Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 946  —  579. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um börn og umsóknir um alþjóðlega vernd.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hve mörg börn hafa sótt um alþjóðlega vernd eða verið hluti af fjölskyldu sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á undanförnum fimm árum? Sundurliðun óskast eftir ári umsóknar, aldri barna og því hvort umsóknir hafi flokkast sem forgangsmál, Dyflinnarmál, verndarmál eða efnismeðferðarmál.
     2.      Hversu mörg þessara barna fengu umsókn sína samþykkta og hve mörgum var hafnað? Óskað er eftir sömu sundurliðun og í 1. tölul.
     3.      Í hve mörgum tilvikum var tekið viðtal við barn vegna umsóknar um vernd svo hægt væri að taka tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska? Óskað er eftir sömu sundurliðun og í 1. tölul.
     4.      Hversu mörg börn sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hafa verið hér á landi í 16 mánuði eða lengur og hversu lengi hafa þau börn verið sem dvalið hafa hér lengst? Sundurliðun óskast eftir því hvort beðið er ákvörðunar í máli þeirra eða hvort þau hafi fengið synjun og bíði brottvísunar.
     5.      Hvernig er ákveðið hvort taka eigi viðtal við barn vegna umsóknar um vernd? Er sú ákvörðun tekin af starfsfólki með sérþekkingu á málefnum barna eða í samstarfi við stofnanir sem búa yfir slíkri sérþekkingu?
     6.      Hvaða þjálfun hefur starfsfólk Útlendingastofnunar fengið til að taka viðtöl við börn í tengslum við umsóknir um vernd? Hversu oft hefur Útlendingastofnun nýtt sér heimild 5. mgr. 28. gr. útlendingalaga um að fá sérfræðing í málefnum barna sér til aðstoðar þegar viðtöl eru tekin?
     7.      Á hvaða forsendum er ákveðið hvort viðtal við barn er tekið í Útlendingastofnun eða í Barnahúsi?


Skriflegt svar óskast.