Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 969  —  350. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans hf.


    Vert er að benda á að Bankasýslu ríkisins hefur verið falið með lögum að fara með eignarhluti og atkvæði ríkisins á hluthafafundum Íslandsbanka og Landsbankans og ber meðal annars að gera það í samræmi við eigandastefnu ríkisins á hverjum tíma. Þá kemur skýrt fram í hlutafélagalögum að stjórn félags fari með málefni þess milli hluthafafunda. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þar af leiðandi ekki aðkomu að ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda Landsbankans.
    Í ljósi þessa óskaði fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá Bankasýslu ríkisins varðandi þau atriði sem hér er spurt um. Bankasýslan óskaði í framhaldinu eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá Landsbankanum og byggjast svör ráðherra á þessum upplýsingum.

     1.      Hver er áætlaður byggingarkostnaður nýrra höfuðstöðva Landsbankans hf. við Austurhöfn í Reykjavík?
    Svar Landsbankans: Bankaráð Landsbankans tók ákvörðun um að byggja nýtt hús fyrir bankann við Austurhöfn í maí 2017 á grundvelli frumáætlunar sem miðaðist við að kostnaður við að byggja skrifstofu- og þjónustuhúsnæði yrði um 9 milljarðar kr., að lóðarverði meðtöldu. Það jafngildir rúmlega 10 milljörðum kr. nú, að teknu tilliti til þróunar vísitölu byggingarkostnaðar frá þeim tíma.
    Að afloknu mati á tillögum sem bárust í hönnun hússins var ljóst að bygging þess fæli í sér meiri kostnað en gert var ráð fyrir við upphaflega ákvörðun. Auk þess var sl. sumar tekin ákvörðun um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum fyrir vistvottun húsbygginga. Nú er reiknað með að heildarkostnaður verði 11,8 milljarðar kr. sem er framkvæmdakostnaður, lóðarverð og lóðarframkvæmdir ásamt kostnaði við eftirlit, hönnun og sameiginlegar framkvæmdir á svæðinu.
    Kostnaður við þann hluta húsnæðisins sem bankinn mun nýta er áætlaður um 7,5 milljarðar kr. Bankinn mun flytja starfsemi úr 12 húsum í miðborginni ásamt stærstum hluta Borgartúns 33 undir eitt þak í nýju húsi. Því fylgir mikið hagræði og er gert ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans af þeim sökum nemi um 500 millj. kr., einkum vegna lækkunar á húsaleigu og kostnaði við rekstur og viðhald húsnæðis, auk þess sem verkefnamiðuð vinnuaðstaða í nýja húsnæðinu mun gefa kost á aukinni skilvirkni í starfseminni.
    Tvö útboð í tengslum við byggingu hússins hafa farið fram, annars vegar vegna jarðvinnu og hins vegar vegna uppsteypu burðarvirkis. Bæði tilboð voru undir kostnaðaráætlun. Útboð í næsta verkþátt er áætlað á vormánuðum 2020.

     2.      Hve stór hluti byggingarinnar verður leigður út undir annað en starfsemi Landsbankans?
    Svar Landsbankans: Landsbankinn mun nýta 60% hússins, eða um 10.000 fermetra, en leigja frá sér eða selja 40% hússins, eða um 6.500 fermetra.
     3.      Hver hefur þróun starfsmannafjölda bankans verið á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011 og hvað má gera ráð fyrir að starfsmönnum fækki mikið árlega næstu 10 árin vegna breytinga í bankastarfsemi?
         Svar Landsbankans: Hinn 1. janúar 2011 voru 912 stöðugildi hjá Landsbankanum á höfuðborgarsvæðinu. Stöðugildum hafði fjölgað í 1.042 í upphafi árs 2012, aðallega vegna áhrifa af sameiningu við SpKef, SpFjármögnun og Avant. Hinn 1. janúar 2019 voru 760 stöðugildi á höfuðborgarsvæðinu. Þar af voru tæplega 670 stöðugildi vegna starfsemi sem gert er ráð fyrir að sameinist undir einu þaki í nýju húsi. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um þróun starfsmannafjölda næstu árin en ljóst er að bankastörfum er að fækka. Einn af meginkostunum við húsið sem verið er að reisa er að það býður upp á sveigjanleika í notkun þannig að bankinn getur ýmist nýtt stærri eða minni hluta þess.

     4.      Hvernig telur ráðherra að þörf fyrir húsnæði af þessari stærð og á þessum stað undir starfsemi bankans breytist fyrstu 10 árin eftir að byggingin verður tekin í notkun með tilliti til þróunar starfsmannafjölda og breytinga í bankastarfsemi? Hvaða rök mæla með því að byggja á þessum stað? Telur ráðherra að staðsetningin sé rétt með tilliti til bankaþjónustu framtíðarinnar?
    Eins og fram kemur í inngangi hér að framan hefur ráðherra ekki aðkomu að stjórn bankans. Greining og ákvörðun um þörf og staðsetningu húsnæðis undir hefðbundna starfsemi Landsbankans er alfarið á höndum bankaráðs.
    Svar Landsbankans: Landsbankinn hefur lengi unnið að því að koma miðlægri starfsemi bankans undir eitt þak þar sem núverandi húsakynni bankans í miðborg Reykjavíkur eru bæði óhentug og óhagkvæm. Áður en bankaráð Landsbankans tók ákvörðun um að byggja nýtt hús fyrir starfsemi bankans í maí árið 2017 skoðaði bankinn ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið KPMG. Þeir þættir sem horft var til í mati KPMG á mismunandi staðarvalkostum voru hagkvæmni, verðgildi hússins til framtíðar, samgöngur, staðsetning, skipulagsmál, sveigjanleiki húsnæðis og þjónusta og mannlíf í nágrenninu. Niðurstaðan var sú að Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn.

     5.      Hvað greiðir væntanleg útleiga húsnæðisins niður stóran hluta stofnkostnaðar þess? Hvaða áform eru uppi í því sambandi?
    Svar Landsbankans: Byggingarréttur á lóðinni er 16.500 fermetrar, þar af 2.000 fermetrar í kjallara, auk tæknirýma og sameiginlegs bílakjallara sem mun nýtast öllu svæðinu. Bankinn ætlar að nýta 10.000 fermetra, eða 60% hússins. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sá hluti hússins sem bankinn mun ekki nýta verði seldur eða leigður en bankinn reiknar með að sala/leiga standi undir stofnkostnaði við þann hluta hússins.

     6.      Hvert má ætla að sé markaðsvirði lóðarinnar sem tilheyrir byggingunni og hvað nemur það stórum hluta stofnkostnaðarins?
    
Svar Landsbankans: Landsbankinn keypti lóðina á uppboði árið 2014 og kostaði hún þá 957 millj. kr. en óvíst er hvert markaðsvirði hennar er í dag.

     7.      Telur ráðherra, sem handhafi hlutabréfs ríkissjóðs í bankanum, bygginguna skynsamlega fjárfestingu? Er fyrirhuguð framkvæmd gerð með samþykki Bankasýslu ríkisins?
    Ráðuneytið hefur í samstarfi við stofnanir þess metið tækifæri til að auka hagkvæmni í húsnæðismálum ríkisstofnana. Niðurstaða þess mats er að sameining starfsemi í nýju og sveigjanlegu húsnæði geti falið í sér mikil tækifæri til hagræðingar og mótunar nútímalegs vinnuumhverfis. Ekki er ástæða til að ætla annað en að sömu sjónarmið geti átt við um nýjar og sameiginlegar höfuðstöðvar Landsbanka. Þrátt fyrir þetta er ráðuneytið ekki í aðstöðu til að leggja heildstætt mat á áform Landsbanka enda er slíkt mat eins og áður hefur komið fram alfarið á ábyrgð bankaráðs Landsbankans.
    Svar Bankasýslu ríkisins: Bankasýsla ríkisins fékk upplýsingar um það á hverju ákvörðun bankaráðsins byggðist. Kom þar fram að bankaráðið hafði leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á það hvaða valkosti væru í boði fyrir byggingu höfuðstöðva og hver af þeim kostum væri vænlegastur. Var það niðurstaða þessara sérfræðinga að bygging höfuðstöðva við Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn sem í boði væri. Bankasýsla ríkisins hefur komið þeim sjónarmiðum á framfæri við bankaráðið að mikilvægt sé fyrir Landsbankann að draga úr fjárhagslegri áhættu vegna byggingar nýrra höfuðstöðva, m.a. í ljósi þess að bankinn muni einungis nýta hluta af þeirri byggingu, sem verið er að reisa við Austurhöfn.
    Fyrirhuguð framkvæmd hefur ekki verið borin undir hluthafafund bankans og hefur því framkvæmdin ekki komið til samþykktar eða synjunar Bankasýslu ríkisins enda ákvörðun um framkvæmdina alfarið á höndum bankaráðs.

     8.      Kemur til greina af hálfu ráðherra að falla frá umræddum byggingaráformum og selja lóðina? Hver er skoðun Bankasýslu ríkisins þar að lútandi?
    Eins og áður hefur komið fram fer bankaráð með stjórn félagsins og tekur ákvarðanir tengdar hefðbundinni starfsemi þess eins og umrædd byggingaráform. Þá fer Bankasýsla ríkisins með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og fer með atkvæði þess á hluthafafundum. Því er það ekki hlutverk ráðherra að ákveða að fallið skuli frá umræddum byggingaráformum.
    Svar Bankasýslu ríkisins: Lög nr. 88/2009 ráð fyrir armslengdarsjónarmiðum, þ.e. um samskipti ráðherra annars vegar við stofnunina og hins vegar við fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins, og um samskipti stofnunarinnar við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Sömuleiðis er það skýrt í kafla 2.5 í eigendastefnu ríkisins um fjármálafyrirtæki að „fjármálafyrirtæki eru rekin á viðskiptalegum forsendum á ábyrgð bankaráða, bankastjóra og stjórnenda eins og önnur félög.“ Einnig eru það skýr ákvæði í kafla 4.2 í fyrrgreindri eigandastefnu að stjórn og starfsfólk Bankasýslu ríkisins taki hvorki þátt í daglegum rekstri fyrirtækjanna né hafi áhrif á ákvarðanir þeirra utan hefðbundinna samskiptaleiða, sem tengjast félagsformi hvers fyrirtækis eða um er samið í samningum milli þeirra og stofnunarinnar sbr. ákvæði 4. gr. laga nr. 88/2009. Sömuleiðis kemur það fram í sama kafla eigandastefnunnar og megireglum í kafla 3 að skýr ábyrgðarskil skuli vera á milli Bankasýslu ríkisins og bankaráðs.

     9.      Verða núverandi höfuðstöðvar bankans í Austurstræti seldar eða yfirtekur ríkissjóður þær?
    Gera má ráð fyrir að verðmæti núverandi höfuðstöðva Landsbankans verði innleyst með einum eða öðrum hætti og nýtist til fjármögnunar á starfsemi hans, til að mynda með sölu húseignanna. Engar ákvarðanir hafa verið teknar sem lúta að þessu að svo stöddu.
    Úr svari Bankasýslu ríkisins: Í árslok 2018 nam opinbert fasteignamat á öllum fasteignum Landsbankans, sem teljast til rekstrarfjármuna, samtals 5.979 millj. kr. Á sama tíma nam bókfært virði þessara eigna samtals 3.492 millj. kr. Um er að ræða fasteignir bankans um allt land. Höfuðstöðvar Landsbankans samanstanda af 13 húsum í Kvosinni og eru einungis fjögur þeirra í eigu bankans. Af þeim er Austurstræti 11 langstærst og nam fasteignamat þess árið 2019 1.913 millj. kr., sem samanstendur af húsmati 1.489 millj. kr. og lóðamati 424 millj. kr., en brunabótamat hússins er 2.702 millj. kr. Ekki er talið að bankinn muni þurfa að inna af hendi leiguskuldbindingar eftir að starfsemi í Kvosinni verður flutt í nýjar höfuðstöðvar.
    Svar Landsbankans: Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíðarnýtingu Austurstrætis 11. Húsið hefur menningarlegt og sögulegt gildi og bankinn mun gefa sér tíma til að finna leiðir til að húsið fái nýtt hlutverk og geti notið sín til framtíðar.

     9.      Eru uppi áform um að selja húsnæði útibúa bankans á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna nýbygginguna?
    Svar Landsbankans: Nei, ekki er gert ráð fyrir sölu á útibúum bankans á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna bygginguna.

     10.      Hver eru áform ráðherra um meðhöndlun listskreytinga innan núverandi höfuðstöðva bankans og friðun þeirra eftir að höfuðstöðvar bankans hafa verið fluttar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er húseignin Austurstræti 11 friðuð, samkvæmt ákvörðun menntamálaráðherra frá 19. apríl 1991. Friðunin tekur til ytra borðs hússins, upprunalegra innréttinga og veggskreytinga.