Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1224  —  475. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um afhendingaröryggi raforku.


     1.      Hvaða sveitarfélög misstu rafmagn vegna áhrifa óveðursins 10. desember 2019 á flutningskerfið og hversu lengi?
    Vegna óveðursins gætti rafmagnsleysis í mörgum landshlutum, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum og Suðurlandi. Mest urðu áhrifin á Norðurlandi. Mörg sveitarfélög í þessum landshlutum urðu fyrir rafmagnsleysi. Truflanir hafa verið greindar eftir landshlutum en ekki eftir sveitarfélögum.
    Miklar truflanir urðu á flutningskerfinu í kjölfar óveðursins en dagana 10.–11. desember urðu á áttunda tug útleysinga á línum sem er með því allra mesta sem gerst hefur. Flestar útleysingar urðu á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Tjón varð mest í svæðisflutningskerfum Landsnets en meginflutningskerfið stóð af sér veðrið án mikils tjóns. Truflanir í raforkukerfinu eru mældar í kerfismínútum og í straumleysismínútum. Kerfismínútur gefa upplýsingar um hlutfall orkuskerðingar, ef afl hefði verið óbreytt allan skerðingartímann, og heildarafls á kerfinu. Markmið Landsnets er að engin einstök truflun sé meiri en 10 kerfismínútur. Straumleysismínútur gefa upplýsingar um hve lengi skerðing hefur staðið miðað við orkuskerðingu og heildarorkuafhendingu. Marmið Landsnets er að vera undir 50 straumleysismínútum. Í heildina urðu kerfismínútur í óveðrinu 71,54 og straumleysismínútur 81,7. Upplýsingar um kerfis- og straumleysismínútur segja ekki til um hversu lengi notendur voru án rafmagns.
    Á Vesturlandi urðu útleysingar átta, kerfismínútur 1,74 og straumleysismínútur 1,98.
    Á Vestfjörðum gætti rofs á raforkuflutningi vegna skammvinnra útleysinga á Geiradalslínu 1. Varaaflstöðin í Bolungarvík var keyrð meðan á óveðrinu stóð og gætti ekki rafmagnsleysis á norðanverðum Vestfjörðum. Mjólkárvirkjun sá sunnanverðum Vestfjörðum fyrir rafmagni. Á Vestfjörðum voru 25 útleysingar, kerfismínútur 1,74 og straumleysismínútur 1,98.
    Á Norðurlandi vestra varð rof á raforkuflutningi vegna rofs á Sauðárkrókslínu 1, í tengivirkinu Hnjúkum. Í þessum landshluta voru 44 útleysingar, kerfismínútur 35,41 og straumleysismínútur 40,42. Truflunin á Hnjúkum fór yfir 10 kerfismínútur.
    Á Norðurlandi eystra varð rof á raforkuflutningi vegna rofs á Kópaskerslínu 1, Þeistareykjalínu 1, Dalvíkurlínu 1, Húsavíkurlínu 1 og í tengivirkinu Laxá. Einnig varð tjón á Laxárlínu 1 en ekki varð rafmagnsleysi af þeim orsökum. Í þessum landshluta voru útleysingar 22, kerfismínútur 31,37 og straumleysismínútur 35,83. Truflunin á Dalvíkurlínu 1 fór einnig yfir 10 kerfismínútur.
    Á Austurlandi gætti rofs á raforkuflutningi vegna rofs á Fljótsdalslínu 2. Í landshlutanum voru útleysingar 13, kerfismínútur 1,28 og straumleysismínútur 1,47.
    Truflanir á Suðurlandi voru sex og á Suðurnesjum fjórar, en ollu ekki straumleysi.
    Nánari upplýsingar koma fram í truflanaskýrslu Landsnets á vefnum: www.innvidir2020.is.

     2.      Hvaða sveitarfélög misstu rafmagn vegna áhrifa óveðursins á dreifikerfið og hversu lengi?
    Truflanir urðu á dreifingu raforku í flestum landshlutum. Lengst varði rafmagnsleysið á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Rafmagnsleysið varð annars vegar vegna rofs í flutningskerfinu þannig að ekki fékkst raforka til dreifingar og hins vegar vegna tjóns í dreifikerfinu sjálfu sem olli rofi á dreifingu. Í þeim tilvikum þar sem um rof á flutningi eða dreifingu var að ræða var reynt að mæta því með tengingu varaleiða eða með varaafli, bæði föstu og færanlegu. Upplýsingar liggja fyrir um hversu lengi rof á afhendingu frá flutningskerfinu og frá dreifikerfinu stóð yfir. Þessu rofi var mætt með tengingu varaleiða eða keyrslu varaafls. Varaafl var annaðhvort tiltækt fast eða færanlegt varaafl veitnanna á viðkomandi svæði, færanlegt varaafl fengið að láni frá öðrum veitum eða varaafl frá varðskipi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um lengd straumleysis í ákveðnum byggðarlögum eða hjá einstökum notendum.
    Á Vesturlandi varð rof á afhendingu frá dreifikerfinu í 18–20 klst. í Dalabyggð, en notast var við varaafl eða varaleiðir. Á vegum Rarik eru átta varaaflstöðvar á Vesturlandi, þar af ein í Búðardal.
    Á Vestfjörðum varð allt að 48 klst. og allt að 24 klst. straumleysi hjá um það bil 1,5% notenda, 0–30 mín. straumleysi hjá 21% notenda og ekkert straumleysi hjá 75% notenda. Vestfirðir eru búnir nánast 100% varaafli til að mæta raforkuskorti. Þar eru 17 staðbundnar varaaflstöðvar á 11 stöðum og tvær færanlegar. Varaaflstöð Landsnets í Bolungarvík var keyrð, sem og varaaflstöðvar í Súðavík, á Patreksfirði, Bíldudal, Hólmavík, Drangsnesi, Reykhólum og Reykjanesi.
    Á Norðurlandi vestra var 51 klst. án afhendingar frá raforkuflutningskerfinu í Húnavatnssýslu vegna rofs í tengivirkinu Hrútatungu og í 40 klst. í Skagafirði utanverðum (á Sauðárkróki og Skaga) vegna rofs í tengivirki á Sauðárkróki og á Tröllaskaga vegna rofs Dalvíkurlínu 1. Varaafl var keyrt á Hvammstanga, á Hvalnesi og Ketu á Skaga og á Sauðárkróki. Á svæðinu eru fjórar varaaflstöðvar Rarik, þar af tvær færanlegar.
    Á Norðurlandi eystra voru 209 klst. án afhendingar frá raforkuflutningskerfinu á Tröllaskaga vegna rofs Dalvíkurlínu 1, 30 klst. vegna rofs í tengivirkinu Laxá, 196 klst. vegna rofs á Húsavíkurlínu 1, 101 klst. í Kelduhverfi og Öxarfirði og 224 klst. á Kópaskeri til Vopnafjarðar vegna rofs á Kópaskerslínu 1. Varaafl var keyrt á Dalvík auk þess sem varðskipið Þór var tengt við dreifikerfið, í Hrísey, í Svarfaðardal og Hörgárdal, á Fagrabæ og Ystu-Vík á Svalbarðsströnd. Varaafl var keyrt í Pálsgerði og á Húsabakka í Aðaldal, á Húsavík, á Lindarbrekku, Kópaskeri, á Sléttu og í Öxarfirði, á Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði. Á svæðinu eru 12 varaaflstöðvar, flestar á svæðinu frá Öxarfirði að Vopnafirði.
    Á Austurlandi urðu 11 afhendingarstaðir rafmagnslausir vegna rofs á Fljótsdalslínu 2 í innan við 5 klst. Varaaflsvélar voru keyrðar á ýmsum stöðum á Austfjörðum, ekki liggja fyrir upplýsingar um á hvaða stöðum. Flestir byggðakjarnar á Austurlandi eru vel búnir varaafli, en á vegum Rarik eru þar 12 varaaflstöðvar, þar af ein færanleg.
    Á Suðurlandi varð rof á raforkuafhendingu dreifikerfis í Árborg í allt að 9 klst. Ekki liggja fyrir upplýsingar um keyrslu varaafls. Á svæðinu eru þrjár varaaflstöðvar Rarik, þar af tvær færanlegar.
    Ekki varð rof á Suðurnesjum þrátt fyrir truflanir.
    Um nánari upplýsingar er vísað í fylgiskjal 3 og viðauka 9, 10, 14 og 16 í greinargerð Rarik og í greinargerð Orkubús Vestfjarða á vefnum: www.innvidir2020.is

     3.      Hvers eðlis voru þau áhrif á flutnings- og dreifikerfið sem ollu mestum truflunum?
    Veðrið olli margvíslegum truflunum á flutnings- og dreifikerfi raforku. Samanlögð áraun vegna veðurhæðar, ofankomu og ísingar olli mestum truflunum. Ýmis mannvirki sem staðist höfðu veðurofsa fram að þessu urðu fyrir skemmdum eða truflunum. Í flutningskerfinu voru mestu truflanirnar á Dalvíkurlínu 1 vegna samanlagðrar áraunar vinds og ísingar. Truflanir í tengivirkinu í Hrútatungu urðu vegna mikillar seltuáraunar. Í dreifikerfinu brotnuðu ríflega 140 staurar í kerfi Rarik, á þriðja tug sláa brotnuðu og sambærilegur fjöldi línuslita vegna veðurofsans. Til samanburðar varð mun meira tjón í óveðrunum í október 1995 og í janúar og febrúar 1991. Það er talið hafa forðað frá verra tjóni að meiri hluti dreifikerfis Rarik er kominn í jörð. Nánari upplýsingar koma fram í greinargerðum Landsnets, Rarik (viðauki 16) og Orkubús Vestfjarða á vefnum www.innvidir2020.is

     4.      Til hvaða ráðstafana er raunhæft að grípa til að koma í veg fyrir slíkar truflanir eða lágmarka áhrif þeirra, hverjar þeirra eru mikilvægastar og í veg fyrir hvaða truflanir hefðu þær komið í þessu tilviki?
    Í skýrslu átakshóps stjórnvalda í kjölfar óveðursins kemur fram að þær ráðstafanir sem til framtíðar eru mikilvægastar og raunhæfastar til að tryggja betur afhendingaröryggi raforku og koma í veg fyrir slíkar truflanir eða lágmarka áhrif þeirra eru:
          Styrking meginflutningskerfis og svæðisflutningskerfa raforku. Gera Landsneti kleift, með aukinni skilvirkni í regluverki leyfisveitinga, að komast í þær framkvæmdir sem eru í 10 ára kerfisáætlun fyrirtækisins og flýta mikilvægum framkvæmdum sem eru á langtímaáætlun.
          Flýting lagningar dreifikerfis raforku í jörð.
          Endurbætur á varaafli í flutnings- og dreifikerfi raforku.
          Yfirbygging tengivirkja og spennistöðva.
    Þessar og fleiri tillögur koma fram í tillögum átakshóps stjórnvalda á vefnum www.innvidir2020.is.

     5.      Hafa einhverjar þeirra ráðstafana sem taldar eru mikilvægastar til að auka afhendingaröryggi raforku þegar verið settar á dagskrá, hver er staða þeirra og hvenær er þess að vænta að þeim ljúki?
    Framangreindar ráðstafanir og aðferðir eru allar komnar til vinnslu í samræmi við aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða sem er að finna á vefnum www.innvidir2020.is.
    Staða helstu verkefna er sem hér segir:
     Flutningskerfi raforku: Fyrir liggja tillögur til breytinga á ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku með einföldun og skilvirkni að leiðarljósi. Kallar það fyrst og fremst á breytingar á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum, og er unnið að frumvarpi þess efnis. Samþykkt hefur verið sérstakt framlag fyrir árið 2020 til að fjölga stöðugildum hjá Skipulagsstofnun til að auka málshraða vegna stjórnsýslu tengdri veitingu leyfa fyrir framkvæmdum í flutningskerfi raforku og að setja þær framkvæmdir í forgang. Í vinnslu eru hjá Landsneti tillögur að flýtingu ákveðinna framkvæmda í svæðisbundnu flutningskerfi raforku og flýtingu á yfirbyggingu tengivirkja.
     Dreifikerfi raforku: Sem hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda um fjárfestingarátak hefur verið samþykkt sérstakt framlag fyrir árið 2020 um flýtingu á lagningu dreifikerfis raforku í jörðu. Endurskoðuð áform Rarik og Orkubús Vestfjarða í þeim efnum liggja fyrir og koma fram í skýrslu átakshópsins á www.innvidir2020.is. Er unnið að nánari útfærslu þeirra framkvæmda í samræmi við samþykkt framlög og miðað er við að þær framkvæmdir hefjist sumarið 2020. Til viðbótar við sérstakt framlag ríkisins ákvað stjórn Rarik í janúar að í stað viðgerða á línum sem fóru illa í óveðrinu yrðu þær línur lagðar í jörð og ber Rarik viðbótarkostnaðinn af því. Lagning þeirra lína í jörð var á áætlun en sumum verkefnum hefur verið flýtt. Þessi aðgerð er á áætlun sumarið 2020.