Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1211  —  588. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um biðlista á Vogi.


     1.      Hyggst ráðherra leita leiða til þess að eyða biðlistum á sjúkrahúsinu Vogi? Ef svo er, hverjar eru fyrirætlanir ráðherra í þeim efnum?
    Til að nýta þjónustu heilbrigðiskerfisins sem best er mikilvægt að vanda aðgangsstýringu að þjónustu. Æskilegt er að á grundvelli mats á þörf sé veitt rétt heilbrigðisþjónusta á viðeigandi þjónustustigi. Hluti þeirra sem eru á biðlista eftir innlagnarþjónustu á Vogi hafa sjálfir skráð sig á hann, án undangengins faglegs mats á því hvort viðkomandi þurfi á innlagnarþjónustu að halda. Til að taka megi vel ígrundaðar ákvarðanir á grundvelli biðlista þarf að liggja fyrir faglegt mat þess efnis að allir á biðlistanum hafi raunverulega þörf fyrir þá þjónustu sem um ræðir og að sú þjónusta sé sú sem best hentar hverju sinni. Með slíku fyrirkomulagi endurspegla biðlistar raunverulega þörf fyrir þjónustu.
    Í mars 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi, af þeim voru 115 komnir með innlagnardag á næstu þremur vikum. Að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem eru skráðir á biðlista eftir þjónustu á Vogi ákveða sjálfir að nýta ekki þjónustuna af ýmsum ástæðum. Einnig ber að hafa í huga að ekki er víst að allir sem skráðir eru á biðlista Vogs þurfi á innlagnarþjónustu að halda til þess að leysa neyslu- og fíknivanda, því í sumum tilfellum koma göngudeildarþjónusta og önnur vægari úrræði að sömu notum. Með því að nýta einfaldari úrræði þar sem þau eiga við skapast svigrúm til að sinna fleirum og stuðla þannig samtímis að styttingu biðlista.
    Ráðherra mun leitast við að veita öllum sem þess þurfa þjónustu eftir sem stysta bið. Hann leggur jafnframt áherslu á að biðlistar sýni á markvissari hátt raunverulega þjónustuþörf og að þar séu aðeins þeir sem þurfa og ætla að nýta þjónustuna.

     2.      Hver væri fjárhæð þess framlags sem SÁÁ þyrfti til rekstrar Vogs til þess að geta eytt biðlistum?
    Fjárveitingar til SÁÁ eru bundnar við fjármálaáætlun og fjárlög hverju sinni. Fjárveiting til SÁÁ var hækkuð varanlega í fjárlögum fyrir árið 2019 um 150 mill. kr. Framlag til SÁÁ á fjárlögum fyrir árið 2020 eru 1.126,8 millj. kr. Til þess að geta svarað þessum tölulið fyrirspurnarinnar þyrfti að koma á faglegri aðgangsstýringu varðandi skráningu á biðlista.