Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1114  —  448. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um innlánsdeildir og hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur og Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að 2. gr. a laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, sem fjallar um heimild samvinnufélaga til að starfrækja innlánsdeildir, falli brott. Jafnframt eru lagðar til breytingar á öðrum lögum, sbr. II.–VII. kafla frumvarpsins, sem leiðir af brottfalli þeirrar heimildar. Hins vegar eru lagðar til breytingar á 27. gr. laganna um að hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samvinnufélaga verði sambærileg því sem á við um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga.
    Í umsögn Seðlabankans kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði bent á að óheppilegt væri að starfsemi innlánsdeilda færi fram hjá félögum sem ekki lytu sambærilegum varúðarreglum og viðskiptabankar og sparisjóðir. Seðlabankinn styddi framgang frumvarpsins og þakkaði það samráð sem hefði verið viðhaft við samningu þess.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. mars 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Brynjar Níelsson Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Þorgrímur Sigmundsson. Willum Þór Þórsson.