Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1124  —  659. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Auk þess ræddi nefndin við Snorra Olsen ríkisskattstjóra og Halldór Benjamín Þorbergsson frá Samtökum atvinnulífsins í síma.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum til bráðabirgða verði bætt við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, annars vegar, og lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, hins vegar. Í ákvæðunum verði kveðið á um frestun á gjalddaga helmings þeirra greiðslna sem voru á gjalddaga 1. mars sl. samkvæmt lögunum til 1. apríl nk. og að eindagi hinna frestuðu greiðslna verði 14 dögum síðar eða 15. apríl.

Áhrif frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er stigið fyrsta skrefið í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að bregðast við skyndilegum og ófyrirséðum efnahagsvanda vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Í greinargerð með frumvarpinu segir að aðgerðirnar miði að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá segir enn fremur: Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður eins og nú eru uppi vegna COVID-19-faraldursins. Þegar má merkja áhrif hans í efnahagslífinu en með viðbrögðum eins og hér eru lögð til má draga verulega úr þeim áhrifum og með því verja íslenskt efnahagslíf.
    Samþykkt frumvarpsins hefur þau áhrif að launagreiðendum verður heimilt að halda eftir helmingi greiðslna á grundvelli 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og 10. gr. laga um tryggingagjald hins vegar, sem að óbreyttu væru á eindaga 16. mars, fram til 15. apríl. Frumvarpið hefur jafnframt þau áhrif að viðurlög sem lögin kveða á um að beita skuli vegna greiðsludráttar frestast hvað þær greiðslur varðar. Álagi skv. 28. gr. staðgreiðslulaga verður því ekki beitt á helming greiðslu sem var á gjalddaga 1. mars fyrr en 16. apríl. Að sama skapi leggjast dráttarvextir ekki á vangreitt tryggingagjald, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald, hvað varðar helming þess hluta sem var á gjalddaga 1. mars fyrr en 16. apríl og reiknast dráttarvextir í slíku tilviki frá 1. apríl.
    Í framsöguræðu ráðherra um frumvarpið skoraði ráðherra á þau fyrirtæki sem hafa til þess bolmagn að nýta ekki þá heimild til greiðslufrestunar sem veitt er með frumvarpinu heldur standa í fullum skilum eins og til stóð 16. mars. Meiri hlutinn tekur undir þessa áskorun og bendir á að til þess að aðgerðir á borð við þessa skili sem bestum árangri sé nauðsynlegt að tryggja breiða samstöðu. Þá bendir meiri hlutinn á að hluti þeirra sem standa eiga skil á þeim greiðslum sem frumvarpið varðar eru opinberir aðilar. Eðlilegt er að þessir aðilar standi skil á fullum greiðslum 16. mars eins og til stóð en nýti ekki þá heimild sem í frumvarpinu felst.


Breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar og tillaga um afgreiðslu.
    Meiri hlutinn leggur til tæknilegar breytingar á ákvæðunum þannig að skýrt verði kveðið á um dagsetningar. Þá er lagt til að orðalag 2. gr. frumvarpsins verði samræmt 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald. Breytingunum er ætlað að auka skýrleika ákvæðanna en er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Sem fyrr segir er frumvarpið fyrsta skrefið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við þeim vanda sem að steðjar. Mikilvægt er að frumvarpinu verði fylgt eftir með markvissum aðgerðum sem styðji við tilgang þess og tryggi eins og frekast er unnt að markmið þess um að draga verulega úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins og verja íslenskt efnahagslíf náist.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „í mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera mánuði síðar en kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr.“ í 1. gr. komi: 1. mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera 1. apríl 2020.
     2.      Í stað orðanna „í mars 2020 vegna skila á staðgreiðslu vera mánuði síðar en kveðið er á um í 1. mgr. 10. gr.“ í 2. gr. komi: 1. mars 2020 vegna launa næstliðins mánaðar vera 1. apríl 2020.

    Smári McCarthy og Þorsteinn Víglundsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 13. mars 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Birgir Þórarinsson. Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Þorsteinn Víglundsson,
með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson.