Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1240  —  649. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um aðgang fanga í námi að interneti.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins og eru neðangreind svör unnin í samráði við stofnunina.

     1.      Er tryggt að fangar í námi hafi þann aðgang að interneti sem þeir þurfa til þess að sinna námi sínu?
    Í opnum fangelsum hafa allir fangar aðgang að nettengdum tölvum inni á herbergjum sínum. Hvað lokuðu fangelsin varðar þá er það ólíkt á milli fangelsa. Í fangelsinu á Hólmsheiði er boðið upp á fjarnám. Þar er tölvustofa með sex tölvum og sér námsráðgjafi um að stilla upp stundaskrá þar sem hverjum og einum fanga er úthlutað tölvutíma eftir umfangi námsins. Alla jafna er þessi tölvutími ríflegur en ef uppi eru sérstakar aðstæður hjá einstaka fanga sem krefjast rýmri tölvutíma þá er reynt að koma til móts við það. Í fangelsinu á Litla-Hrauni sér Fjölbrautaskólinn á Suðurlandi um kennslu. Nettengdar tölvur eru í skólastofu og hafa fangar sinn aðgang þar, hvort sem þeir eru í námi við FSu eða í fjarnámi við aðra skóla.

     2.      Taka reglur um tækja- og internetnotkun fanga tillit til náms þeirra?
    Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, hefur Fangelsismálastofnun sett sérstakar reglur um fyrirkomulag og notkun raftækja, síma og nettengdra tölva, nr. 1341/2016. Tilgangur þeirra er m.a. að gera föngum kleift að sinna námi sínu.

     3.      Hefur farið fram greining á því hvaða aðgang að interneti fangar þurfa til þess að sinna námi í fangelsum?
    Ekki hefur farið fram sérstök greining á því hvaða netaðgang fangar þurfi til að geta sinnt námi sínu enda getur það verið mismunandi eftir námsvali. Námsráðgjafi getur fylgst með námsframvindu fanga og ef vandamál koma upp er reynt að leysa þau eftir bestu getu.