Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1151  —  501. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Á yfirstandandi kjörtímabili sem hófst 30. nóvember 2017 hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað alls 22 nefndir, starfs- og stýrihópa. Í svarinu eru undanskildar endurskipanir í nefndir og ráð sem komið hafði verið á fót fyrir upphaf kjörtímabilsins.
    Nefndir, starfs- og stýrihópar eru eftirfarandi:
Starfshópur um endurskoðun hrognkelsaveiða (2018).
    Hlutverk starfshópsins er að fara yfir veiðistjórn á hrognkelsaveiðum og gera rökstudda tillögu um breytingar sjái starfshópurinn ástæðu til.
Samráðshópur um framtíðarskipan regluverks um uppboðsmarkaði sjávarafla (2018).
    Hlutverk samráðshópsins er m.a. að fjalla um þörfina á sérstökum reglum um uppboðsmarkaði sjávarafla og ef þörf er á slíkum reglum hvernig best væri að útfæra slíkt regluverk.
Smíðanefnd nýs hafrannsóknaskips (2019).
    Nefndinni er falið að hefja undirbúning að smíði hafrannsóknaskips sem komi í stað Bjarna Sæmundssonar RE 30, sbr. þingsályktun nr. 32/148, sem samþykkt var á Alþingi 18. júní 2018. Jafnframt annast nefndin útboð og samningsgerð og hefur eftirlit með smíði skipsins.
Starfshópur um endurskoðun aflareglu fyrir þorsk (2019).
    Endurskoðun á aflareglu fyrir þorskstofninn. Núverandi aflaregla hefur verið í gildi frá árinu 2007.
Starfshópur um endurskoðun á fyrirkomulagi aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir (2019).
    Að vega og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir þar með talið standveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun í samræmi við stjórnarsáttmál ríkisstjórnarinnar.
Samráðsnefnd um skipulagningu eftirlits með veiðum erlendra skipa (2019).
    Samráðsnefnd ráðuneytisins, Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar um eftirlit með fiskveiðum erlendra skipa. Verkefni samráðsnefndarinnar ná einnig til þess að móta heildarstefnu í eftirliti með veiðum innlendra skipa.
Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni (2019).
    Hlutverk hópsins er að fjalla um athugasemdir og ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu og gera tillögur um úrbætur í rekstri Fiskistofu, einkum er varðar verklag og áherslur sem snúa að eftirlitshlutverki hennar, og enn fremur að leggja mat á fjárþörf Fiskistofu til að hún geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum. Þá er verkefnastjórninni falið að setja fram ábendingar um nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um hlutverk og viðfangsefni stofnunarinnar til að tryggja skilvirkni í störfum hennar.
Samráðshópur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni (2019).
    Hlutverk hópsins er að vera verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni til ráðgjafar.
Samráðshópur vegna MMPA (2020).
    Samráðshópnum er ætlað að vera til ráðgjafar um samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin vegna málsins, vera vettvangur til skoðanaskipta og mótunar viðbragða sem og að miðla upplýsingum til greinarinnar um kröfur Bandaríkjanna um aðgerðir til að lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr.
Stýrihópur um endurmat eftirlitsreglna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (2019).
    Stýrihópnum er ætlað að samhæfa vinnu við endurmat eftirlitsreglna Ferðamálastofu, Fiskistofu, Matvælastofnunar, Neytendastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins í samræmi við 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur.
Starfshópur um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara (2018).
    Hlutverk starfshópsins var að endurskoða núverandi fyrirkomulag um úthlutun tollkvóta og finna leiðir til að koma ávinningi vegna tollkvóta í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.
Starfshópur um endurskoðun á regluverki um neysluvatn (2018).
    Hlutverk starfshópsins er að endurskoða regluverk í kringum neysluvatn í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og að vinna úr tillögum starfshóps um litlar vatnsveitur.
Verkefnastjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland (2018).
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti á fót verkefnastjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland en tilgangur matvælastefnunnar er að draga fram þær áherslur stjórnvalda að Ísland eigi að verða leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi.
Stýrihópur um átak gegn sýklalyfjaónæmi (2019).
    Stýrihópnum er ætlað að framfylgja aðgerðum sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Starfshópur um aðgerðaáætlanir vegna sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, sláturafurðum og matvælum (2019).
    Starfshópnum er ætlað að gera aðgerðaáætlanir vegna sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Jafnframt er starfshópnum ætlað að setja fram mismunandi valkosti við stefnu sem miðar að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur.
Starfshópur um gerð leiðbeininga um ávísun og notkun sýklalyfja og sníkjudýralyfja hjá dýrum auk leiðbeininga um varnir við sníkjudýrasmiti (2019).
    Starfshópnum er ætlað að gera leiðbeiningar um notkun sýklalyfja og sníkjudýralyfja hjá dýrum auk leiðbeininga um varnir við sníkjudýrasmiti. Starfshópnum er m.a. ætlað að útbúa skuldbindandi leiðbeiningar um ávísun og notkun sýklalyfja hjá dýrum, með hliðsjón af sýklalyfjalausum lausnum.
Samráðshópur um betri merkingar matvæla (2019).
    Verkefni samráðshópsins að ráðast í átaksverkefni um merkingar matvæla og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
Starfshópur um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna (2019).
    Hlutverk starfshópsins er að tryggja dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og þjónustu utan dagvinnutíma á hagkvæman og aðgengilegan hátt, með áherslu á velferð dýra.
Starfshópur sem fjallar um þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi (2019).
    Hlutverk starfshópsins er að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Starfshópur um aðlögunarsamninga, minni bú og fleira í nautgriparækt (2020).
    Hlutverk starfshópsins er að fara yfir hugmyndir aðila varðandi aðlögunarsamninga og minni bú. Jafnframt meti hópurinn þörf á aðgerðum annars vegar vegna svæða þar sem framleiðsla hefur dregist saman og hins vegar vegna fyrirhugaðs banns við básafjósum. Jafnframt verði skoðað hvernig hægt sé að styðja betur við rannsóknarstarf og hagnýtar rannsóknir fyrir greinina ásamt fræðslu og menntun kúabænda. Þá verði skoðaðir möguleikar til samrekstrar búa til hagræðingar. Þá kemur fram að aðilar séu sammála um að greina skattalegt umhverfi viðskipta með búrekstur og bújarðir með það að markmiði að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti og tryggja þannig áframhaldandi búrekstur og búskap.
Starfshópur um verðlagsmál í nautgriparækt (2020).
    Hlutverk starfshópsins er m.a. að fjalla um verðlagsmál í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu.
Starfshópur um loftslagsmál í nautgriparækt (2020).
    Hlutverk starfshópsins er að fjalla um kolefnisjöfnun greinarinnar og setja saman verk- og fjárhagsáætlun. Skal hópurinn í störfum sínum hafa samráð við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Matís og fleiri aðila.