Ferill 655. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1109  —  655. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um menningarminjar nr. 80/2012 (friðlýsing trjálunda, stakra trjáa og garðagróðurs).

Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Hanna Katrín Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Karl Gauti Hjaltason.


1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu Minjastofnunar, að friðlýsa trjálundi, stök tré og garðagróður.

2. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Friðlýsing trjálunda, trjáa og garðagróðurs.

    Friðlýsa má trjálundi, stök tré og garðagróður sem hafa menningarsögulegt, ræktunarsögulegt eða fræðilegt gildi.
    Friðlýsing skv. 1. mgr. er háð samþykki eigenda viðkomandi trjálunda, trjáa og garðagróðurs og viðkomandi sveitarfélags.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, með það að markmiði að heimilt verði að friðlýsa trjálundi, stök tré og garðagróður.
    Það er mikilvægt að tryggja að lifandi minjar njóti tilhlýðilegrar verndar og umhirðu. Víða um land er að finna stök tré sem setja svip á umhverfið og hafa jafnvel staðið í tugi ára. Má þar t.d. nefna hlyninn á horni Vonarstrætis og Suðurgötu í Reykjavík. Þessi tré vekja jafnan aðdáun ungra sem aldinna og hefur Skógræktarfélag Íslands í lengri tíma vakið athygli á gömlum og merkilegum trjám með vali á tré ársins. Þá eru í landinu garðar, trjásöfn og tilraunareitir sem varðveita bæði ræktunarsögu og mismunandi fræðilegar upplýsingar, svo sem erfðaupplýsingar um innlend og innflutt tré eða upplýsingar um afdrif innfluttra og innlendra tegunda og afbrigða nytjaplantna og trjátegunda við mismunandi aðstæður.
    Líkt og kemur fram í greinargerð Garðsöguhóps Félags íslenskra landslagsarkitekta „Garðar – lifandi minjar. Aðferðir við verndarmat og skráningu gamalla garða“ getur stakstætt tré verið menningarsögulegur vitnisburður um horfinn garð og brotin mannvirki undir gróðurhulu. Þannig geti það staðið sem fulltrúi hugsjóna og gilda ákveðins tímabils í menningar- og ræktunarsögu landsins. Auk þess getur verið mikilvægt að standa vörð um tré, trjálundi og garðagróður út frá fræðilegum sjónarmiðum, svo sem vegna þekkingaröflunar og varðveislu erfðaauðlinda. Í Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2019—2023 kemur fram að miklu máli skipti fyrir erfðaauðlindir innlendra trjátegunda að auka útbreiðslu þeirra, m.a. til að stuðla að virkni þróunarfræðilegra ferla í tengslum við sjálfsáningu og endurnýjun skóganna. Þá sé nauðsynlegt að rannsaka stofngerð innan tegunda og kanna mögulega aðlögun stofna að mismunandi umhverfi en slík vitneskja gæti gagnast vernd erfðafjölbreytni og skógrækt almennt. Þessa þekkingu má í einhverju mæli sækja í garða, tilraunareiti og trjásöfn, auk náttúrulegra skóga. Í skýrslunni eru tilgreindar nokkrar nauðsynlegar aðgerðir, m.a. að tryggja varðveislu þeirra svæða sem ekki eru í þjóðskógunum, skráningu á uppruna, útbreiðslu og notkun á íslenskum efnivið garð- og landslagsplanta og skráningu staðsetningar plantna með menningarsögulegt gildi. Þannig getur markviss vernd verið liður í að tryggja aðgengi almennings og fagaðila að upplýsingum um garð- og landslagsplöntur vel aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.
    Heimild til friðlýsingar stakra trjáa, trjálunda og garðagróðurs skortir í gildandi rétt en sveitarfélög hafa sum sett reglur um vernd slíks gróðurs innan sveitarfélagsins, t.d. hverfisvernd trjálunda eða stakra trjáa. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að heimild til friðlýsingar framangreinds gróðurs sé tryggð með lögum enda ljóst að tré, trjálundir og garðagróður geta haft sams konar verndargildi og hús og aðrar menningarminjar og auk þess gildi vegna þekkingaröflunar og varðveislu erfðaauðlinda. Þá tryggir slík lagasetning samræmi milli sveitarfélaga við verndun og skráningu.
    Með frumvarpinu er lagt til að við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein þess efnis að ráðherra sé heimilt að fenginni tillögu Minjastofnunar, að friðlýsa trjálundi, tré og garðagróður. Með garðagróðri er átt við annan fjölæran garðagróður en tré og runna. Þá er lögð til ný grein, 18. gr. a., um friðlýsingu trjálunda, trjáa og garðagróðurs. Í 1. mgr. hennar er kveðið á um að friðlýsa megi trjálundi, tré og garðagróður, sem hafi menningarsögulegt, ræktunarsögulegt eða fræðilegt gildi. Í 2. mgr. kemur fram að friðlýsing skv. 1. mgr. sé háð samþykki eigenda viðkomandi trjálunda, trjáa og garðagróðurs, sem og viðkomandi sveitarfélags. Framkvæmd friðlýsingar samkvæmt greininni fer eftir 19. gr. laganna um framkvæmd friðlýsingar, þar á meðal hvað varðar undirbúning, þinglýsingu friðlýsingar, auglýsingu og skráningu á rafrænum kortagrunni. Nánar verði mælt fyrir um framkvæmd friðlýsingar trjálunda, trjáa og garðagróðurs í reglugerð. Þar komi m.a. fram hvert Minjastofnun sæki ráðgjöf við undirbúning friðlýsingarskilmála, málsmeðferð, mögulegar aðgerðir til að tryggja vernd og skyldur umsjónaraðila, hvernig mörk friðlýsts minjastaðar skuli skilgreind á rafrænum kortagrunni, hvernig Minjastofnun haldi utan um og miðli upplýsingum um friðlýsta trjálundi, tré og garðagróður og hvernig gengið skuli frá friðlýsingu sem kvöð á land/lóð sem í hlut á.
    Flutningsmenn vekja athygli á að efni þessa frumvarps kom til umræðu hjá umhverfis- og samgöngunefnd við meðferð frumvarps um skóga og skógrækt sem varð að lögum nr. 33/2019 (231. mál á 149. löggjafarþingi). Í nefndaráliti beindi nefndin því til umhverfis- og auðlindaráðuneytis að slíkri vernd yrði fundinn staður í lögum. Eftir að nefndin hafði lokið umfjöllun um málið kom út greinargerð Garðsöguhóps Félags íslenskra landslagsarkitekta „Garðar – lifandi minjar. Aðferðir við verndarmat og skráningu gamalla garða“. Í ljósi greinargerðarinnar telja flutningsmenn rétt að bregðast við og leggja málið fyrir Alþingi til frekari umfjöllunar.