Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1005, 150. löggjafarþing 389. mál: viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi (EES-reglur).
Lög nr. 16 9. mars 2020.

Lög um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, með síðari breytingum (EES-reglur).


1. gr.

     Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Lög þessi gilda einnig um takmarkaða viðurkenningu til starfa í lögverndaðri starfsgrein og um viðurkenningu á starfsþjálfunartíma í öðru ríki.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „og gilda um íslenska ríkisborgara“ kemur: framvísi þeir hæfnisvottorði eða vitnisburði um þá formlegu menntun og hæfi sem krafist er.
 2. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Rétturinn til starfa tekur einnig til ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem verið hafa í starfsþjálfun í öðru landi en heimalandinu og handhafa evrópsks fagskírteinis.
       Rétturinn til starfa gildir einnig um þá aðila sem hlotið hafa menntun á grundvelli sameiginlegra menntunarkrafna sem staðfestar hafa verið af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða sameiginlegs lokaprófs sem staðfest hefur verið með sama hætti.
       Einstaklingar sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skulu búa yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu til að geta lagt stund á starfið á Íslandi.
       Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um skilyrði viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi samkvæmt þessari grein.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Umsækjandi getur valið milli þess að sækja um evrópskt fagskírteini þegar sá kostur býðst í heimalandi hans eða að sækja um viðurkenningu eftir hefðbundnum leiðum við komuna til Íslands. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um útgáfu evrópsks fagskírteinis.
 2. Á undan orðunum „2. gr.“ í 3. mgr. kemur: 1. mgr.
 3. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Lögbær stjórnvöld hér á landi skulu veita takmarkaða viðurkenningu til starfa í einstökum tilvikum að uppfylltum skilyrðum sem nánar eru útfærð í reglugerð.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Lögbærum stjórnvöldum er heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir uppbótarráðstafanir, hæfnispróf eða aðlögun ef menntun hans eða starfsreynsla er verulega frábrugðin því sem krafist er hér á landi.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. B-liður 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: hefur unnið við starfið í einu eða nokkrum aðildarríkjum í að minnsta kosti eitt ár á síðastliðnum tíu árum áður en þjónustan er veitt og það er ekki lögverndað í því ríki.
 2. Í stað orðanna „tveggja ára“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eins árs.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „tvö“ í d-lið 2. mgr. kemur: eitt.
 2. E-liður 2. mgr. orðast svo: vottorð sem staðfestir að umsækjandi hafi ekki sætt tímabundnum eða endanlegum brottrekstri úr starfi eða hlotið dóm fyrir saknæmt athæfi í störfum sem varðar sviptingu eða takmörkun á starfsréttindum í öryggisþjónustu, heilbrigðisgreinum og störfum sem tengjast uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga, þ.m.t. í leik-, grunn- og framhaldsskólum, þegar slíkrar staðfestingar er krafist hér á landi.
 3. Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: yfirlýsing um nauðsynlega íslenskukunnáttu umsækjanda ef um er að ræða starf sem varðar öryggi sjúklinga og kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Stjórnvaldi er heimilt að kanna faglega menntun og hæfi umsækjanda áður en þjónusta er veitt í fyrsta skipti ef starfið varðar lýðheilsu og almannaöryggi og nýtur ekki sjálfkrafa viðurkenningar. Nánari ákvæði um könnun á faglegri menntun og hæfi skal setja í reglugerð.


6. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Ef réttmætur vafi er til staðar geta stjórnvöld sem í hlut eiga kallað eftir upplýsingum hjá lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um lögmæti staðfesturéttar þjónustuveitanda og hvort hann hafi sætt agaviðurlögum eða réttindamissi vegna starfa sinna. Ef viðkomandi stjórnvald ákveður að kanna faglega menntun þjónustuveitanda getur það óskað eftir upplýsingum frá lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um menntun og þjálfun þjónustuveitanda að því marki sem það er nauðsynlegt til þess að meta umtalsverðan mun á menntun og þjálfun sem heilsu og öryggi almennings gæti stafað hætta af.

7. gr.

     Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Upplýst skal um agaviðurlög eða dóma fyrir saknæmt athæfi sem umsækjandi hefur hlotið og talið er að geti haft áhrif á störf í öryggisþjónustu og heilbrigðisgreinum og störf sem tengjast uppeldi og menntun ólögráða einstaklinga, þ.m.t. í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Lögbær stjórnvöld skulu gera öllum öðrum aðildarríkjum viðvart um tilvik þar sem dómstólar hafa takmarkað eða bannað, að hluta eða með öllu, einnig tímabundið, faglega starfsemi aðila á yfirráðasvæði sínu. Nánar er kveðið á um slíkar viðvaranir í reglugerðum.

8. gr.

     3. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra sem í hlut á setur reglur um gjöld er krefja má við afgreiðslu umsóknar um heimild til að gegna starfi hér á landi, vinnslu umsóknar um evrópskt fagskírteini og vegna mats á gögnum. Gjöldum skal stillt í hóf og miðast við umfang þeirrar vinnu sem felst í faglegu mati umsókna.

9. gr.

     Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“), eins og þessi gerð er tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 sem birt var 7. febrúar 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11/2019.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 2020.