Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 931  —  566. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um takmarkanir á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
Ari Trausti Guðmundsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem hafi það hlutverk að skoða og koma með tillögur um útfærslu á banni við fjárfestingum í fyrirtækjum sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis. Bannið taki hið minnsta til slíkra fjárfestinga á vegum hins opinbera og lífeyrissjóðanna, en nái eftir atvikum til fjárfestinga annarra fjármálafyrirtækja. Ráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps á haustmánuðum 2020. Ráðherra leggi fram frumvarp sem taki mið af þeim niðurstöðum eigi síðar en á 151. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skipi starfshóp sérfræðinga á sviði sjálfbærni og fjárfestinga sem hafi það hlutverk að skoða og koma með tillögur að útfærslu á banni við fjárfestingum í fyrirtækjum sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis sem eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Bannið taki hið minnsta til slíkra fjárfestinga á vegum hins opinbera og lífeyrissjóðanna, en nái eftir atvikum til fjárfestinga annarra fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að ráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps á haustmánuðum 2020. Ráðherra leggi í kjölfar skýrslunnar fram frumvarp eigi síðar en á 151. löggjafarþingi.
    Bann við fjárfestingum í kolefnisframleiðslu hefur tvennt að markmiði. Annars vegar tengist það alþjóðlegum skuldbindingum stjórnvalda í loftslagsmálum, en til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í Parísarsáttmálanum þarf að halda stórum hluta þekktra kolefnisbirgða óbrenndum undir jarðskorpunni. Þetta sjónarmið snertir beint stóran hluta sjóðfélaga lífeyrissjóða, en einstaklingur sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði um þessar mundir má vænta þess að hefja töku lífeyris á seinni hluta 21. aldarinnar – þegar áhrif loftslagsbreytinga verða komin fram af fullum þunga.
    Hins vegar eru hrein fjárhagsleg rök sem mikilvægt er að halda á lofti við aðila sem að miklu leyti höndla með fjármuni sem eru sameign almennings. Áhættan sem felst í því að fjárfesta of mikið í bólueignum í iðnaði sem eykur losun kolefnis verður seint vanmetin, enda snýst sú umbylting sem nauðsynleg er til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun að miklu leyti um að draga úr slíkri starfsemi. Það mun leiða til þess að fjöldi fjárfestinga getur fallið í verði eða orðið með öllu verðlaus. Að sama skapi búa gríðarleg tækifæri til nýsköpunar og fjárfestinga í því að styðja við græna framleiðslu á næstu árum.
    Þingsályktunartillagan lýtur í fyrsta lagi að lífeyrissjóðum, sem hafa yfir gríðarlegum eignum að ráða. Eignir íslenska lífeyriskerfisins námu 4.900 milljörðum kr. í lok nóvember 2019 samkvæmt upplýsingum Seðlabankans. Þar af voru erlendar eignir 1.438 milljarðar kr. Því má ljóst vera að miklir hagsmunir felast í því á hvaða hátt þessum fjármunum er ráðstafað. Jafnframt verður litið til fjárfestinga hins opinbera, sem vænta má að verði umfangsmeiri á næstu árum ef frumvarp um þjóðarsjóð nær fram að ganga.

Siðferðisleg viðmið lífeyrissjóða.
    Núverandi rammi utan um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða var settur með samþykkt laga nr. 113/2016, um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í meðförum þingsins á því máli bættist nýr töluliður við 36. gr. laganna, svohljóðandi „Lífeyrissjóður skal setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.“
    Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar (þskj. 1685, á 145. löggjafarþingi) eru svohljóðandi rök færð fyrir ákvæðinu: „Í lok júlí 2016 nam hrein eign lífeyrissjóðanna 3.319 milljörðum kr. eða ríflega einni og hálfri landsframleiðslu. Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna getur því haft margvísleg áhrif á efnahag landsins og lífskjör í landinu. Í 1. tölul. 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Af umfangi lífeyrissjóðanna leiðir óhjákvæmilega að fjárfestingarstefna þeirra þarf eftir því sem kostur er að stuðla að bættum efnahag og batnandi lífskjörum í landinu til framtíðar. Nefndin telur auk þess ástæðu til að kveða á um að lífeyrissjóðir setji sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Sjóðirnir starfa í þágu almennings og ætla verður að þorri almennings telji mikilvægt að fjárfestingarstefna þeirra endurspegli almenn siðferðisleg viðmið. Nánari afmörkun verður á hendi hvers sjóðs.“ Í framkvæmd virðist hafa skort nokkuð á að fullur skilningur sé á því hvað felist í þessu ákvæði, líkt og sjá má í svörum fjármála og efnahagsráðherra við röð fyrirspurna sem fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar lagði fram.
    Fyrsti ber að nefna þegar fjármála- og efnahagsráðherra var spurður hvort hann teldi þörf á að breyta reglum um fjárfestingastefnu lífeyrissjóða, með tilliti til krafna um að fjárfestingar lífeyrissjóða þjóni loftslagsmarkmiðum og markmiðum um sjálfbærni (446. mál á 146. löggjafarþingi). Í svari sínu vísaði ráðherrann til siðferðislegu viðmiðanna, en jafnframt kom fram að hann teldi að það ætti að vera gagnsætt í hverju lífeyrissjóðirnir fjárfestu og enn fremur að hann teldi að þær upplýsingar lægju mjög oft fyrir.
    Í framhaldi af þessu var lögð fram fyrirspurn (477. mál á 146. löggjafarþingi), þar sem fjármála- og efnahagsráðherra var spurður hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna væri bundinn í starfsemi sem fælist í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis. Ráðherrann svaraði því til að hann gæti ekki krafist þess að lífeyrissjóðir veittu þær upplýsingar sem óskað væri eftir og því væri ekki mögulegt að svara fyrirspurninni hvað þetta varðaði, þrátt fyrir að hann hafi talið að þær upplýsingar lægju mjög oft fyrir, sbr. fyrra svar.
    Í svari við fyrirspurn um upplýsingagjöf lífeyrissjóða um fjárfestingarstefnu (594. mál á 146. löggjafarþingi) kom fram að lífeyrissjóði bæri að senda Fjármálaeftirlitinu greinargerð með fjárfestingarstefnu sinni ár hvert þar sem m.a. skuli koma fram hvernig sjóðurinn hefði í stefnu sinni fylgt reglum um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sínum – en jafnframt að ekki hefði þótt ástæða til að óska sérstaklega eftir upplýsingum um það hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna væri bundinn í starfsemi sem fælist í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis.
    Loks kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um fjárfestingastefnu lífeyrissjóða (379. mál á 149. löggjafarþingi) að Fjármálaeftirlitið hefði ekki mótað sérstakar kröfur eða viðmið um siðferðisleg viðmið varðandi fjárfestingar lífeyrissjóða, og að ekki væri lagt sérstakt mat á samfélagslega ábyrgð í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða af hálfu eftirlitsaðila.

Fjárlosun fyrir loftslagið.
    Hugtakið fjárlosun (e. divestment) er andheiti við fjárfestingu og lýsir þeirri aðgerð einstaklinga, fyrirtækja, stofnana eða samtaka að losa um eignir sínar í tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Undanfarin áratug eða svo hafa æ fleiri selt hlutabréf sín í olíufélögum og öðrum fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti. Annars vegar hafa verið færð fyrir því viðskiptaleg rök, enda fyrirsjáanlegt að kolefnisbólan muni frekar fyrr en síðar springa, þar sem kol, olía og gas séu takmarkaðar auðlindir sem ríki heims hafi aukinheldur náð samstöðu um að nota í sífellt minna mæli til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Hins vegar er einfaldlega um siðferðislega afstöðu að ræða, þ.e. að bera umhyggju fyrir umhverfinu og komandi kynslóðum. Það er sama úr hvorri áttinni fjárfestar nálgast málið, fjárfestingar í kolefnisiðnaði eru ekki líklegar til að skila ávöxtun ef litið er til verulega langs tíma.
    Fjöldi fagfjárfesta hefur á undanförnum misserum losað fé úr kolefnisiðnaði. Þar má m.a. nefna norska olíusjóðinn, sem á síðasta ári ákvað að losa sig við fjárfestingar í olíu- og gasfyrirtækjum að fjárhæð 7,5 milljarðar dollara. Þótt vissulega megi sjá þá ákvörðun í kaldhæðnislegu ljósi þá ber að nefna að þessi ákvörðun var ekki tekin af umhverfisástæðum, heldur vegna þess að stjórn sjóðsins mat þessa fjárfestingarleið of áhættusama. Þá hefur stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu nýlega samþykkt að hætta að fjármagna verkefni sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis fyrir lok þessa árs. Bankinn er stærsti fjölþjóðlegi þróunarbanki heims, en áætlað er að á árunum 2013–2018 hafi hann fjárfest um 13,5 milljarða evra í kolefnisiðnaði, eða sem nemur jafnvirði 6 milljarða kr. í hverri einustu viku yfir sex ára tímabil.
    Fyrsta ríkið til að stefna formlega á fjárlosun var Írland. Þar samþykkti þingið vorið 2018 að losa fjárfestingar Ireland Strategic Investment Fund, sem líkja má við norska olíusjóðinn eða þær hugmyndir sem liggja fyrir Alþingi um þjóðarsjóð. Fjöldi háskóla, sveitarfélaga, trúfélaga, góðgerðarsamtaka og lífeyrissjóða hafa stigið sama skref. Umhverfisverndarsamtökin 350.org áætla að um þessar mundir hafi um 1.100 stofnanir losað fjárfestingar úr kolefnisiðnaði að fjárhæð tæplega 11.500 milljarðar bandaríkjadala.
    Hér á landi hófst nýlega átak til að fá fram upplýsingar um fjárfestingar íslenskra aðila í kolefnisvinnslu. Það er Aldan – félag um sjálfbærni og lýðræði, í samstarfi við Landvernd, Foreldra fyrir framtíðina og Unga umhverfissinna, sem krefur öll fjármálafyrirtæki innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja um upplýsingar um fjárfestingar þeirra í kolefnisvinnslu. Þau svör sem borist hafa benda til þess að erlendar fjárfestingar séu gjarnan í gegnum sjóði, svo sem verðbréfasjóði og vísitölusjóði, sem samanstanda af mörgum félögum og því sé erfitt að útiloka að um eitthvert óbeint eignarhald sé að ræða.
    Líkt og aðrir þættir samfélagsins standa fjármálakerfi heimsins á miklum tímamótum. Einn af stærstu áhrifaþáttunum í stefnumörkun fjármálakerfa til lengri tíma er sú aukna krafa sem gerð er til samfélagslega ábyrgra fjárfestinga og grænna fjárfestinga, þ.e. fjárfestinga sem auk hefðbundinnar arðsemiskröfu hafa jákvæð áhrif á umhverfis- og loftslagsmál. Í því fjárfestingarumhverfi er nauðsynlegt að sýna sveigjanleika og hæfni til að bregðast hratt við nýjum aðstæðum. Þeir aðilar á fjármálamarkaði sem fjárfesta til langs tíma þyrftu í raun nú þegar að vera langt komnir á braut grænna fjárfestinga og fjárlosunar, því fjárfestingar sem ekki taka tillit til loftslagsbreytinga teljast áhættusamari með hverju árinu sem líður. Af svörum fjármála- og efnahagsráðherra að dæma ríkir afskiptaleysi af hálfu hins opinbera gagnvart markaðnum að þessu leyti, en þau svör sem hafa borist í fjárlosunarátaki Öldunnar benda til þess að gera megi töluvert betur. Með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar myndu stjórnvöld stíga mikilvægt skref í áttina að því að hvetja íslenskt fjármálakerfi til að losa fé úr starfsemi sem veldur hlýnun jarðar og færa það yfir í grænar lausnir. Þetta gæti reynst ein skjótvirkasta leiðin til að ná árangri innan þess gróðadrifna hagkerfis sem við búum við.