Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1225  —  587. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um varaaflsstöðvar.


     1.      Hvað eiga orkuframleiðendur, dreifingaraðilar og söluaðilar margar varaaflsstöðvar, hve margar eru færanlegar, hvar eru þær staðsettar og hver er afkastageta þeirra?

    Svör við fyrirspurninni byggjast á upplýsingum frá dreifiveitum, flutningsfyrirtækinu og framleiðendum raforku.

Rarik.
    Rarik á 34 stórar staðbundnar varaaflsstöðvar á 18 stöðum á landinu, auk sex stórra færanlegra varaaflsstöðva. Þá á Rarik nokkurn fjölda lítilla varavéla, auk varaaflsstöðva fyrir hitaveitur sínar í Dalabyggð, á Blönduósi og Skagaströnd, svæðisskrifstofur sínar í hverjum landsfjórðungi og höfuðstöðvar í Reykjavík. Til viðbótar á Rarik fastar aflstöðvar í Grímsey og á Grímsstöðum á Fjöllum.
     Staðbundnar varaaflsstöðvar Rarik eru á eftirfarandi stöðum:
    Ólafsvík, fimm vélar með framleiðslugetu 3.630 kW,
    Stykkishólmi, tvær vélar með framleiðslugetu 1.030 kW,
    Búðardal, ein vél með framleiðslugetu 500 kW,
    Skagaströnd, ein vél með framleiðslugetu 660 kW,
    Hrísey, ein vél með framleiðslugetu 500 kW,
    Silfurstjarnan samkvæmt samningi um keyrslu á einni vél með framleiðslugetu 1.000 kW,
    Raufarhöfn, ein vél með framleiðslugetu 1.000 kW,
    Þórshöfn, tvær vélar með framleiðslugetu 3.000 kW,
    Bakkafirði, ein vél með framleiðslugetu 560 kW,
    Vopnafirði, fimm vélar með framleiðslugetu 6.000 kW,
    Borgarfirði eystri, ein vél með framleiðslugetu 700 kW,
    Seyðisfirði, ein vél með framleiðslugetu 550 kW,
    Mjóafirði, ein vél með framleiðslugetu 260 kW,
    Dalatanga, ein vél með framleiðslugetu 40 kW,
    Neskaupstað, fimm vélar með framleiðslugetu 5.000 kW,
    Fáskrúðsfirði, tvær vélar með framleiðslugetu 950 kW,
    Kirkjubæjarklaustri, ein vél með framleiðslugetu 700 kW,
    Vík í Mýrdal, tvær vélar með framleiðslugetu 1.100 kW.
    Færanlegar varaaflsstöðvar Rarik eru:
    færanleg vél á Suðurlandi með framleiðslugetu 500 kW, nú í Vík,
    færanleg vél á Austurlandi með framleiðslugetu 700 kW, nú á Sauðárkróki,
    færanleg vél á Norðurlandi með framleiðslugetu 400 kW, nú í Öræfum,
    færanleg vél á Vesturlandi með framleiðslugetu 800 kW, nú í Vík,
    færanleg vél, óstaðsett með framleiðslugetu 800 kW, nú á Neskaupstað,
    færanleg vél, óstaðsett með framleiðslugetu 800 kW, nú í viðgerð eftir tjón.

Orkubú Vestfjarða.
    Orkubú Vestfjarða á 17 staðbundnar varaaflsstöðvar á 11 stöðum á Vestfjörðum auk tveggja færanlegra varaaflsstöðva.
     Staðbundnar varaaflsstöðvar í eigu Orkubús Vestfjarða eru á eftirfarandi stöðum:
    Bíldudal, tvær vélar með framleiðslugetu 1.200 kW,
    Drangsnesi, ein vél með framleiðslugetu 420 kW,
    Flateyri, ein vél með framleiðslugetu 420 kW,
    Hólmavík, ein vél með framleiðslugetu 1.280 kW,
    Ísafirði, tvær vélar með framleiðslugetu 4.300 kW,
    Patreksfirði, þrjár vélar með framleiðslugetu 4.700 kW,
    Reykhólum, ein vél með framleiðslugetu 700 kW + færanleg vél með framleiðslugetu 220 kW,
    Reykjanesi, tvær vélar með framleiðslugetu 640 kW,
    Súðavík, tvær vélar með framleiðslugetu 1.587 kW,
    Suðureyri, ein vél með framleiðslugetu 700 kW,
    Þingeyri, ein vél með framleiðslugetu 700 kW + færanleg vél með framleiðslugetu 1.310 kW.
    Færanlegar varaaflsstöðvar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:
    Reykhólum ein vél með framleiðslugetu 220 kW (alls 920 kW),
    Þingeyri, ein vél með framleiðslugetu 1.310 kW (alls 2.010 kW).

Landsnet.
    Landsnet á eina varaaflsstöð sem er tengd við flutningskerfið. Hún er í Bolungarvík og er 10,8 MW að stærð.
    Unnið er að innkaupum á nýjum færalegum varaflsstöðvum, en heimild til þess fékkst með samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun Landsnets 12. febrúar sl. Alls hefur Landsnet heimild til að kaupa allt að 12 MW af færanlegum stöðvum. Í fyrstu lotu er ætlunin að kaupa sex einingar sem hver um sig er í kringum 1 MW. Í útboðinu er svo áskilinn réttur til að auka innkaupin um allt að helming, eða upp að 12 MW. Hugmyndin er að reynsla komist á búnaðinn áður en sá réttur verður virkjaður.

Orkveita Reykjavíkur og Veitur.
     Staðbundið varaafl er á eftirfarandi stöðum:
    Reykjavík, fimm vélar með framleiðslugetu 2650 kW,
    Öndverðarnesi, Grímsnesi, ein vél með framleiðslugetu 125 kW,
    Skorradal, ein vél með framleiðslugetu 30 kW,
    Gunnarsholti, ein vél með framleiðslugetu 40 kW,
    Bakki, ein vél með framleiðslugetu 40 kW,
    Deildartungu, ein vél með framleiðslugetu 400 kW,
    Akranesi, ein vél með framleiðslugetu 16 kW.
     Færanlegt varaafl er á eftirfarandi stöðum:
    Reykjavík, þrjár vélar með framleiðslugetu 1088 kW,
    Laugaland í Holtum, ein vél með framleiðslugetu 100 kW.

Orka náttúrunnar.
     Fast varaafl er á eftirfarandi stöðum:
    Smáralind, Kópavogi, samtals afl 4.500 kW,
    Nesjavallavirkjun, samtals afl 1.000 kW,
    Hellisheiðarvirkjun, samtals afl 1.000 kW.

Landsvirkjun.
    Landsvirkjun á og rekur á þriðja tug varaaflsstöðva sem eru beintengdar starfsemi félagsins og ætlað er að tryggja örugga raforkuafhendingu frá aflsstöðvum inn á meginflutningskerfi Landsnets. Varaaflsstöðvar Landsvirkjunar eru hluti af búnaði einstakra aflsstöðva og eru ekki tengdar raforkukerfinu. Þær hafa eingöngu það hlutverk að tryggja ræsingu aflvéla og/eða virkni lokubúnaðar við straumleysi.
    Varaaflsstöðvar Landsvirkjunar nýtast því ekki sem varaafl við straumleysi líkt og átti sér stað í óveðrinu í desember 2019 þegar tjón og/eða truflanir urðu á flutnings- og dreifikerfi raforku.

HS Orka.
     Fast varaafl er á eftirfarandi stöðum:
    Svartsengi, samtals afl 1.000 kW,
    Reykjanesvirkjun, samtals afl 1.750 kW.
    Þessar stöðvar eingöngu varaafl fyrir virkjanirnar sjálfar til notkunar ef virkjanir slá út til að keyra þær upp aftur.

     2.      Hvað hafa framangreindir aðilar selt margar varaaflsstöðvar á árunum 2010–2020 án þess að endurnýja, hvar voru þær staðsettar, hver var afkastageta þeirra, á hvaða verði var hver þeirra seld og til hverra? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

Rarik.
    Rarik hefur ekki selt neina gangfæra varaaflsstöð á undanförnum 10 árum.

Orkubú Vestfjarða.
    Orkubú Vestfjarða hefur ekki selt neina gangfæra varaaflsstöð á undanförnum 10 árum.

Landsnet.
    Varaaflsstöðin í Bolungarvík er eina varaaflsstöðin sem Landsnet hefur átt, þannig að Landsnet hefur aldrei selt neina stöð frá sér eða tekið stöð úr rekstri frá stofnun fyrirtækisins.

Orka náttúrunnar.
    Engar varaaflsstöðvar hafa verið seldar né teknar úr notkun án endurnýjunar frá stofnun ON árið 2014.

     3.      Hvað hafa framangreindir aðilar tekið úr notkun margar varaaflsstöðvar án þess að endurnýja á árunum 2010–2020, hvar voru þær staðsettar og hver var afkastageta þeirra? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

Rarik.
    Á undanförnum 10 árum hafa eftirfarandi varaaflsstöðvar verið aflagðar hjá Rarik án þess að endurnýja:
    Höfn í Hornafirði, 2.600 kW (3.100 kVA). Varaaflsstöð var aflögð árið 2012 þegar tvöföld tenging frá flutningskerfinu og tveir spennar voru komnir í notkun fyrir Höfn og nærsveitir, sem hvor um sig anna öllu álagi þar. Ein vél var flutt á Neskaupstað og önnur send í förgun.
    Breiðdalsvík 600 kW (700 kVA). Varaaflsstöð var aflögð árið 2010. Jarðstrengur er kominn til Breiðdalsvíkur frá flutningskerfinu á Stuðlum í Reyðarfirði og verður tengdur næstu daga. Breiðdalsvík er með tengingu úr tveimur áttum, annars vegar um jarðstrengi og línu frá flutningskerfinu á Stuðlum í Reyðarfirði og hins vegar frá flutningskerfinu á Teigarhorni í Berufirði um línu og sæstreng. Vélin var flutt á Fáskrúðsfjörð og er þar.
    Stöðvarfjörður 600 kW (700 kVA). Varaaflsstöð var aflögð árið 2016 þegar jarðstrengur kom til Stöðvarfjarðar frá flutningskerfinu, en Stöðvarfjörður er með tengingu úr tveimur áttum, annars vegar um jarðstrengi og línu frá flutningskerfinu á Stuðlum í Reyðarfirði og hins vegar frá flutningskerfinu á Teigarhorni í Berufirði um jarðstreng, línu og sæstreng. Vélin var flutt á Fáskrúðsfjörð og er þar.
    Ólafsfjörður 420 kW (500 kVA). Varaaflsstöð var aflögð árið 2011 eftir að Héðinsfjarðargöng voru tekin í notkun og jarðstrengur kom frá Siglufirði sem annað getur flutningi frá Skeiðsfossvirkjun. Ólafsfjörður er því með tvær tengingar, annars vegar frá Skeiðsfossi sem er að langmestu leyti um jarðstrengi og hins vegar frá Dalvík sem einnig er að langmestu leyti um jarðstreng. Verið er að skoða hvers vegna Skeiðsfossvirkjun gat ekki annað þessari tengingu í desember sl. Vélin sem ekki hefur verið gangsett síðan árið 2011 er enn í Ólafsfirði.
    Siglufjörður 2.570 kW (3.025 kVA). Varaaflsstöð var aflögð árið 2011 þegar Héðinsfjarðargöng voru tekin í notkun og jarðstrengur kom frá Ólafsfirði og þaðan frá flutningskerfinu á Dalvík. Fyrir var Siglufjörður með tengingu frá Skeiðsfossvirkjun sem er að langmestu leyti um jarðstreng og hefur því verið talinn með tengingar úr tveimur áttum. Verið er að skoða hvers vegna Skeiðsfossvirkjun gat ekki annað þessari tengingu í desember sl. Ein vél var send á Raufarhöfn og er þar tengd, önnur var flutt á Fáskrúðsfjörð og er þar tengd, en ein vél frá árinu1947 var gefin á safn.
    Á undanförnum 10 árum hefur varaafl minnkað á eftirfarandi stöðum hjá Rarik:
    Fáskrúðsfirði, 600 kW (700 kVA) minnkun. Biluð vél var ekki endurnýjuð, enda er Fáskrúðsfjörður með tengingar úr tveimur áttum. Annars vegar um jarðstrengi og línu frá flutningskerfinu á Stuðlum í Reyðarfirði og hins vegar frá flutningskerfinu á Teigarhorni í Berufirði um línu og sæstreng.
    Seyðisfirði,1.480 kW (1.750 kVA) minnkun. Vél eyðilagðist og var ekki endurnýjuð, en gert ráð fyrir að virkjun á staðnum gæti annað eftirspurninni með varaafli sem eftir var. Nú er í skoðun hvers vegna vatnsaflsvirkjunin getur ekki annað bænum með varaaflsstöðinni, þrátt fyrir að vera með framleiðslugetu langt umfram þörfina.
    Raufarhöfn, 570 kW (675 kVA) minnkun. Ekki var þörf á endurnýjun þar sem núverandi varaafl annar bænum. Ein vél var flutt á Fáskrúðsfjörð í geymslu, en síðan send á Seyðisfjörð og tengd þar. Einni vél frá 1947 var fargað.
    Bakkafirði, 170 kW (200 kVA) minnkun. Ákveðið var að endurnýja ekki bilaða vél, enda er nú kominn jarðstrengur til Bakkafjarðar og vélin þar annar núverandi álagsþörf.
    Stykkishólmi, 490 kW (576 kVA) minnkun. Ákveðið var að endurnýja ekki bilaðar vélar.
    Á undanförnum 10 árum hefur varaafl verið aukið á eftirfarandi stöðum hjá Rarik:
    Neskaupstað, stækkun um 425 kW (500 kVA). Ákveðið var að stækka vélar á Neskaupstað þar til tvöföld tenging kemur til Neskaupstaðar frá flutningskerfinu. Búist við því í sumar.
    Vopnafirði, stækkun um ca. 3.000 kW (3.500 kVA). Ákveðið var að stækka vélar þar sem ekki er líklegt að Vopnafjörður fái á næstunni tvöfalda tengingu frá flutningskerfinu.
    Þórshöfn, stækkun um ca. 1.080 kW (1.275 kVA). Ákveðið var að stækka varaafl á Þórshöfn þar sem ekki er líklegt að Þórshöfn fái tvöfalda tengingu á næstunni. Rarik á um 50 km jarðstreng sem tengir Þórshöfn við flutningskerfið á Kópaskeri. Kópasker er ekki með tvöfalda tengingu frá flutningskerfinu og ekki vita hvenær tvöföldun kemur.

Orkubú Vestfjarða.
    Á undanförnum 10 árum hafa eftirfarandi varaaflsstöðvar verið aflagðar án þess að endurnýja þær hjá Orkubúi Vestfjarða:
    Tálknafirði, 420 kW. Varaaflsvél var aflögð árið 2010 og er því engin varaaflsstöð á Tálknafirði. Rétt er að geta þess að Tálknafjörður er tengdur afhendingarstað Landsnets á Keldeyri bæði með loftlínu og jarðstreng.
    Á undanförnum 10 árum hefur varaafl verið aukið eða endurnýjað á eftirfarandi stöðum:
    Bolungarvík, uppsett afl nú 12.000 kW (í eigu Landsnets). Landsnet tók í notkun nýja 12.000 kW varaaflsstöð árið 2015 sem staðsett er í Bolungarvík. Stöðin er snjallvædd og kemur afli á net á 90 sekúndum. Henni er ætlað að þjóna norðanverðum Vestfjörðum. Samstarfssamningur er á milli Landsnets og Orkubúsins, þannig að starfsmenn OV sjá um keyrslu vélanna og eftirlit. Þegar ný varaaflsstöð var tekin í notkun var lögð af varaaflsstöð Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík, sem samanstóð af þremur vélum sem voru 1.100 kW hver. Tveimur þessara véla (2.200 kW) var lagt vegna aldurs, en ein vél, 1.087 kW, var sett upp í Súðavík. Nettóvaraaflsaukningin í Bolungarvík er því 8.690 kW.
    Patreksfirði, uppsett afl nú 4.700 kW. Ný varaaflsvél var tekin í gagnið árið 2019 sem tengd er snjallneti. Tvær gamlar varaaflsvélar voru lagðar af í stað nýju vélarinnar. Uppsett afl var 4.150 kW fyrir breytingar en var aukið um 550 kW og er því 4.700 kW.
    Reykhólum, uppsett afl nú 920 kW. Á Reykhólum er fast staðsett 700 kW varaaflsvél, en nú hefur verið bætt við 220 kW færanlegri vél og uppsetta aflið aukið um 220 kW.
    Súðavík, uppsett afl nú 1.587 kW. Ein gömul vél var aflögð og í stað hennar kom vél frá Bolungarvík. Varaaflið felst því í tveimur vélum, annars vegar 500 kW og hins vegar 1.087 kW vél. Uppsett afl er því 1.587 kW. Aukið afl er því 500 kW.
    Þingeyri, uppsett afl nú 2.010 kW. Einni 800 kW vél var lagt og í stað hennar kom færanleg 1.310 kW vél. Varaaflsgetan í dag er því 2.010 kW og aukið afl því um 510 kW.