Ferill 696. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1175  —  696. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (afturköllun ákvörðunar).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 125. gr. er ráðuneytinu heimilt, að fenginni tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags vegna sameiningar sveitarfélaganna Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar og samþykki viðkomandi sveitarstjórna, að afturkalla ákvörðun sína frá 14. febrúar 2020 um það með hvaða hætti sameining sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag öðlast gildi, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Falla þar með allar tengdar ákvarðanir ráðuneytisins skv. 125. gr. úr gildi, svo sem um boðun sveitarstjórnarkosninga, þ.m.t. kosningar til heimastjórna, hinn 18. apríl 2020.
    Ráðuneytið skal, að tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags, taka nýja ákvörðun um það með hvaða hætti sameining öðlast gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skal ákvörðun ráðuneytisins um afturköllun ákvörðunar skv. 1. gr. liggja fyrir innan þriggja daga frá gildistöku þeirra. Ákvörðun ráðuneytisins skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Greinargerð.

    Hinn 14. febrúar 2020 staðfesti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags vegna sameiningar sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Borgarfjarðarhrepps í eitt sveitarfélag, sbr. 122. gr. sveitarstjórnarlaga. Að tillögu undirbúningsstjórnar ákvað ráðuneytið að sameiningin skyldi fara fram með kosningu til sveitarstjórnar hins nýja sameinaða sveitarfélags 18. apríl 2020 og hefur utankjörfundaratkvæðagreiðsla þegar hafist í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
    Hinn 19. mars 2020 barst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu beiðni undirbúningsstjórnar vegna umræddrar sameiningar um að kosningum til sveitarstjórnar hins nýja sameinaða sveitarfélags sem boðaðar hafa verið yrði frestað. Vísað var til þess að heilbrigðisráðherra hefði á grundvelli sóttvarnalaga, nr. 19/1997, takmarkað samkomur tímabundið í fjórar vikur til að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Þá kom fram að undirbúningsstjórnin hefði leitað umsagnar ríkislögreglustjóra, sóttvarnalæknis, almannavarnanefndar Austurlands, sýslumannsembættisins á Austurlandi, yfirkjörstjórnar og oddvita þeirra framboða sem fram eru komin og lagðist enginn framangreindra aðila gegn því að umræddum kosningum yrði frestað. Þá fylgdu með beiðni undirbúningsstjórnar ályktanir sveitarstjórna sveitarfélaganna fjögurra sem allar samþykktu samhljóða að óska eftir frestun kosninganna.
    Í 89. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, kemur fram að farist kosning í kjördeild á hinum ákveðna degi sveitarstjórnarkosninga fyrir af óviðráðanlegum orsökum skuli yfirkjörstjórn innan viku boða til kjörfundar að nýju. Ljóst er að ákvæði laga nr. 5/1998 felur ekki í sér heimild yfirkjörstjórnar til að fresta utankjörfundaratkvæðagreiðslu auk þess sem óvíst er hversu lengi áhrif COVID-19-faraldursins muni vara.
    Ekki er að finna ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem heimilar ráðuneytinu að afturkalla ákvörðun sína um ákvörðun dagsetningar kosninga. Auk þess þarf að hafa í huga að réttur íbúa sveitarfélaga til þess að kosningar um stjórn sveitarfélagsins fari fram hvílir á 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og því mikilvægt að ákvarðanir um frestun eða afturköllun kosninga sem þegar eru hafnar, fari fram á traustum lagalegum grunni. Þó ber að geta þess að fordæmi eru fyrir því að ákvörðun um frestun kosninga hafi farið fram á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar, sbr. þingsályktun Alþingis um frestun almennra alþingiskosninga árið 1941. Ekki er þó ástæða til að láta ákvörðun ráðuneytisins um frestun sveitarstjórnarkosninga vegna sameiningar sveitarfélaganna fjögurra hvíla á slíkum grunni á þessu stigi, enda er Alþingi enn þá starfandi.
    Tilgangur bráðabirgðaákvæðisins er að unnt sé að hverfa frá boðaðri sveitarstjórnarkosningu hinn 18. apríl. Í ljósi þess að kosning til sveitarstjórnar í hinu nýja sveitarfélagi er forsenda þess að sameining taki gildi, sbr. 125. gr. sveitarstjórnarlaga, er lagt til að ráðuneytinu verði veitt heimild til að afturkalla ákvörðun sína um það hvernig sameining fari fram. Var hér einnig haft í huga að mikil óvissa er um stöðu mála næstu mánuði og því óvíst hvenær hægt verður að boða til nýrra sveitarstjórnarkosninga. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um réttaráhrif afturköllunar ráðuneytisins. Í því felst að kosning til sveitarstjórnar hinn 18. apríl fellur niður og þar af leiðandi einnig gildistaka sameiningarinnar. Hins vegar er ákvörðun ráðuneytisins um að staðfesta sameininguna skv. 122. gr. og staðfesting ráðuneytisins á samþykkt um stjórn og fundarsköp hins nýja sveitarfélags, sbr. auglýsingu nr. 190/2020 í B-deild Stjórnartíðinda, í fullu gildi.
    Áréttað skal að með afturköllun boðaðra kosninga fellur niður kosning í yfirkjörstjórn vegna kosninganna, utankjörfundaratkvæði sem þegar hafa verið greidd, framboð ef þau hafa verið lögð fram formlega og öll önnur atriði sem tengjast boðuðum kosningum. Búast má við að ef boðað verður til nýrra kosninga verði þörf á að kjósa yfirkjörstjórn og tilkynna framboð að nýju.
    Afturköllun á staðfestingu ráðuneytisins felur einnig í sér að ráðuneytið skuli aftur taka ákvörðun um það með hvaða hætti sameining sveitarfélaganna taki gildi, sbr. 125. gr. sveitarstjórnarlaga, og skal það gert að tillögu stjórnar til undirbúnings að stofnun hins nýja sveitarfélags. Fellur sameining sveitarfélaganna fjögurra því ekki niður, heldur einungis ákvörðun um gildistöku hennar.
    Þá er gert ráð fyrir að lögin öðlist strax gildi og í ljósi þess hversu mikilvægt er að ákvörðun um afturköllun kosninga verði tekin skjótt eru ráðuneytinu einungis veittir þrír dagar til að taka slíka ákvörðun.
    Frumvarp þetta var unnið í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og undirbúningsstjórn um nýtt sveitarfélag vegna sameiningar Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Frumvarpið varðar ekki stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar nema að því leyti að ákvæði laganna er ætlað að fullnægja sjónarmiðum 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar um rétt íbúa sveitarfélags að kjósa sér stjórn þess. Frumvarpið mun ekki hafa kostnaðaráhrif á ríkissjóð.