Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 947  —  580. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um málsmeðferð umsókna umsækjenda um alþjóðlega vernd frá öruggum ríkjum.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Á hvaða upplýsingum byggist listi Útlendingastofnunar yfir svonefnd örugg ríki? Er við gerð hans tekið tillit til viðmiða og tilmæla alþjóðastofnana, svo sem Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna? Tekur Útlendingastofnun aðeins til skoðunar almennt ástand í ríkinu eða einnig einstaka samfélagsþætti varðandi öryggi tiltekinna hópa sem geta verið í viðkvæmri stöðu, t.d. vegna þjóðernisuppruna, trúarskoðana, fatlana eða kynhneigðar?
     2.      Telur ráðherra að 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga sé nægilega skýr varðandi þau skilyrði sem ríki þurfa að uppfylla til að teljast til öruggra ríkja? Telur ráðherra jafnframt að setja þurfi skýrari tilmæli um að uppfæra þurfi landaupplýsingar ríkja á lista yfir örugg ríki og ef svo er, hversu reglulega?
     3.      Hver er meðalhraði við afgreiðslu umsókna einstaklinga frá öruggum ríkjum hjá Útlendingastofnun? Í hversu mörgum tilfellum er ákvörðun birt umsækjanda sama dag og viðtal er tekið við hann?
     4.      Hvernig tryggir Útlendingastofnun einstaklingsbundið mat á aðstæðum einstaklinga frá öruggum ríkjum og þá sérstaklega í málum sem sæta forgangsmeðferð?
     5.      Við hvaða viðmið styðst Útlendingastofnun við mat á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus?
     6.      Hefur framlagning gagna í málum umsækjenda frá öruggum ríkjum áhrif á málshraða? Eru öll gögn þýdd sem lögð eru fram til stuðnings við umsókn einstaklings frá öruggu ríki?


Skriflegt svar óskast.