Ferill 664. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1128 — 664. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall).
Frá félags- og barnamálaráðherra.
I. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum.
1. gr.
a. (XIII.)
Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað hlutfallslega um 20% hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli.
Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Þrátt fyrir 2. mgr. skulu laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu samanlagt aldrei nema hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði.
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda sem launamaður missti starf sitt hjá að hluta þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.
Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.
Ákvæði þetta á ekki við um launamenn sem njóta réttar til kauptryggingar og starfa hjá vinnuveitanda sem á rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði í tímabundinni vinnslustöðvun á grundvelli laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júlí 2020.
b. (XIV.)
Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst uppfylla skilyrði f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar, hafi hann tilkynnt skattinum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri.
Taki sjálfstætt starfandi einstaklingur að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta skal hann tilkynna það til Vinnumálastofnunar enda á viðkomandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili sem verkefnið stendur yfir.
Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júlí 2020.
II. KAFLI
Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum.
2. gr.
Þrátt fyrir a-lið 5. gr. skal taka mið af vinnulaunum launamanns fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda áður en starfshlutfall launamanns var minnkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Að öðru leyti gildir a-liður 5. gr.
Þrátt fyrir b-lið 5. gr. skal við útreikning bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eftir að starfshlutfall hafði áður verið minnkað taka mið af vinnulaunum launamanns í samræmi við 1. mgr. enda hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall launamanns var minnkað. Að öðru leyti gildir b-liður 5. gr.
Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júlí 2020.
3. gr.
Greinargerð.
Mikil óvissa ríkir nú á íslenskum vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum, bæði hér á landi og erlendis. Ætla má að bein störf í ferðaþjónustu séu um 25 þúsund og að hlutur erlendra ferðamanna í verðmætasköpun ferðaþjónustu sé hlutfallslega um 70%. Því má ætla að fækkun ferðamanna kunni að hafi áhrif á um 18 þúsund störf hér á landi.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði þar sem mikil óvissa ríkir vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Þar sem ætla má að um tímabundið ástand sé að ræða er gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu gildi í afmarkaðan tíma en þeim er meðal annars ætlað að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þar til aðstæður skýrast. Samtök atvinnurekenda munu hvetja fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarvanda til að nýta þann kost að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna tímabundið fremur en að grípa til uppsagna.
3. Meginefni frumvarpsins.
Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt, enda þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Ljóst er að mikil verðmæti eru fólgin í því fyrir samfélagið allt að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda. Er þannig gert ráð fyrir að einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta sem nemur hlutfallslegum mismun réttar launamannsins hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram. Gert er að skilyrði að fyrra starfshlutfall hafi verið lækkað hlutfallslega um 20% hið minnsta og að launamaður haldi að lágmarki 50% starfshlutfalli.
Þá er ekki síður mikilvægt að dregið verði úr þeim áhrifum sem samkomulag um minnkað starfshlutfall vegna tímabundins samdráttar í rekstri vinnuveitenda kann að hafa á réttindi launamanna innan velferðarkerfisins sem byggist á atvinnuþátttöku fólks. Er því með frumvarpi þessu lagt til að þegar starfshlutfall launamanns hefur verið minnkað vegna samdráttar í rekstri vinnuveitanda á síðustu tólf mánuðum áður en héraðsdómara berst krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda verði við framkvæmd a- og b-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum, tekið mið af tekjum launamannsins er hann hafði áður en kom til lækkunar á starfshlutfalli.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.
5. Samráð.
Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir á vinnumarkaði hér á landi og erlendis eftir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti yfir heimsfaraldri vegna kóróna veiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, hefur ekki gefist svigrúm til hefðbundins samráðs enda um fordæmalausar aðstæður að ræða. Þess ber þó að geta að frumvarpið var samið í samráði ráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Vinnumálastofnunar. Í ljósi aðstæðna voru forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra einnig upplýstir um vinnslu frumvarpsins.
6. Mat á áhrifum.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir jákvæðum áhrifum þess í erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði þar sem áhersla er lögð á að fleiri launamenn geti haldið virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda en ella. Frumvarpinu er annars vegar ætlað að draga úr auknu atvinnuleysi vegna tímabundinna þrenginga á vinnumarkaði og hins vegar að koma til móts við aðstæður launamanna sem þurfa að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis þess sem þeir starfa hjá.
Erfitt er að spá fyrir um fjölda þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem hugsanlega munu nýta þetta ákvæði til bráðabirgða. Reynslan frá fyrri árum var að hlutfall þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá vegna minnkaðs starfshlutfalls var á bilinu 8–11% af heildarfjölda atvinnuleitenda á hverjum tíma. Hvort hlutfallið haldist svipað eða hækki er erfitt að sjá fyrir. Ef hópur þeirra starfsmanna sem lækkar í starfshlutfalli verður með svipuðu sniði og áður má búast við því að um þúsund einstaklingar fái greitt samkvæmt ákvæði þessu. Ætla má að meðalgreiðsla til hvers einstaklings verði um 193.500 kr. auk 22.000 kr. í mótframlag. Miðað við þær forsendur yrðu heildarútgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 755 millj. kr. á tímabilinu. Þar að auki er gert ráð fyrir að kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar, svo sem vegna þróunar hugbúnaðar, geti numið um 3 millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að stofnunin þurfi að bæta við tveimur stöðugildum til að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni eru falin með frumvarpi þessu.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Með ákvæði til bráðabirgða XIII er lagt til að gerð verði tímabundin breyting til að koma til móts við aðstæður launamanna sem þurfa að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis þess sem þeir starfa hjá. Gert er að skilyrði að launamaður haldi að lágmarki 50% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda en ákvæði þessu er ætlað að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína líkt og frekast er unnt enda þótt nauðsynlegt kunni að vera að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Þannig er gert ráð fyrir að launamaður eigi ekki rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu skerðist starfshlutfall hans um minna en 20%. Leiðir það til þess að launamaður getur að hámarki verið í 80% starfshlutfalli hafi hann áður verið í fullu starfshlutfalli til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu.
Lagt er til að launamaður fái greitt miðað við fullan bótarétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hámarkstekjutengingu samkvæmt lögunum, eða 456.404 kr. í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall hans. Dæmi um þetta er launamaður A sem fer úr 100% starfshlutfalli í 50% starfshlutfall og fær greitt 50% af hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur 228.202 kr. Annað dæmi er launamaður B sem fer úr 80% starfshlutfalli í 50% starfshlutfall og fær þannig greitt 30% af hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur 136.921 kr. enda verður viðkomandi launamaður fyrir kjaraskerðingu sem nemur 30%. Í ákvæðinu felst þannig tímabundin lenging á því tímabili sem launamaður á rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Lagt er til að kveðið verði á um að laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geti ekki numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna viðkomandi launamanns. Jafnframt er lagt til að við ákvörðun meðaltals heildarlauna verði tekið mið af launum einstaklings þrjá mánuði fyrir minnkað starfshlutfall. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þrátt fyrir framangreint er gert ráð fyrir að hámark samanlagðra greiðslna samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins nemi aldrei hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði.
Þá er lögð til sérstök heimild til Vinnumálastofnunar til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá viðkomandi vinnuveitanda þegar stofnunin telur ástæðu vera til, þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni. Er hér um að ræða gögn þar sem meðal annars kæmi fram nánari greining á því í hverju samdrátturinn felst, svo sem í fækkun verkefna, eða hvernig fyrirhugað er að mæta samdrætti á þjónustu fyrirtækis sem meðal annars leiðir þá til þess að minnka þarf starfshlutfall starfsfólksins. Gert er ráð fyrir að gildistími ákvæðisins verði tímabundinn í ljósi sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði og gildi um greiðslur til launamanna sem taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls frá og með 15. mars 2020 og til og með 30. júní 2020 vegna samdráttar í rekstri vinnuveitanda. Ákvæðið eigi þannig við starfsmenn sem taka á sig minnkað starfshlutfall frá og með 15. mars 2020.
Í b-lið er lagt til að með ákvæði til bráðabirgða við lög um atvinnuleysistryggingar verði gerð tímabundin breyting þannig að sjálfstætt starfandi einstaklingi verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi (RSK 5.04). Lagt er til að í þeim efnum nægi að tilkynnt hafi verið um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra (RSK 5.02). Markmið ákvæðisins er að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga í þeim erfiðu aðstæðum sem nú eru á innlendum vinnumarkaði en ætla má að margir sjálfstætt starfandi einstaklingar muni finna fyrir samdrætti í rekstri. Sjálfstætt starfandi einstaklingi ber að afskrá sig hjá Vinnumálastofnun þá daga sem viðkomandi sinnir tilfallandi verkefnum og á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili. Tekjur viðkomandi fyrir tilfallandi verkefni koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum að framangreindum skilyrðum uppfylltum.
Lagt er til að launamenn sem njóta réttar til kauptryggingar og starfa hjá vinnuveitanda sem á rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði í tímabundinni vinnslustöðvun á grundvelli laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995, falli ekki undir ákvæðið. Gert er ráð fyrir að gildistími ákvæðisins verði tímabundinn í ljósi sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði og gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna samdráttar í rekstri frá og með 15. mars 2020 og til og með 30. júní 2020.
Um 2. gr.
Um 3. gr.