Ferill 720. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1238  —  720. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998,
með síðari breytingum (EES-reglur, plastvörur).


Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði laga þessara um plastvörur ná til starfsemi sem felur í sér:
     a.      að vörur úr plasti eru settar á markað, og
     b.      sölu eða aðra afhendingu á vörum úr plasti í atvinnuskyni.

2. gr.

    Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna:
     a.      Plast er efni sem samanstendur af fjölliðu, eins og hún er skilgreind í reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum kann að hafa verið bætt við og getur nýst sem aðalbyggingarefni fullunninnar vöru, þ.m.t. plast sem getur brotnað niður með eðlisfræðilegu og lífrænu niðurbroti, en undanskildar eru náttúrulegar fjölliður sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.
     b.      Einnota plastvara er vara sem gerð er úr plasti að öllu leyti eða að hluta til og er ekki hugsuð, hönnuð eða sett á markað til að fara á vistferli sínum í gegnum margar ferðir eða hringrásir þar sem henni er skilað aftur til framleiðanda til enduráfyllingar eða endurnotkunar í sama tilgangi og henni var ætlað upphaflega.
     c.      Plast sem er niðurbrjótanlegt með oxun er efni úr plasti sem inniheldur íblöndunarefni sem leiða til þess með oxun að plastefnið sundrast í öragnir eða úr verður efnafræðilegt niðurbrot.
     d.      Setja á markað er þegar vara er í fyrsta sinn afhent hér á landi í atvinnuskyni til dreifingar, neyslu eða notkunar, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      7. tölul. orðast svo: plastvörur, m.a. um merkingar einnota plastvara, gerð og samsetningu einnota drykkjaríláta og töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast.
     b.      Í stað orðanna „um merkingu og útreikning á notkun þeirra“ í 10. tölul. kemur: um merkingu burðarpoka, útreikning á notkun þeirra og töluleg markmið um notkun burðarpoka úr plasti.

4. gr.

    Við 37. gr. d laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Einnota plastvörur sem settar eru á markað og nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr., skulu vera áberandi, auðlæsilega og óafmáanlega merktar til upplýsingar fyrir neytendur. Á tóbaksvörum skal merking koma til viðbótar áskildri merkingu samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.

5. gr.

    Við X. kafla A laganna bætast þrjár nýjar greinar, 37. gr. e – 37. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (37. gr. e.)

Bann við að setja tilteknar plastvörur á markað.

    Óheimilt er að setja á markað hverja þá vöru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Þá er óheimilt að setja á markað eftirfarandi einnota plastvörur:
     a.      baðmullarpinna, nema þeir falli undir lög um lækningatæki,
     b.      hnífapör (gaffla, hnífa, skeiðar og matprjóna),
     c.      diska,
     d.      sogrör, nema þau falli undir lög um lækningatæki,
     e.      hræripinna fyrir drykkjarvörur,
     f.      prik sem ætluð eru til að festa við blöðrur og sem halda þeim uppi, nema blöðrur séu til notkunar í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki ætlaðar til dreifingar til neytenda, þ.m.t. búnað á slík prik,
     g.      matarílát úr frauðplasti, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á staðnum, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar, þ.m.t. matarílát sem eru notuð undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum,
     h.      drykkjarílát úr frauðplasti, þ.m.t. tappa þeirra og lok, og
     i.      bolla og glös fyrir drykkjarvörur úr frauðplasti, þ.m.t. lok þeirra.

    b. (37. gr. f.)

Afhending tiltekinna einnota plastvara.

    Óheimilt er að afhenda eftirfarandi einnota plastvörur án endurgjalds á sölustöðum:
     a.      bolla og glös fyrir drykkjarvörur, þ.m.t. lok þeirra, og
     b.      matarílát, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á staðnum, annaðhvort á sölustað eða annars staðar, sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar, þ.m.t. matarílát sem notuð eru undir skyndibita eða aðra máltíð sem er tilbúin til neyslu á staðnum en að undanskildum umbúðum sem ætlaðar eru til að vefja utan um matvæli.
    Gjald skal vera sýnilegt á kassakvittun.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um frekari ráðstafanir til að draga úr notkun einnota plastvara, sbr. 1. mgr., svo sem um töluleg markmið til að draga úr notkun þeirra og frekari skyldur í tengslum við sölu eða afhendingu einnota plastvara, t.d. ráðstafanir til að styðja við notkun fjölnota valkosta í stað einnota plastvara.

    c. (37. gr. g.)

Gerð og samsetning einnota drykkjaríláta.

    Einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti sem nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr., er einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir.
    Einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem settar eru á markað skulu að lágmarkshluta gerðar úr endurunnu plasti eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð, sbr. 5. gr.

6. gr.

    Fyrirsögn X. kafla A laganna verður: Burðarpokar og plastvörur.

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 51. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Til framfylgdar ákvæðum laga þessara um plastvörur skal Umhverfisstofnun meðal annars:
     1.      hafa eftirlit með markaðssetningu, afhendingu, merkingum og gerð og samsetningu plastvara, sbr. 37. gr. d–g , með samræmdum hætti á landinu öllu, og
     2.      útbúa ár hvert eftirlitsáætlun um eftirlit með plastvörum, sbr. 1. tölul., sem gildir fyrir landið allt þar sem gætt er sérstaklega að hagkvæmni í eftirliti og komið í veg fyrir tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt.

8. gr.

    Á eftir 63. gr. laganna kemur ný grein, 63. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stöðvun markaðssetningar á vöru.

    Umhverfisstofnun er heimilt að stöðva markaðssetningu plastvöru sem uppfyllir ekki skilyrði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Í þessu felst meðal annars að Umhverfisstofnun getur tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tilteknar plastvörur varanlega og lagt hald á slíkar vörur. Enn fremur er heimilt að krefjast þess að birgir fargi viðkomandi plastvöru með öruggum hætti eða afturkalli vöruna eða geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum.

9. gr.

    Við 1. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: plastvörur, sbr. 2. mgr. 37. gr. d, 37. gr. e, 1. og 2. mgr. 37. gr. f og 37. gr. g.

10. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

11. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 3. júlí 2021. Þó skal 1. mgr. c-liðar 5. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 3. júlí 2024.

12. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum:
     a.      Við lokamálslið 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: eftir atvikum, þ.m.t. ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lúta að plastvörum.
     b.      Við 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna bætist: og, eftir atvikum, ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lúta að plastvörum.
     c.      Við 1. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstaklega skal huga að upplýsingagjöf og fræðslu um plastvörur, sbr. ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er lúta að plastvörum, svo sem um möguleika neytenda á að nota fjölnota vörur í stað einnota, um söfnunarkerfi fyrir plastvörur, um áhrif þess á umhverfið að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar plastvara eftir notkun og um áhrif þess að losa plastúrgang í fráveitu.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Með innleiðingunni er stefnt að því að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks, og vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara. Ráðstöfunum sem beitt er til að ná þeim árangri sem að er stefnt eru t.d. bann við að setja á markað tilteknar plastvörur, ákvæði um sérstaka merkingu á tilteknum einnota plastvörum til upplýsingar fyrir neytendur, ákvæði um að óheimilt sé að afhenda tilteknar einnota plastvörur án endurgjalds á sölustöðum, kröfur sem varða gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta og átak í fræðslu og upplýsingagjöf um plastvörur. Á markaði fást staðgönguvörur sem eru margnota og/eða innihalda ekki plast og nota má í stað allra plastvara sem frumvarpið tekur til.
    Efni frumvarpsins er í samræmi við sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis þar sem kemur meðal annars fram að ráðist verði í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Þá er efni frumvarpsins í samræmi við stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsforvörnum, Saman gegn sóun, sem og bæði tillögur sem samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skilaði á síðasta ári til umhverfis- og auðlindaráðherra og stefnu Norðurlandanna um að vera leiðandi við að draga úr umhverfisáhrifum vegna plasts, sbr. yfirlýsingu sem umhverfisráðherrar Norðurlanda samþykktu hér á landi 10. apríl 2019.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar er innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 12. júní 2019, telst EES-tæk og ber að innleiða hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins. Tilskipunin öðlaðist gildi í Evrópusambandinu 2. júlí 2019 en kemur að meginstefnu til framkvæmdar 3. júlí 2021. Hluti hennar kemur þó ekki til framkvæmdar fyrr en árin 2023 og 2024. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en unnið er að undirbúningi ákvörðunar þar um á vettvangi EFTA-ríkja. Gert er ráð fyrir að sú ákvörðun muni liggja fyrir eigi síðar en sumarið 2020. Þótt upptöku í EES-samninginn sé ekki lokið þykir samt sem áður mikilvægt að hefja þegar innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Fyrst og fremst er það til að gefa atvinnulífi og almenningi svigrúm til að aðlagast nýjum reglum áður en þær taka gildi. Að flýta innleiðingunni er í samræmi við tillögu af samráðsvettvangi um aðgerðaáætlun í plastmálefnum, sem áður hefur verið vikið að. Á samráðsvettvangnum áttu sæti fulltrúar frá atvinnulífi, félagasamtökum, sveitarfélögum, Alþingi, stofnunum og ráðuneytum. Var þar meðal annars lagt til að tilskipunin yrði innleidd sem fyrst hér á landi eftir samþykkt hennar af hálfu Evrópusambandsins.
    Tilskipun (ESB) 2019/904 felur í sér auknar kvaðir og breytingar varðandi plastvörur sem nauðsynlegt er að innleiða með lagasetningu, m.a. bann við að setja á markað tilteknar vörur. Gert er ráð fyrir að í kjölfar lagasetningarinnar fari frekari innleiðing fram með setningu reglugerðar á grundvelli laganna og breytingum á viðeigandi reglugerðum. Í frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði að meginstefnu innleidd með breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er gert á grundvelli þess að fyrir eru í þeim lögum ákvæði um burðarpoka, sem ákvæði frumvarpsins eru talin eiga samleið með. Með því að fara þessa leið er stuðlað að einföldu og gegnsæju regluverki og nýtingu þess vettvangs sem þegar er til staðar og felst í gildandi lögum. Ákvæði frumvarpsins falla vel að markmiðum laganna, svo sem hvað varðar að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði, vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í vatn og að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Í þeim tilvikum þegar það á betur við er í frumvarpinu lagt til að ákvæði tilskipunarinnar verði innleidd með breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Tilskipun (ESB) 2019/904.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið er ný af nálinni og er ætlað að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum tiltekinna plastvara og áhrifum þeirra á heilsu fólks. Ákvæðum tilskipunarinnar er fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er 80–85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%. Tilskipuninni er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og fjölnota vara fremur en einnota vara.
    Tilskipunin tekur til einnota vörutegunda úr plasti sem taldar eru upp í viðaukum við hana. Vörutegundir eru um 20 talsins, svo sem matarílát, bollar, glös og önnur drykkjarílát, hnífapör, diskar, sogrör, baðmullarpinnar, blautþurrkur, tíðavörur og tóbaksvörur með síum. Tilskipunin tekur jafnframt til allra vörutegunda sem framleiddar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun og til veiðarfæra sem innihalda plast. Til fyllingar þeirri upptalningu á vörutegundum sem er að finna í viðaukum ber framkvæmdastjórn ESB eigi síðar en 3. júlí 2020, í samráði við aðildarríkin, að birta viðmiðunarreglur um einnota plastvörur, þ.m.t. dæmi um hvað skuli teljast vera einnota plastvara að því er varðar tilskipunina.
    Þeim ráðstöfunum sem mælt er fyrir um í tilskipuninni og ætlað er að draga úr umhverfisáhrifum plastvara má skipta í sjö hluta, en hver þeirra tekur til tiltekinna plastvara eftir því sem nánar er kveðið á um í tilskipuninni:
     1.      Ráðstafanir til að draga úr notkun einnota plastvara.
     2.      Bann við að setja plastvörur á markað.
     3.      Kröfur til gerðar og samsetningar einnota plastvara.
     4.      Kröfur um sérstaka merkingu á einnota plastvörum.
     5.      Kröfur um framleiðendaábyrgð á plastvörum.
     6.      Kröfur um sérstaka söfnun til endurvinnslu á einnota plastvörum eftir notkun.
     7.      Ráðstafanir til vitundarvakningar neytenda um plastvörur.
    Hér á eftir verða raktar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu til innleiðingar á tilskipuninni. Þó eru í tilskipuninni ákvæði sem ekki eru hluti af þeirri innleiðingu sem felst í frumvarpinu. Þar ber helst að nefna ákvæði er snúa að því að aðildarríki tryggi ábyrgð framleiðenda á tilteknum plastvörum sem taldar eru upp í tilskipuninni. Má þar nefna veiðarfæri sem innihalda plast, tiltekin matarílát og umbúðir utan um matvæli, drykkjarílát, burðarpoka, blautþurrkur, blöðrur og tóbaksvörur með síum. Framleiðendaábyrgð felur í sér að framleiðendur skuli standa straum meðal annars af kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun vara sem þeir framleiða, þegar þeim hefur verið hent, kostnaði við að hreinsa upp rusl sem og kostnaði við gagnasöfnun og skýrslugjöf. Þessi ákvæði tilskipunarinnar taka ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi í byrjun árs 2023. Innleiðing þeirra í íslenskan rétt krefst frekari undirbúnings af hálfu stjórnvalda, svo sem varðandi útfærslu og hlutverk þeirra aðila sem að framkvæmdinni munu koma, og því er innleiðing umræddra ákvæða ekki hluti af þessu frumvarpi. Undirbúningur fyrir innleiðingu þeirra er hins vegar hafinn.
    Ákvæði tilskipunarinnar um töluleg markmið fyrir sérstaka söfnun á einnota plastflöskum fyrir drykkjarvörur er talið nægjanlegt að innleiða með breytingum á reglugerð. Lagastoð er talin þegar til staðar í lögum um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt tilskipuninni ber framkvæmdastjórn ESB að samþykkja framkvæmdargerð um reikniaðferðir hvað þessi markmið varðar fyrir 3. júlí 2020.
    Ekki er lagt til að með frumvarpinu verði innleidd ákvæði tilskipunarinnar sem snúa að upplýsinga- og skýrslugjöf aðildarríkja til framkvæmdastjórnar ESB. Þessi ákvæði eru fjölþætt og kveða meðal annars á um árlega skýrslugjöf um magn tiltekinna plastvara sem settar eru á markað í viðkomandi ríki og um magn tiltekinna plastvara sem safnað er til endurvinnslu. Vinna er hafin við að meta hvaða ráðstafanir þurfi að gera varðandi gagnaöflun til að íslenska ríkið geti uppfyllt þessi ákvæði með skýrslugjöf til Eftirlitsstofnunar EFTA. Í samræmi við venju er ekki talið nauðsynlegt að innleiða þessi ákvæði sérstaklega í íslenskar réttarheimildir.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efni frumvarps þessa er tilkomið vegna innleiðingar á tilskipun (ESB) 2019/904 og felur í sér breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs.
    Meginefni frumvarpsins felst í breytingum á X. kafla A laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Í fyrsta lagi er lagt til bann við að setja á markað tilteknar einnota plastvörur og vörur úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Í öðru lagi er lagt til að óheimilt verði að afhenda einnota matarílát og bolla úr plasti án endurgjalds, og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Ákvæðin eru sambærileg gildandi lagaákvæðum um afhendingu burðarpoka. Í þriðja lagi eru lagðar til kröfur um gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta. Annars vegar er um að ræða kröfu um að einnota drykkjarílát sem eru með tappa eða lok úr plasti verði einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Hins vegar er um að ræða að tilteknar einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem settar eru á markað skuli að ákveðnum lágmarkshluta gerðar úr endurunnu plasti. Í fjórða lagi er lagt til að komið verði á reglubundnu, opinberu eftirliti til þess að tryggja að farið sé eftir lagaákvæðum um plastvörur. Lagt er til að framkvæmd eftirlitsins verði í höndum Umhverfisstofnunar. Meginmarkmið eftirlitsins verður að tryggja framkvæmd laganna og jafnræði aðila á markaði gagnvart lögunum. Lagt er til að Umhverfisstofnun verði heimilt að stöðva markaðssetningu vöru þar til bætt hefur verið úr ágöllum og að stjórnvaldinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn lagaákvæðum um plastvörur. Fyrirmynd að sambærilegum ákvæðum er að finna í efnalögum. Í fimmta lagi er lagt til að gildissviði laganna verði breytt í þeim tilgangi að lögin taki til þeirrar atvinnustarfsemi þar sem afhending plastvara fer jafnan fram og efnisákvæði frumvarpsins beinast að. Að lokum er lagt til að sett verði stoð í lögin fyrir reglugerðarákvæði um plastvörur, m.a. um merkingar einnota plastvara, gerð og samsetningu einnota drykkjaríláta og töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast, til þess að ljúka við innleiðingu tilskipunarinnar.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Lagt er til að í stefnu ráðherra um úrgangsforvarnir og í svæðisáætlunum sveitarstjórna um meðhöndlun úrgangs, að því er varðar umfjöllun þeirra um úrgangsforvarnir, verði fjallað að því marki sem við á um ráðstafanir sem lúta að plastvörum og kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er lagt til að bætt verði við fyrirmælum um að beina skuli upplýsingagjöf og fræðslu sem ráðist er í á grundvelli laganna sérstaklega að plastvörum, með vísan til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur ekki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Varðandi alþjóðlegar skuldbindingar þá er frumvarpið lagt fram til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru sett fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda 28. október 2019 og var umsagnarfrestur til 12. nóvember sama ár, sbr. mál nr. 269/2019. Tvær umsagnir bárust og í þeim fólust gagnlegar ábendingar sem hafðar voru til hliðsjónar við vinnslu frumvarpsins og við endanlegt mat á áhrifum lagasetningarinnar. Við vinnslu frumvarpsins var jafnframt haft samráð við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð og Endurvinnsluna hf.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgáttinni 20. desember 2019 og veittur frestur til 16. janúar 2020 til að skila umsögnum um frumvarpið, sbr. mál nr. 324/2019. Alls bárust sex umsagnir um frumvarpið, tvær frá einstaklingum ásamt umsögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Endurvinnslunni, Sorpu og sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og SVÞ – samtaka verslunar og þjónustu. Í umsögnunum er meðal annars gagnrýnt að tilskipunin sé innleidd hér á landi áður en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Þá er gagnrýnt að tilskipunin verði innleidd í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og bent á að það færi betur á að setja sérlög um plastvörur. Þá er bent á að frumvarpið gildi einungis um tilteknar plastvörur og hvatt til þess að láta frumvarpið gilda um aðrar sambærilegar vörur úr öðrum efnum. Að lokum er talið mikilvægt að ákvæði tilskipunarinnar um framleiðendaábyrgð með veiðarfæri verði hluti af frumvarpinu.
    Framkomnar umsagnir gefa ekki tilefni til þess að breyta frumvarpinu áður en það yrði lagt fram á Alþingi. Þó svo að upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn sé ekki lokið liggur ljóst fyrir að tilskipunin verður innleidd hér á landi á grundvelli skuldbindinga Íslands vegna EES-samningsins. Mikilvægt er að hefja þegar innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi, fyrst og fremst til að gefa atvinnulífi og almenningi svigrúm til að aðlagast nýjum reglum áður en þær taka gildi. Tilskipunin verður innleidd í lög um hollustuhætti og mengunarvarnir meðal annars vegna þess að ákvæði tilskipunarinnar eiga samleið með lagaákvæðum um burðarpoka úr plasti. Þá falla ákvæði tilskipunarinnar vel að markmiðum laganna. Almennt má vel taka undir að æskilegt væri að ákvæði frumvarpsins næði til sambærilega vara úr öðrum efnum. Mikilvægt er hins vegar að fylgja ákvæðum tilskipunarinnar að þessu leyti til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið þurfi að fara í tæknilegt tilkynningarferli til framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins þar sem það myndi tefja framlagningu frumvarpsins. Innleiðing á ákvæðum tilskipunarinnar um framleiðendaábyrgð með veiðarfæri þarf að útfæra nánar í samráði við hagsmunaaðila og af þeim sökum er verða þau ákvæði ekki hluti af frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Eitt markmið lagasetningarinnar er að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum tiltekinna plastvara, áhrifum þeirra á heilsu fólks og stuðla að sjálfbærri þróun, m.a. með því að draga úr notkun einnota hluta. Því má búast við að lagasetningin leiði til samdráttar á streymi plasts út í umhverfið og dragi úr líkum á að plast komist inn í fæðukeðju mannsins, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á frárennsli, notkun auðlinda, sjónræn áhrif og á myndun úrgangs. Samfélagslegur ávinningur verður ótvíræður með bættu umhverfi og minni plastmengun. Almenningur mun að líkindum verða var við að framboð plastvara á markaði breytist við gildistöku laganna og að einnota plastvörur sem óheimilt verður að afhenda án endurgjalds muni hækka í verði. Í tilfelli þessara plastvara eru fáanlegar á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og lögin munu ekki taka til. Aðrar einnota plastvörur gætu hækkað lítillega í verði en telja verður ólíklegt að það muni hafa veruleg áhrif á almenning.
    Helstu haghafar úr atvinnulífi sem lagasetningin hefði áhrif á eru að líkindum veitingamenn, drykkjarvöruframleiðendur og framleiðendur, innflytjendur og seljendur þeirra einnota plastvara sem lögin tækju til. Búast má við að eftirspurn eftir einnota plastvörum dragist saman en á móti gæti eftirspurn aukist eftir staðgönguvörum, svo sem margnota vörum, og því gæti lagasetningin leitt til nýrra tækifæra í viðskiptum eða til nýsköpunar í framleiðslu á vörum sem komið geta í stað þeirra plastvara sem lagasetningin tekur til. Frumvarpið kveður jafnframt á um eftirlit með plastvörum á markaði. Áhrif þess á atvinnulífið verða aðallega á framleiðendur plastvara sem eftirlitið mun taka til, á veitingarekstur þar sem afhent eru matvæli og drykkir í einnota plastumbúðum eða boðið upp á notkun einnota áhalda úr plasti og á framleiðendur gosdrykkja, átappaðs vatns og ávaxta- og grænmetissafa, auk innflytjenda, heildsala, verslana og annarra söluaðila sem versla með þær einnota plastvörur sem eftirlitið mun taka til. Má í því sambandi nefna baðmullarpinna, hnífapör og matprjóna, diska, sogrör, prik til að festa við blöðrur, matar- og drykkjarílát úr frauðplasti, tíðavörur, blautþurrkur, tóbaksvörur og vörur úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Samkvæmt frumvarpinu er gerð krafa um hagkvæmni í eftirliti og að komist verði hjá tvíverknaði og skörun eftir því sem frekast er unnt. Telja má líklegt að beitt verði stikkprufueftirliti á grundvelli eftirlitsáætlunar. Gert er ráð fyrir að þörf fyrir eftirlitið muni dragast saman þegar frá líður frá gildistöku laganna. Sérstök greinargerð um eftirlitið hefur verið gerð samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur.
    Frumvarpið leggur ekki sérstakar skyldur á hendur sveitarstjórnum, nema að því er varðar umfjöllun um ráðstafanir er lúta að plastvörum í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs. Um er að ræða minniháttar breytingu sem er ólíkleg til að hafa í för með sér áhrif á fjárhag sveitarfélaga eða önnur veruleg áhrif.
    Búast má við að lagasetningunni fylgi aukin verkefni Umhverfisstofnunar vegna eftirlits með plastvörum á markaði. Gert er ráð fyrir að aukin fjárframlög til stofnunarinnar muni mæta þeim kostnaðarauka við rekstur sem af þessum verkefnum hlýst.
    Líkur eru taldar á að lagasetningin hafi óveruleg áhrif á stöðu kynjanna. Lagasetningunni er ekki beint sérstaklega að öðru kyninu umfram hinu og má ætla að þær plastvörur sem lagasetningin tekur til séu að meginstefnu notaðar til jafns af konum og körlum. Ekki er mögulegt að fullyrða að þetta hafi bein áhrif á stöðu kynjanna og ætla má að áhrifin geti eftir atvikum jafnast út á milli kynjanna ef horft er til allra þeirra plastvara sem lagasetningin tekur til. Það er einungis ein vörutegund sem lagasetningin tekur til og gera má ráð fyrir að yfirgnæfandi hluti kaupenda sé af öðru kyninu. Það eru tíðavörur, þ.e. tíðabindi, tíðatappar og stjakar fyrir tíðatappa sem innihalda plast og eru einnota. Ákvæði lagafrumvarpsins sem snerta þessar vörur kveða á um að þær, að því gefnu að þær teljist til einnota plastvara samkvæmt frumvarpinu, skuli bera áberandi, auðlæsilega og óafmáanlega merkingu á umbúðum, eða á vörunni sjálfri, til upplýsingar fyrir neytendur. Samkvæmt frumvarpinu verður nánar kveðið á um merkinguna í reglugerð sem sett verður og mun hún fylgja samræmdri forskrift sem framkvæmdastjórn ESB ber að setja reglur um. Þessi forskrift liggur ekki fyrir að svo stöddu en fyrir liggur að merkingunni er ætlað að upplýsa neytandann um að viðkomandi vara innihaldi plast, hver sé rétt meðhöndlun vörunnar að notkun lokinni og að henni fylgi neikvæð áhrif á umhverfið fái hún ekki fullnægjandi meðhöndlun.
    Þótt forskriftin liggi ekki fyrir verður að teljast ólíklegt að þessi skylda til merkingar geti orðið til þess að viðkomandi vörur hækki verulega í verði eða að framboð af þeim dragist saman svo einhverju nemi. Í því sambandi er bent á að sömu reglur munu á sama tíma taka gildi innan alls EES. Því er ekki um að ræða reglur sem eingöngu taka til íslensks markaðar með þessar vörur heldur þurfa framleiðendur að uppfylla þær vilji þeir setja vörur sínar á markað innan EES. Dæmi um samevrópskar merkingar sem gætu talist sambærilegar og þekkjast í dag eru næringarlýsing og upplýsingar um innihaldsefni matvæla. Þessu til viðbótar er bent á að þegar eru á markaði hér á landi sambærilegar tíðavörur sem ekki innihalda plast og þær mun ekki þurfa að merkja samkvæmt frumvarpinu. Í frumvarpinu er lagt til að haft verði markaðseftirlit með þeim plastvörum sem frumvarpið tekur til, þ.m.t. með merkingum á tíðavörum. Kostnaður við eftirlitið mun að líkindum greiðast úr ríkissjóði og því er ólíklegt að eftirlitið leiði til hækkunar á verði þessara vara.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á gildissviði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir í þeim tilgangi að lögin taki til þeirrar atvinnustarfsemi þar sem afhending plastvara fer jafnan fram og efnisákvæði frumvarpsins beinast að.
    Greinin er sett til innleiðingar á 2. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að skilgreind verði fjögur ný hugtök sem hafa lykilþýðingu fyrir ákvæði frumvarpsins um plastvörur. Í tilskipuninni eru 18 hugtök skilgreind og sum þeirra með tilvísunum í eldri EES-gerðir en í þeim tilfellum hafa hugtökin jafnan þegar verið skilgreind í íslenskum réttarheimildum. Aðrar skilgreiningar á hugtökum sem er að finna í tilskipuninni og nauðsynlegt er að innleiða verða innleiddar með reglugerð.
    Skilgreining hugtaksins plast tekur til lífbrjótanlegs plasts til jafns við það sem kalla má hefðbundið plast. Lífbrjótanlegt plast, sem stundum er nefnt lífplast, getur brotnað niður með eðlisfræðilegu, lífrænu niðurbroti þannig að það brotnar að lokum niður í koltvísýring, lífmassa og vatn. Af þessu leiðir að ákvæði frumvarpsins sem taka til plastvara taka jafnframt til vara úr lífbrjótanlegu plasti. Það er í samræmi við ákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904.
    Skilgreining hugtaksins setja á markað byggist á tveimur aðskildum hugtökum sem skilgreind eru í tilskipun (ESB) 2019/904, annars vegar setningu á markað og hins vegar að bjóða fram á markaði. Í tilskipuninni felur skilgreining fyrra hugtaksins í sér vísun til skilgreiningarinnar á því síðara. Til einföldunar er lagt til að þessum tveimur skilgreiningum verði skeytt saman.
    Greinin er sett til innleiðingar á 3. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra fái heimild til þess að ljúka við innleiðingu á tilskipun (ESB) 2019/904 með setningu reglugerðar. Lagt er til að sett verði stoð í lögin fyrir reglugerðarákvæði um plastvörur, m.a. um merkingar einnota plastvara, gerð og samsetningu einnota drykkjaríláta og töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast. Hvað fyrsta atriðið varðar mælir tilskipunin fyrir um að tilteknar einnota plastvörur skuli merktar sérstaklega til upplýsingar fyrir neytendur, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Hins vegar er fyrirhugað að útfæra nánar ákvæði um þessa merkingu í reglugerð. Það sama er að segja um ákvæði um kröfur til gerðar og samsetningar tiltekinna einnota plastvara, sbr. c-lið 5. gr. frumvarpsins. Varðandi tölulegt markmið fyrir söfnun veiðarfæraúrgangs þá mælir tilskipunin fyrir um að aðildarríki með hafsvæði skuli fastsetja árlegt, landsbundið lágmarkssöfnunarhlutfall vegna endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að gildandi grein um merkingar verði breytt til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um sérstaka merkingu til upplýsingar fyrir neytendur, sem tilteknar einnota plastvörur eiga að bera. Samkvæmt tilskipuninni ber framkvæmdastjórn ESB eigi síðar en 3. júlí 2020 að samþykkja framkvæmdargerð til að samræma merkinguna sem tilskipunin kveður á um. Gert er ráð fyrir að innleiðingu ákvæða um merkingu verði lokið með setningu reglugerðar og þá verði mið tekið af ákvæðum umræddrar framkvæmdargerðar.
    Lagt er til í greininni að tilteknar einnota plastvörur verði merktar til að upplýsa neytendur um að varan innihaldi plast og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur berist hún út í umhverfið og um viðeigandi meðhöndlun vörunnar eftir notkun, þ.e. hvaða meðhöndlun beri að forðast eftir notkun. Þær vörur sem greinin mun taka til eru tíðabindi, tíðatappar, stjakar fyrir tíðatappa, blautþurrkur til heimilis- og einkanota, tóbaksvörur með síum, síur til notkunar með tóbaksvörum og bollar og glös fyrir drykkjarvörur.
    Tóbaksvörur bera jafnan áskildar merkingar vegna tóbaksvarna. Sú merking sem tilskipun (ESB) 2019/904 kveður á um skal koma til viðbótar þeim merkingum.
    Greinin er sett til innleiðingar á 7. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 5. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til bann við að setja á markað tilteknar einnota plastvörur sem tilgreindar eru í ákvæðinu. Jafnframt er lagt til skilyrðislaust bann við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Um er að ræða plast sem stundum hefur verið nefnt oxó-plast og hafa vörur úr slíku plasti, svo sem burðarpokar, rutt sér til rúms á markaði síðustu ár. Eins og skilgreining hugtaksins í frumvarpinu gefur til kynna er það eðli þessa plasts að sundrast í öragnir. Í ljósi aukinnar þekkingar á útbreiðslu og skaðsemi örplasts í umhverfinu er óæskilegt að á markaði séu vörur úr plasti sem beinlínis er gert til að mynda örplast.
    Í b-lið greinarinnar eru gerðar ráðstafanir til að draga úr notkun á einnota matarílátum og bollum og glösum úr plasti. Í tilskipuninni er mælt fyrir um að aðildarríki skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr notkun þeirra. Þessar ráðstafanir eiga að skila mælanlegri, magnbundinni minnkun á notkun varanna árið 2026, samanborið við árið 2022. Nánari útfærsla þessara ráðstafana er í höndum ríkjanna sjálfra en nefnd eru sem dæmi landsbundin markmið um að draga úr notkun, gera ráðstafanir til að tryggja að endurnýjanlegar staðgönguvörur séu í boði á sölustað og beita efnahagslegum stjórntækjum til að tryggja að þessar vörur séu ekki í boði án endurgjalds á sölustað. Í frumvarpinu er lagt til að síðastnefnda leiðin verði farin hér á landi fyrst um sinn og að óheimilt verði að afhenda þessar vörur án endurgjalds. Jafnframt er lagt til að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Ákvæðin eru sambærileg gildandi lagaákvæðum um afhendingu burðarpoka. Til nánari útfærslu á ráðstöfunum til að draga úr notkun þessara vara er lagt til að ráðherra fái heimild til að setja reglugerð þar um. Samkvæmt tilskipuninni ber aðildarríkjum eigi síðar en 3. júlí 2021 að útbúa lýsingu á þeim ráðstöfunum sem þau hafa samþykkt í þessu sambandi, tilkynna framkvæmdastjórn ESB um lýsinguna og birta hana opinberlega. Á sama hátt ber íslenska ríkinu að tilkynna um ráðstafanir sínar samkvæmt þessu ákvæði til Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti verði einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að tappar og lok af ílátum endi á víðavangi. Ákvæðið tekur til allt að 3 lítra drykkjaríláta í samræmi við tilskipun (ESB) 2019/904. Það mun á hinn bóginn ekki taka til drykkjaríláta úr gleri eða málmi, sem eru með tappa eða lok úr plasti. Gert er ráð fyrir að í reglugerð sem til stendur að setja til fyllingar ákvæðinu verði útfært nánar til hvaða vörutegunda ákvæðið tekur og að tekið verði mið af þeim samhæfðu stöðlum sem evrópskum staðlastofnunum er ætlað að þróa fyrir viðkomandi vörur. Hins vegar er í greininni um að ræða innleiðingu á kröfu tilskipunarinnar um að tilteknar einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur sem settar eru á markað skuli gerðar að tilteknum lágmarkshluta úr endurunnu plasti. Samkvæmt tilskipuninni ber framkvæmdastjórn ESB að samþykkja eigi síðar en 1. janúar 2022 framkvæmdargerðir þar sem mælt er fyrir um reglur um útreikning og sannprófun varðandi þessa kröfu. Ákvæðið mun taka til flaskna sem rúma 3 lítra eða minna. Samkvæmt tilskipuninni skulu flöskur úr pólýetýlentereþalati (PET) innihalda að lágmarki 25% endurunnið plast frá árinu 2025 og frá 2030 skulu allar flöskur sem falla undir ákvæðið innihalda að lágmarki 30% endurunnið plast. Meiri hluti þeirra einnota flaskna sem nú eru notaðar undir gosdrykki og álíka drykkjarvörur er framleiddur úr PET.
    Greinin er sett til innleiðingar á 4. og 5. gr. og 1. og 5. mgr. 6. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 6. gr.

    Lögð er til breyting á fyrirsögn X. kafla A laganna.

Um 7. gr.

    Samkvæmt tilskipun (ESB) 2019/904 ber aðildarríkjum að setja reglur um viðurlög við brotum á þeim ákvæðum landslaga sem eru samþykkt á grundvelli tilskipunarinnar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að slíkum viðurlögum verði beitt. Eigi síðar en 3. júlí 2021 skulu aðildarríki tilkynna framkvæmdastjórn ESB um umræddar reglur og ráðstafanir. Til að innleiða þessi ákvæði tilskipunarinnar er í frumvarpinu lagt til að komið verði á reglubundnu, opinberu eftirliti með það fyrir augum að tryggja að farið sé eftir lagaákvæðum um plastvörur.
    Lagt er til að framkvæmd eftirlitsins verði í höndum Umhverfisstofnunar. Meginmarkmið eftirlitsins verður að tryggja framkvæmd laganna og jafnræði aðila á markaði gagnvart lögunum. Eftirlitið verður bundið við tilteknar greinar laganna og gerð verður krafa um að samræmt eftirlit verði á landinu öllu, sem byggist á þar til gerðri eftirlitsáætlun. Jafnframt er gerð krafa um hagkvæmni.
    Verði frumvarpið að lög er gert ráð fyrir að eftirlit hefjist við gildistöku og að það verði umfangsmest fyrst um sinn en geti farið minnkandi eftir því sem atvinnulíf og almenningur aðlagast lögunum. Mögulegt verður að taka mið af þeirri þróun sem verður á eftirlitsþörf við gerð eftirlitsáætlunar hvers árs en til viðbótar er gert ráð fyrir að heildarendurskoðun á eftirlitsþörfinni fari fram fimm árum eftir gildistöku laganna, sbr. ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.
    Greinin er sett til innleiðingar á 14. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 8. og 9. gr.

    Nauðsynlegt er talið að eftirliti með framkvæmd laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 7. gr., fylgi fullnægjandi úrræði til að bregðast við brotum sem uppgötvast. Í því skyni er lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að stöðva markaðssetningu vöru þar til bætt hefur verið úr ágöllum og að stjórnvaldinu verði jafnframt heimilt að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn lagaákvæðum um plastvörur. Fordæmi fyrir sambærilegum ákvæðum er að finna í efnalögum. Framkvæmd eftirlitsins verður í höndum opinbers stjórnvalds og ber að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga við framkvæmdina.
    Greinin er sett til innleiðingar á 14. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist að meginstefnu gildi 3. júlí 2021. Það er í samræmi við lögleiðingarákvæði tilskipunar (ESB) 2019/904 og gefur atvinnulífi og almenningi svigrúm frá samþykkt laganna og fram að gildistöku til að aðlagast lagaákvæðum um plastvörur. Í samræmi við tilskipunina er lagt til að ákvæði frumvarpsins um áfastan tappa eða lok á einnota drykkjarílátum taki gildi þremur árum síðar. Þegar að þeirri gildistöku kemur má gera ráð fyrir að fyrir liggi samhæfðir staðlar um þessar vörur frá evrópskum staðlastofnunum.

Um 12. gr.

    Í tilskipun (ESB) 2019/904 er kveðið á um að hvert aðildarríki skuli tryggja að ráðstafanir sem eru gerðar til að lögleiða tilskipunina og koma henni í framkvæmd séu í samræmi við áætlanir sem ríkin gera í samræmi við aðrar tilskipanir og séu órjúfanlegur hluti af þeim. Meðal annars eru sérstaklega nefndar áætlanir um meðhöndlun úrgangs og um úrgangsforvarnir. Í því skyni að innleiða þetta ákvæði er í frumvarpinu lagt til að í stefnu ráðherra um úrgangsforvarnir og í svæðisáætlunum sveitarstjórna um meðhöndlun úrgangs, að því er varðar umfjöllun þeirra um úrgangsforvarnir, verði fjallað að því marki sem við á um ráðstafanir sem lúta að plastvörum og kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Lagt er til að innleidd verði ákvæði tilskipunarinnar um ráðstafanir til að vekja neytendur til vitundar um umhverfisáhrif plasts. Tilskipunin mælir fyrir um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til að upplýsa neytendur og hvetja til ábyrgrar neysluhegðunar til að draga úr rusli frá vörum sem falla undir tilskipunina. Enn fremur eru gerðar sérstakar kröfur um fræðslu og upplýsingu varðandi tilteknar plastvörur sem taldar eru upp í tilskipuninni. Sú fræðsla skal snúa að notkun fjölnota vara, meðhöndlun þeirra að notkun lokinni, áhrifum þess á umhverfið að fleygja rusli og áhrifum af annarri óviðeigandi förgun þessara vara og hvað það þýðir ef þessar vörur eru losaðar í fráveitu. Nú þegar eru í lögum um meðhöndlun úrgangs almenn ákvæði um fræðslu fyrir almenning um úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs. Lagt er til að bætt verði við þessi ákvæði fyrirmælum um að upplýsingagjöf og fræðsla sem ráðist er í á grundvelli þeirra verði sérstaklega um plastvörur með vísan til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Greinin er sett til innleiðingar á 10. og 11. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.