Ferill 663. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1178  —  663. mál.
Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Alþingis, umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda.


    Af 3. mgr. 8. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, leiðir að beina má fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars „um stjórnsýslu á vegum þingsins.“ Skal fyrirspurn „vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem …“ varða stjórnsýslu Alþingis og forseti Alþingis ber ábyrgð á. Er „við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“ Svar forseta Alþingis við fyrirspurninni takmarkast því af þeim skilyrðum þingskapa að hún varði stjórnsýslu Alþingis og að unnt sé að svara henni í stuttu máli.

     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Alþingi, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi?
    Í þingsköpum Alþingis er með skýrum hætti greint á milli starfa þings sem samkomu þjóðkjörinna fulltrúa og stjórnsýslu þingsins, sem skrifstofustjóri sinnir í umboði forseta. Stjórnsýsla þingsins sækir stoð sína í þingsköp Alþingis, reglur sem forsætisnefnd hefur sett, sbr. 5. mgr. 10. gr. þingskapa, einstök ákvæði laga og samþykktir Alþingis. Hana má almennt greina í starfsemi sem fellur undir daglegan rekstur, þ.m.t. þingvörslu, útgáfu og birtingu Alþingistíðinda, bókhald, almannatengsl, upplýsingaþjónustu, ræstingu, rekstur mötuneytis og mannauðsmál, enn fremur viðfangsefni sem forseta eða forsætisnefnd eru falin samkvæmt lögum eða ályktun Alþingis og stjórnsýslu sem varðar málefni þingmanna, svo sem um þingfararkaup og þingfararkostnað og siðareglur. Loks getur verið um að ræða stjórnsýslu sem er liður í störfum þingsins við undirbúning lagasetningar eða meðferð fjárstjórnarvalds, svo sem við veitingu heiðurslauna listamanna eða íslensks ríkisborgararéttar.
    Að því er varðar „lögbundin verkefni“ Alþingis, sem það sinnir á grundvelli stjórnarskrár, má vísa til löggjafar- og fjárstjórnarvalds og eftirlits með framkvæmdarvaldinu sem eru fyrirferðarmest. Þá fellur hér einnig undir sú starfsemi sem fram fer á vegum þingflokka samkvæmt þingsköpum Alþingis og lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup og þingfararkostnað. Að öðru leyti má um lögbundin verkefni Alþingis vísa til skrifa fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar um hlutverk Alþingis og viðfangsefni þess, sjá t.d. skrif Bjargar Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, undirstöður og handhafar ríkisvalds 2015, bls. 241 og áfram og bls. 431 og áfram, og skrif Ólafs Jóhannessonar: Stjórnskipun Íslands 1960, bls. 174 og áfram og bls. 255 og áfram.
    Hvað viðkemur störfum umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda er í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og lögum nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, fjallað um hlutverk og störf þessara trúnaðarmanna Alþingis. Eru þeir sjálfstæðir í störfum sínum og embætti þeirra falla ekki undir stjórnsýslu Alþingis eða störf þingsins.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Alþingis, umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum 2020?
    Í 3. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 er gerð grein fyrir fjárheimildum Alþingis og eftirlitsstofnana þess (málefnasvið 01), alls 6.892,9 millj. kr., þar af rekstrartekjur -79,4 millj. kr. Í 4. gr. fjárlaganna og í sundurliðun 2 í fjárlögunum má sjá hvernig fjárheimildin greinist á milli Alþingis (5.793,5 millj. kr.) og eftirlitsstofnana þess (1.088,7 millj. kr.).
    Hvað varðar áætlaðan heildarkostnað lögbundinna verkefna Alþingis og eftirlitsstofnana þess samkvæmt fjárlögum og hver sé áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt þeim er rétt að benda á að hvorki fjárlög né auglýsing nr. 1379/2019, um skiptingu fjárheimilda fjárlaga í fjárveitingar, greina lögbundin verkefni Alþingis með þeim hætti sem lýst er í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar. Um skiptingu fjárheimilda fjárlaga Alþingis og eftirlitsstofnana þess í fjárheimildir til einstakra viðfangsefna vísast til yfirlita 2 og 3 í auglýsingunni. Á grundvelli fyrirliggjandi fjárheimilda semur skrifstofa þingsins áætlun um rekstur Alþingis, fyrir hvort tveggja þingstörf og stjórnsýslu.