Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1230  —  515. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um skaðabótakröfur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl.


     1.      Hversu margar útgerðir hafa krafið íslenska ríkið um skaðabætur vegna úthlutunar á heimildum til veiða á makríl í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar frá 6. desember 2018 og hvaða útgerðir eru það?
    Hér er um að ræða sjö aðila; Eskju hf., Gjögur hf., Hugin ehf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Loðnuvinnsluna hf., Skinney – Þinganes hf. og Vinnslustöðina hf.

     2.      Til hvaða ára ná skaðabótakröfurnar?
    Kröfur félaganna ná til annars vegar áranna 2011–2014, sem er það tímabil sem fjallað var um í tilvísuðum dómum Hæstaréttar frá 6. desember 2018, og hins vegar tímabilsins 2015– 2018. Frá og með makrílvertíð 2019 fór um aflaheimildir í makríl samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/2019 um breytingar á lögum vegna veiðistjórnar á makríl.

     3.      Um hversu miklar aflaheimildir er að ræða hjá hverri útgerð fyrir sig, á hverju ári og samtals?
     4.      Hver er skaðabótakrafa einstakra útgerða á hverju ári og samtals?

    Þessum spurningum verður svarað sameiginlega. Hér á eftir er gefið yfirlit um hvern aðila um sig. Í efri dálki (A) er greind meint skerðing aflaheimildar á hverju ári um sig í þúsundum kílógramma (tonnum) samkvæmt stefnukröfu. Þar er tekið mið af áhrifum úthlutunar á önnur skip hlutaðeigandi og áhrifum viðskipta með aflaheimildir (fiskiskip) milli útgerða. Í næsta dálki (B) er greint frá hæð fjárkröfu samkvæmt stefnu vegna hvers árs um sig (milljónir króna). Samtölur eru í aftasta dálki. Þessu til viðbótar er krafist hæstu mögulegu vaxta. Er svo litið á að setning reglugerðar um stjórn makrílveiða á hverju ári um sig teljist hinn bótaskyldi atburður sem marki upphaf vaxtakröfu í hvert sinn. Auk þess er krafist dráttarvaxta frá þingfestingu.

     Eskja hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 3.951 3.375 2.766 3.709 4.497 4.099 4.095 3.207 29.699
B 387 173 185 227 196 255 319 310 2.052

     Gjögur hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 1.991 1.139 928 1.294 1.461 1.587 1.057 833 10.290
B 97 35 37 5 34 47 31 42 328
*    Stefnukrafa félagsins er hærri en þetta þar sem jafnframt er krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015–2018, sem var hærri en nam áætluðu framlegðartapi sömu ára vegna skertrar hlutdeildar. Nemur heildarkrafa félagsins að þessu virtu 364 millj. kr.

     Huginn ehf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 2.655 2.230 1.821 2.441 3.080 2.831 2.805 2.210 20.073
B 190 88 89 66 63 116 107 119 839

     Ísfélag Vestmannaeyja hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 5.800 4.994 4.085 5.490 6.660 6.097 6.067 4.780 43.973
B 665 392 433 558 492 448 462 437 3.888

     Loðnuvinnslan hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 1.527 1.378 1.128 1.526 1.878 1.594 1.590 1.234 11.855
B 149 148 54 164 167 139 105 109 1.034
*    Gerð er varakrafa í málinu að fjárhæð 703 millj. kr. sem að nokkru leyti er reist á kostnaði við öflun viðbótaraflaheimilda.

     Skinney – Þinganes hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 1.359 1.849 1.679 2.465 2.709 2.480 1.827 1.510 15.878
B 97 117 84 181 140 157 120 136 1.033

     Vinnslustöðin hf.
2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 Samtals
A 1.302 1.769 1.307 1.651 2.609 2.344 2.264 1.784 15.031
B 116 107 84 154 86 149 124 162 982

     5.      Hvaða forsendur liggja fyrir útreikningi bótafjárhæðar hverrar útgerðar fyrir sig?
    Meðal framlagðra gagna með öllum stefnum er samantekt endurskoðunarskrifstofu þar sem reiknuð er svonefnd jaðarframlegð í rekstri hlutaðeigandi félags á hverju ári á hvert kílógramm makrílafla (fiskveiðar og í einhverjum tilvikum vinnsla í landi og jafnvel söluskrifstofur). Þessar samantektir eru lagðar til grundvallar í stefnu.