Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 897  —  543. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (persónuafsláttur).

Flm.: Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Olga Margrét Cilia, Smári McCarthy.


1. gr.

    Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óráðstafaður persónuafsláttur, sem greiddur er út skv. 2. mgr. A-liðar 67. gr., telst ekki til tekna hjá móttakanda.

2. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Útgreiddur óráðstafaður persónuafsláttur skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 67. gr. laganna:
     a.      Í stað 2.–4. málsl. 2. mgr. kemur einn nýr málsliður, svohljóðandi: Sá persónuafsláttur, sem þá er enn óráðstafað, skal greiddur út til launþega.
     b.      Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: svo og um útgreiðslu óráðstafaðs persónuafsláttar, sbr. 2. málsl. 2. mgr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda vegna tekjuársins 2020.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að óráðstafaður persónuafsláttur verði greiddur út til einstaklinga, óháð því hvort þeir séu með skattskyldar tekjur frá og með tekjuárinu 2020. Samkvæmt gildandi lögum skal persónuafsláttur sem er ekki ráðstafað skv. 67. gr. A laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, falla niður. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að hafi persónuafslætti ekki þegar verið ráðstafað til greiðslu tekjuskatts, útsvars eða auðlegðarskatts verði hann greiddur út til einstaklinga.
    Hefur slíkt form á tekjuskatti verið nefnt „neikvæður tekjuskattur“ og felur í sér að grunnupphæð sem nú er lögfest í formi persónuafsláttar skuli alltaf greidd skilyrðislaust til allra sem eigi slíkan rétt. Það fyrirkomulag sem er nú við lýði gerir þá kröfu að viðkomandi hafi að lágmarki um 160.000 kr. í tekjur á mánuði til að geta fullnýtt persónuafslátt sinn. Það segir sig sjálft að kjör þeirra sem eru undir þeim tekjumörkum eru bágborin. Þess vegna mun óráðstafaður persónuafsláttur renna að langmestu leyti til þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur. Þessi hópur samanstendur m.a. af ungu fólki, fjölskyldufólki, nemendum og öðrum sem hafa litlar almennar tekjur en einnig þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum, og þeim sem af einhverjum ástæðum eiga ekki rétt á slíkri aðstoð.
    Kostnaður við þessa breytingu hefur þegar verið kannaður. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar á 148. löggjafarþingi (þskj. 1334 í 603. máli) segir að heildarupphæð ónýtts persónuafsláttar tekjuárið 2016 hafi verið 10.512 millj. kr., en 10.477 millj. kr. tekjuárið 2017. Því má gera ráð fyrir að kostnaður við slíka breytingu verði um 10,5 milljarðar kr. Líta verður til þess að með því að lækka skattbyrði á þeim sem eru tekjulægstir í samfélaginu er líklegt að sparnaður skapist annars staðar í samfélaginu. Þannig leiða þessi auknu útgjöld íslenska ríkisins það af sér að útgjöld lækka á öðrum stöðum. Sem dæmi um slíkt má nefna þann óhjákvæmilega kostnað sem leggst á ríkið þegar fólk lifir við fátækt, t.d. kostnað vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu.
    Þá mun útgreiðsla óráðstafaðs persónuafsláttar ekki teljast til tekna hjá móttakanda og hefur ekki áhrif á greiðslur móttakanda frá Tryggingastofnun, sveitarfélagi né öðrum þeim greiðslum sem kunna að vera tekjutengdar. Þar með kemur útgreiðslan ekki til skerðingar á öðrum framfærslugreiðslum móttakanda.