Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1101  —  525. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um brot opinberra aðila gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

    Upplýsinga um brot opinberra aðila skv. 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar var annars vegar aflað hjá kærunefnd jafnréttismála og hins vegar af heimasíðum dómstóla. Skráning dóma á heimasíðum dómstólanna er varða brot á lögum nr. 10/2008 er með ýmsum hætti og enga opinbera heildarskráningu að finna á einum stað um slík mál. Upplýsingar um niðurstöðu dómsmála eru því settar fram með almennum fyrirvara um hugsanleg mistök við talningu brota samkvæmt dómum sem birtir hafa verið. Loks er áréttað í samræmi við efni fyrirspurnarinnar að yfirlitið tekur aðeins til brota sem framin hafa verið eftir gildistöku gildandi laga nr. 10/2008.

     1.      Hversu oft hafa opinberir aðilar brotið gegn banni við mismunun við ráðningu í störf á grundvelli kyns? Óskað er sundurliðunar fyrir hvert ár frá gildistöku laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og til dagsins í dag og sundurliðunar eftir kyni kærenda.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda brota gegn banni við mismunun við ráðningu í störf á grundvelli kyns frá gildistöku laga nr. 10/2008. Taflan tekur jafnframt til brota er varða bann við mismunun við uppsögn í starfi af sömu ástæðum, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     2.      Hversu oft hafa opinberir aðilar brotið gegn banni við mismunun í launum, öðrum kjörum og réttindum einstaklinga á grundvelli kyns? Óskað er sundurliðunar fyrir sama tímabil og eftir kyni kærenda.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda brota gegn banni við mismunun í launum, öðrum kjörum og réttindum einstaklinga á grundvelli kyns frá gildistöku laga nr. 10/2008.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hversu háar fjárhæðir hefur ríkissjóður greitt í bætur vegna úrskurða og dóma vegna brota gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á umræddu tímabili?
    Spurt er hversu háar fjárhæðir ríkissjóður hefur greitt í bætur vegna úrskurða og dóma á tímabilinu vegna brota gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Enda þótt embætti ríkislögmanns heyri stjórnarfarslega undir málefnasvið forsætisráðuneytisins og forsætisráðherra þá er til þess að líta að það ræðst af skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta og ráðherra hvaða ráðherra og ráðuneyti fara með málsforræðið í einstökum kröfu- og bótamálum sem beint er gegn ríkinu vegna brota á lögum um jafna stöðu og jafna rétt kvenna og karla. Í samræmi við þá skiptingu fara hlutaðeigandi ráðherrar og eftir atvikum forstöðumenn stofnana almennt með málsforræði ríkisins í þeim einkamálum sem fyrirspurnin varðar og annast ríkislögmaður málin í umboði þeirra. Skv. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal beina fyrirspurn til þess ráðherra sem ber ábyrgð á því opinbera málefni sem fyrirspurn varðar. Samkvæmt framangreindu er rétt að beina sérstökum fyrirspurnum til einstakra ráðherra óski fyrirspyrjandi upplýsinga um greiddar bætur vegna brota hjá opinberum aðilum sem falla undir málefnasvið þeirra.

     4.      Telur ráðherra framfylgni hins opinbera við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla vera fullnægjandi? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að unnt sé að vinna að því að fækka brotum opinberra aðila gegn umræddum lögum?
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið býr yfir eru þau brot opinberra aðila sem fyrirspurnin lýtur að samtals 25 á tímabilinu. Að mati ráðherra er það 25 brotum of mikið. Nú stendur yfir endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, í forsætisráðuneytinu. Í þeirri vinnu verða m.a. skoðaðar mismunandi leiðir sem unnt er að fara í því skyni að tryggja betur eftirfylgni og aðhald mála þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögunum. Með endurskoðuninni er stefnt að því að treysta betur faglegan grundvöll málaflokksins og standa vonir til að breytingarnar muni leiða til fækkunar á brotum gegn lögunum í framtíðinni.