Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1097  —  646. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum (áfengisgjald).

Flm.: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Vilhjálmur Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.



1. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Sjálfstæður framleiðandi öls sem flokkast í vörulið 2203 í tollskrá getur sótt um afslátt af áfengisgjaldi skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. Fyrir fyrirtæki sem framleiða allt að 1.000.000 lítra á ári skal afslátturinn nema 50% af áfengisgjaldi. Fari ársframleiðsla umfram 1.000.000 lítra skal afsláttur lækka hlutfallslega uns hann fellur niður við 2.000.000 lítra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að smærri framleiðendur öls hér á landi greiði lægra áfengisgjald en gildandi lög kveða á um.
    Hér á landi eru 21 smærri áfengisframleiðslufyrirtæki. Lítil brugghús hafa á síðustu árum sprottið upp víðs vegar um landið og hafa m.a. aukið fjölbreytni í atvinnustarfsemi, skapað atvinnu og skilað beinum og óbeinum skatttekjum. Þá hafa þau einnig aukið fjölbreytni í staðbundinni vöru.
    Markmið frumvarpsins er m.a. að gera umhverfið hagfelldara fyrir smærri framleiðendur bjórs hér á landi og veita þeim þannig aukið svigrúm til uppbyggingar starfsemi sinni, m.a. til að fjölga starfsfólki og auka fjárfestingu. Tilgangur frumvarpsins er því ekki að lækka verð til neytenda heldur að veita smærri framleiðendum meira bolmagn til að stunda vöruþróun, auka fjárfestingu og stækka fyrirtæki sín.
    Lagt er til að afsláttur af áfengisgjaldi verði 50% á allra minnstu brugghúsin, eða þau sem framleiða allt að 1.000.000 lítra. Lækki afslátturinn hlutfallslega fari framleiðsla umfram 1.000.0000 lítra uns hann fellur alveg niður við 2.000.000 lítra. Þannig lækki afslátturinn um 2,5% fyrir hverja 50 þús. lítra.
    Frumvarpið er í samræmi við 1. tölul. 4. gr. tilskipunar ráðsins 92/83/EBE frá 19. október 1992 um samræmingu á samsetningu vörugjalda á áfengi og áfengum drykkjum sem kveður á um heimild til þess að lækka áfengisgjöld á smærri framleiðendur (með árlega framleiðslu allt að 20 milljónum lítra) um allt að 50%. Aðrar Evrópuþjóðir hafa nýtt sér þennan sveigjanleika og hafa Bretar til dæmis veitt afslátt af áfengisgjaldi af framleiðslu allt að 6 milljónum lítra, en hjá þeim minnkar afslátturinn hlutfallslega eftir aukningu í framleiðslu. Danir ákváðu nýlega að fara sömu leið og Bretar og veita afslátt fyrir allt að 20 milljóna lítra framleiðslu, en fyrir framleiðslu að 370 þúsund lítrum er veittur helmingsafsláttur. Þessi breyting tók gildi 1. janúar síðastliðinn. Í Noregi voru sambærilegar breytingar gerðar í lok síðasta árs þegar fjármálaráðherra Noregs breytti reglugerð um vörugjöld sem heimilar litlum og sjálfstætt reknum brugghúsum (þ.e. þeim sem framleiða minna en 500.000 lítra af bjór á ári) að greiða lægri gjöld vegna framleidds bjórs frá og með 1. janúar 2019. Er þetta gert í samræmi við 1. gr. samþykktar Stórþingsins um vörugjöld fyrir fjárlagaárið 2019.
    Samkvæmt tilkynningu frá norskum skattyfirvöldum er hér um að ræða 5–20% lækkun á áfengisgjöldum sem lögð eru á smærri brugghús. Vert er að geta þess að lækkað álag nær ekki einungis til norskra framleiðenda heldur líka innfluttrar framleiðslu frá smærri erlendum brugghúsum.