Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1090  —  576. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um stefnu í almannavarna- og öryggismálum.     1.      Er unnið að nýrri stefnu í almannavarna- og öryggismálum í ráðuneytinu í ljósi þess að nýjasta stefnan var samþykkt árið 2015 og gilti til ársins 2017? Ef svo er, hvenær má búast við því að ný eða uppfærð stefna verði lögð fram?
    Unnið er að nýrri stefnu í almannavarna- og öryggismálum og búast má við því að hún verði lögð fyrir almannavarna- og öryggismálaráð á næstu mánuðum.

     2.      Hvernig miðar verkefnum í stefnu um matvæla-, fæðu- og neysluvatnsöryggi, þ.e. aðgerðum 21 (fæðuöryggi), 22 (matvælaöryggi) og 23 (neysluvatnsöryggi)?
    Í tilefni fyrirspurnarinnar aflaði ráðuneytið upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um stöðu framangreindra aðgerða.
     Aðgerð 21 í stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2015–2017 fjallaði um fæðuöryggi og verkefnin vörðuðu gerð viðbragðsáætlunar fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, gerð viðbragðsáætlunar við matvælaskorti í samráði við helstu birgja, utanumhald og skýra upplýsingamiðlun, að vöktunarstofnanir gerðu áætlun um hvernig skyldi bregðast við í kjölfar hamfara og gerð neyðaráætlunar um hagvarnir, birgðir og neyðarflutninga til og frá landinu.
    Staða verkefna í mars 2020 er sú að unnið er að stefnumótun varðandi fæðuöryggi samhliða mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með samningi sem undirritaður var í febrúar 2020 falið Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna greiningu á fæðuöryggi. Mikilvægt er að líta til þess að viðfangsefni er lúta að fæðuöryggi og þáttum sem ógnað geta fæðuöryggi heyra undir málefnasvið fleiri ráðherra, svo sem utanríkisráðherra vegna alþjóðaviðskipta, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra vegna orkumála og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna samgöngumála. Mikilvægt er að taka tillit til þess við stefnumótun varðandi fæðuöryggi.
     Aðgerð 22 í stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2015–2017 fjallaði um matvælaöryggi og verkefni vörðuðu uppfærslu á viðbragðsáætlun vegna fæðusjúkdóma og mengaðs fóðurs, innleiðingu á áhættumiðuðu opinberu matvælaeftirliti, víðtæka áhættuskoðun á sviði matvælaöryggis, m.a. með tilliti til birgðahalds og viðbragðsáætlana á neyðartímum, og endurbætur á gagnagrunnum.
    Staða verkefna 20. febrúar 2020 er sú að Matvælastofnun hefur ekki haft tök á því að uppfæra viðbragðsáætlun vegna skaðlegs fóðurs en það stendur til. Matvælastofnun hefur unnið og innleitt kerfi til að áhættuflokka og meta eftirlitsþörf hjá frumframleiðendum, fóður- og matvælafyrirtækjum undir eftirliti Matvælastofnunar og matvælafyrirtækja undir eftirliti heilbrigðisnefnda. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu MAST. 1
    Birgðahald og viðbragðsáætlanir varða fæðuöryggi og er því vísað til svars hér að framan vegna aðgerðar 21 í því sambandi. Vinna við gerð nýs gagnagrunns sem heldur utan um gögn er varða sýnatökur o.fl. er hafin en markmið hans er m.a. að tryggja matvælaöryggi enn frekar. Auk þess er hafin vinna við uppfærslu á gagnagrunninum Heilsu sem hefur að geyma upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og lyfjameðhöndlun dýra. Mikilvægt er að uppfæra gagnagrunninn í því skyni að skráningar á notkun sýklalyfja nái til fleiri dýrategunda en hrossa og nautgripa líkt og nú er. Auk þess er brýnt að uppfæra kerfið með það að markmiði að skráning verði auðveldari, aðgengilegri og notendavænni.
     Aðgerð 23 í stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2015–2017 fjallaði um neysluvatnsöryggi og verkefni vörðuðu skilgreiningu krafna um verndun vatnsbóla og gerð öryggisúttekta á þeim, gerð leiðbeininga um neysluvatn sem byggjast á ýmsum reglugerðum þar um, gerð viðbragðsáætlana og starfshóp um litlar vatnsveitur.
    Nú í mars 2020 hafa leiðbeiningar um eftirlit með neysluvatni verið gefnar út og einnig um rannsókn á matarbornum sjúkdómum. Unnið er að gerð viðbragðsáætlunar um mengun neysluvatns, þar eru viðbrögð og samskipti Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og sóttvarnalæknis skilgreind þegar neysluvatn er mengað til að almenningi séu tryggðar réttar upplýsingar. Gefin hefur verið út viðbragðsáætlun um örverumengað neysluvatn og vinna er hafin við viðbragðsáætlun um mengun vatnsbóla en henni er ekki lokið. Þá hefur starfshópur um litlar vatnsveitur lokið störfum og skilað af sér. Skýrslan er í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og er til skoðunar samhliða vinnu við endurskoðun á regluverki um neysluvatn, en sú endurskoðun tekur jafnframt mið af nýrri löggjöf Evrópusambandsins um neysluvatn sem er í smíðum.
1     www.mast.is/is/matvaelafyrirtaeki/framkvaemd-eftirlits-og-gjold-7/ahaettu-og-frammistoduflokkun