Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1152  —  682. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um starfsumhverfi smávirkjana.

Frá Haraldi Benediktssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Jóni Gunnarssyni, Sigurði Páli Jónssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Bergþóri Ólasyni, Vilhjálmi Árnasyni, Ásmundi Friðrikssyni, Brynjari Níelssyni og Óla Birni Kárasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytji Alþingi skýrslu um starfsumhverfi smávirkjana.

Greinargerð.
    

    Mörg tækifæri felast í uppbyggingu smávirkjana á Íslandi. Smávirkjanir eru þær virkjanir sem hafa uppsett afl sem er minna en 10 megavött (MW), hvort sem er vatnsorku-, jarðvarma-, vindorku- eða sjávarfallavirkjanir. Skynsamleg nýting smávirkjana er vel til þess fallin að styðja sjálfbæran og fjölbreyttan orkubúskap þjóðarinnar en slík uppbygging hefði í för með sér jákvæð staðbundin áhrif á byggða- og atvinnuþróun. Smávirkjanir tryggja því ákveðið jafnvægi milli umhverfislegra, efnahagslegra og samfélagslegra sjónarmiða.
    Hægfara þróun hefur orðið á undanförnum árum í uppbyggingu smávirkjana á Íslandi. Ferli leyfisveitinga er flókið, ógagnsætt og þunglamalegt, margir opinberir aðilar koma að málinu og málsmeðferðartími hefur iðulega dregist úr hófi. Er hér um samspil fjölmargra þátta að ræða sem snýr m.a. að tengingum smávirkjana við raforkukerfið (tengiskilmálum, reglugerðarákvæðum o.fl.), stöðu smávirkjana og hlutverki þeirra á markaði, að skipulagsmálum og leyfisveitingum og sömuleiðis að vatnsréttindum í eigu ríkisins. Með vísan í framangreint er óskað eftir því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra láti vinna skýrslu um starfsumhverfi smávirkjana og leggi hana fyrir Alþingi. Verði þar m.a. lagt mat á hugsanlegar laga- og kerfisbreytingar sem verði til einföldunar og stuðli að aukinni skilvirkni að því er uppbyggingu smávirkjana varðar.