Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1241  —  517. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um kröfur um færni ökumanna.


     1.      Hvaða kröfur um færni ökumanna eru gerðar til einstaklinga sem hyggjast taka bifreið á leigu hér á landi?
    Lög um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, gilda um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Ökutækjaleigur og starfsemi þeirra er á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í 1. mgr. 8. gr. laganna segir að óheimilt sé að leigja ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna ökutækinu sem leigja á. Leyfishafa er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði.
    Um ökuréttindi er fjallað í umferðarlögum, nr. 77/2019, og í reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011.
    Í 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga segir m.a. að enginn megi stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri hafi gefið út. Ríkislögreglustjóri getur falið sýslumönnum að annast útgáfu ökuskírteina. Þá segir í 11. mgr. sömu greinar að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði, m.a. um flokka ökuréttinda, efni og form ökuskírteinis, skilyrði til útgáfu og endurnýjunar ökuskírteinis, um heilbrigðiskröfur, kennslu, þjálfun og búsetuskilyrði.
    Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um ökuskírteini segir m.a. að enginn megi stjórna bifreið, bifhjóli eða öðru vélknúnu ökutæki sem tilgreint er í 6. gr. reglugerðarinnar nema hann hafi gilt ökuskírteini sem veitir réttindi fyrir ökuréttindaflokk, eftir atvikum einn eða fleiri. Sýslumaður annast útgáfu ökuskírteinis í umboði ríkislögreglustjóra. Í 6. gr. reglugerðar um ökuskírteini er síðan að finna ákvæði um flokka ökuréttinda og þau ökutæki sem tilteknir ökuréttindaflokkar veita ökumanni leyfi til að stjórna.
    Ákvæði um erlend ökuskírteini ökumanns sem ekki hefur búsetu hér á landi er að finna í 29. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 29. gr. segir að ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, eða í Færeyjum, veiti handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi, þ.e. léttu bifhjóli, bifhjóli og fólksbifreið, og hann hefur heimild til að stjórna í útgáfulandinu, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs. Þá mega aldursmörk ekki vera lægri en mörk skv. 6. gr. reglugerðarinnar að því er varðar bifhjól og létt bifhjól en aldurskröfur eru allt frá 15 til 24 ára eftir flokki þess ökutækis sem átt er við. Í 2. mgr. sömu greinar segir að ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem ekki er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu veiti handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar í útgáfulandinu í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu á Íslandi er fullnægt. Ökuskírteini sem gefið er út í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins veitir þó ekki rétt til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni nema umrætt ríki hafi samkvæmt samningi við Evrópusambandið innleitt ákvæði tilskipunar 2006/126/EB um ökuskírteini.
    Þá kemur fram í 4. mgr. 29. gr. að ökuskírteini sem gefið hefur verið út í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins veiti ekki heimild til að stjórna vélknúnu ökutæki nema skírteinishafi uppfylli aldursákvæði 6. gr. að því er varðar ökutækið sem ekið er.
    Af framangreindu má sjá að aðeins er heimilt að leigja þeim ökutæki sem hefur gild ökuréttindi í viðeigandi ökuréttindaflokki til að stjórna ökutæki því sem hann ætlar að taka á leigu, eða leigutaki hafi tilnefnt ökumann með gild ökuréttindi í viðeigandi ökuréttindaflokki til að stjórna ökutækinu auk þess sem aldursskilyrði reglugerðar um ökuskírteini skuli uppfyllt.

     2.      Hvernig er leitast við að tryggja að ökumenn bílaleigubifreiða fullnægi alþjóðlegum kröfum um ökufærni, t.d. samevrópskum kröfum um færni ökumanna?
    Líkt og fram kom í svari við 1. tölul. eru lög um leigu skráningarskyldra ökutækja á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
    Í 6. og 7. mgr. 29. gr. reglugerðar um ökuskírteini segir að ökuskírteini sem gefið hefur verið út utan Evrópska efnahagssvæðisins þurfi að vera með latneskum bókstöfum. Að öðrum kosti þurfi skírteininu að fylgja þýðing á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Með ökuskírteini í þessari grein er einnig, eftir því sem við á, átt við erlent alþjóðlegt ökuskírteini.
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. er skv. 1. mgr. 8. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, óheimilt að leigja ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna ökutækinu sem leigja á. Leyfishafa er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði. Samgöngustofa hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé fylgt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hefur enginn leyfishafi hingað til orðið uppvís að broti gegn 1. mgr. 8. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja.
    Eftirlit með ökuréttindum ökumanna er í höndum lögreglu sem sinnir almennu umferðareftirliti.

     3.      Telur ráðherra í ljósi séríslenskra aðstæðna, t.d. í vegakerfi og veðurfari, að rök séu fyrir því að gera auknar kröfur í þessu efni umfram það sem t.d. samevrópskar reglur um ökufærni gera ráð fyrir?
    Við útgáfu skírteina á Evrópska efnahagssvæðinu er farið eftir þeim reglum sem gilda á EES-svæðinu og eru innleiddar hér á landi. Handhafar íslenskra ökuskírteina njóta almennt sama réttar og handhafar annarra ökuskírteina sem gefin eru út í öðru EES-ríki.
    Íslenskar reglur um ökuréttindi og ökupróf byggjast að meginstefnu á samevrópskum reglum. Þar segir að með skriflegu ökuprófi til almennra ökuréttinda skuli m.a. prófa færni í að meta örugga fjarlægð milli ökutækja, hemlunarvegalengd og veggrip við mismunandi veðurskilyrði og ástand vegar. Þá skuli próf innihalda spurningar um áhættuþætti með tilliti til aksturs og skuli spurningarnar tengjast mismunandi ástandi vega, einkum því hvernig þeir breytast eftir veðráttu og tímum sólarhrings. Reglur um námskröfur vegna almennra ökuréttinda byggjast þó almennt ekki á samevrópskum reglum heldur er aðildarríkjum EES-samstarfsins eftirlátið að setja reglur um ökunámið sjálft.
    Rétt er að geta þess að á Íslandi eru gerðar ríkar kröfur til ökunema í almennu ökunámi. Þannig skulu ökunemar í almennu ökunámi til aksturs fólksbifreiða sem dæmi hljóta kennslu samkvæmt námskrá Samgöngustofu fyrir almenn ökuréttindi. Í námskránni er m.a. kveðið á um að ökunemar skuli hljóta verklega þjálfun í akstri í þéttbýli og dreifbýli og akstri við erfið skilyrði, m.a. í ökugerði þar sem nemandi kynnist að einhverju marki áhrifum náttúrulögmála á bifreiðina. Samkvæmt námskránni skulu ökunemar einnig hljóta fræðslu um ökutækið, veginn, umferðarumhverfi, orsakir umferðarslysa o.fl.

     4.      Hvaða áform hefur ráðherra um aðgerðir sem lúta að ökufærni til að auka öryggi í umferð í þéttbýli og á vegum úti?
    Ekki eru uppi sérstök áform um að gera strangari kröfur til ökunáms heldur en gert er nú. Hér á landi eru gerðar ríkar kröfur til ökunema í almennu ökunámi líkt og fram kemur í svari við 3. tölulið.
    Reglur um ökuréttindi eru endurskoðaðar þegar tilefni þykir til og koma þá sjónarmið um ökufærni til skoðunar. Sem dæmi má nefna að um áramótin tóku gildi umferðarlög, nr. 77/2019, sem kveða á um að þeir sem sviptir hafa verið ökuréttindum í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum skuli sækja sérstakt námskeið. Í framhaldi af því og að loknum sviptingartíma er þeim heimilt að taka ökupróf að nýju áður en gefa má út ökuskírteini. Þá stendur til að setja sérstakar reglur um þjálfun og námskeið þeirra sem sinna forgangsakstri. Loks ber að nefna að frá árinu 2010 hefur ökunemum í almennu ökunámi hér á landi verið gert að sækja nám í Ökuskóla 3 en áður var þeim aðeins gert að sækja nám í Ökuskóla 1 og 2. Í Ökuskóla 3 æfa nemendur m.a. akstur í ökugerði. Þótt ekki sé hægt að fullyrða að Ökuskóli 3 sé meginorsökin þá hefur slysum með meiðslum sem ökumenn á aldrinum 17–20 ára lenda í fækkað verulega frá því að kennsla í Ökuskóla 3 hófst. Áfram verður leitast við að innleiða samevrópskar reglur um ökuskírteini auk þess sem reynt verður að tryggja að ökunám hér á landi sé með því allra besta sem þekkist.