Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1027  —  331. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Daða Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og Anton Emil Ingimarsson frá fjölmiðlanefnd, Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Þórunni Önnu Árnadóttur og Matthildi Sveinsdóttur frá Neytendastofu og Ingu Dröfn Benediktsdóttur og Sigurð Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394, um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd, verði innleidd í íslenska löggjöf. Enn fremur er lagt til að lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 56/2007, verði felld úr gildi. Samhliða frumvarpi þessu var lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á lögum á sviði neytendaverndar sem reglugerðin hefur áhrif á (330. mál).
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni voru engar efnislegar athugasemdir gerðar við málið. Meiri hlutinn leggur hins vegar til að við frumvarpið bætist ákvæði þar sem skýrt verði kveðið á um gildissvið laganna. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að gildistöku frumvarpsins verði breytt á þann veg að lögin öðlist þegar gildi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gildissvið.

                  Lög þessi gilda um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd og heimildir þar til bærra stjórnvalda til rannsókna og framfylgdar í þágu neytenda.
     2.      1. mgr. 4. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 27. febrúar 2020.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Birgir Ármannsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.