Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1091  —  562. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver var 1. janúar sl. staða hvers þáttar í aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, sbr. þingsályktun nr. 40/149, eftir að innflutningur á fersku kjöti og eggjum var heimilaður ásamt því að opnað var fyrir innflutning á ógerilsneyddum mjólkurafurðum, sbr. lög nr. 93/2019? Óskað er eftir að staða hvers þáttar verði skilgreind, hverjir þeirra hafi komið til framkvæmda og hverjir ekki og, eftir atvikum, hvort framkvæmd einhvers þeirra hafi ekki verið hafin og ef innleiðingu aðgerða er ekki lokið er óskað eftir skýringum á því.

    Í tillögu til þingsályktunar nr. 40/149, um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. nóvember 2019 og kynni hana atvinnuveganefnd.
    Í byrjun nóvember sl. var framangreind skýrsla lögð fram á Alþingi þar sem gerð var grein fyrir framgangi áætlunarinnar og stöðu einstakra aðgerða, sjá þskj. 459 Skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aðgerðaáætlun í því skyni að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Sérfræðingar ráðuneytisins hafa komið á fund atvinnuveganefndar og gert grein fyrir stöðu allra aðgerða.
    Í skýrslunni er farið ítarlega yfir stöðu vinnunnar í byrjun nóvember sl. og vísast til hennar í því sambandi. Í nokkrum tilvikum hefur staða aðgerða breyst frá því að framangreindri skýrslu var skilað og verður gert grein fyrir því hér að neðan.
    Í ráðuneytinu hefur síðustu mánuði verið unnið ötullega að framgangi aðgerðaáætlunarinnar og hefur mikilvægum áföngum verið náð í vinnunni. Ráðuneytið hefur unnið að framgangi áætlunarinnar í góðu samstarfi við Matvælastofnun en auk þess hefur verið leitað til hagsmunaaðila og annarra eftir þörfum.
    Samandregið er staða aðgerða með þeim hætti að 13 aðgerðum af 17 er nú lokið eða eru langt komnar. Nánari umfjöllun um stöðu hverrar aðgerðar má finna hér á eftir.

Eftirfarandi sjö aðgerðum er lokið:
          Viðbótartryggingar innleiddar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum.
          Viðbótartryggingar innleiddar gagnvart innfluttu svínakjöti og nautakjöti.
          Dreifing alifuglakjöts bönnuð nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
          Áhættumatsnefnd sett á fót.
          Skjótari innleiðing reglugerða Evrópusambandsins tryggð þegar stöðva þarf innflutning á tilteknum vörum með skömmum fyrirvara.
          Opinberum eftirlitsaðilum tryggð heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni við dreifingu alifuglakjöts án sönnunar fyrir því að ekki hafi greinst í því kampýlóbakter.
          Tollskrá fyrir landbúnaðarvörur endurskoðuð.

Eftirfarandi sex aðgerðir eru langt komnar:
Átak um aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins.
    Hinn 1. janúar sl. tók gildi samningur við Matvælastofnun um að stofnunin annist aukið eftirlit í kjölfar afnáms leyfisveitingakerfisins. Í samningnum felast m.a. auknar sýnatökur og skjalaskoðanir vegna innfluttra búfjárafurða. Átakinu verður lokið 1. maí næstkomandi.

Átak um betri merkingar matvæla.
    Verkefni samráðshóps sem skipaður hefur verið til þess að halda utan um verkefnið er að ráðast í átaksverkefni um merkingar og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Hópurinn skilar skýrslu í apríl 2020.

Reglugerð (EB) nr. 206/2009 um innflutning dýraafurða til einkaneyslu innleidd.
    Fljótlega er fyrirhugað að fella brott reglugerð (EB) nr. 206/2009 með nýrri gerð sem einnig lýtur að innflutningi dýraafurða til einkaneyslu. Hin nýja gerð hefur ekki verið tekin inn í EES-samninginn en samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins verður upptakan á næstu mánuðum. Í ljósi framangreinds þykir rétt að innleiða ekki gerð sem fellur brott innan skamms heldur innleiða hina nýju gerð þegar það er unnt. Í því skyni að tryggja að sambærilegar efnisreglur gildi hér á landi um innflutning dýraafurða til einkaneyslu sem ekki eru til sölu og dreifingar, sem eru hluti af farangri ferðamanna eða póstsendinga til einstaklinga, líkt og fram koma í reglugerð (EB) nr. 206/2009, hefur verið sett reglugerð nr. 1251/2019. Reglugerðin tók gildi 1. janúar sl. og heldur gildi sínu þar til framangreind reglugerð verður innleidd í íslenskan rétt.

Matvælastefna fyrir Ísland mótuð.
    Verkefnastjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland vinnur að stefnunni og er fyrirhugað að verkefnastjórn skili matvælastefnu og aðgerðaáætlun til ráðherranefndar um matvælastefnu Íslands í mars 2020.

Þróun tollverndar könnuð og staða íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi greind.
    Fyrirhugað er að skýrsla starfshópsins liggi fyrir á næstu vikum.

Aukin fræðsla til ferðamanna.
    Matvælastofnun hefur annast gerð veggspjalda þar sem vakin er athygli á að afurðir úr dýraríkinu geta borið með sér sjúkdómsvalda sem valda smitsjúkdómum í dýrum. Auk þess kemur fram á veggspjöldunum að ferðamenn frá ríkjum utan EES skuli framvísa afurðum úr dýraríkinu til tollgæslu. Veggspjöld á ensku og íslensku voru sett upp í komusal á Keflavíkurflugvelli í byrjun febrúarmánaðar og er fyrirhugað að koma slíkum veggspjöldum fyrir fljótlega á öðrum alþjóðlegum flugvöllum landsins sem og við skipshafnir. Auk þess vinnur Matvælastofnun að kynningarmyndböndum og auglýsingum varðandi innflutning afurða úr dýraríkinu en fyrirhugað er að dreifa framangreindu efni á samfélagsmiðlum.

Eftirfarandi fjórar aðgerðir teljast til langtímaverkefna:
Átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
    Hinn 8. febrúar 2019 undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.
    Hinn 14. febrúar 2019 var skipaður stýrihópur um reglur og viðbrögð vegna sýklalyfjaónæmra baktería sem hefur það hlutverk að framfylgja tillögum fyrrgreinds starfshóps heilbrigðisráðherra frá árinu 2017. Stýrihópurinn hefur skilað tillögum um framgang tillagnanna og lagt mat á kostnað vegna þeirra. Framangreindir ráðherrar hafa samþykkt tillögurnar og er vinna stýrihópsins í fullum gangi. Að mati stýrihópsins er kostnaður við aðgerðir til þess að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi um 110 millj. kr. árlega. Verkefnið hefur verið að fullu fjármagnað næstu þrjú árin eða út árið 2022.
    Hinn 20. september 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sérfræðinga sem er ætlað að gera aðgerðaáætlanir vegna sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Jafnframt hefur verið óskað eftir því að hópurinn setji fram mismunandi valkosti við stefnu sem miðar að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Starfshópurinn hefur þegar skilað matsgerð um slíka valkosti en hópurinn skilar lokaskýrslu 1. maí 2020.
    Hinn 25. september 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sérfræðinga sem er ætlað að gera leiðbeiningar um notkun sýklalyfja og sníkjudýralyfja hjá dýrum auk leiðbeininga um varnir við sníkjudýrasmiti. Starfshópnum er m.a. ætlað að útbúa skuldbindandi leiðbeiningar um ávísun og notkun sýklalyfja hjá dýrum, með hliðsjón af sýklalyfjalausum lausnum. Þess hefur verið óskað að starfshópurinn skili lokaskýrslu eigi síðar en 1. maí 2020.
    Hinn 4. febrúar 2020 var Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður stofnaður með formlegum hætti. Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Fjármögnun sjóðsins eru 30 millj. kr. árlega. Á næstu vikum mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa stjórn sjóðsins.
    Í því skyni að styrkja varnir gegn sýklalyfjaónæmi hafa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra fjármagnað verkefni hjá Matvælastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og embætti landlæknis. Auk þess hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekið ákvörðun um að fjármagna uppfærslu á rafrænu skráningarkerfi og gagnagrunni sem ber heitið HEILSA. Um er að ræða kerfi sem m.a. geymir upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og lyfjameðhöndlun dýra.

Stefna opinberra aðila um innkaup á matvælum innleidd.
    
Í febrúar 2018 var skipaður starfshópur til þess að móta drög að innkaupastefnu opinberra aðila á sviði matvæla. Á fundi ríkisstjórnarinnar 17. maí 2019 var samþykkt tillaga um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila og hefur hún jafnframt verið tekin fyrri í ráðherranefnd um matvælastefnu. Í framangreindri innkaupastefnu er lögð áhersla á að tryggja neytendum opinberra aðila matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Stefnan tekur m.a. mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli að minnkun kolefnisspors við framleiðslu og flutning og miðar af því að tryggja neytendum aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla. Þá er einnig tekið mið af lýðheilsumarkmiðum um næringu.
    Aðgerðir í framangreindri innkaupastefnu eru á hendi fjögurra ráðuneyta; atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur að innleiðingu innkaupastefnunnar með framangreindum ráðuneytum og hefur lagt áherslu á að hvert ráðuneyti yfirfari sín ábyrgðasvið og setji af stað vinnu til þess að framfylgja aðgerðum.

Sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu settur á fót.
    Hinn 4. nóvember sl. var mælt fyrir frumvarpi þar sem m.a. var lagt til að settur yrði á fót Matvælasjóður með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Samkvæmt frumvarpinu var áætlað að hlutverk sjóðsins yrði að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu við þriðju umræðu Alþingis þar sem framangreindar tillögur um stofnun Matvælasjóðs voru teknar út úr frumvarpinu. Innan ráðuneytisins er áfram unnið að mótun Matvælasjóðs.

Tekið til skoðunar að setja á fót sérstakan tryggingarsjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
    Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Bændasamtök Íslands að þau upplýstu um hugmyndir sínar um slíkan tryggingarsjóð, m.a. um mótun hans, uppbyggingu og í hvaða tilfellum réttur til bóta gæti stofnast. Tillögur Bændasamtaka Íslands hafa borist ráðuneytinu sem hefur þær til skoðunar auk mögulegra úrræða í nágrannaríkjunum og innan Evrópusambandsins.