Ferill 659. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1125  —  659. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald (frestun gjalddaga).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Frumvarpinu er ætlað að bregðast við skyndilegum og ófyrirséðum efnahagsvanda vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Fyrirtækjum er veitt heimild til að fresta helmingi greiðslna tryggingagjalds og staðgreiðslu skatta. Mikilvægt er að markmiðið með öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld grípa til verði að lágmarka efnahagslegan skaða sem faraldurinn hefur í för með sér og að samfélagið eigi möguleika á að rétta hratt úr kútnum þegar faraldurinn er genginn yfir. Í þessu nefndaráliti nefnir fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd nokkrar leiðir sem skoða ætti til að minnka þann skaða sem heimilin og fyrirtækin í landinu verða fyrir á meðan heimsfaraldur og efnahagslægð varir.

Fyrirtækin.
    Minni hlutinn styður frumvarpið en tekur fram að þessi aðgerð ein og sér dugar ekki. Mikilvægt er að fleiri aðgerðir verði boðaðar og útfærðar svo að skýrt verði hvað tekur við.
    Gjalddagi virðisaukaskatts er 5. apríl og minni hlutinn vill að skoðað verði að heimila einnig frestun á þeirri greiðslu.
    Ásamt því að fresta greiðslu opinberra gjalda sem fyrirtæki eiga að standa skil á er mikilvægt að með atvinnuleysisbótum fái fyrirtæki fjárhagslega hjálp til að halda fólki í hlutastörfum.
    Bankar þurfa að sýna stöðunni skilning og veita sveigjanleika. Mikilvægt er að fyrirtæki verði ekki keyrð í þrot meðan faraldurinn gengur yfir. Bankar þurfa að hafa getu til að koma til móts við fyrirtæki, svo sem með skammtímalánum eða greiðslufresti.
    Lágir vextir og aukin ríkisútgjöld til opinberra fjárfestinga munu einnig verða til þess að flýta viðsnúningi.

Atvinnulausir.
    Samhliða því að stjórnvöld leiti leiða til að vinna gegn atvinnuleysi með aðgerðum sem létta fyrirtækjum stöðuna þarf að huga að fólki sem þrátt fyrir þær aðgerðir missa vinnuna. Minni hlutinn vill að þeim tilmælum verði beint til banka og lífeyrissjóða að veita atvinnulausum frest til að greiða vexti og afborganir af húsnæðislánum. Hugsanlega getur ríkið beitt eigendastefnu til að hafa áhrif á þá stöðu. Mikilvægt er einnig að skoða möguleika á því að lækka tímabundið yfirdráttarvexti. Þá þarf að auðvelda fólki að endurfjármagna húsnæðislán en slík aðgerð mun skila sér í lægri greiðslubyrði heimila.
    Samstarf við sveitarfélög gæti einnig leitt til þess að fasteignagjöld verði lækkuð eða greiðslum frestað hjá fólki sem missir vinnuna.
    Minni hlutinn telur afar brýnt að hækka atvinnuleysisbætur sem nú eru í sögulegu lágmarki miðað við lágmarkslaun. Einnig ætti að taka til skoðunar að hækka greiðslur Tryggingastofnunar í samræmi við lágmarkslaun. Dæmi eru um ríki sem hafa farið þá leið að hækka greiðslur til lífeyrisþega og atvinnulausra í niðursveiflu, m.a. til að auka eftirspurn í hagkerfinu.
    Tryggja þarf fólki laun sem þarf eða hefur þurft að fara í sóttkví. Forsætisráðherra hefur boðað að lagt verði fram frumvarp í þá veru og slíka aðgerð styður minni hlutinn.
    Á meðan faraldurinn gengur yfir verður fjölmennum viðburðum frestað. Tilkynningar um frestun árshátíða, tónleika og annarra skemmtana hafa verið margar og nú hefur samkomubann verið boðað. Starfsfólk í þeim geirum sem verða af tekjum vegna þessa er oft ekki í þeirri stöðu að ganga að sjúkrasjóðum eða öðrum sjóðum vísum. Sjálfstætt starfandi fólk á ýmsum sviðum missir viðurværi vegna minni eftirspurnar eða vegna veikinda eða einangrunar. Til að leysa þennan tímabundna vanda ætti að setja á stofn sjóð sem sækja mætti í til þess að tryggja afkomu þess hóps sem annars stendur berskjaldaður.

Mat á áhrifum aðgerða.
    Mikilvægt er að meta áhrif aðgerða stjórnvalda á mismunandi hópa samfélagsins og greina áhrifin eftir kynjum. Konur eru fjölmennari en karlar í þjónustustörfum. Líklegt er að á næstunni muni einkaneysla dragast saman og störfum í þjónustugeiranum fækka samhliða. Fjölgun starfa í vegagerð og byggingariðnaði mun því ekki duga ein og sér.

Gjaldmiðillinn.
    Nauðsynlegt er að stjórnvöld fylgist með því hvort útflutningsfyrirtæki flytji gjaldeyrishagnað af viðskiptum sínum heim. Hugsanlega eykst hvati hjá þeim sem ekki treysta á krónuna til að flýja í aðra stöðugri gjaldmiðla. Slíkt gæti fellt krónuna hratt og orðið til áhlaups á krónuna með slæmum afleiðingum fyrir heimilin og samfélagið allt. Við slíkri hættu verða stjórnvöld að vera búin og tilbúin til að grípa til aðgerða.

Samráð.
    Við glímum ekki aðeins við afleiðingar COVID-19-veirusjúkdómsins á heilsu fólks og efnahag heldu glímum við einnig við niðursveiflu í hagkerfinu sem faraldurinn gerir enn dýpri.
    Í þessari stöðu verðum við að verja velferðarkerfið, vinna gegn atvinnuleysi og styðja við atvinnulífið og rekstur heimila í landinu. Gæta þarf að því að enginn gleymist þegar aðgerðir stjórnvalda eru ákveðnar. Samráð við stjórnarandstöðuna á Alþingi, heildarsamtök á vinnumarkaði og við sveitarfélög er nauðsynlegt og grundvöllur góðs árangurs og sáttar.

Alþingi, 13. mars 2020.

Oddný G. Harðardóttir.