Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1132  —  648. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (neyðarástand í sveitarfélagi).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fundað með Birni Inga Óskarssyni frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Guðjóni Bragasyni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í síma.
Nefndinni barst umsögn frá Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði í sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, ákvæði þess efnis að ráðherra geti ákveðið að sveitarstjórn sé heimilt að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.

Afmörkun á heimildum ráðherra.
    Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er það lagt fram til að bregðast við óskum frá sveitarfélögum um að skapað verði svigrúm í sveitarstjórnarlögum til að bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur vegna veirusjúkdómsins COVID-19. Markmið frumvarpsins er að tryggja að sveitarstjórnir hafi svigrúm til þess að bregðast skjótt við í aðstæðum sem skapast vegna neyðarástands.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að of langt kynni að vera gengið í því að heimila ráðherra að veita sveitarstjórnum undanþágu frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga á grundvelli neyðarástands án þess að afmarka heimildina við þau ákvæði laganna sem við gætu átt í slíku ástandi. T.d. benti Reykjavíkurborg á að heppilegra kynni að vera að afmarka heimildir ráðherra við ákveðna kafla eða greinar laganna.
    Nefndin leggur áherslu á að ákveðin skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir ákvörðun ráðherra. Þau eru að neyðarástand vari í sveitarfélaginu, að um sé að ræða ákvæði sveitarstjórnarlaga sem varða stjórn sveitarfélagsins og að tilgangurinn sé að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og að auðvelda ákvarðanatöku. Þá er ráðherra einnig bundinn af meðalhófsreglunni og getur hann því ekki veitt sveitarstjórnum víðtækari heimild en nauðsyn krefur til að víkja frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið felur einnig í sér að ráðherra veitir sveitarstjórnum eingöngu heimild til að ákveða sjálfar hvort tilefni er til að víkja frá tilteknum skilyrðum sveitarstjórnarlaga eða samþykktum sveitarstjórna á meðan neyðarástand varir, og er því í fullu samræmi við sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar.
    Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin eðlilegt að beiting heimildarinnar takmarkist við undanþágu frá ákveðnum köflum laganna, þ.e. III. kafla um sveitarstjórnarfundi, V. kafla um nefndir ráð og stjórnir, VII. kafla um fjármál sveitarfélaga og X. kafla um samráð við íbúa. Leggur nefndin til breytingu þess efnis að heimild ráðherra verði takmörkuð við undanþágur frá ákvæðum þeirra kafla, stjórnvaldsfyrirmæli sett á grundvelli þeirra og samþykktir sveitarfélagsins.
Endurskoðun ákvæðisins.
    Þær aðstæður sem skapast hafa hjá sveitarstjórnum vegna COVID-19 undirstrika mikilvægi þess að tryggja tiltekinn sveigjanleika í sveitarstjórnarlögum til þess að bregðast við erfiðleikum sem kunna að skapast vegna neyðarástands. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að frumvarpið er lagt fram til þess að bregðast við þeim tilteknu aðstæðum sem nú eru uppi. Mikilvægt er að umræða fari fram um það svigrúm sem eðlilegt er að ráðherra og sveitarfélög hafi en að ákvarðanir um fyrirkomulagið til frambúðar séu ekki teknar á grundvelli yfirstandandi tímabundins ástands. Nefndin leggur því til að heimildin verði fremur sett í bráðabirgðaákvæði sem falli úr gildi 31. desember 2020. Þannig megi endurskoða hvernig svigrúm sveitarfélaga verði tryggt í samráði við sveitarfélögin sjálf og að fenginni reynslu af beitingu þeirra heimilda sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Þá telur nefndin rétt að fram komi að ákvarðanir sem ráðherra tekur fyrir 31. desember 2020 haldi gildi í þann tíma sem þeim var ætlað.

    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, að sveitarstjórn sé heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða III., V., VII. og X. kafla laganna, stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra og samþykktum sveitarfélags við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku.
    Ráðuneytið skal birta ákvörðun skv. 1. mgr. í Stjórnartíðindum og getur hún aðeins gilt í fjóra mánuði í senn.
    Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2020. Ákvarðanir skv. 1. mgr. sem teknar eru fyrir 31. desember 2020 skulu þó halda gildi sínu í allt að fjóra mánuði, sbr. 2. mgr.

    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 16. mars 2020.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Jón Gunnarsson.
Ari Trausti Guðmundsson. Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Karl Gauti Hjaltason. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason.