Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 949  —  305. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um fjármagnstekjuskatt.


     1.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti á tekjuárinu 2017? Svar óskast sundurliðað eftir fjármagnstekjuskatti af:
                  a.      innlendum bankainnstæðum,
                  b.      erlendum bankainnstæðum,
                  c.      vöxtum, arði og söluhagnaði af innlendum verðbréfasjóðum,
                  d.      arði af innlendum hlutabréfum,
                  e.      söluhagnaði af innlendum hlutabréfum,
                  f.      leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ekki er ætlað til atvinnurekstrar,
                  g.      vaxtatekjum af gjaldeyrisreikningum í bönkum,
                  h.      gengismun á gjaldeyrisreikningum í bönkum.

    Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti á tekjuárinu 2017 voru 29.566 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi.
    Hér er rétt að taka fram að tekjur af fjármagnstekjuskatti í tekjuuppgjöri ríkisins eru ekki sundurliðaðar eftir þeim tegundum fjármagnstekna einstaklinga sem um er spurt. Álagður fjármagnstekjuskattur á einstaklinga liggur þó fyrir í nokkurri sundurliðun eftir tegundum fjármagnstekna, byggt á upplýsingum úr skattframtölum. Álagðir skattar mynda grundvöll tekjuskráningar í tekjubókhaldi ríkisins og séu þeir í eðlilegum skilum þá verða bókfærðar tekjur hjá ríkissjóði sama fjárhæð og álagningin á einstaklinginn. Álagðir skattar eru því almennt góð nálgun við tekjur ríkissjóðs en engu að síður verða tekjur þó jafnan lægri sem nemur vanskilum. Einnig er ástæða til að benda á að fjármagnstekjur hjá einstaklingi falla ekki til á nákvæmlega sama tíma og fjármagnstekjuskattur er bókfærður af þeim tekjum hjá ríkissjóði. Það má bæði rekja til þess að fjármagnstekjuskattur er ýmist staðgreiddur eða greiddur samkvæmt álagningu með árs töf og einnig til þeirra tímafrávika sem skapast vegna t.d. ágreiningsmála, endurálagningar, niðurfærslna, afskrifta og slíkra þátta sem hafa áhrif á tekjufærslur í bókhaldi ríkisins. Vegna framangreinds er í þessu svari byggt á gögnum úr álagningu opinberra gjalda á einstaklinga samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra með fyrirvara um að endanleg útkoma kann að verða önnur að nokkru marki, sjá töflu 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Er frítekjumörkum ráðstafað í þeirri röð sem fram kemur í 1. tölul.? Ef ekki, með hvaða aðferð þá?
    Vaxtatekjur af innstæðum í innlendum og erlendum bönkum og aðrar vaxtatekjur framteljanda og barna hans eru lagðar saman. Sá hluti heildarfjárhæðarinnar er skattlagður sem er yfir frítekjumörkum vaxtatekna, óháð samsetningu teknanna. Frítekjumörk fyrir vaxtatekjur ársins 2017 eru 150 þús. kr./ári fyrir einhleypa og 300 þús. kr./ári fyrir samsköttuð pör. Frítekjumörkum er því ekki ráðstafað í þeirri röð sem fram kemur í 1. tölul.

     3.      Hve stór hluti frítekjumarka, í krónum talið, nýttist skattgreiðendum?
    Samanlagt voru vaxtatekjur samkvæmt skattframtölum einstaklinga 32.753 millj. kr. tekjuárið 2017. Þar af voru 23.006 millj. kr. yfir skattleysismörkum og því skattskyldar. Alls 9.747 millj. kr. voru undir mörkunum og það er því sú fjárhæð sem nýttist skattgreiðendum til skattleysis.

     4.      Hvernig sundurliðast framangreindar skattgreiðslur eftir aldri gjaldenda? Svar óskast sundurliðað eftir aldursbilunum:
                  a.      0–20 ára,
                  b.      21–40 ára,
                  c.      41–60 ára,
                  d.      61–70 ára,
                  e.      71 árs og eldri.

    Sjá töflu 2.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     5.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði einstaklinga af fasteignum sem ekki eru ætlaðar til atvinnurekstrar? Svar óskast sundurliðað eftir:
                  a.      íbúðarhúsnæði, auk fjölda tilfella,
                  b.      sumarhúsum, auk fjölda tilfella,
                  c.      aldri gjaldenda, eftir sömu aldursbilum og í 4. tölul.

    Álagður fjármagnstekjuskattur á söluhagnað einstaklinga vegna sölu á fasteignum sem ekki eru ætlaðar til atvinnurekstrar á tekjuárinu 2017 (álagning 2018), nam alls 782 millj. kr. Sundurliðun samkvæmt stafliðum a–c er sýnd í töflu 3.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     6.      Hve miklar voru skerðingar á bótum almannatrygginga hjá einstaklingum vegna söluhagnaðar af fasteignum sem ekki eru ætlaðar til atvinnurekstrar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins námu skerðingar á bótum almannatrygginga, vegna söluhagnaðar á árinu 2017 af fasteignum sem ekki eru ætlaðar til atvinnurekstrar, um 318 millj. kr.