Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 920  —  451. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Kauphöll Íslands hf. og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 frá 14. júní 2017 um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB. Með frumvarpinu er því lagt til að sett verði ný heildarlög um lýsingar verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á markaði og að samhliða falli brott tiltekin ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Opinbert viðmiðunargengi.
    Í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við útreikning fjárhæða í lögunum sé miðað við opinbert kaupgengi evru. Í umsögn Seðlabanka Íslands er bent á að rétt sé að fella út orðið „kaupgengi“ þar sem frá og með 1. apríl 2020 birtir Seðlabankinn einungis opinbert miðgengi gjaldmiðla og þá leggst af birting á kaup- og sölugengi gjaldmiðla. Nefndin fellst á það sjónarmið og leggur til að orðið „kaupgengi“ falli brott úr 4. mgr. 3. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
    Í umsögn Seðlabankans er vakin athygli á því að skilja megi ákvæði til bráðabirgða svo að staðfestar lýsingar verðbréfa falli niður eftir 21. júlí 2020. Huga þarf betur að lagaskilum og skýra hvernig meta eigi hvort lýsingar sem staðfestar voru á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti uppfylli skilyrði þeirra laga sem gilda eigi um þær eftir 21. júlí 2020. Nefndin fellst á þau sjónarmið og leggur til breytingar á ákvæðinu, í samráði við ráðuneytið.

    Aðrar breytingartillögur en þær sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru tæknilegs eðlis og til lagfæringar en er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðið „kaupgengi“ í 4. mgr. 3. gr. falli brott.
     2.      Við 3. mgr. 6. gr.
                  a.      Í stað orðanna „hann eða það“ í 7. tölul. kemur: þau.
                  b.      Í stað orðanna „synja staðfestingu“ í 10. tölul. komi: synja beiðni um staðfestingu.
                  c.      12. tölul. orðist svo: Stöðva tímabundið eða krefjast þess af viðkomandi skipulegum markaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegum viðskiptavettvangi að viðskipti með verðbréf séu stöðvuð tímabundið ef Fjármálaeftirlitið metur aðstæður útgefanda sem svo að viðskiptin mundu skaða hagsmuni fjárfesta.
     3.      Í stað orðsins „lúta“ í 1. mgr. 10. gr. komi: falla undir.
     4.      F-liður 5. mgr. 12. gr. orðist svo: samstarfsvilja hins brotlega en leið gætt að því að tryggja endurheimt þess fjárhagslega ávinnings sem leiddi af broti eða var stefnt að með því.
     5.      Við 21. gr.
                  a.      Við bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðanna „12. tölul. 43. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 77. gr. laganna kemur: m-lið 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129.
                  b.      Í stað orðanna „1.–3. tölul.“ í c-lið komi: 1.–4. tölul.
     6.      Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:
                  Lýsingar verðbréfa sem staðfestar eru í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu þar til þær falla úr gildi eða fram til 21. júlí 2020, hvort heldur gerist fyrr. Óski útgefandi eftir því að lýsing haldi gildi sínu eftir 21. júlí 2020 skal hann, eigi síðar en 21. maí 2020, leggja fram umsókn til Fjármálaeftirlitsins um að lýsingin haldi gildi sínu í 12 mánuði frá staðfestingu hennar. Umsókninni skal fylgja útfyllt skrá yfir millivísanir til staðfestingar á því að lýsingin uppfylli skilyrði laga þessara. Uppfylli lýsingin ekki skilyrði laganna skal útgefandi uppfæra hana með viðauka skv. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2017/1129. Framangreindar lýsingar er ekki hægt að tilkynna til yfirvalda í gistiaðildarríkjum.
                  Þóknun fyrir staðfestingu skv. 1. mgr. skal ákveðin af Fjármálaeftirlitinu.

    Þorsteinn Víglundsson og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 30. janúar 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Njörður Sigurðsson. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Smári McCarthy.