Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 908  —  553. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2019.

1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, bar á árinu 2019 hæst umræður um átök á ÖSE-svæðinu, loftslagsmál, spillingu og jafnrétti kynjanna.
    Á vetrarfundi ÖSE-þingsins var rætt um það hvernig ÖSE-þingið gæti stuðlað að lausn langvinnra átaka. Síðustu misseri hefur náðst mikilvægur árangur í viðræðum Armena og Asera um Nagorno-Karabakh-héraðið og var þeim árangri fagnað í yfirlýsingu ársfundar þingsins. Þingið samþykkti einnig aukaályktun um stöðu öryggis og mannréttinda í Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu. Átökin í Úkraínu og innlimun Krímskagans voru áberandi í umræðum á þinginu á árinu. George Tsereteli, forseti ÖSE-þingsins, varaði við auknum óstöðugleika í samskiptum Rússa og Úkraínumanna í ávarpi sínu á vetrarfundi þingsins og vísaði til átaka á Asovshafi í lok árs 2018. Í árlegri yfirlýsingu sinni kallaði þingið eftir því að átakaaðilar legðu niður vopn og að rússnesk stjórnvöld féllu frá innlimun Krímskaga. Auk þess samþykkti þingið aukaályktun þar sem bent var á að fyrirætlanir Rússa um að koma fyrir kjarnavopnum á Krímskaga brytu gegn alþjóðalögum og hefðu neikvæð áhrif á öryggi í Evrópu. Á vetrarfundi ÖSE var einnig talsvert rætt um uppsögn Bandaríkjamanna á samningi um bann við meðaldrægum kjarnavopnum. Fundarmenn lýstu áhyggjum af auknu óöryggi Evrópubúa þegar samningsins nyti ekki við.
    Á árinu 2019 skipaði forseti ÖSE-þingsins nýja sérstaka fulltrúa um spillingu, stafræna þróun og norðurslóðamál. Á vetrarfundi þingsins í Vín var haldin sérstök umræða um baráttu gegn spillingu, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þar sem bent var á áhrif spillingar á virkni lýðræðisstofnana, réttarríkisins og þjóðaröryggi. Þingið samþykkti einnig aukaályktun á ársfundinum í Lúxemborg um hlutverk þjóðþinga í að koma í veg fyrir spillingu. Íslandsdeild fagnaði skipun sérstaks fulltrúa um norðurslóðamál og lagði fram breytingartillögu við yfirlýsingu ársfundar þar sem aðildarríki ÖSE voru hvött til að viðhalda friðsamlegu samstarfi og samvinnu milli norðurslóðaríkja þrátt fyrir aukin umsvif í siglingum og auðlindanýtingu á norðurslóðum.
    Loftslagsmál voru talsvert til umræðu á ársfundi ÖSE-þingsins. Í yfirlýsingu sinni benti þingið á tengsl loftslagsbreytinga og átaka og hvatti aðildarríki ÖSE til að stuðla að framfylgd Parísarsáttmálans. Íslandsdeild lagði fram breytingartillögur við yfirlýsingu ársfundar sem beindu sjónum að áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðir og lífríki sjávar. Í sérstakri aukaályktun vakti þingið athygli á mikilvægi þess að taka tillit til kynjasjónarmiða og sjónarmiða ungmenna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Bent var á að baráttan við afleiðingar loftslagsbreytinga kæmi helst í hlut ungmenna dagsins í dag. Einnig var ítrekað að einstaklingar gætu upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga ólíkt eftir félagslegri stöðu sinni og þannig gætu áhrifin orðið meiri á konur og stúlkur. Þingið skoraði á aðildarríki ÖSE að takast á við þá ógn sem steðjaði að komandi kynslóðum og að taka tillit til sjónarmiða ungmenna og allra kynja við stefnumótun í málaflokknum. Á haustfundi ÖSE-þingsins í Marokkó var rætt um áhrif loftslagsbreytinga í Afríku, til að mynda á vatnsbúskap og fólksflutninga. Bent var á að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á flesta þætti öryggis, stjórnmál, efnahagsmál, umhverfismál og mannréttindi.
    Fjallað var um mikilvægi kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna í tengslum við fjölmargar umræður á árinu, þar á meðal loftslagsmál eins og áður hefur verið nefnt. Þingið samþykkti einnig sérstaka ályktun um nýtingu stafrænnar þróunar í þágu jafnréttis. Í ályktuninni var ítrekað mikilvægi þess að allir borgarar hefðu aðgang að internetinu, óháð kyni, aldri eða þjóðerni. Auk þess ályktaði þingið um mikilvægi þess að tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum, hagkerfinu og í umræðum um loftslagsmál.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinkilokagerðarinnar (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Með Helsinkilokagerðinni skuldbundu aðildarríkin sig til þess að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Lagalega séð er Helsinkilokagerðin hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli þar sem hún er ekki staðfest af lögþingum í löndum þeirra þjóðhöfðingja sem undir hana skrifa. ÖSE er ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefndar (e. ad hoc committee) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar (e. working group) og þingmannalið (e. parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkasíu, Kósóvó, Hvíta-Rússlands og fangabúðir Bandaríkjahers í Guantánamo á Kúbu. Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Í lok árs 2019 voru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um fólksflutninga, baráttuna gegn hryðjuverkum og um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérstaka fulltrúa í tilteknum málum. Í lok árs 2019 voru starfandi sérstakir fulltrúar um gyðingahatur, kynþáttahatur og fordóma, jafnrétti kynjanna, baráttu gegn spillingu, virkjun borgaralegs samfélags, stafræna þróun, Suðaustur-Evrópu, málefni Miðjarðarhafsins og málefni norðurslóða.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Árið 2019 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu: Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, þingflokki Miðflokks, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Andri Thorsson, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Sigurður Páll Jónsson, þingflokki Miðflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingar. Ritari Íslandsdeildar var Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2019 var eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál
Gunnar Bragi Sveinsson.

     2.      Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál
Bryndís Haraldsdóttir.

     3.      Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál
Guðmundur Andri Thorsson.

    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum ÖSE-þingsins. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, sótti samráðsfund formanna sendinefnda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu í Ríga í júní. Bryndís Haraldsdóttir sinnti kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins í Hvíta-Rússlandi í nóvember.
    
4. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra funda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur í júlí og haustfundur í október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 21.–22. febrúar 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, og Guðmundur Andri Thorsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá 60 ríkjum en að venju var embættismönnum ÖSE boðið að ávarpa þingfund og málefnanefndir og kynna starf stofnana ÖSE. Einnig var rætt um uppsögn Bandaríkjamanna á samningi um bann við meðaldrægum kjarnavopnum, um átök Rússa og Úkraínumanna og um það hvernig ÖSE-þingið gæti stuðlað að lausn langvinnra átaka.
    Á þingfundi varaði George Tsereteli, forseti ÖSE-þingsins, við óstöðugleika í samskiptum Rússa og Úkraínumanna. Hann benti á að brotum á vopnahléssamningi landanna færi fjölgandi og ofbeldi færi vaxandi í austurhluta Úkraínu. Átökin á Asovshafi í nóvember 2018, þegar Rússar tóku höndum 24 Úkraínumenn, sýndu fram á hversu brothætt ástandið væri. Tsereteli lýsti ánægju sinni með að sættir hefðu náðst í deilu Grikklands og Norður-Makedóníu og að skref hefðu verið tekin í átt að friði í deilu Armeníu og Aserbaísjans um Nagorno-Karabakh.
    Formaður ÖSE, Miroslav Lajcák, utanríkisráðherra Slóvakíu, kynnti áherslur Slóvaka meðan á formennsku þeirra í ÖSE stendur. Hann sagði Slóvaka leggja áherslu á að nýta þau tæki og tól sem ÖSE hefði þegar yfir að ráða til að takast á við þær ógnir sem steðjuðu að svæðinu. Einnig þyrftu aðildarríki að takast á við nýjar ógnir á borð við loftslagsbreytingar og netárásir. Lajcák ítrekaði mikilvægi samskipta ÖSE við ÖSE-þingið. Þingið væri sá vettvangur sem tengdi íbúa aðildarríkjanna við ÖSE. Þingmennirnir þekktu kjördæmi sín og málefni þeirra best og gætu bæði upplýst ÖSE um mikilvæg mál sem brynnu á kjósendum þeirra og einnig upplýst almenning um það starf sem fram færi á vettvangi ÖSE. Hann sagði mikilvægt að ÖSE-löndin ítrekuðu vilja sinn til að starfa saman á alþjóðavettvangi og benti á að kostnaður við starf ÖSE í þágu friðar og öryggis væri lægri en verð fyrir eina orrustuþotu.
    Hedy Fry, sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins um jafnréttismál og þingkona frá Kanada, lýsti vonbrigðum með það að ráðherrafundur ÖSE hefði ekki tekið á dagskrá umræðu um heimilisofbeldi og ofbeldi gagnvart konum í stjórnmálum. Fry benti sérstaklega á alvarleg áhrif heimilisofbeldis á börn. Börn sem hefðu alist upp við heimilisofbeldi stofnuðu frekar til ofbeldisfullra sambanda síðar á lífsleiðinni og þannig væri grafið undan fjölskyldum og samfélaginu í heild.
    Fund nefndar um stjórnmál og öryggismál ávarpaði m.a. María Victoria González, starfandi formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Spánar hjá ÖSE. Hún sagði að á árinu 2019 myndi nefndin leggja megináherslu á að auka stjórnmálaþátttöku kvenna og yrði allt starf nefndarinnar greint út frá því markmiði. Annar meginþáttur í starfi nefndarinnar yrði barátta gegn vopnasmygli, mansali og ólöglegum fjármagnsflutningum og tengsl þessara þátta við hryðjuverkastarfsemi og skipulögð glæpasamtök. Einnig yrði sjónum áfram beint að þeirri öryggisógn sem skapast við það að vígamenn frá ÖSE-ríkjunum, sem tekið hafa þátt í starfi hryðjuverkasamtaka, snúa heim aftur. Lamberto Zannier, fulltrúi ÖSE gagnvart þjóðarbrotum (e. OSCE High Commissioner on National Minorities), ávarpaði einnig fundinn. Hann benti á að aukinn óstöðugleiki á ÖSE-svæðinu hefði sérstaklega slæm áhrif á stöðu minnihlutahópa. Þegar utanaðkomandi ógn steðjaði að yrði vart við aukna þjóðerniskennd og neikvæða orðræðu gagnvart innflytjendum sem gerði aðlögun erfiðari. Átök milli stórvelda gerðu það einnig að verkum að þjóðernisminnihlutar í öðrum löndum væru notaðir sem peð í alþjóðastjórnmálum. Zannier benti á að þróunin væri sú í flestum löndum að samfélögin yrðu fjölbreyttari. Þetta skapaði ágreining innan ríkja sem þyrfti að takast á við með því að skapa jafnvægi og stuðla að aðlögun samfélagsins í heild. Zannier ítrekaði að fjölbreytileiki auðgaði samfélög og að hann ætti að nýta til framdráttar fyrir samfélagið í heild. Á fundinum var einnig haldin sérstök umræða um aðkomu ÖSE að lausn langvinnra átaka.
    Í umræðum komu fram þau sjónarmið rússneskra þingmanna að uppsögn samnings um bann við meðaldrægum kjarnavopnum drægi úr öryggi Evrópubúa og alls heimsins og gæti haft áhrif á aðra afvopnunarsamninga. Rússar myndu bregðast við með því að þróa vopn en hins vegar myndu þeir ekki hefja notkun á þeim svo fremi að Bandaríkjamenn og NATO-ríki gerðu það ekki heldur. Bandarískur þingmaður benti á að uppsagnarfrestur samningsins væri sex mánuðir. Bandaríkjastjórn gæti á þeim tíma dregið uppsögn samningsins til baka og væri tilbúin að gera það ef Rússar stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
    Fund nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál ávarpaði m.a. Kairat Sarybay, formaður efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og sendiherra Kasakstans hjá ÖSE. Í máli hans kom fram að nefndin myndi einbeita sér að nýjum áskorunum á árinu 2019, t.d. hvernig útvega mætti mannauð til að bregðast við stafrænni byltingu í hagkerfinu. Einnig myndi nefndin ræða lágmörkun áhrifa af náttúruhamförum, sjálfbæra þróun og umhverfisáhrif orkuiðnaðar. Á fundinum var sérstök umræða um baráttu gegn spillingu, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Vuk Zugic, sendiherra Serbíu hjá ÖSE, hélt erindi um efnið en hann stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Zugic sagði spillingu og peningaþvætti skapa eina stærstu ógnina við öryggi á ÖSE-svæðinu. Spilling drægi úr virkni réttarríkisins og þjóðaröryggi og ógnaði opinberri þjónustu. Spilling stæði einnig í vegi fyrir sjálfbærri þróun með því að hindra fjárfestingu í löndum þar sem spilling væri víðtæk. Gagnsæi væri lykilþáttur í góðum stjórnarháttum lýðræðisríkja. Aukið aðgengi að upplýsingum kæmi í veg fyrir spillingu og yki líkurnar á að spilltir embættismenn og stjórnmálamenn væru látnir sæta ábyrgð.
    Fund nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál ávarpaði m.a. Ivo Srámek, formaður nefndar ÖSE um lýðræðis- og mannréttindamál og sendiherra Tékklands hjá stofnuninni. Hann greindi frá áherslum nefndarinnar fyrir árið 2019, en höfuðáhersla verður lögð á réttinn til stjórnmálaþátttöku og þátttöku í opinberu lífi, sérstaklega kvenna og rómafólks. Einnig verður skoðað hvernig tryggja megi að aðildarlönd framfylgi þeim tilmælum sem fram koma í skýrslum í kjölfar kosningaeftirlits. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR), ávarpaði einnig nefndina. Hún lýsti ánægju með gott samstarf stofnunarinnar við ÖSE-þingið í tengslum við kosningaeftirlit og brýndi þingmennina til að standa vörð um lýðræðið, ekki aðeins í kringum kosningar. Í aðildarríkjum ÖSE væru lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem reyndu að grafa undan lýðræðinu með ýmiss konar lagasetningu. Ingibjörg Sólrún fjallaði sérstaklega um viðkvæma stöðu rómafólks og hvatti þingmennina til að vinna gegn mismunun og ofbeldi gagnvart þessum minnihlutahópi í Evrópu. Enn fremur hvatti hún þingmenn til að leita til Mannréttinda- og lýðræðisstofnunarinnar um ráðgjöf, t.d. varðandi löggjöf og siðareglur þingmanna. Á fundinum var einnig haldin sérstök umræða um lögmæta skerðingu á mannréttindum þegar neyðarástand ríkir.
    Stjórnarnefnd þingsins samþykkti breytingu á ákvæði þingskapa varðandi undirskriftir á aukaályktunum sem lagðar eru fyrir ársfund. Breytingin hafði í för með sér að undirskriftir þingmanna á aukaályktunum og breytingartillögum voru teknar gildar svo fremi að undirritaður þingmaður væri skráður á þátttakendalista ársfundar sem borinn hefði verið undir stjórnarnefnd til samþykktar við upphaf ársfundar. Einnig var rætt um tillögur að nýjum verklagsreglum varðandi kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins. Rússar gagnrýndu harkalega að nýjar verklagsreglur gerðu Rússum ófært að taka þátt í kosningaeftirliti í Úkraínu vegna átaka milli landanna. Stjórnarnefnd ákvað að ræða verklagsreglurnar nánar á ársfundi en samþykkti nýja yfirlýsingu sem kosningaeftirlitsmönnum var þar eftir gert að skrifa undir.
    Samhliða vetrarfundi fundaði Íslandsdeild með sendinefnd frjálsu félagasamtakanna Open Dialogue Foundation um stöðu mannréttindamála í Moldóvu og Kasakstan.

Samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins í Ríga 17. júní 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundinn sóttu 13 þingmenn Norðurlanda og Eystrasaltslandanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur undir ársfund þingsins í Lúxemborg í júlí 2019, ásamt umræðum um varnarmál, netöryggi og mansal.
    Fundarmenn ræddu drög að ályktunum ársfundar ÖSE-þingsins. Margareta Cederfelt, varaformaður sænsku landsdeildarinnar, ítrekaði mikilvægi þess að landsdeildirnar ynnu saman. Þannig gætu þingmenn svæðisins haft áhrif langt umfram stærð þingmannanefnda sinna. Ruta Miliute, formaður litháísku landsdeildarinnar, kynnti ályktunartillögu um orkuöryggi á ÖSE-svæðinu. Í ályktuninni var vakin athygli á mikilvægi þess að skoða orkumál í samhengi við öryggis- og varnarmál. Ef lönd yrðu of háð einum aðila um orku gæti sami aðili beitt landið þrýstingi á alþjóðlegum vettvangi. Mikilvægt væri að aðildarríki ÖSE gengjust undir alþjóðlega samninga um umhverfisvernd og stjórn orkumála, t.d. orkupakka Evrópusambandsins. Gunnar Bragi Sveinsson sagðist skilja sjónarmiðin en sagðist ekki geta stutt tillöguna þar sem hann teldi 3. orkupakkann, sem nefndur væri í ályktuninni, skaðlegan íslenskum hagsmunum. Miliute sagðist virða það en benti á að Litháen hefði notið góðs af 3. orkupakkanum þar sem áhrif hans hefðu verið að dreifa eignarhaldi á orkumarkaði og færa neytendum meira vald. Orkuverð hefði þannig lækkað um 30% í kjölfar upptöku orkupakkans í Litháen.
    Siv Mossleth, formaður norsku landsdeildarinnar, kynnti ályktunartillögu um baráttu gegn spillingu og hvatti fundarmenn til að styðja hana. Hún sagði einnig frá því að norska landsdeildin hefði boðið sendinefnd ÖSE-þingsins, þar á meðal forseta þingsins og formanni nefndar um efnahags- og umhverfismál, í heimsókn til Svalbarða til að vekja athygli á málefnum norðurslóða og loftslagsmálum. Hún sagði stærsta vanda mannkyns vera augljósan á Svalbarða. Einnig var rætt um hliðarviðburði á vegum landahópsins og framboð þingmanna til trúnaðarstarfa innan ÖSE-þingsins.
    Fundarmenn ræddu uppfærð drög að leiðbeinandi reglum um kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins. Svíar ítrekuðu þá afstöðu sína að mikilvægt væri að gera mögulegt að aðrir en meðlimir landsdeilda gætu tekið þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins. Einnig var rætt um ákvæði í reglunum um hlutleysi þátttakenda í kosningaeftirliti. Samkvæmt ákvæðinu mega þátttakendur í kosningaeftirliti ekki hafa lýst yfir skoðunum um stjórnmál í landinu í sex mánuði fyrir kosningarnar. Margir þingmannanna lýstu efasemdum sínum um þetta ákvæði. Ítrekað var mikilvægi þess að hefta ekki tjáningarfrelsi þingmanna og að þeim yrði að vera mögulegt að tjá sig um stjórnmál. Ákveðið var að undirbúa sameiginlegt bréf formannanna til ÖSE-þingsins þar sem þessu ákvæði væri mótmælt.
    Mãrtins Stakis, fulltrúi samskipta við þingið hjá utanríkisráðuneyti Lettlands, hélt erindi um sálfræðilega vídd öryggismála. Hann benti á að stór hluti íbúa Lettlands lifðu og hrærðust í rússnesku fjölmiðlaumhverfi. Þetta hefði verið raunin í Úkraínu og neikvæð áhrif þess hefðu verið augljós við innrás Rússa á Krímskaga. Samfélagið hefði verið sundrað og ekki í stakk búið til að veita mótspyrnu. Jafnvel hermenn hefðu gengið í lið með Rússum. Lettnesk stjórnvöld væru því að skoða hvernig hægt væri að styðja við þjóðerniskennd, t.d. með ungliðadeild varnarliðsins, kennslu varnarmála í skólum og vitundarvakningu meðal almennings. Einnig yrði að berjast gegn falsfréttum frá rússneskum fréttaveitum og kenna fjölmiðlalæsi og stjórnmálafræði. Inese Ikstena, formaður lettnesku landsdeildarinnar, ítrekaði að innrásin á Krímskaga hefði verið áfall fyrir þjóðina. Nauðsynlegt væri að skoða hvort herinn væri í stakk búinn til að verja landamærin ef til þess kæmi. Stakis sagði kynningarherferð í bígerð sem ætti að fræða íbúa um viðbrögð við árásum á farsímakerfi eða rafmagnsveitur. Margareta Cederfelt varaði við því að kynda undir þjóðernishyggju því að hætta væri á því að skapa önnur vandamál í kjölfarið. Peter Juel-Jensen, formaður dönsku landsdeildarinnar, sagði mannréttindafræðslu bestu aðferðina til að berjast gegn falsfréttum. Nauðsynlegt væri að halda samræðum áfram við Rússa en berjast gegn brotum á mannréttindum og alþjóðalögum.
    Ina Gudele, formaður stjórnar lettnesku netsamtakanna, hélt erindi um gagnaöryggi. Hún sagði tæknimöguleikana hafa gengið á einkalíf fólks. Miklar upplýsingar væru geymdar í skýi án þess að fólk vissi hvar þær væru niðurkomnar. Lettnesk stjórnvöld væru nú að skoða hvernig best væri að takast á við þær áskoranir sem fylgdu tæknibyltingunni. Áskoranirnar fælust í vörnum gegn netárásum eða vírusum, baráttu gegn falsfréttum og að fyrirbyggja mannleg mistök.
    Voldemãrs Johansons kynnti listaverkið Undercurrents, en með því var vakin athygli á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á norðurskautið. Hann hvatti fundarmenn til að leggja sitt af mörkum til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Einungis með samstilltum og alþjóðlegum aðgerðum væri hægt að ná árangri.
    Iluta Lace, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í frjálsu félagasamtökunum Centrs MARTA, kynnti aðstoð samtakanna við fórnarlömb mansals. Til þess að berjast gegn mansali sagði hún nauðsynlegt að afla upplýsinga frá fórnarlömbunum. Hún sagði starfsfólk samtakanna hafa rekið sig á að meðal löggæsluaðila væru skiptar skoðanir á því hvað teldist mansal. Afleiðingarnar væru að fórnarlömb fengju síður aðstoð og samúð hjá lögreglu og þeir sem högnuðust á mansalinu kæmust undan. Hún benti á að flest fórnarlömb mansals hefðu upplifað heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi í æsku. Lace sagði mikilvægast að hafa skýrt lagalegt umhverfi, traust félagslegt kerfi og að forðast að refsa þeim sem væru misnotaðir. Gunnar Bragi Sveinsson forvitnaðist um tilvist kvennaathvarfs í Lettlandi. Lace sagði athvörf vera starfrækt í sumum bæjarfélögum og að nýlega hefði fyrsta falda athvarfið verið tekið í notkun. Inese Ikstena sagði að vinna hefði verið komin vel á veg með að koma á fót athvörfum að sænskri fyrirmynd fyrir efnahagskreppuna en það hefði verið sett á ís.
    Í lok fundar tilkynnti Gunnar Bragi Sveinsson að Alþingi byðist til að halda næsta samráðsfund Norður- og Eystrasaltslandanna innan þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Reykjavík í maí 2020. Einnig buðust Finnar til að halda samráðsfund landanna á ársfundi ÖSE-þingsins í júlí 2020.

Ársfundur ÖSE-þingsins í Lúxemborg 4.–8. júlí 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, og Guðmundur Andri Thorsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Norður-Afríku en yfirskrift fundarins var Sjálfbær þróun í þágu öryggis: Hlutverk þjóðþinga. Meginviðfangsefni fundarins voru átök í Úkraínu og í Nagorno-Karabakh, loftslagsmál, flóttamannamál og orkumál.
    Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, ávarpaði þingið og varaði við uppgangi hægriöfgaflokka í Evrópu. Hann benti á að sjálfur hefði hann aldrei upplifað stríð en að nauðsynlegt væri að halda á lofti því sem hefði gerst í seinni heimsstyrjöldinni í Mið-Evrópu. Fólkið sem hefði verið sent í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz hefði ekkert gert en hefði samt verið dæmt til dauða. Í mörgum ÖSE-ríkjum væru nú starfandi flokkar sem verðu nasismann. Hann bað þingheim að vera á varðbergi gagnvart þeim stjórnmálamönnum sem bentu á „hina“, hvort sem hinir væru af öðrum kynþætti, aðhylltust önnur trúarbrögð, væru hinsegin eða atvinnulausir.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins. Gunnar Bragi Sveinsson tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar var ítrekuð nauðsyn þess að aðildarríkin styddu við úrlausn átaka, alþjóðlega samvinnu og baráttu gegn hryðjuverkum auk þess að vinna að afvopnun. Þingið harmaði brot Rússa á samningi um bann við meðaldrægum kjarnorkuflaugum og fleiri afvopnunarsamningum. Þingið fagnaði uppbyggilegum samræðum milli Armena og Asera um Nagorno-Karabakh-héraðið. Kallað var eftir því að aðilar að átökum öxluðu aukna ábyrgð á að leysa átök í Georgíu, Úkraínu, Aserbaísjan og Moldóvu. Þingið ítrekaði afstöðu sína til átakanna í Úkraínu og kallaði eftir því að allir aðilar legðu niður vopn í Austur-Úkraínu og jafnframt eftir því að rússnesk stjórnvöld létu af hendi Krímskaga.
    Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun 2. nefndar var bent á að loftslagsbreytingar af mannavöldum hefðu áhrif á veðrakerfi heimsins og ógnuðu lífi og hagkerfi þjóða. Mælt var með því að aðildarríki ÖSE settu á kolefnisskatta eða beittu öðrum aðgerðum til að draga úr losun koltvísýrings og gæfu efnahagslegan hvata fyrir notkun sjálfbærra orkugjafa. Bryndís lagði fram tvær breytingartillögur við ályktun nefndarinnar sem báðar voru samþykktar. Með breytingartillögunum ítrekaði þingið að loftslagsbreytingar hefðu víðtæk áhrif á lífríki sjávar, annars vegar með breyttu súrefnisinnihaldi í sjó og hins vegar súrnun sjávar. Enn fremur var bent á að hitastig hækkaði mun hraðar á heimskautasvæðum en almennt í heiminum. Aðildarríki ÖSE voru hvött til þess að bregðast við þessari ógn og til að viðhalda andrúmslofti samstarfs og samvinnu milli norðurslóðaríkja þrátt fyrir aukin umsvif í kringum siglingar og auðlindanýtingu á norðurslóðum. Í ályktun nefndarinnar voru aðildarríki ÖSE enn fremur hvött til þess að standa vörð um mannréttindi flóttafólks og farandverkamanna og vinna gegn fordómum gagnvart flóttafólki og innflytjendum. Einnig voru ríkin hvött til þess að auka samvinnu sín á milli til að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, peningaþvætti, hryðjuverkum og spillingu. Þingið ítrekaði að kynjajafnrétti væri forsenda sjálfbærrar þróunar og friðar.
    Guðmundur Andri Thorsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Hann vakti máls á málefnum hinsegin fólks og ítrekaði að hlutverk stjórnmálamanna væri að tryggja að lagaumhverfið stæði vörð um mannréttindi allra þegnanna. Í þeim tilgangi hefði Alþingi nýlega samþykkt lög um kynrænt sjálfræði. Löggjöfin tryggði einstaklingum rétt til að breyta því hvernig kyn þeirra væri skráð í þjóðskrá. Tilgangur laganna væri að styrkja sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og ákvörðunarrétt þeirra yfir eigin líkama. Samtök hinsegin fólks á Íslandi álitu þetta frumvarp gríðarlega mikilvægt framfaraskref. Í ályktun nefndarinnar var lýst yfir áhyggjum af aukinni mismunun og fordómum gagnvart hinsegin fólki á ÖSE-svæðinu. Réttindi hinsegin fólks til fjölskyldulífs og til þess að vera laus við mismunun væru grundvallarmannréttindi. Þingið kallaði eftir því að þjóðþing aðildarríkjanna ræktu skyldu sína sem eftirlitsaðili með því að aðildarríki ÖSE uppfylltu skuldbindingar sínar. Kallað var eftir aukinni vernd fjölmiðlafólks og uppljóstrara og að aðildarríki létu tafarlaust lausa pólitíska fanga. Aðildarríki voru hvött til að berjast gegn misnotkun á INTERPOL-kerfum í pólitískum tilgangi.
    Ályktanir nefndanna voru samþykktar á þingfundum ÖSE-þingsins og auk þess voru til viðbótar samþykktar 15 aukaályktanir, en saman mynduðu þær Lúxemborgaryfirlýsinguna. Á meðal þeirra voru ályktanir um hlutverk frjálsra félagasamtaka og einstaklinga í að vinna að markmiðum ÖSE, hlutverk þjóðþinga í að koma í veg fyrir spillingu, skilvirka stjórn innflytjendamála, hervæðingu hernuminna svæða Úkraínu og áskoranir við móttöku fyrrverandi bardagamanna í hryðjuverkasamtökum. Í umræðum um ályktun um orkuöryggi á ÖSE-svæðinu sagði Gunnar Bragi Sveinsson mikilvægt að standa vörð um rétt þjóða til að nýta og stjórna orkuauðlindum sínum. Ekki væru allar þjóðir svo heppnar að hafa aðgang að sjálfbærum orkuauðlindum. Hann benti á að samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri rúmlega 6% vergrar þjóðarframleiðslu heimsins eytt í niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti. Það væri bráðnauðsynlegt að nýta hluta þessa fjár í þróun sjálfbærra orkugjafa.
    Í almennum umræðum þakkaði Gunnar Bragi Sveinsson Hedy Fry, sérstökum fulltrúa um jafnréttismál, og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, fyrir þeirra innlegg á ársfundinum. Hann sagði jafnrétti vera mannréttindamál og spurði þingheim hvort dætur þeirra og mæður ættu ekki rétt á sömu tækifærum og karlar. Hann sagði nauðsynlegt að berjast gegn misrétti, fordómum og ofsóknum, hvort sem væri gegn konum, hinsegin fólki eða öðrum samfélagshópum. Öfgahópar mættu ekki ná yfirhöndinni.
    Í umræðum á síðasta degi þingsins sagði Nikolai Ryzhak, þingmaður frá Rússlandi, leitt að sjá hvernig ÖSE-þingið sameinaðist um ásakanir gagnvart Rússum sem ættu sér ekki stoð í raunveruleikanum. Hann sagði landsdeild Rússa hafa sýnt einstaka þolinmæði en að það væru takmörk fyrir öllu. Sovétmenn hefðu verið stofnaðilar að ÖSE og Rússar hefðu sigrað hryðjuverkahópinn sem kallaði sig Íslamskt ríki og hefði ógnað öllu ÖSE-svæðinu. Við atkvæðagreiðslur um Lúxemborgaryfirlýsinguna kallaði Ryzhak ítrekað eftir því að forseti staðfesti að fundurinn væri ályktunarbær, og benti á að samanlögð atkvæði þingmanna við atkvæðagreiðslur væru færri en helmingur meðlima þingsins. George Tsereteli, forseti þingsins, benti á að samkvæmt þingsköpum væri það forseta að ákveða hvort fundur væri ályktunarbær. Yfirlýsingin var að lokum samþykkt með 94 atkvæðum gegn 7, en 11 sátu hjá.
    Í lok ársfundar var George Tsereteli, þingmaður frá Georgíu, endurkjörinn forseti ÖSE-þingsins með 120 atkvæðum gegn 84 atkvæðum mótframbjóðanda hans, Doris Barnett, þingkonu frá Þýskalandi. Einnig voru sjálfkjörnir þrír varaforsetar þingsins og nýr gjaldkeri, Peter Juel-Jensen frá Danmörku. Eftir fundinn var yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkjanna í þeirri von að hún hefði áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.
    Samhliða ársfundinum sat Íslandsdeild hádegisverð um jafnréttismál í boði sérstaks fulltrúa um jafnréttismál, Hedy Fry frá Kanada, og sótti hliðarviðburð Svía um rannsókn á morðinu á Boris Nemtsov, en ÖSE-þingið skipaði Margaretu Cederfelt sérstakan framsögumann um málið á ársfundi sumarið 2018 og er það í fyrsta sinn sem þingið skipar slíkan framsögumann.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Marrakech 4.–6. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, og Guðmundur Andri Thorsson auk Örnu Gerðar Bang, alþjóðaritara. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni Miðjarðarhafssvæðisins og Norður-Afríku, loftslagsbreytingar, hryðjuverkaógnin og málefni flóttamanna og innflytjenda. Yfirskrift fundarins var Efling öryggis við Miðjarðarhaf: Hlutverk ÖSE og samstarfsríkja. Um 300 þátttakendur sóttu fundinn, þar af 190 þingmenn frá 50 ríkjum. Var þetta í fyrsta sinn sem ÖSE-þingið hélt fund í samstarfsríki ÖSE og í Afríku.
    Í opnunarávarpi sínu lagði forseti ÖSE-þingsins, George Tsereteli, áherslu á nauðsyn svæðisbundinnar og alþjóðlegrar samvinnu. Án hennar væri ekki mögulegt að gera ráð fyrir árangri hvort sem horft væri til málefna innflytjenda, hryðjuverkaógnarinnar, baráttunnar gegn loftslagsbreytingum eða sjálfbærrar þróunar. Hann kallaði eftir auknu samstarfi milli norðurs og suðurs og austurs og vesturs. Öryggi í Evrópu og á Miðjarðarhafssvæðinu styddi hvort við annað og því væri þörf á aukinni fjölþjóðlegri skuldbindingu.
    Aðrir sem ávörpuðu fundinn voru Hakim Benchamach, þingforseti marokkóska þingsins, Khalid Samadi, ráðherra æðri menntunar og rannsókna í Marokkó, og Alassane Bala Sakande, forseti Afríkusambands þingmanna og forseti þings Búrkína Fasós. Í erindi sínu lagði Benchamach áherslu á mikilvægi þess að eyða því sem veldur spennu og ógn í Afríku og á Miðjarðarhafssvæðinu. Ríkin tækjust á við sams konar áskoranir eins og hryðjuverkaógnina og hatursorðræðu og aukið samstarf væri ávísun á frekari árangur.
    Haustfundinum var skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta var rætt um samstarf ÖSE og Afríkuríkja með áherslu á nýsköpun og gott verklag. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Roger Wicker, varaforseti ÖSE-þingsins, stýrði umræðum. Hann sagði ÖSE geta gegnt mikilvægu hlutverki við að styrkja umræður milli landa í ljósi heildrænnar nálgunar sinnar í öryggismálum. Þá hélt Mbarka Bouaida, forseti héraðsins Guelmim-Oued Noun í Marokkó, erindi um þróun mála þar í landi og í Norður-Afríku með áherslu á efnahags- og félagsmál. Hún ræddi enn fremur jafnréttismál á svæðinu en hún var fyrsta konan sem kosin var forseti héraðs í Marokkó.
    Í öðrum hluta ráðstefnunnar voru til umræðu málefni Miðjarðarhafs og þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum með áherslu á efnahagsþróun og búferlaflutninga. Moustapha Cisse Lo, forseti efnahagsráðs Vestur-Afríkuþingsins (ECOWAS), lýsti átakanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga á svæðinu og lagði áherslu á nauðsyn þess að ríki uppfylltu skilyrði Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði loftslagsbreytingar helstu áskorun Afríku þar sem þær ykju á núverandi vandamál svæðisins, eins og skort á góðum stjórnarháttum, slæma umsjón með vatnsauðlindum og gífurlega fólksflutninga.
    Þá hélt Teresa Botella frá Alþjóðastofnun um fólksflutninga (International Organization for Migration, IOM) erindi þar sem hún ræddi tengslin milli loftslagsbreytinga, búferlaflutninga og öryggismála með áherslu á þætti sem auka enn frekar á varnarleysi, eins og kyn og fátækt. Hún sagði stofnunina vinna að þremur meginmarkmiðum; í fyrsta lagi að finna lausnir fyrir fólk sem vantar samastað, í öðru lagi að aðstoða fólk sem á í flutningum og í þriðja lagi að aðstoða fólk við að flytja. Jafnframt ræddu fundargestir um heildræna nálgun ÖSE í öryggismálum og bentu á að loftslagsbreytingar hafa áhrif á alla þætti hennar, stjórnmálalega og hernaðarlega, efnahagslega og umhverfislega og einnig á mannlegu víddina.
    Bryndís Haraldsdóttir tók til máls og lagði áherslu á að loftslagsbreytingar væru ein stærsta ógnin gegn friði í heiminum og krefðist samvinnu yfir landamæri. Ríkisstjórn Íslands hefði sett sér metnaðarfulla stefnu til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Parísarsamkomulaginu fyrir árið 2030. Liður í að ná þessum markmiðum væri m.a. að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040. Þá færi Ísland með formennsku í Norðurskautsráðinu frá 2019–2021. Yfirskrift formennsku Íslands væri Saman til sjálfbærni með áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál, endurnýjanlega orku og fólkið á norðurslóðum. Enn fremur sagði Bryndís sjálfstæði Íslands og farsæld grundvallaða á núverandi heimsskipan þar sem áhersla er lögð á virðingu fyrir alþjóðalögum, frjálsri verslun, lýðræði og alþjóðlegri samvinnu. Hún hvatti aðildarríki ÖSE til að standa vörð um sameiginleg gildi og virða mannréttindi og alþjóðalög. Að lokum lagði Bryndís áherslu á mikilvægi jafnréttis kynjanna sem væri þverlægt áherslumál í íslenskri utanríkisstefnu. Hún lýsti yfir vonbrigðum með að pallborð opnunarfundarins hefði eingöngu verið skipað karlmönnum og hvatti ÖSE-þingið til að gera betur. Þá benti hún á að konur hefðu greint frá því í umræðum á fundinum að gæta þyrfti jafnréttis en það væri ekki nóg að þær vektu athygli á málinu heldur þyrftu öll kyn að láta sig málið varða.
    Þriðji hluti fundarins fjallaði um baráttuna gegn fordómum og mismunun á grundvelli trúarbragða eða skoðana. Norska þingkonan og varaforseti ÖSE-þingsins Kari Henriksen hóf umræðuna og sagði grundvöll málsins vera skilning á því að fólk hefði jafnan rétt. Það þýddi að ríkjum væri skylt að virða og vernda trúfrelsi. Aðalræðumaður á fundinum var Mohamed Belkebir, forstjóri Mohammedia League of Moroccan Ulama, sem er rannsóknasetur um gildi. Í erindi sínu sagði Belkebir starf setursins m.a. snúast um að berjast gegn trúarlegu ofstæki með því að sýna fram á að hugmyndafræði íslamskrar öfgastefnu væri ekki byggð á boðskap Kóransins. Þannig legði setrið áherslu á raunverulega merkingu íslamskra fræða. Í umræðum á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi þess að tala gegn umburðarleysi og undirstrika mátt menntunar í baráttunni gegn fordómum.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Gunnar Bragi Sveinsson,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
varaform.
Guðmundur Andri Thorsson.




Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2019.

    Á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2019 samþykkti þingfundur Lúxemborgaryfirlýsinguna. Auk ályktana málefnanefndanna þriggja innihélt Lúxemborgaryfirlýsingin eftirfarandi aukaályktanir:
          Ályktun um hlutverk frjálsra félagasamtaka og einstaklinga í að vinna að markmiðum ÖSE.
          Ályktun um hlutverk þjóðþinga í að koma í veg fyrir spillingu.
          Ályktun um skilvirka stjórn innflytjendamála.
          Ályktun um hervæðingu Rússa á hernumdum svæðum Úkraínu.
          Ályktun um áskoranir tengdar móttöku fyrrverandi bardagamanna í hryðjuverkasamtökum.
          Ályktun um stöðu öryggis og mannréttinda í Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu.
          Ályktun um orkuöryggi á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um góð viðmið fyrir ríki varðandi einkarekna herþjónustu.
          Ályktun um stefnumótun á vettvangi vísinda, tækni og nýsköpunar í þágu sjálfbærrar þróunar.
          Ályktun um samþættingu kynjasjónarmiða og sjónarmiða ungmenna í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
          Ályktun um stafræna þróun í þágu jafnréttisstefnu.
          Ályktun um að tryggja aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum í þágu orkuöryggis.
          Ályktun um fræðslu skólabarna til að koma í veg fyrir mansal.
          Ályktun um heilbrigðisþjónustu við nýbura í þágu félagslegrar þróunar.
          Ályktun um aðgerðir ÖSE vegna aukinnar mismununar gagnvart kristnum mönnum og fylgjendum annarra trúarhópa í minni hluta í ákveðnum ÖSE-ríkjum.


Lúxemborgaryfirlýsinguna er að finna á eftirfarandi slóð:
www.oscepa.org/documents/annual-sessions/2019-luxembourg