tilefni af 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var samþykkt yfirlýsing þar sem áréttað er mikilvægi þess að börn hafi rödd og á þau sé hlustað. Þá var rætt um hvernig efla mætti æskuna og hvetja mætti ungt fólk til aukinnar þátttöku í stjórnmálum.
    Af öðrum stórum málum sem voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2019 má nefna öryggi og hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga við að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttinn til heilbrigðisþjónustu og ólögmæti þess að nota málaliða og erlenda hermenn til að grafa undan friði og öryggi. Einnig var rætt um aðgengi almennings að stafrænni tækni og hringrásarhagkerfið (e. circular economy) sem tæki til þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga framleiðslu og neyslu.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2019 má nefna svæðisbundnar málstofur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2019 var m.a. gefin út handbók með leiðbeiningum um hvernig koma megi í veg fyrir kynbundið ofbeldi og áreitni gegn konum í þjóðþingum.

2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að sambandinu eiga nú 179 þjóðþing en aukaaðild að því eiga 13 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvo þingfundi árlega, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.

    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.

    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja oftar en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en það eru nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhópur um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar sambandsins og vinnuhópur um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út skýrslu fyrir hvert þing sambandsins þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing við að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo að þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar árið 2019 voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Miðflokks. Hinn 12. september tók Sigríður Á. Andersen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sæti Áslaugar Örnu í Íslandsdeild og var jafnframt kosin formaður Íslandsdeildar. Varamenn voru Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, Helga Vala Helgadóttir, þingflokki Samfylkingar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt þrjá fundi á árinu 2019 sem voru aðallega undirbúningur fyrir þátttöku í þingum sambandsins.

4. Fundir Alþjóðaþingmannasambandsins 2019.
    Eins og fyrr segir eru árlegir fundir sambandsins tveir, að vori og að hausti. Þá sækir fjöldi þingmanna sambandsins árlegan fund sem haldinn er í febrúar í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Noregur formennsku á árinu. Báðir fundirnir voru haldnir í Noregi, sá fyrri í mars í Ósló og sá síðari í september í Tromsö. Jafnframt heldur IPU reglulega ráðstefnur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2019 tók Íslandsdeildin þátt í vor- og haustþingi en auk þess sótti Ágúst Ólafur Ágústsson árlegan fund ungra þingmanna sem haldinn var í Paragvæ í september. Á fundinum hélt hann erindi um velsældarmarkmið í efnahagslegu tilliti. Ágúst fjallaði einnig um efnahagslega þróun Íslands og þær aðgerðir sem Ísland réðst í í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
    Enn fremur tóku Sigríður Á. Andersen, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðmundur Andri Thorsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé þátt í sameiginlegum fundi sambandsins og spænska þingsins og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP25) í Madríd í desember. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

140. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Doha 6.–28. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Helga Vala Helgadóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Helstu mál á dagskrá voru ályktun um ólögmæti þess að nota málaliða og erlenda hermenn til að grafa undan friði og öryggi og hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga við að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að efla menntun sem stuðlar að friði, öryggi og bættri löggjöf. Þá var utandagskrárumræða um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings Mósambík, Malaví og Simbabve í kjölfar fellibyljarins Idai og samþykkt ályktun á grundvelli hennar.
    Rætt var almennt um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að hlutverki þjóðþinga við að efla menntun sem stuðlar að friði, öryggi og bættri löggjöf. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar. Hún lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi jafnréttis og menntunar þegar horft væri til framþróunar með frið og öryggi að leiðarljósi. Jafnrétti til menntunar væri lykilatriði, óháð kyni, fjárhagsstöðu, trú eða menningarlegum bakgrunni. Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál. Í 1. nefnd, um friðar- og öryggismál, voru miklar umræður um ályktun um ólögmæti þess að nota málaliða og erlenda hermenn til að grafa undan friði, öryggi og landamærahelgi ríkja og um mannréttindabrot. Helga Vala Helgadóttir tók þátt í fundum nefndarinnar. Nefndin afgreiddi 131 breytingartillögu við ályktunina og voru 25% þeirra samþykktar. Ályktunin var samþykkt með fyrirvara um orðalag frá eftirfarandi níu landsdeildum: Armeníu, Finnlandi, Frakklandi, Íslandi, Noregi, Rúmeníu, Svíþjóð, Þýskalandi og Tékklandi. Þá tók nefndin ákvörðun um að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði stefnumótun þjóðþinga til að styrkja frið og öryggi á tímum áskorana og átaka vegna loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var rætt um ályktun um hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga til að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með áherslu á að virkja einkageirann við innleiðingu þeirra. Var ályktunin samþykkt samhljóða á þingfundi 10. apríl. Næsta umræðuefni nefndarinnar verður almennt aðgengi að stafrænni tækni og hringrásarhagkerfið sem tæki til þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga neyslu og framleiðslu.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, voru til umræðu rangar upplýsingar og falsfréttir sem hnattrænt fyrirbæri sem gæti haft þýðingarmikil áhrif á stjórnmál ríkja. Jafnframt var á fundinum undirbúningur og umræður um þema næstu ályktunar nefndarinnar um hvernig ná megi alþjóðlegum markmiðum í heilbrigðismálum fyrir 2030 og hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttinn til heilbrigðisþjónustu. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna hittist á tveimur fundum þar sem lögð var áhersla á heimsmarkmiðin. Á fyrri fundi nefndarinnar var rætt um aðgerðir þjóðþinga til að ná heimsmarkmiðunum en á þeim síðari voru þingmenn undirbúnir undir þátttöku í umræðum sem halda átti á pólitískum umræðufundi Sameinuðu þjóðanna, High-level Political Forum (HLPF), um sjálfbæra þróun í júlí 2019. Í þeirri umræðu var lögð sérstök áhersla á heimsmarkmið nr. 16, um stjórnun, og nr. 10, um ójafnrétti. Á þessum fundi er árlega metinn árangur sem náðst hefur í áætlun um sjálfbæra þróun til ársins 2030 og heimsmarkmiði nr. 17 um sjálfbæra þróun.
    Tvær tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum sambandsins. Fyrir valinu varð tillaga um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings Mósambík, Malaví og Simbabve í kjölfar fellibyljarins Idai sem olli gríðarlegu tjóni. Honum fylgdi úrkoma sem olli mannskæðum flóðum í löndunum þremur. Þá fór fellibylurinn yfir mjög þéttbyggð svæði svo að hundruð manna féllu auk búfjár og skemmdir urðu á uppskeru. Kólera breiddist ógnarhratt út eftir hörmungarnar sem eru taldar þær verstu á svæðinu í áratugi. Í ályktun þingsins var lögð áhersla á nauðsyn þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdóma og styrkja heilsugæslu og hjálparstarf á svæðinu. Enn fremur var lögð áhersla á nauðsyn þess að berjast gegn loftslagsbreytingum í heiminum til að koma í veg fyrir náttúruhamfarir sem þessar í framtíðinni.
    Enn fremur var rætt um atvinnuþátttöku kvenna á kvennafundi sambandsins og var Áslaug Arna einn af frummælendum á fundinum. Áslaug Arna sagði frá því að jöfnuður á milli kynjanna mældist mestur á Íslandi á heimsvísu tíunda árið í röð samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins. Atvinnuþátttaka kvenna er um 80% og sagði hún þann árangur m.a. mega þakka almennum leikskóla og fæðingarorlofi fyrir bæði kynin sem hafi greitt götu kvenna til aukins jafnréttis og þátttöku í samfélaginu. Enn væri þó verk fyrir höndum ef horft væri til hlutfalls kvenna í stjórnum fyrirtækja og stjórnunarstöðum sem væri enn lágt þrátt fyrir að 70% þeirra sem útskrifuðust með háskólagráður á Íslandi væru konur.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 og uppgjör ársins 2018 samþykkt og yfirlit yfir skipulagða fundi kynnt. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot á mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið ályktanir á grundvelli þeirra. Þá gaf forseti sambandsins út yfirlýsingu þar sem Alþjóðaþingmannasambandið fordæmir viðurkenningu Bandaríkjanna á því að Gólanhæðir séu hluti Ísraelsríkis.
    Kvennafundur var haldinn dagana 5. og 9. apríl í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um atvinnuþátttöku kvenna. Um 1.500 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 750 þingmenn (227 þingkonur, eða 30%) frá 147 ríkjum og 74 þingforsetar. Þá var í fyrsta sinn mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri 45 ára) og voru þeir 132, eða 17%.
    Samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, tólfplús-hópurinn, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á fundunum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var og valdir fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum sambandsins kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar.
    Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall.
    Þá var haldinn undirbúningsfundur um hliðarviðburð sem haldinn var í tengslum við haustþing Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2019 um hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Heitar umræður höfðu orðið um það á haustþingi 2018 hvort taka mætti efnið á dagskrá nefndar um lýðræði og mannréttindi sem lauk með því að málinu var vísað til þingfundar til atkvæðagreiðslu. Tillagan var felld í atkvæðagreiðslunni með 636 atkvæðum gegn 499. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir greiddi fyrir hönd Íslandsdeildar atkvæði með tillögunni, ásamt flestum ríkjum Evrópu. Í framhaldinu tók tólfplús-hópurinn ákvörðun um að halda hliðarviðburð um málið sem fyrst og var það gert í Belgrad í október 2019 á haustþingi sambandsins.

141. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Belgrad 13.–17. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru ályktun um hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttinn til heilbrigðisþjónustu og yfirlýsing í tilefni af 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt fór fram almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að styrkja alþjóðalög og svæðisbundið samstarf. Þá var utandagskrárumræða um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál og ályktanir afgreiddar. Í 1. nefnd, um friðar- og öryggismál, voru umræður og undirbúningur ályktunar um stefnumótun þjóðþinga til að styrkja frið og öryggi á tímum áskorana og átaka vegna loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra. Fyrirhugað er að afgreiða ályktunina á vorþingi IPU í apríl 2020. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var rætt um aðgengi almennings að stafrænni tækni og hringrásarhagkerfið sem tæki til þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga framleiðslu og neyslu. Jafnframt fóru fram pallborðsumræður til að undirbúa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2019.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindamál, var rædd og afgreidd ályktun um hvernig ná megi alþjóðlegum markmiðum í heilbrigðismálum fyrir árið 2030 og hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttinn til heilbrigðisþjónustu. 4. nefnd, um málefni Sameinuðu þjóðanna, hittist á tveimur fundum og beindi sjónum sínum að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og áhrifum alþjóðalaga og sáttmála með hliðsjón af ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Þá var rætt um niðurstöður nýlegrar könnunar um samskipti og samband þjóðþinga og Sameinuðu þjóðanna. Þar var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að styrkja enn frekar þátttöku þjóðþinga í hnattrænu stjórnskipulagi (e. global governance).
    Á þinginu var umræða um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og áhersla lögð á hlutverk þjóðþinga við að styrkja alþjóðalög og svæðisbundið samstarf. Við lok umræðunnar samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Þá var rætt um hvernig efla mætti æskuna og hvetja ungt fólk til aukinnar þátttöku í stjórnmálum.
    Í tilefni af 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var samþykkt yfirlýsing um að öll börn, óháð stöðu þeirra, ættu að njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í sáttmálanum og að ekki mætti mismuna börnum hvað þau réttindi varðar. Í yfirlýsingunni er áréttað mikilvægi þess að börn hafi rödd og á þau sé hlustað. Þá er lögð áhersla á stuðning við nám barna, að þau geti fræðst og tekið þátt í samfélaginu, eins og segir í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
    Fjórar tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Að þessu sinni varð fyrir valinu tillaga um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í ályktuninni var lögð áhersla á nauðsyn þess að horfast í augu við að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru einn stærsti vandi heimsbyggðarinnar. Þá var áréttað að staðið yrði við þær skuldbindingar sem alþjóðasamfélagið gekkst undir með samþykkt Parísarsáttmálans, ekki síst um sjálfbæra þróun. Enn fremur var lögð áhersla á nauðsyn þess að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030. Alþjóðasamfélagið verður að ráðast til atlögu við loftslagsvána af auknum krafti og með öflugri aðgerðum eigi viðunandi árangur að nást.
    Þá var rætt um eftirfylgni viðamikillar rannsóknar Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á kynjamismunun, kynbundnu ofbeldi og áreitni gagnvart konum í þjóðþingum Evrópu undir yfirskriftinni #NotInMyParliament. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að 85% þingkvennanna höfðu upplifað einhvers konar kynbundið andlegt ofbeldi á þjóðþingum. Í meiri hluta þjóðþinga er ekki heldur farvegur fyrir konur til þess að tjá sig um ofbeldið. Skýrslan er sú fyrsta í röð svæðisbundinna rannsókna sem sambandið gefur út um kynbundið ofbeldi og áreitni gagnvart konum í þjóðþingum heims. Hún byggist á víðtækum viðtölum við 123 konur frá 45 Evrópuríkjum, þar af var 81 þingkona og 42 starfskonur þjóðþinga.
    Sigríður Á. Andersen tók þátt í umræðum fundarins og sagði frá alþjóðlegri ráðstefnu um #metoo-byltinguna sem haldin var í Reykjavík í september 2019. Þar kynnti framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins, Martin Chungong, m.a. niðurstöður rannsóknar sambandsins og Evrópuráðsþingsins. Jafnframt greindi Sigríður frá samstarfi skrifstofu Alþingis við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um undirbúning að könnun á kynferðislegri og kynbundinni áreitni meðal þingmanna og starfsfólks Alþingis, sem byggist á grunni fyrrnefndrar rannsóknar. Fyrirhugað er að leggja könnunina fyrir í byrjun árs 2020.
    Þá fór fram hliðarviðburður um hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Tólfplús-hópurinn stóð fyrir viðburðinum og lögðu fundargestir áherslu á mikilvægi þess að Alþjóðaþingmannasambandið gæti rætt um umdeild málefni sem vörðuðu réttindi fólks. Það væri eitt af markmiðum sambandsins að standa vörð um mannréttindi í heiminum og ekkert málefni væri þar undanskilið.
    Kvennafundur var haldinn dagana 12. og 14. október í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um þróun lagasetningar í átt að auknu jafnrétti kynjanna. Um 1.700 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 700 þingmenn (210 þingkonur eða 30%) frá 140 ríkjum og 70 þingforsetar. Þá var mæld þátttaka ungra þingmanna (yngri en 45 ára) og voru þeir 119 eða 17%.
    Tólfplús-hópurinn hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Sænska þingkonan, Cecilia Widegren, var kosin ein af fjórum fulltrúum tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum sambandsins kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar.
    Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna fjallaði um mál 305 þingmanna frá 10 löndum. Um helmingur málanna var nýr og sneri aðallega að þingmönnum frá Venesúela, Jemen, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (Austur-Kongó), Síerra Leóne, Tyrklandi og Líbíu.
    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi m.a. fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og kynnti yfirlit yfir skipulagða fundi. Þá gaf IPU út handbók fyrir þingmenn í samstarfi við Alþjóðavinnumálastofnunina um það hvernig uppræta megi nauðungarvinnu. Handbókin beinir sjónum sínum að þeim 25 milljónum manna um heim allan sem eru fórnarlömb nauðungarvinnu og hvernig þjóðþing geti unnið á vandanum. Næsta þing IPU verður haldið í Genf 16.–20. apríl 2020.

Sameiginlegur fundur Alþjóðaþingmannasambandsins og spænska þingsins og loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Madríd 9.–11. desember 2019.
    Alþjóðaþingmannasambandið og spænska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 5.–6. desember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í Madríd 2.–13. desember. IPU hefur undanfarin ár skipulagt þingmannafund samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við þing gestgjafalandsins. Markmið fundanna er að veita þingmönnum tækifæri til að fá milliliðalaust upplýsingar frá sérfræðingum um loftslagsmál og ræða leiðir til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Yfirskrift fundarins árið 2019 voru loftslagsbreytingar og skuldbindingar þjóðríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fundurinn var haldinn í spænska þinginu og í honum tóku þátt 127 þingmenn frá 30 aðildarríkjum IPU, auk sérfræðinga og embættismanna. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðmundur Andri Thorsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins, Gabriela Cuecas, hélt opnunarávarp fundarins og lagði áherslu á að tíminn til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga væri senn liðinn. Hún kallaði eftir kröftugum viðbrögðum þingmanna til að herða löggjöf og auka fjármagn til að tryggja innleiðingu Parísarsáttmálans í þjóðþingum heims, til að gera aðgerðaáætlanir sáttmálans bindandi og að ríkisstjórnir yrðu ábyrgar fyrir því að framfylgja sáttmálanum án tafar. Þá ræddi hún um nauðsyn samvinnu milli ríkja og að virkja þyrfti þjóðþing til víðtækra aðgerða í baráttunni gegn loftslagsvánni. Hún sagði nauðsynlegt að hugarfarsbreyting yrði bæði í þróunarríkjum og þróuðum ríkjum þar sem hugarfar hefði einkennst af því að mögulegt væri að vaxa hratt og hafa áhyggjur af afleiðingum fyrir komandi kynslóðir og jörðina seinna.
    Meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum voru Dr. Jeffrey Sachs, prófessor og deildarforseti miðstöðvar fyrir sjálfbæra þróun við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, og Hans-Otto Pörtner, prófessor við Stofnun Alfreds Wegeners og Helmholtz-miðstöðvarinnar fyrir sjávarlífsrannsóknir í Þýskalandi og varaformaður milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar ( Intergovernmental Panel on Climate Working Group II, IPCC). Jafnframt ávörpuðu Meritxell Batet Lamaña, forseti spænska þingsins, og Hugo Morán, umhverfisráðherra Spánar, fundinn.
    Hans-Otto Pörtner hélt erindi um nýjustu niðurstöður rannsókna milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félagslegar og efnahagslegar upplýsingar sem grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Pörtner fullyrti að núverandi loftslagsbreytingar væru af mannavöldum og lagði áherslu á að enn væri hægt að bregðast við ástandinu þótt tíminn væri naumur. Hann brýndi fyrir fundargestum að hlýnun jarðar gerðist hraðar en búist hefði verið við og að áhrifin væru m.a. efnahagsleg. Þá kallaði Pörtner eftir metnaðarfullum aðgerðum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinganna bæði á landi og í sjó auk stjórnvaldsaðgerða, t.d. hærra kolefnisgjaldi. Jafnframt hvatti hann þingmenn til að leita eftir jafnvægi milli skammtíma- og langtímaþarfa. Sigríður Á. Andersen tók þátt í umræðum fundarins og ræddi m.a. um mikilvægi þess að endurheimta votlendi jarðar en það er ein af þeim aðgerðum sem IPCC leggur áherslu á til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
    Dr. Jeffrey Sachs lagði áherslu á að vísindin töluðu sínu máli og það væri engin afsökun til fyrir ríki fyrir því að bregðast ekki við losun gróðurhúsalofttegunda strax. Hann hvatti þingmenn til að biðja ríkisstjórnir sínar um áætlanir um að hætta allri losun og kynna þær á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2020. Saber Chowdhury, fyrrverandi forseti Alþjóðaþingmannasambandsins og þingmaður frá Bangladess, tók undir orð Sachs og kallaði eftir aðgerðum stjórnmálamanna og spurði m.a. hvers vegna ekki væri brugðist við þegar niðurstöður vísindanna væru svona afgerandi og hvað þyrfti að gerast til að við brygðumst við strax og af alvöru. Í framhaldinu svaraði Sachs spurningum fundargesta og líflegar umræður áttu sér stað.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur síðastliðinn áratug stutt þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Á árinu 2019 hélt sambandið námskeið í Simbabve, Búrúndí og Sambíu til þess að auka vitund þingmanna um alvarleika loftslagsbreytinganna og til að skilgreina mikilvægustu aðgerðir. Í neyðarályktun haustþings IPU árið 2019 var fjallað um loftslagsvána og lögð fram aðgerðaáætlun fyrir þjóðþing til þess að innleiða Parísarsáttmálann og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
    Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin, eins og áður sagði, dagana 2.–13. desember í Madríd. Sílemenn fóru með formennsku á ráðstefnunni og lögðu þeir áherslu á málefni hafsins og freðhvolfsins (jökla, hafíss og freðmýra). Fyrir hönd Alþingis sóttu ráðstefnuna, dagana 9.–11. desember, Sigríður Á. Andersen, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðmundur Andri Thorsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Í norræna skálanum var dagskrá um áskoranir og lausnir í loftslagsmálum og norrænt samstarf. Þar tóku Sigríður, Guðmundur Andri og Kolbeinn þátt í pallborðsumræðum og ræddu m.a. um stefnu Íslands í norðurslóðamálum og helstu áherslur.

5. Ályktanir og yfirlýsingar Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2019.
    Ályktanir sambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum sambandsins, enda hefur í þeim iðulega verið bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

    Ályktanir 140. þings Alþjóðaþingmannasambandsins vörðuðu eftirfarandi efni:
     *      Um ólögmæti þess að nota málaliða og erlenda hermenn til að grafa undan friði og öryggi.
     *      Um hlutverk þjóðþinga við að efla menntun sem stuðlar að friði, öryggi og bættri löggjöf.
     *      Um aðkallandi alþjóðlegar aðgerðir til stuðnings Mósambík, Malaví og Simbabve í kjölfar fellibyljarins Idai.
     *      Um hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga til að ná þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með áherslu á að virkja einkageirann við innleiðingu þeirra.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Um Gólanhæðir.
     *      Um samstarf þjóðþinga.

    Ályktun 141. þings Alþjóðaþingmannasambandsins vörðuðu eftirfarandi efni:
     *      Um alþjóðlegar aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
     *      Um hlutverk þjóðþinga við að styrkja alþjóðalög og svæðisbundið samstarf.
     *      Um hvernig ná megi alþjóðlegum markmiðum í heilbrigðismálum fyrir árið 2030 og hlutverk þjóðþinga við að tryggja réttinn til heilbrigðisþjónustu.

    Yfirlýsing 141. þings Alþjóðaþingmannasambandsins:
     *      Í tilefni af 30 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi, 30. janúar 2020.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Ágúst Ólafur Ágústsson,
varaform.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.