Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1232  —  676. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um
aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að landið allt sé í blómlegri byggð og að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Í byggðaáætlun 2018–2024 er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Markmið stjórnvalda eru að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
    Markmið stjórnvalda er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Enn fremur verður komið á laggirnar fjarvinnslustöðvum á nánar tilgreindum svæðum á landsbyggðinni.
    Í þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033, sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2020, eru settar fram aðgerðir um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni sem hefur það markmið að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfnum tækifærum sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar.
    Í samræmi við stefnu stjórnvalda ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að greina starfsemi undirstofnana á hans forræði með það í huga að leita leiða til að efla starfsemi þeirra á landsbyggðinni á næstu fimm árum. Þær stofnanir sem heyra undir ráðherra eru þrjár talsins: Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun. Auk þess heyra málefni Matís ohf. undir málefnasvið hans og var einnig litið til þeirrar starfsemi við vinnslu greiningarinnar. Aðalskrifstofa Matvælastofnunar er staðsett á Selfossi og Fiskistofa á Akureyri en stofnanirnar eru með starfsemi víða um land.
    Greiningin lá fyrir í nóvember 2019 um eflingu starfsemi stofnana sjávarútvegs og landbúnaðar á landsbyggðinni. Þar eru störf þeirra stofnana sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greind út frá staðsetningu og fjölda starfsmanna. Einnig er yfirlit yfir þróun starfsstöðva stofnana. Í skýrslunni koma fram töluleg markmið um heildarfjölgun starfa á landsbyggðinni á tímabilinu 2019–2025 (sjá töflu).

Tafla. Samtals störf Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Fiskistofu á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum 2019–2025. Úr skýrslunni Efling starfsemi stofnana sjávarútvegs og landbúnaðar.

Svæði 2019 2021 2023 2025
Austurland 6 10 12 14
Norðurland 41 47 52 57
Vestfirðir 10 17 20 22

    Settar hafa verið fram aðgerðir til að ná þessum markmiðum sem felast meðal annars í auknum sveigjanleika starfsmanna varðandi starfsstöðvar og að störf sem ekki eru staðbundin verði að jafnaði auglýst með valmöguleika um staðsetningu á fleiri en einni starfsstöð. Í árslok 2024 er áætlað að 10% auglýstra starfa verði án staðsetningar til samræmis við stefnu stjórnvalda.
    Í ráðuneytinu verður horft til þess við forgangsröðun fjármuna og mótun áherslna í fjárveitingabréfum að stutt sé við aðgerðir samkvæmt þessari áætlun. Til að framfylgja henni hefur verið settur á fót stýrihópur ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana. Í framhaldi af því verður árlega metinn árangur af framkvæmd þessarar áætlunar og upplýsingar birtar í ársskýrslu ráðherra, fyrst árið 2021.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Síðan byggðaáætlun var samþykkt 2018 hefur verið ráðið í samtals 26 störf utan höfuðborgarsvæðisins hjá stofnunum sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matís ohf. Þar af voru sextán störf hjá Matvælastofnun, sex hjá Fiskistofu, eitt hjá Hafrannsóknastofnun og þrjú störf hjá Matís. Auk þess réð Matvælastofnun í 22 tímabundin störf í u.þ.b. tvo mánuði í eftirlit með sauðfjárslátrun.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er gerð grein fyrir þeirri vinnu sem nú þegar hefur verið framkvæmd, þ.e. greiningu starfa og starfsstöðva og aðgerðaáætlun sem miðar að því að ná fram tölulegum markmiðum um aukningu starfa á landsbyggðinni á umræddu tímabili þannig að markmiðum sem fram koma í stefnu stjórnvalda verði náð.