Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1179  —  502. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um nefndir og starfs- og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða nefndir og starfs- og stýrihópar á málefnasviði ráðherra hafa verið sett á fót á yfirstandandi kjörtímabili og hver eru hlutverk þeirra?

    Á yfirstandandi kjörtímabili sem hófst 30. nóvember 2017 hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipað alls 13 nefndir, starfs- og stýrihópa. Í svarinu eru undanskildar endurskipanir í nefndir og ráð sem komið hafði verið á fót fyrir upphaf kjörtímabilsins.
    Nefndir, starfs- og stýrihópar eru eftirfarandi:

Stýrihópur um endurmat eftirlitsreglna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra) (2019).
    Stýrihópnum er ætlað að samhæfa vinnu við endurmat eftirlitsreglna Ferðamálastofu, Fiskistofu, Matvælastofnunar, Neytendastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins í samræmi við 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur.

Verkefnisstjórn um rannsóknir og greiningarverkefni í B-lið þingsályktunar nr. 26/148 um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis (2018).
    Verkefnisstjórnin hefur það hlutverk að láta framkvæma óháða og sjálfstæða rannsókn á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína, jafnframt að sjá til þess að fram fari óháð greining á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð, með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggis, hagkvæmni, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar.

Starfshópur um gerð orkustefnu (2018).
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að langtímaorkustefna verði sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Þar kemur fram að í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.

Starfshópur um útleigu á bílaleigubílum með erlend skráningarnúmer (2018).
    Hlutverk starfshópsins er að greina lagaumhverfi skráðra ökutækja hvað varðar kröfur um íslenskt eignarhald, kanna fyrirkomulag á Norðurlöndunum varðandi erlenda bílaleigubíla sem og regluverk Evrópusambandsins. Þá er þess óskað að hópurinn setji fram greiningu á jákvæðum og neikvæðum þáttum þessa fyrirkomulags. Einnig skal hópurinn meta hvort lagabreyting í þessa átt sé ákjósanleg og leggja þá fram tillögu að lagabreytingum og breytingum í eftirliti með bílaleigubílum.

Verkefnisstjórn um ferðamálaáætlun 2020–2025 (2018).
    Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að endurskoða áætlun stjórnvalda í ferðamálum þar sem mörkuð er stefna og markmið fyrir ferðaþjónustuna til næstu fimm ára.

Starfshópur um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja (2018).
    Hlutverk starfshópsins er að taka starfsumhverfi smálánafyrirtækja til heildarendurskoðunar og koma fram með tillögur til úrbóta.

Stýrihópur um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland (2018).
    Hlutverk starfshópsins er að vinna að mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

Starfshópur ráðuneyta um orkuskipti (2019).
    Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skipa samstarfshóp ráðuneyta til að gæta að samhæfingu aðgerða og áætlana er varða orkuskipti. Starfshópnum er falið að hafa samráð við haghafa til að fá fram skoðanir og upplýsingar um það hvar mest er þörf á uppbyggingu sem greitt getur sem best og hraðast fyrir orkuskiptum og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Starfshópur til að leiða viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum í Landsneti hf. (2019).
    Hlutverk starfshópsins er að leiða viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum orkufyrirtækja í opinberri eigu í Landsneti hf.

Stýrihópur um umsjón samkeppnismats í samvinnu við OECD (2019).
    Hlutverk stýrihópsins er að hafa umsjón og aðstoða við framkvæmd verkefnisins og er einnig vettvangur umræðna um kosti samkeppnismats og hvernig verkefnið getur nýst stjórnvöldum við einföldun regluverks og undirbúning nýrrar löggjafar.

Starfshópur um bætta upplýsingagjöf og aðgengi hreyfihamlaðra á opinberum ferðamannastöðum (2019).
    Hlutverk hópsins er að vinna tillögur um bætta upplýsingagjöf og aðgengi hreyfihamlaðra á opinberum ferðamannastöðum og kanna möguleika á stofnun opinbers sjóðs sem fyrirtæki og opinberir aðilar í ferðaþjónustu gætu sótt styrki í til kaupa og uppsetningar á búnaði til að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra.

Starfshópur um bætt eftirlit með iðnaðarlögum, nr. 42/1978 (2020).
    Hlutverk starfshópsins er að taka til endurskoðunar fyrirkomulag eftirlits með iðnaðarlögum.

Stýrihópur um endurskipulagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (2020).
    Hlutverk hópsins er að finna farveg fyrir verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar.