Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1071  —  387. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um stríðsáróður.


     1.      Hvaða rök stóðu til þess að íslensk stjórnvöld samþykktu með fyrirvara ákvæði um bann við stríðsáróðri í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. 1. mgr. 20. gr. samningsins?
    Ísland setti fimm fyrirvara við undirritun alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Tveir fyrirvarar hafa þegar verið numdir úr gildi og hefur hverju sinni verið tilkynnt um afturköllun slíkra fyrirvara. Þrír fyrirvarar standa því eftir. Sá fyrirvari sem hér er spurt um, við þá grein alþjóðasamningsins sem kveður á um bann við stríðsáróðri, var gerður á sínum tíma af fjölmörgum ríkjum, þar sem talin var hætta á að túlkun þess ákvæðis færi í bága við ákvæði um tjáningarfrelsi.

     2.      Er afstaða ráðherra enn sú sama og birtist í þeim fyrirvara sem settur var við fullgildingu samningsins?
    Dómsmálaráðuneyti fer með framkvæmd samningsins hér á landi og gerir meðal annars grein fyrir stöðu mannréttindamála í allsherjarúttekt mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (UPR) sem fram fer á fimm ára fresti. Ísland samþykkti í síðustu allsherjarúttekt árið 2016 að taka til skoðunar að draga þá fyrirvara, sem eftir standa, til baka. Það mál er til skoðunar innan dómsmálaráðuneytis. Jafnframt skal bent á að öll norrænu ríkin eru með sams konar fyrirvara við ákvæði 1. mgr. 20. gr. samningsins.

     3.      Hefur nýlega farið fram úttekt á kostum og göllum þess að aflétta fyrrgreindum fyrirvara og leiða í lög skýrt bann við stríðsáróðri hér á landi og ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar úttektar?
    Eins og fram kemur í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar er nú unnið úr niðurstöðum síðustu allsherjarúttektar og hefur stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi meðal annars það hlutverk að fylgja eftir þeim tilmælum sem þar voru samþykkt. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta. Næsta allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi fer fram árið 2021 og verður við undirbúning þeirrar úttektar tekin afstaða til þess hvernig brugðist verður við þeim tilmælum sem voru samþykkt í síðustu úttekt.