Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1110  —  548. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um hvata fyrir fyrirtæki í landbúnaði og sjávarútvegi og líffræðilega fjölbreytni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er hafin vinna í ráðuneytinu við að skapa jákvæða hvata fyrir fyrirtæki í landbúnaði og sjávarútvegi til að verðlauna þau fyrir breytingar á framleiðsluháttum sem stuðla að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni?
     2.      Er hafin vinna í ráðuneytinu við að útrýma skaðlegum hvötum sem gerir fyrirtækjum í landbúnaði og sjávarútvegi kleift að stunda framleiðslu sem skaðar líffræðilega fjölbreytni?
     3.      Hver eru áform ráðherra í þessum efnum?


    Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera, svo sem bakteríur og veirur, sem finnast á jörðinni og þann breytileika sem er á milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera og þau vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu lifandi náttúru.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur mikilvægt að vernda líffræðilega fjölbreytni Íslands og í stefnumótun á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar er áhersla lögð á sjálfbæra nýtingu, byggða á bestu vísindalegri þekkingu.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið fram á íslenskur sjávarútvegur standi mjög framarlega á alþjóðavísu vegna þeirrar áherslu sem lögð sé á sjálfbæra auðlindanýtingu, rannsóknir og þróun. Einnig að stuðla þurfi að að kolefnisjöfnun greinarinnar, til dæmis með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann. Hafrannsóknir gegni lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þurfi að efla.
    Eftir að sjómannaafsláttur var aflagður nýtur sjávarútvegur engra opinberra styrkja og áhersla er lögð á að greinin greiði fyrir afnot af auðlindinni. Einnig greiða sjávarútvegsfyrirtæki kolefnisgjald á eldsneyti sem hvetur til frekari kolefnisjöfnunar. Í greininni eru því ekki fjárhagslegir hvatar sem skaða líffræðilega fjölbreytni.
    Um vistkerfisáhrif af nýtingu lifandi auðlinda hafsins er vísað til árlegs mats Hafrannsóknastofnunar í Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2019 sem birt er á vef stofnunarinnar ( www.hafogvatn.is/static/files/c00-vistkerfi_2019.pdf).
    Í skýrslu stofnunarinnar frá árinu 2019 segir m.a. að flestar athafnir mannsins valdi einhverju álagi á umhverfið. Eðli málsins samkvæmt sé mjög mismunandi hve mikil áhrif álagið hafi og hversu varanlegt það sé. Í skýrslunni segir að fiskveiðar séu þær athafnir sem mest hafi að segja um brottnám lífmassa úr vistkerfi sjávar. Mat stofnunarinnar er að veiðihlutfall flestra nytjastofna á Íslandsmiðum sé lágt og lífmassavísitölur stofna háar. Fáar fisktegundir virðist hafi orðið fyrir alvarlegum neikvæðum áhrifum á íslenska hafsvæðinu. Varðandi áhrif fiskveiða á hafsbotninn er tiltekið að sókn með botnvörpu hafi dregist saman frá árinu 2000 um allt að 40%. Nánari upplýsingar um áhrif fiskveiða á lífríkið er að finna í árlegum skýrslum stofnunarinnar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð er áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna tryggð.
    Við endurskoðun búvörusamninga árin 2019 og 2020 hafa áherslur stjórnvalda í samningaviðræðum við bændur verið í samræmi við framangreindar áherslur í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar. Þannig hefur m.a. áhersla verið lögð á umhverfismálefni. Unnið er að verkefnum sem tengjast minnkun kolefnislosunar í sauðfjárrækt í verkefni sem nefnist Loftslagsvænni landbúnaður. Í samkomulagi um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar kemur fram það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Skipaður hefur verið starfshópur sem hefur það hlutverk að útfæra nánar verkefni því tengdu. Í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands er unnið að verkefninu Grólind en markmiðið með því er að meta og vakta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands, þróa sjálfbærnivísa og kortlagningu landnýtingar. Með verkefninu er ástand vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni metið sem leggur grunn að sjálfbærri landnýtingu og veitir mikilvægar upplýsingar til stefnumótunar á sviði landbúnaðar og landnýtingar.
    Ákveðnir hvatar eru í búvörusamningum til að styðja við sjálfbærni. Má þar helst nefna greiðslur til sauðfjárbænda vegna gæðastýringar í sauðfjárframleiðslu. Þeir framleiðendur sem uppfylla kröfur um velferð dýra, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða fá greiddar álagsgreiðslur fyrir framleitt kindakjöt. Ekki er talið að til staðar séu skaðlegir hvatar sem geri fyrirtækjum kleift að stunda framleiðslu sem skaða líffræðilega fjölbreytni. Þá má einnig nefna stuðning við lífræna framleiðslu og leiðbeiningarþjónustu þar sem m.a. er lögð áhersla á að efla ræktunarmenningar, sjálfbæra þróun og landnýtingu og markvissa áburðarnýtingu með tilliti til umhverfisins.
    Hinn 9. janúar sl. skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra stýrihóp um líffræðilega fjölbreytni. Hlutverk stýrihópsins er að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt styðji við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og aðra alþjóðasamninga. Tveir fulltrúar stýrihópsins eru tilnefndir af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í vinnu stýrihópsins verður tekið með heildstæðum hætti á líffræðilegri fjölbreytni og því munu frekari áform ráðherra hvað þetta varðar taka mið af vinnu stýrihópsins. Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins liggi fyrir snemma árs 2021.