Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1234  —  719. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um framboð og kjör forseta Íslands og lögum um kosningar til Alþingis (rafræn söfnun meðmæla, heiti sveitarfélaga).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


I. KAFLI
Breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að safna megi meðmælum með forsetaefni rafrænt. Ráðherra skal m.a. mæla fyrir um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upplýsinga. Við rafræna skráningu meðmæla er Þjóðskrá Íslands heimilt að kanna hvort meðmælandi sé kosningarbær.
    Þjóðskrá Íslands er heimilt að beiðni yfirkjörstjórnar að samkeyra meðmælendalista forsetaefnis við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2021.

II. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Akureyrarkaupstaður“ í 2. tölul. kemur: Akureyrarbær.
     b.      Orðið „Breiðdalshreppur“ í 2. tölul. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður“ í 3. tölul. kemur: Suðurnesjabær.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með nýju ákvæði til bráðabirgða í lögum um framboð og kjör forseta Íslands er í fyrsta lagi lagt til að forsetaefnum verði heimilt að safna meðmælum með framboði sínu með rafrænum hætti. Meðmælum hefur hingað til verið safnað með undirskriftum meðmælenda á pappír. Ljóst er að í því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu vegna COVID-19 og samkomubanns sem lýst hefur verið yfir verður erfitt um vik að safna meðmælendum með framboðum á hefðbundinn hátt. Ekki er í lögum um framboð og kjör forseta Íslands kveðið sérstaklega á um það form sem nota ber við söfnun meðmæla og sá kafli laga um kosningar til Alþingis sem fjallar um meðmælendur á ekki skilyrðislaust við, sbr. ákvörðun Hæstaréttar Íslands frá 20. júlí 2016. Til að bregðast við þessu er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um heimild fyrir ráðherra til að ákveða með reglugerð að safna megi meðmælum rafrænt sem og að við slíka meðmælasöfnun megi leita upplýsinga um hvort meðmælandi sé kosningarbær. Í reglugerðinni skuli ráðherra mæla fyrir um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upplýsinga. Þá skal jafnframt mælt fyrir um tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda. Með því er átt við hvaða sannvottunaraðferð meðmælendur skulu nota til að skrá meðmæli rafrænt. Markmið þessa ákvæðis er að tryggja að réttur einstaklinga til að mæla með einstaklingi í framboð skerðist ekki í því ástandi sem nú ríkir. Sú athöfn að mæla með einstaklingi í framboð til forseta Íslands er hluti af réttindum einstaklinga til lýðræðislegrar þátttöku sem þarf að vera eins auðveld og hægt er. Heimild til rafrænnar söfnunar meðmæla snýst annars vegar um tæknilega útfærslu til að tryggja aukinn aðgang almennings að meðmælalistum, en jafnframt eru skilyrði hert varðandi auðkenningu – sem engin er í núverandi kerfi. Mikilvægt er að tryggja jafnvægi á milli þessara beggja þátta svo að ekki sé gengið á rétt almennings til lýðræðislegrar þátttöku. Til að tryggja fullnægjandi öryggi við skráninguna skal nota örugga rafræna auðkenningu, t.d. með styrktum Íslykli.
    Þá er í öðru lagi lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að samkeyra meðmælendalista við þjóðskrá að beiðni yfirkjörstjórnar. Tilgangur samkeyrslu meðmælendalista framboðsaðila við þjóðskrá er að tryggja að viðkomandi einstaklingur sé til sem og að hann sé kosningarbær með tilliti til aldurs, ríkisfangs og landsfjórðungs. Um er að ræða sömu heimild og Þjóðskrá Íslands hefur samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna, sbr. 9. gr. laga nr. 70/2018, enda um sams konar vinnslu meðmælendalista að ræða og við aðrar almannakosningar.
    Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru og að heildarendurskoðun kosningalaga stendur nú yfir er rétt að heimild þessi sé til bráðabirgða og falli úr gildi 1. janúar 2021.
    Breytingar á lögum um kosningar til Alþingis eru lagðar til vegna breytinga á heiti sveitarfélaga. Þær eru nauðsynlegar þar sem framkvæmd forsetakosninga fer eftir lögum um kosningar til Alþingis þar sem lögum um framboð og kjör forseta Íslands sleppir. Gerð kjörskráa byggist á lögum um kosningar til Alþingis og tryggja þarf að í þeim séu heiti sveitarfélaga rétt. Stjórnsýsluheiti Akureyrarkaupstaðar var breytt í Akureyrarbæ, sbr. auglýsingu nr. 750/2019. Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag undir heitinu Fjarðabyggð, sbr. auglýsingu nr. 363/2018. Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðust í eitt sveitarfélag undir heitinu Suðurnesjabær, sbr. auglýsingu nr. 314/2018 og samþykkt nr. 1272/2018.